9.11.2024

Trump snýr aftur

Morgunblaðið, laugardaginn 9. nóvember 2024.

Ein­falda skýr­ing­in á ein­stak­lega sögu­leg­um sigri Don­alds Trumps í banda­rísku for­seta­kosn­ing­un­um þriðju­dag­inn 5. nóv­em­ber er að hann höfðar sterkt til kjós­enda. Hann hef­ur meiri kjörþokka en nokk­ur ann­ar og nýt­ir strauma þjóðarsál­ar­inn­ar sér í vil.

Trump sann­fær­ir hátt­virta kjós­end­ur um að þeir þurfi ekki að skamm­ast sín fyr­ir að koma til dyr­anna eins og þeir eru klædd­ir, segja það sem þeim býr í brjósti með eig­in orðum og á þann hátt sem þeir sjálf­ir ákveða. Þeir skuli ekki láta elít­ur stór­borg­anna siða sig eða segja sér fyr­ir verk­um.

Það var ekki að ástæðulausu sem Re­públi­kan­ar hentu því á loft og nýttu til hins ýtr­asta að Joe Biden, frá­far­andi for­seti, talaði um kjós­end­ur sem rusl. Biden ætlaði á loka­stundu að leggja vara­for­seta sín­um Kamölu Harris lið og fórst það svona illa. Það var jarðveg­ur fyr­ir að minna kjós­end­ur Trumps á elítu­hroka demó­krata í þeirra garð. Fyr­ir kosn­ing­arn­ar 2016 lýsti Hillary Cl­int­on þeim sem aumk­un­ar­verðum og hún tapaði einnig fyr­ir Trump. Nú hefst tími ásak­ana og upp­gjörs meðal demó­krata.

Banda­ríska kosn­inga­kerfið er ekki full­komið frek­ar en önn­ur slík kerfi. Árið 2016 sigraði Trump án þess að fá meiri­hluta greiddra at­kvæða. Nú hlaut hann bæði þann meiri­hluta, meiri­hluta kjör­manna og í öld­unga­deild þings­ins auk sig­ur­vona í full­trúa­deild­inni. Hann get­ur því unað vel við eig­in völd og flokks síns.

Re­públi­kana­flokk­ur­inn hef­ur lagað sig og fram­bjóðend­ur sína mjög að kröf­um Trumps frá því í kosn­inga­bar­átt­unni 2016. Nú verður hann ekki oft­ar í kjöri til for­seta og verður meira um­hugað um arf­leifð sína en end­ur­kjör. Of­ur­stjórn hans á flokkn­um minnk­ar og þar krefst ný kyn­slóð svig­rúms til að láta að sér kveða. And­rúms­loftið á æðstu stöðum í Washingt­on verður annað nú en í fyrri for­setatíð Trumps.

Eng­inn veit hvaða áhrif sig­ur Trumps hef­ur á stríðin í Úkraínu og fyr­ir botni Miðjarðar­hafs. Í báðum til­vik­um eru von­ir um friðsam­lega niður­stöðu. Það er hins veg­ar þraut­in þyngri að sætt­ast á hana. Standi Trump að baki Úkraínu­mönn­um ann­ars veg­ar og Ísra­el­um hins veg­ar legg­ur hann lýðræðisöfl­um lið. Bregðist hann trausti þess­ara vinaþjóða Banda­ríkja­manna stofn­ar hann til enn víðtæk­ari vand­ræða en nú er við að glíma.

1114275Mike Pompeo, þáv. utanríkisráðherra í stjórn Trumps, talar í Hörpu í febrúar 2019. Nú er rætt um að hann kunni að verða ráðherra í nýrri stjórn Trumps (mynd: mbl.is/Kristinn Mgnússon).

Í ljósi tví­hliða sam­skipta Íslands og Banda­ríkj­anna þurf­um við Íslend­ing­ar ekki að kvarta und­an því að for­set­ar eða stjórn­ir re­públi­kana hafi sýnt okk­ur af­skipta­leysi.

Re­públi­kan­inn Rich­ard Nixon, vara­for­seti Dwig­hts D. Eisen­howers, hafði hér stutta viðdvöl í snjó­komu á Þor­láks­messu, 23. des­em­ber 1956. Hann hitti Ásgeir Ásgeirs­son for­seta Íslands á Bessa­stöðum.

