18.5.2018

Trump og endalok diplómatíunnar

Morgunblaðsgrein 18. maí 2018

Ung­ur Banda­ríkjamaður, Ronan Farrow, sendi ný­lega frá sér bók­ina War on Peace: The End of Diplomacy and the Decl­ine of American In­flu­ence – Stríð um frið: Enda­lok diplóma­tí­unn­ar og hrun banda­rískra áhrifa. Hér er orðið diplómatía notað um hæfni til að finna stjórn­mála­lega lausn á alþjóðleg­um ágrein­ings­mál­um.

Í bók­inni fær­ir Farrow rök fyr­ir því að banda­ríska ut­an­rík­is­ráðuneytið hafi orðið und­ir í valda­bar­áttu í Washingt­on. Áhrif varn­ar­málaráðuneyt­is­ins og her­for­ingja hafi auk­ist á kostnað diplómat­anna. Banda­ríkja­for­seti vilji skjót­ar lausn­ir í krafti hervalds, hvort sem því er beitt eða ekki, í stað þess að treysta á tíma­frek­ar viðræður diplómata. Mun meira fé renni til varn­ar­málaráðuneyt­is­ins en ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Ronan Farrow.

Ronan Farrow starfaði fyr­ir Rich­ard Hol­brooke sendi­herra sem fékk það sér­staka verk­efni hjá Hillary Cl­int­on, þáv. ut­an­rík­is­ráðherra í for­setatíð Baracks Obama, að leita friðsam­legr­ar lausn­ar í Af­gan­ist­an með þátt­töku Pak­ist­ana. Obama sýndi diplómat­an­um Hol­brooke lít­ilsvirðingu. Kann það að hafa flýtt fyr­ir dauða Hol­brookes. Hann fékk hjarta­áfall á fundi um verk­efni sitt með Hillary Cl­int­on í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

Farrow (30 ára), son­ur leik­kon­unn­ar Miu Farrow og kvik­mynda­leik­stjór­ans Woo­dys Allens, fékk ný­lega Pu­litzer-blaðamanna­verðlaun­in fyr­ir grein í The New Yor­ker á liðnu hausti um Har­vey Wein­stein og kyn­ferðis­lega áreitni hans. Hratt grein­in af stað hreyf­ingu og ferli sem enn er ólokið. Bók Farrows um hnign­un banda­rísku ut­an­rík­isþjón­ust­unn­ar hef­ur vakið alþjóðaat­hygli á tíma þegar ut­an­rík­is­stefna Banda­ríkj­anna er und­ir smá­sjánni.

Ekki fyr­ir Banda­ríkjaþing

Barack Obama leit á gerð kjarn­orku­samn­ings­ins við Íran árið 2015 sem kór­ónu á diplóma­tísku meist­ara­verki sínu. Don­ald Trump hef­ur nú sagt Banda­rík­in frá samn­ingn­um. Hann get­ur það einn og óstudd­ur vegna þess að Obama fór aldrei með samn­ing­inn alla leið. Obama lagði samn­ing­in ekki fyr­ir banda­ríska þingið. Hann vissi að þar yrði hann aldrei samþykkt­ur, jafn­vel inn­an Demó­krata­flokks­ins, flokks for­set­ans, var andstaða við samn­ing­inn. Hann varð því aldrei end­an­lega skuld­bind­andi að lög­um fyr­ir Banda­rík­in.

Glíma for­seta eða ut­an­rík­is­ráðherra við þing­menn er oft erfið vegna alþjóðasamn­inga. Til dæm­is hef­ur í meira en 30 ár ekki tek­ist að tryggja auk­inn meiri­hluta í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings fyr­ir aðild Banda­ríkj­anna að haf­rétt­ar­sátt­mála Sam­einuðu þjóðanna. And­stæðing­ar henn­ar vilja ekki af­sala full­veld­inu með aðild að sátt­mál­an­um þótt hann sé virt­ur í verki.

Frétt­ir frá Washingt­on eru mis­vís­andi um hver voru ráð ein­stakra ráðherra og emb­ætt­is­manna til Trumps í aðdrag­anda ákvörðunar hans um brott­hvarfið frá Írans­samn­ingn­um. Op­in­ber­lega ligg­ur þó fyr­ir að Jim Matt­is, hers­höfðingi og varn­ar­málaráðherra, taldi óskyn­sam­legt að hrófla við samn­ingn­um. John Bolt­on þjóðarör­ygg­is­ráðgjafi var and­stæðing­ur aðild­ar. Mike Pom­peo ut­an­rík­is­ráðherra gaf evr­ópsk­um starfs­bræðrum sín­um til kynna að ef til vill mundi Trump ekki stíga skrefið frá samn­ingn­um. Ut­an­rík­is­ráðherr­ann skipaði sér í sátta­stól­inn eins og diplómata sæm­ir.

Ut­an­rík­is­ráðuneyti í vanda

Í bók sinni seg­ir Ronan Farrow frá von­brigðum starfs­manna ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins vegna Rex Til­ler­sons, fyrsta ut­an­rík­is­ráðherra Trumps. Hann hafi látið „valta“ yfir ráðuneytið á rúmu ári sem hann stjórnaði því. Lýs­ing­ar Farrows á niður­skurði og af­leiðing­um hans og tregðu Til­ler­sons til að beita sér gagn­vart fjár­veit­ing­ar­vald­inu bera vott um mikið skeyt­ing­ar­leysi.

Rúmu ári eft­ir að Trump varð for­seti eru Banda­rík­in án sendi­herra í um 40 ríkj­um, þar á meðal Íslandi.

