Trump setur Biden í vörn
Morgunblaðið, föstudagur, 4. september 2020
Báðir bandarísku stjórnmálaflokkarnir hafa formlega tilnefnt frambjóðendur sína, tvo hvíta karlmenn á áttræðisaldri, Donald Trump (74 ára) er frambjóðandi repúblikana og Joe Biden (77 ára) er frambjóðandi demókrata.
Donald Trump varð 45. forseti Bandaríkjanna eftir snarpa prófkjörsbaráttu innan flokks repúblikana. Hann tók andstæðinga sína þar hörðum og óvenjulegum tökum. Hann sigraði síðan demókratann Hillary Clinton árið 2016. Hún fékk fleiri atkvæði en Trump fleiri kjörmenn og þar með embættið.
Donald Trump og Joe Biden
Eftirleikur kosningabaráttunnar 2016 setur enn svip á forsetatíð Trumps. Miklum tíma, mannafla og fjármunum var varið til að kanna hvort útsendarar Vladimirs Pútins Rússlandsforseta stuðluðu að sigri Trumps.
Tilraunir til að sanna ásakanir um Rússatengslin runnu út í sandinn en veiktu trú margra á óhlutdrægni alríkislögreglunnar (FBI) og starfshætti innan dómsmálaráðuneytisins.
Donald Trump hikar ekki við að setja allt á annan endann sjálfum sér til framdráttar. Þetta einkennir stjórnarhætti hans innan lands og gagnvart öðrum ríkjum. Kosningabaráttan nú ber einnig þetta yfirbragð.
Efnahagslega vegnar Bandaríkjamönnum vel undir stjórn Trumps. Hann leggur sig hins vegar ekki fram um að sameina þjóðina. Ágreiningur milli repúblikana og demókrata hefur magnast.
COVID-19-faraldurinn skilur eftir sig djúp sár í Bandaríkjunum. Hann dró mjög úr trausti í garð Trumps. Forsetanum yrði til framdráttar tækist Bandaríkjamönnum fyrir kjördag, 3. nóvember, að kynna bóluefni gegn faraldrinum. Að öðrum kosti verður Trump kappsmál að beina athygli kjósenda að allt öðru en faraldrinum.
Á stafrænu flokksþingi repúblikana sagði Mike Pence varaforseti að kosið yrði um lög og reglu. Repúblikanar vilja beina athygli og umræðum að óöldinni sem ríkir víða í bandarískum borgum. Þeir telja sig ná undirtökum í baráttu um atkvæðin með því. Skoðanakannanir sýna að sigur Trumps sé í spilunum verði rétt á málum haldið.
Biden í vörn
Forskotið sem Joe Biden hefur á Donald Trump í könnunum er rakið til gagnrýni á forsetann vegna COVID-19. Takist Trump að hrekja demókrata í varnarstöðu með ásökunum um að þeir styðji upplausnaröfl og róttæka aðgerðasinna kann hann að sigra í úrslita-ríkjunum sex: Flórída, Norður-Karólínu, Arizona, Wisconsin, Michigan og Pennsylvaniu.
Joe Biden snerist gegn fyrrgreindum ásökunum Trumps í ræðu í Pittsburgh í Pennsylvaniu mánudaginn 31. ágúst. Biden sakaði Trump um að kynda undir loga ofbeldis, hann magnaði þá í stað þess að slökkva eins og honum bæri. Með Trump eitraði forsetaembættið bandarískt þjóðlíf. Forsetinn segði ekkert satt, hann þyldi ekki staðreyndir og legði ekki líknandi hönd á neitt.
Ræðan sýndi að Trump tókst á fáeinum dögum að breyta umræðuefninu.
Nú sæta fjölmiðar hollir Biden ámæli fyrir villandi fréttir af óeirðunum í bandarískum borgum.
Til marks um það er nefnt að fréttamaður CNN-sjónvarpsstöðvarinnar stóð úti á götu í bænum Kenosha í Wisconsin og sagði mótmælin „eldheit en almennt friðsamleg“ – á bak við hann virtist borgin í ljósum logum og fólk bar gasgrímur til að verjast táragasi. Eftir þunga gagnrýni viðurkenndi stöðin mistök við flutning fréttarinnar.
