Tilraunastofa á Bessastöðum
Morgunblaðið, fimmtudagur, 17. október 2024
Þjóðin og valdið – fjölmiðlalögin og Icesave ★★★·· Eftir Ólaf Ragnar Grímsson. Innb. 367 bls., myndir, nafnaskrá. Útg. Mál og menning, Rvk. 2024Höfundur dagbókar er gjarnan sjálfhverfur og tekur lítið mið af sjónarmiðum annarra. Þá kann hann einnig að festa hugann um of við eitt efni og endurtaka sjálfan sig. Hann upphefur sig á kostnað annarra og miklar atvik sér í hag. Höfundurinn lítur á eigin orð um eigið ágæti með tilvitnun í aðra sem óskoraða viðurkenningu.
Við lestur bókar Ólafs Ragnars Grímssonar (ÓRG) Þjóðin og valdið – fjölmiðlalögin og Icesave leitar þetta á hugann. Á bókarkápu er penni ÓRG við dagbókarskrifin sagður „tæki í glímunni við erfið vandamál og göngustafur á leið til ákvarðana“. Penninn var einnig vopn ÓRG til að ná sér í einrúmi á Bessastöðum niðri á þeim sem hann taldi að stæðu í vegi fyrir áformum hans.
Í dagbókunum víkur ÓRG að persónulegum málefnum. Hann segir frá dætrum sínum og eiginkonu, kynnum af útlendingum og framgöngu sinni á erlendum vettvangi. Hann gefur dálitla sýn í lífið á Bessastöðum og annasama vinnudaga sem hefjast á kraftgöngu með hundinum Sámi og líkamsæfingum. Hann situr við frá morgni til kvölds, dálítið hégómlegur en annt um virðingu embættisins – andvaka að næturlagi semur hann drög að opinberum yfirlýsingum.
Því verður að treysta að í bókinni birtist raunsönn frásögn af því sem lýst er. Stundum líða nokkrir dagar þar til samtöl eru skráð. Fór óhlutdrægur þriðji aðili yfir texta dagbókar og bókar fyrir birtingu? Lýsing á aðferðum við ritstjórn og endanlega gerð bókarinnar hefði styrkt heimildargildi hennar.
Tilraunastofan
ÓRG vill að bókin sanni að sér hafi tekist að breyta forsetaembættinu. Hann hringdi 10. mars 2010 (eftir fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave) í vin sinn dr. Svan Kristjánsson, prófessor í stjórnmálafræði í HÍ: „til að fagna með honum að „tilraunastofan“ með stjórnskipun landsins [hefði] sýnt að kenningar hans [Svans] um 26. gr. [stjórnarskrárinnar] og forsetann [synjunarvaldið] [hefðu] reynst réttar en ýmsir lögfræðingar og aðrir stjórnmálafræðingar haft rangt fyrir sér. Það væri líkt og prófessor í efnafræði hefði fengið teoríuna staðfesta í tilraunaglösunum!“ (238-39).
Annan júní 2004 ákvað ÓRG að skrifa ekki undir fjölmiðlalögin og efndi til blaðamannafundar. „Ein af stóru stundunum í sögu lýðveldisins,“ segir hann (63). Hann hafi verið orðinn mjög þreyttur þá um kvöldið. „Ýmsir hringdu í mig. Svanur Kristjánsson sagðist hafa grátið þegar hann hlustaði á útsendinguna“ (64).
ÓRG taldi það hrokafulla tilraun til að eyðileggja þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin að sett yrði skilyrði um lágmarksþátttöku í henni. Hann fól forsetaritara að hvetja stjórnarandstöðuna til að standa gegn slíkri tillögu (67). Össur Skarphéðinsson og Steingrímur J. Sigfússon hefðu staðið sig vel í því og eins Jónatan Þórmundsson og Sigurður Líndal lagaprófessorar. „Þeir eru leynivopn mitt!“ sagði hann sigri hrósandi (68).
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, þar sem ég var ráðherra, dró lögin til baka og þess vegna gekk „tilraun“ þeirra Svans og ÓRG um þanþol 26. gr. stjórnarskrárinnar ekki upp fyrr en í fyrri Icesave-atkvæðagreiðslunni árið 2010 og yfir því gladdist hann með Svani.