Tveir re­públi­kan­ar á for­seta­stóli hafa haldið mik­il­væga topp­fundi í Reykja­vík: Rich­ard Nixon hitti Geor­ges Pomp­idou Frakk­lands­for­seta á Kjar­vals­stöðum í maí 1973 og Ronald Reag­an fundaði með Mik­haíl Gor­bat­sjov Sov­ét­for­seta í Höfða í októ­ber 1986.

Geor­ge H.W. Bush, vara­for­seti Ronalds Reag­ans, dvald­ist hér í tvo daga í júlí 1983. Hann lauk hér ferð til átta Vest­ur-Evr­ópu­landa. Til­gang­ur far­ar­inn­ar var að kynna stefnu Reag­an-stjórn­ar­inn­ar í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um.

Í byrj­un sept­em­ber 2019 kom Mike Pence, vara­for­seti Trumps, í stutta heim­sókn hingað til lands og hitti meðal ann­ars Guðna Th. Jó­hann­es­son for­seta Íslands í Höfða. Mike Pence var mikið í mun að vara Íslend­inga við viðskipt­um við Kín­verja og nefndi sér­stak­lega Huawei-fyr­ir­tækið. Hann fagnaði því að ís­lensk stjórn­völd hefðu hafnað kín­versku fjár­fest­ingaráætl­un­inni belti og braut.

Mike Pom­peo, ut­an­rík­is­ráðherra Trumps, kom hingað um miðjan fe­brú­ar 2019 og ræddi við Guðlaug Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra og sagði í til­kynn­ingu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins eft­ir fund­inn: „Á fundi ut­an­rík­is­ráðherr­anna var ákveðið að setja á fót ár­legt viðskipta­sam­ráð á milli Íslands og Banda­ríkj­anna, með þátt­töku op­in­berra aðila og einka­geir­ans, í því augnamiði að auka frek­ar tví­hliða viðskipti og fjár­fest­ing­ar á milli land­anna.“ Ætli Trump að setja 20% toll á fisk er þarna vett­vang­ur til and­mæla.

Bæði Pom­peo og Pence lögðu áherslu á mik­il­vægi varn­ar­sam­starfs Íslands og Banda­ríkj­anna sam­hliða áhuga á að auka tví­hliða viðskipti milli land­anna. Pence féll í ónáð hjá Trump og studdi hann ekki til end­ur­kjörs. Pom­peo er einn fárra úr fyrri stjórn sem hafa haldið trúnaði Trumps og er Pom­peo nú nefnd­ur sem hugs­an­leg­ur ut­an­rík­is­ráðherra.

Þegar Pom­peo kom hingað var haft eft­ir hon­um á ruv.is (15. fe­brú­ar 2019): „Við sækj­umst líka eft­ir raun­veru­legu sam­starfi við ykk­ur á norður­slóðum, sem verða sí­fellt mik­il­væg­ari, og hlökk­um til að vinna með ykk­ur að þeim mál­um. Við vit­um að þegar Banda­rík­in hörfa fylla Kín­verj­ar og Rúss­ar í skarðið, það er óhjá­kvæmi­legt ef við erum ekki þar. Við hlökk­um til að standa þétt með Íslandi í sam­starf­inu á norður­slóðum.“

Á rúm­um fimm árum frá því að þessi orð féllu hafa áhyggj­ur stjórn­valda í Banda­ríkj­un­um, ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um og inn­an NATO auk­ist af her­væðingu Rússa og Kín­verja á norður­slóðum. Þá hafa banda­rísk­ir þing­menn grun­semd­ir um að starf­semi Kín­verja á Kár­hóli í Þing­eyj­ar­sveit ógni ör­yggi Banda­ríkj­anna.

End­ur­kjör Don­alds Trumps kann að leiða til nýrr­ar af­stöðu Banda­ríkja­stjórn­ar til stríðsátaka í heim­in­um og aðferða til að binda enda á þau. Koma hans í Hvíta húsið minnk­ar hins veg­ar ekki gildi norður­slóða og Norður-Atlants­hafs fyr­ir ör­yggi Banda­ríkj­anna sjálfra. Til þessa ber að líta þegar tví­hliða sam­skipti Íslands og Banda­ríkj­anna eru met­in í nýju ljósi.