Dagana fyrir ræðu Bidens hamraði Trump á því við kjósendur að þeir yrðu „ekki öruggir“ undir Biden sem forseta. Biden gagnrýndi ekki nægilega fast ofbeldisaðgerðir vinstrisinna. Í ræðunni bar Biden þetta af sér, mótmæli fælust hvorki í þjófnaði né íkveikju, þar væri um að ræða lögbrot.
Kannanir sýna að fylgi við hreyfinguna Black Lives Matter, sem er andstæð Trump, hefur minnkað um 10 til 15 stig undanfarið.
Biden segir Trump um megn að hemja ofbeldismenn eftir að hafa árum saman ýtt undir þá. Forsetinn haldi það styrkja sig að tala um lög og reglu en veikleiki hans birtist í vopnaburði stuðningsmanna hans.
Hálfvelgja hjá Biden, segir Trump, hann skelli skuldinni meira á lögregluna en vinstrisinnaða róttæklinga.
„Dökkir skuggar“
Donald Trump herti á ásökunum gegn Joe Biden í samtali við Fox News-sjónvarpsstöðina mánudaginn 31. ágúst.
Stjórnandinn, Laura Ingraham, spurði Trump: „Hver heldur þú að togi í þræðina hjá Biden? Fyrrverandi menn Obama?“ Forsetinn svaraði: „Fólk sem þú hefur aldrei heyrt um, fólk sem heldur sig í dökkum skuggum. Fólk sem –“. Stjórnandinn: „Hvað þýðir þetta? Hljómar eins og samsæriskenning. Dökkir skuggar. Hvað er það?“ Trump: „Það er fólk sem er á götum úti, það er fólk sem stjórnar því sem gerist á götunum.“
Forsetinn sagði síðan frá einstaklingi sem hefði um helgina farið um borð í flugvél í borg nokkurri og vélin hefði verið næstum full af bófum í svörtum einkennisbúningum með alls kyns búnað. Trump sagðist mundu skýra þetta nánar síðar, málið væri í rannsókn.
Undanfarin ár hefur Donald Trump látið sér lynda stuðning samsærishóps sem kallar sig QAnon. Með orðum sínum um „dökku skuggana“ að baki Biden vill Trump ef til vill jafna metin þegar rætt er um samsærishópa.
Þegar Trump telur sér til framdráttar að beina umræðunum að „lögum og reglu“ er minnt á að repúblikaninn Richard Nixon vann forsetakosningarnar árið 1968 undir þeim formerkjum. Á flokksþingi repúblikana nú var lögð áhersla á stöðugleika í samfélaginu í krafti laga og reglu en áhersla á þingi demókrata sneri meiri að ójöfnuði og baráttu gegn honum.
Afstaðan til lögreglu
Forystumenn demókrata eins og Bill De Blasio, borgarstjóri í New York, boða niðurskurð útgjalda til löggæslu til að auka félagslega þjónustu. Rök vinstrisinna eru að harka lögreglunnar ýti undir ófrið í samfélaginu. Félagsleg smyrsl rói og græði sár.
Á YouTube má sjá myndband frá Ami Horowitz sem kannaði hug New York-búa til að leggja niður lögregluna. Hvítir borgarbúar í East Village lýstu óvild í garð lögreglunnar og vildu skera niður útgjöld til hennar. Það yrðu einkum bandarískir blökkumenn sem nytu góðs af brotthvarfi lögreglumanna.
Þegar Horowitz leitaði álits blökkumanna á Malcolm X-breiðgötunni í Harlem voru svörin allt önnur. Talið var brjálæði að vera án lögreglu, ástandið myndi stórversna vegna rána, nauðgana og morða. Sumir töldu það jafngilda sjálfsmorði. Það yrði engum til gagns.
Þegar tveir mánuðir eru til kjördags mælist Joe Biden með meira fylgi en Donald Trump. Þannig hefur staðan verið um nokkurt skeið. Hún segir þó ekki alla söguna því að úrslitin ráðast ekki endilega af því hvor fær flest atkvæði upp úr kjörkössunum. Hillary Clinton væri forseti núna réði fjöldi atkvæða. Það er fjöldi kjörmanna sem skiptir sköpum.
Sé rýnt í niðurstöður kannana um þessar mundir fengi Biden 337 kjörmenn en Trump 201. Biden fengi 67 kjörmenn umfram nauðsynlegan lágmarksfjölda þeirra (270). Þegar tölurnar eru skoðaðar ber að minnast óvissunnar vegna úrslitaríkjanna sex. Ekkert er fast í hendi.