Trúnaðurinn
Í inngangi segir ÓRG vissulega álitamál hvort forseti eigi að skýra frá trúnaðarsamtölum, jafnvel þótt áratugir hafi liðið. Þá segir hann: „Traustið sem viðmælendur báru með sér á fundinn togast á við skylduna gagnvart þjóðinni, að miðla henni upplýsingum og efniviði í lærdómsríkt veganesti“ (12).
Frásögn af leynifundi ÓRG og Guðna Ágústssonar landbúnaðarráðherra 12. júlí 2004 er ekki skráð í dagbókina fyrr en 10 dögum síðar. ÓRG gaf þar til kynna að hann myndi að nýju synja fjölmiðlalögum kæmu þau til hans í breyttum búningi. Í lok frásagnar sinnar segist hann svo hafa áttað sig á því að fjölmiðlalögin réðu ekki afstöðu Guðna til Sjálfstæðisflokksins heldur hitt að „klíka sjálfstæðismanna“ í stjórn Landssambands hestamanna hefði niðurlægt hann við setningu landsmóts hestamanna með því að ætla að gera Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra að „ráðherra íslenska hestsins“. Hún hefði riðið fremst við setningu landsmótsins. Telur ÓRG að vegna þessa hafi Guðni tekið forystu gegn fjölmiðlafrumvarpinu í þingflokki framsóknar og ýtt Halldóri Ásgrímssyni flokksformanni til hliðar (78).
Tíunda ágúst 2004 var Halldór Ásgrímsson orðinn forsætisráðherra vegna veikinda Davíðs Oddssonar. Þá fór formaður stjórnarandstöðuflokksins VG, Steingrímur J. Sigfússon, í tveggja og hálfs tíma hádegisverð á Bessastöðum. Í dagbókina daginn eftir skrifar ÓRG um spjall þeirra og má ráða af frásögninni að leynifundinn með Guðna hafi borið á góma, hann hefði tekið forystu í andófinu gegn sjálfstæðismönnum á lokaspretti fjölmiðlamálsins „m.a. vegna reiði út í Sjálfstæðismenn vegna framgöngunnar við hann á landsmóti hestamanna!“ (91).
Viðtal Guðna og ÓRG sýnir tvennt: (1) Orðin leynifundur eða trúnaðarsamtal hafa sérstaka merkingu hjá ÓRG. Trúnaðurinn nær ekki lengra en honum sjálfum hentar. Hann ýtir honum til hliðar í því trausti að viðmælandinn segi ekki sína hlið á samtalinu. (2) Guðni ræðir við forsetann af einlægni og í góðri trú um mál sem honum er viðkvæmt en forsetinn hefur þetta hjartans mál í flimtingum.
Össur
Össur Skarphéðinsson (ÖS) var ávallt til í pólitískt makk með forsetanum. Össur var augu hans og eyru meðal stjórnmálamanna í öllum flokkum. Bandalag hafði myndast með Össuri og ÓRG á ritstjórn Þjóðviljans á níunda áratugnum. Þeir voru í flokksklíku Alþýðubandalagsins gegn Svavari Gestssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Liggur ÓRG þungt orð til Svavars og ekki síður Indriða H. Þorlákssonar (IHÞ), embættismanns í fjármálaráðuneytinu, sem vann með Svavari, í umboði Steingríms J., að gerð Icesave-samninganna. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson væna Indriða H. um að leika „tveimur skjöldum“ í Icesave-viðræðum við Breta og Hollendinga og ÓRG sagði í frásögn af samtali sínu við Jóhönnu:
„Ég nefndi að ég hefði hent IHÞ út úr ráðherraskrifstofunni þegar ég var fjármálaráðherra. Hann væri þverhaus og merkikerti sem tæki sér vald sem hann risi ekki undir“ (165).
Það eru ekki aðeins stjórnmálamenn sem fá á baukinn í dagbók forsetans. Hann vandar engum kveðjurnar sem hann telur óverðuga. Vandræðin í Jóhönnustjórninni vegna Icesave mögnuðust stig af stigi. Lýsingar ÓRG á glímunni við Ögmund Jónasson og sundrungaröfl innan VG verða leiðigjarnar.
