Trump snýr aftur
Morgunblaðið, laugardaginn 9. nóvember 2024.
Einfalda skýringin á einstaklega sögulegum sigri Donalds Trumps í bandarísku forsetakosningunum þriðjudaginn 5. nóvember er að hann höfðar sterkt til kjósenda. Hann hefur meiri kjörþokka en nokkur annar og nýtir strauma þjóðarsálarinnar sér í vil.
Trump sannfærir háttvirta kjósendur um að þeir þurfi ekki að skammast sín fyrir að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir, segja það sem þeim býr í brjósti með eigin orðum og á þann hátt sem þeir sjálfir ákveða. Þeir skuli ekki láta elítur stórborganna siða sig eða segja sér fyrir verkum.
Það var ekki að ástæðulausu sem Repúblikanar hentu því á loft og nýttu til hins ýtrasta að Joe Biden, fráfarandi forseti, talaði um kjósendur sem rusl. Biden ætlaði á lokastundu að leggja varaforseta sínum Kamölu Harris lið og fórst það svona illa. Það var jarðvegur fyrir að minna kjósendur Trumps á elítuhroka demókrata í þeirra garð. Fyrir kosningarnar 2016 lýsti Hillary Clinton þeim sem aumkunarverðum og hún tapaði einnig fyrir Trump. Nú hefst tími ásakana og uppgjörs meðal demókrata.
Bandaríska kosningakerfið er ekki fullkomið frekar en önnur slík kerfi. Árið 2016 sigraði Trump án þess að fá meirihluta greiddra atkvæða. Nú hlaut hann bæði þann meirihluta, meirihluta kjörmanna og í öldungadeild þingsins auk sigurvona í fulltrúadeildinni. Hann getur því unað vel við eigin völd og flokks síns.
Repúblikanaflokkurinn hefur lagað sig og frambjóðendur sína mjög að kröfum Trumps frá því í kosningabaráttunni 2016. Nú verður hann ekki oftar í kjöri til forseta og verður meira umhugað um arfleifð sína en endurkjör. Ofurstjórn hans á flokknum minnkar og þar krefst ný kynslóð svigrúms til að láta að sér kveða. Andrúmsloftið á æðstu stöðum í Washington verður annað nú en í fyrri forsetatíð Trumps.
Enginn veit hvaða áhrif sigur Trumps hefur á stríðin í Úkraínu og fyrir botni Miðjarðarhafs. Í báðum tilvikum eru vonir um friðsamlega niðurstöðu. Það er hins vegar þrautin þyngri að sættast á hana. Standi Trump að baki Úkraínumönnum annars vegar og Ísraelum hins vegar leggur hann lýðræðisöflum lið. Bregðist hann trausti þessara vinaþjóða Bandaríkjamanna stofnar hann til enn víðtækari vandræða en nú er við að glíma.
Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra í stjórn Trumps, talar í Hörpu í febrúar 2019. Nú er rætt um að hann kunni að verða ráðherra í nýrri stjórn Trumps (mynd: mbl.is/Kristinn Mgnússon).
Í ljósi tvíhliða samskipta Íslands og Bandaríkjanna þurfum við Íslendingar ekki að kvarta undan því að forsetar eða stjórnir repúblikana hafi sýnt okkur afskiptaleysi.
Repúblikaninn Richard Nixon, varaforseti Dwights D. Eisenhowers, hafði hér stutta viðdvöl í snjókomu á Þorláksmessu, 23. desember 1956. Hann hitti Ásgeir Ásgeirsson forseta Íslands á Bessastöðum.
Tveir repúblikanar á forsetastóli hafa haldið mikilvæga toppfundi í Reykjavík: Richard Nixon hitti Georges Pompidou Frakklandsforseta á Kjarvalsstöðum í maí 1973 og Ronald Reagan fundaði með Mikhaíl Gorbatsjov Sovétforseta í Höfða í október 1986.
George H.W. Bush, varaforseti Ronalds Reagans, dvaldist hér í tvo daga í júlí 1983. Hann lauk hér ferð til átta Vestur-Evrópulanda. Tilgangur fararinnar var að kynna stefnu Reagan-stjórnarinnar í utanríkis- og öryggismálum.
Í byrjun september 2019 kom Mike Pence, varaforseti Trumps, í stutta heimsókn hingað til lands og hitti meðal annars Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands í Höfða. Mike Pence var mikið í mun að vara Íslendinga við viðskiptum við Kínverja og nefndi sérstaklega Huawei-fyrirtækið. Hann fagnaði því að íslensk stjórnvöld hefðu hafnað kínversku fjárfestingaráætluninni belti og braut.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Trumps, kom hingað um miðjan febrúar 2019 og ræddi við Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og sagði í tilkynningu utanríkisráðuneytisins eftir fundinn: „Á fundi utanríkisráðherranna var ákveðið að setja á fót árlegt viðskiptasamráð á milli Íslands og Bandaríkjanna, með þátttöku opinberra aðila og einkageirans, í því augnamiði að auka frekar tvíhliða viðskipti og fjárfestingar á milli landanna.“ Ætli Trump að setja 20% toll á fisk er þarna vettvangur til andmæla.
Bæði Pompeo og Pence lögðu áherslu á mikilvægi varnarsamstarfs Íslands og Bandaríkjanna samhliða áhuga á að auka tvíhliða viðskipti milli landanna. Pence féll í ónáð hjá Trump og studdi hann ekki til endurkjörs. Pompeo er einn fárra úr fyrri stjórn sem hafa haldið trúnaði Trumps og er Pompeo nú nefndur sem hugsanlegur utanríkisráðherra.
Þegar Pompeo kom hingað var haft eftir honum á ruv.is (15. febrúar 2019): „Við sækjumst líka eftir raunverulegu samstarfi við ykkur á norðurslóðum, sem verða sífellt mikilvægari, og hlökkum til að vinna með ykkur að þeim málum. Við vitum að þegar Bandaríkin hörfa fylla Kínverjar og Rússar í skarðið, það er óhjákvæmilegt ef við erum ekki þar. Við hlökkum til að standa þétt með Íslandi í samstarfinu á norðurslóðum.“
Á rúmum fimm árum frá því að þessi orð féllu hafa áhyggjur stjórnvalda í Bandaríkjunum, annars staðar á Norðurlöndunum og innan NATO aukist af hervæðingu Rússa og Kínverja á norðurslóðum. Þá hafa bandarískir þingmenn grunsemdir um að starfsemi Kínverja á Kárhóli í Þingeyjarsveit ógni öryggi Bandaríkjanna.
Endurkjör Donalds Trumps kann að leiða til nýrrar afstöðu Bandaríkjastjórnar til stríðsátaka í heiminum og aðferða til að binda enda á þau. Koma hans í Hvíta húsið minnkar hins vegar ekki gildi norðurslóða og Norður-Atlantshafs fyrir öryggi Bandaríkjanna sjálfra. Til þessa ber að líta þegar tvíhliða samskipti Íslands og Bandaríkjanna eru metin í nýju ljósi.