Af­greiðsla öld­unga­deild­ar­inn­ar á til­lög­um for­set­ans og ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins um sendi­herra­efni tek­ur lang­an tíma. Í sept­em­ber 2017 var til dæm­is lagt til við öld­unga­deild­ina að hún samþykkti Rich­ard Grenell, fyrrv. ut­an­rík­is­ráðgjafa hjá Bush-stjórn­inni og síðar álits­gjafa hjá Fox-sjón­varps­stöðinni, sem sendi­herra í Þýsklandi.

Grenell var þó ekki sett­ur í embætti í Washingt­on fyrr en 4. maí 2018. Sama dag og hann af­henti trúnaðarbréf sitt í Berlín, þriðju­dag­inn 8. maí, til­kynnti Trump ákvörðun sína um Írans­samn­ing­inn. Sendi­herr­ann í Berlín rauk upp til handa og fóta og sagði á Twitter að nú skyldu þýsk fyr­ir­tæki í Íran „strax draga sam­an segl­in“ vegna yf­ir­vof­andi viðskipta­banns.

John Bolt­on seg­ir að það fari eft­ir fram­göngu Evr­ópu­ríkja hvort banda­rísk­ar viðskiptaþving­an­ir á Írana bitni á þeim. Mike Pom­peo úti­lok­ar ekki samn­ing við Evr­ópu­rík­in um sam­stöðu gagn­vart Írön­um. Banda­ríkja­stjórn voni að Evr­ópu­ríki ýti Írön­um að nýju að samn­ings­borðinu.

Don­ald Tusk, for­seti leiðtogaráðs ESB, var ómyrk­ur í máli um Trump-stjórn­ina á blaðamanna­fundi í Búlgaríu 16. maí. Hann þakkaði þó Trump fyr­ir að neyða ESB-rík­in til að sjá hlut­ina eins og þeir væru. Síðan sakaði hann Banda­ríkja­stjórn um „geðþótta­fulla ýtni“ með því að hverfa frá Írans­samn­ingn­um og leggja tolla á stál og ál. Segja mætti að með slíka vini þyrfti ESB ekki óvini.

Gallaður samn­ing­ur

Í kosn­inga­bar­átt­unni 2016 sagði Trump Írans­samn­ing­inn frá ár­inu 2015 „versta samn­ing allra tíma“. Að hann nýtti tæki­færi til að segja Banda­rík­in frá hon­um lá í aug­um uppi. Banda­ríkja­stjórn bend­ir á þessa galla á samn­ingn­um:

Eft­ir­lits­menn Sam­einuðu þjóðanna megi ekki heim­sækja hernaðarlega staði við eft­ir­lits­störf sín sem hljómi eins og brand­ari þegar málið snýst meðal ann­ars um hvort haf­in sé fram­leiðsla kjarn­orku­vopna.

Samn­ing­ur­inn sé tíma­bund­inn. Í hon­um fel­ist í raun upp­gjöf: Samþykkt hafi verið að Íran gæti orðið kjarn­orku­veldi – bara ekki strax.

Samn­ing­ur­inn af­nemi viðskipta­hindr­an­ir gegn Íran. Tug­ir millj­arða doll­ara streymi til lands­ins af fryst­um reikn­ing­um utan lands. Tekj­ur Írana auk­ist mikið þegar þeir hefji ol­íu­sölu að nýju. Fénu hafi einkum verið beint til hers­ins. Smíðaðar hafi verið eld­flaug­ar og efnt til mik­illa vopna­kaupa. Þá hafi Íran­ar látið fé renna til fjöl­margra er­lendra hryðju­verka­sam­taka. Þeir ögri og ógni ná­grönn­um sín­um.

Trump á toppn­um

Ut­an­rík­is­ráðuneytið, varn­ar­málaráðuneytið og þjóðarör­ygg­is­ráðið leggja í púkkið hjá Banda­ríkja­for­seta. Í tíð Trumps er greini­legra en oft áður að for­set­inn heimt­ar síðasta orðið. Næg­ir að nefna þrjú ný stór­mál: flutn­ing banda­ríska sendi­ráðsins til Jerúsalem, ör­lög Írans­samn­ings­ins og fund­inn með Kim Jong-un, harðstjóra N-Kór­eu.

Lofið sem hlaðið var á Trump þegar Jerúsalem-sendi­ráðið var opnað mánu­dag­inn 14. maí sannaði enn alúðina við að gleðja for­set­ann vegna ákv­arðana hans.

Írans­samn­ing­ur­inn hang­ir í lausu lofti. Óhjá­kvæmi­legt er að jarðtengja hann. Tekst Mike Pom­peo að fá Trump til þess og friða Evr­ópu­menn?

Sendi­nefnd frá S-Kór­eu hitti Trump í Washingt­on og til­kynnti síðan að hann ætlaði að hitta N-Kór­eu-harðstjór­ann Kim. Til­ler­son ut­an­rík­is­ráðherra var ekki með í ráðum. Nú treyst­ir Pom­peo ut­an­rík­is­ráðherra á fyrr­ver­andi sam­starfs­menn sína hjá CIA við und­ir­bún­ing fund­ar­ins. Fyr­ir tveim­ur dög­um bár­ust svo frétt­ir um að Trump yrði að sleikja fýl­una úr Kim vildi hann fund­inn.

Hefðbund­in diplómatía er á und­an­haldi. Ef til vill birt­ist upp­haf enda­loka diplóma­tí­unn­ar í öllu þessu brölti Don­alds Trumps.