Að lokum snýr ÓRG baki við Jóhönnu og stjórninni í Icesave-málinu og skilur eftir á eyðiskeri. Hann vill þó friðmælast að nýju og nýtir sambandið við Össur til þess.
Áhugi á nánum tengslum milli Íslands og Kína sameinar þá. Össur hafði auk þess á sínum herðum að vinna að aðild Íslands að ESB. Hann taldi í júní 2010 að vegna Icesave ynnu Bretar gegn því að aðildarviðræðurnar hæfust. Össur safnaði liði í þágu aðildar Íslands innan ESB og spurði ÓRG hvort hann vildi hringja í T. Halonen, forseta Finnlands, sem sat í leiðtogaráði ESB, og vísa í vinsamlegt samtal Össurar og ÓRG við hana í New York í september 2008 þar sem hún hefði lofað stuðningi við ESB-aðild Íslands (262).
Í september 2008 var ESB-aðild Íslands ekki á stefnuskrá ríkisstjórnar Íslands. Samt sátu starfandi utanríkisráðherra og forseti Íslands þá á hljóðskrafi við forseta Finnlands í New York um hana! Engin skýring er gefin í dagbókinni á tilefni þessa samtals en í júní 2010, eftir að alþingi hafði í júlí 2009 samþykkt ESB-aðildarumsókn, bað Össur vin sinn, forseta Íslands, um hjálp til að þoka aðildinni áfram.
ÓRG sagði við Össur að hann gæti bara sjálfur hringt í finnska forsetann. Össur gaf sig ekki gagnvart ÓRG sem sagði „hæpið“ að hann færi að blanda sér „beint í ESB-ferlið“. Hins vegar sagði hann dagbókinni að mikilvægt væri að gera það til að „treysta á ný sambandið við Össur“. ÓRG sagðist geta sagt að ríkisstjórnin hefði beðið sig um að hringja ef málið kæmi „einhvern tímann til tals“. Hann hringdi því í finnska forsetann 4. júní 2010 til að hjálpa Össuri við að ýta ESB-aðildarviðræðunum af stað „og var það fínt samtal“ (263).
Úr því að ÓRG telur sig knúinn til þess að birta valda kafla úr dagbókum sínum vegna „skyldu gagnvart þjóðinni“ og til að „miðla henni upplýsingum og efniviði í lærdómsríkt veganesti“ má spyrja hvers vegna hann hélt því leyndu að hann hefði tekið að sér að reka erindi fyrir ríkisstjórnina í ESB-aðildarferlinu.
Þetta brall til að koma sér aftur í mjúkinn hjá Jóhönnu eftir fyrri Icesave-atkvæðagreiðsluna heppnaðist.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG) formaður Miðflokksins var nýorðinn formaður Framsóknarflokksins 1. febrúar 2009 þegar ÓRG gerði Jóhönnu Sigurðardóttur að forsætisráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar með VG. Stjórnin hefði aldrei verið mynduð nema með samþykki framsóknarmanna og SDG. Dagbókin ber hins vegar með sér að Jóhanna lagði fæð á SDG. Steingrímur J., fjármálaráðherra og formaður VG, sagði við ÓRG strax í mars 2009 að SDG væri „ekki að gera sig, virkaði jafnvel nokkuð skrítinn“ (113).
Níunda ágúst 2009 sagði Össur við ÓRG „að ef ekki væri fyrir SDG þá væri auðvelt að kippa Framsóknarflokknum inn í stjórnina“. Jóhanna vildi hins vegar ekki vinna með honum og fundaði frekar með Sjálfstæðisflokknum (156).
Í maí 2010 er síðan svo komið að Össur segir við ÓRG að sér líki mun betur við SDG en Jóhönnu. „Það væri forystutómarúm í landinu,“ sagði Össur og velti fyrir sér kosningum. „Þetta var fínt samtal við ÖS og gott að geta átt slík trúnaðarsamtöl við hann,“ segir ÓRG við dagbókina 4. maí 2010 (255). Og 15. júní 2010 skrifaði ÓRG:
„Ég spurði hann [Össur] þá beint: Ef JS [Jóhanna] gefst upp og ég fæli honum að mynda ríkisstjórn, hvort hann teldi að sér tækist það, þ.e. með Frsfl. og Sjstfl.. Játaði ÖS því og var mjög flatteraður yfir þessari hugmynd. „Þú ert að tryggja að ég fari glaður af þessum fundi,“ sagði hann hlæjandi.“ Áður hafði Össur sagt að framsóknarmennirnir SDG og Birkir Jón „væru oft að tala við sig“ (267).
Þarna leggja þeir félagar á ráðin um annan kost en sitjandi ríkisstjórn eftir að fyrri Icesave-samningurinn hafði verið felldur. Össur neyddist til að setja ESB-málið á ís og hann varð aldrei forsætisráðherra. Jóhanna sat út kjörtímabilið.
Umskiptingur
Lokakafli bókarinnar er um aðdraganda og afleiðingar þess að ÓRG neitaði að skrifa undir seinni Icesave-lög Jóhönnustjórnarinnar en þau voru felld í þjóðaratkvæðagreiðslu 9. apríl 2011.
ÓRG talaði á fjölmennum fundi í Kaupmannahöfn skömmu síðar og taldi að sér hefði tekist að halda á málstað sínum á „intellektúal hátt“ og verið vel tekið. Honum þótti „líka merkilegt“ hve fólk sýndi honum mikið þakklæti í Keflavík og á Kastrup eða í flugvélinni. Hann hefði ekki áður fundið slík viðbrögð. „Það er greinilegt að þetta hefur haft djúp áhrif á þjóðarsálina.“ Hrifningin næði þó ekki til gamalla vina sinna og félaga. Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, hefði litið undan í flugstöðinni til að þurfa ekki að heilsa sér. „Sama gildir um flesta sem voru mínir helstu stuðningsmenn áður! Fórnarkostnaðurinn er töluverður,“ sagði hann dagbókinni 14. apríl 2011.
Nokkrum dögum síðar, 17. apríl, sagði hann að Svanur Kristjánsson hefði reynt að útskýra á Rás 2 að ÓRG hefði „farið gegn stjórnarskránni!“ Hann hefði farið gegn samningsleiðinni og með dómstólaleiðinni. ÓRG sagðist hafa hringt í Svan og beðið hann um tilvitnanir í sig þar sem hann styddi dómstólaleiðina. Svanur hefði svarað með tölvupósti og stuttum „skætingi“ en engum tilvitnunum. „Þessu liði er ekki sjálfrátt!“ skrifaði ÓRG hneykslaður (332-333).
Á ystu nöf
Hér verður ekki meira sagt um efni þessarar bókar. Þar birtist dramatískt pólitískt sjónarspil. Oftar en einu sinni kemur fram að þeir sem standa ÓRG næst hvetja hann til að fara ekki fram úr sér; hlaupa ekki á sig í kappsemi sinni. Gerði hann það með því að birta dagbækurnar? Hann er á ystu nöf. Bókin verður örugglega seint talin handbók um góða stjórnarhætti á Bessastöðum.
Dæmin sem nefnd eru hér að ofan eru ekki valin af handahófi. Hvert um sig lýsir raunverulegum atburðum og segir mikla sögu um beitingu forsetavaldsins eða misbeitingu en ekkert um þjóðina eins og ætla mætti af heiti bókarinnar.
Í bókinni eru myndir af einkaskjölum ÓRG, tímalínur vegna fjölmiðlalaganna og Icesave-laganna auk nafnaskrár. Þar er a.m.k. ein villa: Þórir Gunnarsson, fyrrv. ræðismaður í Prag, er sagður Guðmundsson (230). Þá skrifar ÓRG inngang og í lokin vegvísi fyrir þá sem vilja nota það sem hann segir sem fordæmi.
Megingalli bókarinnar er léleg leiðsögn fyrir lesandann. Það skortir gagnorða texta sem setja það sem sagt er frá í dagbókinni í samhengi við atburði líðandi stundar, utan hugarheims Ólafs Ragnars Grímssonar. Fyrir bragðið detta menn stundum inn í framandi atburðarás án þess að fóta sig til fullnustu.