17.10.2024

Tilraunastofa á Bessastöðum

Morgunblaðið, fimmtudagur, 17. október 2024

 Þjóðin og valdið – fjöl­miðlalög­in og Ices­a­ve ★★★·· Eft­ir Ólaf Ragn­ar Gríms­son. Innb. 367 bls., mynd­ir, nafna­skrá. Útg. Mál og menn­ing, Rvk. 2024

Höf­und­ur dag­bók­ar er gjarn­an sjálf­hverf­ur og tek­ur lítið mið af sjón­ar­miðum annarra. Þá kann hann einnig að festa hug­ann um of við eitt efni og end­ur­taka sjálf­an sig. Hann upp­hef­ur sig á kostnað annarra og mikl­ar at­vik sér í hag. Höf­und­ur­inn lít­ur á eig­in orð um eigið ágæti með til­vitn­un í aðra sem óskoraða viður­kenn­ingu.

Við lest­ur bók­ar Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar (ÓRG) Þjóðin og valdið – fjöl­miðlalög­in og Ices­a­ve leit­ar þetta á hug­ann. Á bók­ar­kápu er penni ÓRG við dag­bók­ar­skrif­in sagður „tæki í glím­unni við erfið vanda­mál og göngustaf­ur á leið til ákv­arðana“. Penn­inn var einnig vopn ÓRG til að ná sér í ein­rúmi á Bessa­stöðum niðri á þeim sem hann taldi að stæðu í vegi fyr­ir áform­um hans.

Í dag­bók­un­um vík­ur ÓRG að per­sónu­leg­um mál­efn­um. Hann seg­ir frá dætr­um sín­um og eig­in­konu, kynn­um af út­lend­ing­um og fram­göngu sinni á er­lend­um vett­vangi. Hann gef­ur dá­litla sýn í lífið á Bessa­stöðum og anna­sama vinnu­daga sem hefjast á kraft­göngu með hund­in­um Sámi og lík­ams­æfing­um. Hann sit­ur við frá morgni til kvölds, dá­lítið hé­góm­leg­ur en annt um virðingu embætt­is­ins – and­vaka að næt­ur­lagi sem­ur hann drög að op­in­ber­um yf­ir­lýs­ing­um.

Því verður að treysta að í bók­inni birt­ist raun­sönn frá­sögn af því sem lýst er. Stund­um líða nokkr­ir dag­ar þar til sam­töl eru skráð. Fór óhlut­dræg­ur þriðji aðili yfir texta dag­bók­ar og bók­ar fyr­ir birt­ingu? Lýs­ing á aðferðum við rit­stjórn og end­an­lega gerð bók­ar­inn­ar hefði styrkt heim­ild­ar­gildi henn­ar.

Til­rauna­stof­an

ÓRG vill að bók­in sanni að sér hafi tek­ist að breyta for­seta­embætt­inu. Hann hringdi 10. mars 2010 (eft­ir fyrri þjóðar­at­kvæðagreiðsluna um Ices­a­ve) í vin sinn dr. Svan Kristjáns­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði í HÍ: „til að fagna með hon­um að „til­rauna­stof­an“ með stjórn­skip­un lands­ins [hefði] sýnt að kenn­ing­ar hans [Svans] um 26. gr. [stjórn­ar­skrár­inn­ar] og for­set­ann [synj­un­ar­valdið] [hefðu] reynst rétt­ar en ýms­ir lög­fræðing­ar og aðrir stjórn­mála­fræðing­ar haft rangt fyr­ir sér. Það væri líkt og pró­fess­or í efna­fræði hefði fengið te­orí­una staðfesta í til­raunaglös­un­um!“ (238-39).

Ann­an júní 2004 ákvað ÓRG að skrifa ekki und­ir fjöl­miðlalög­in og efndi til blaðamanna­fund­ar. „Ein af stóru stund­un­um í sögu lýðveld­is­ins,“ seg­ir hann (63). Hann hafi verið orðinn mjög þreytt­ur þá um kvöldið. „Ýmsir hringdu í mig. Svan­ur Kristjáns­son sagðist hafa grátið þegar hann hlustaði á út­send­ing­una“ (64).

ÓRG taldi það hroka­fulla til­raun til að eyðileggja þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fjöl­miðlalög­in að sett yrði skil­yrði um lág­marksþátt­töku í henni. Hann fól for­seta­rit­ara að hvetja stjórn­ar­and­stöðuna til að standa gegn slíkri til­lögu (67). Össur Skarp­héðins­son og Stein­grím­ur J. Sig­fús­son hefðu staðið sig vel í því og eins Jónatan Þór­munds­son og Sig­urður Lín­dal laga­pró­fess­or­ar. „Þeir eru leyni­vopn mitt!“ sagði hann sigri hrós­andi (68).

Rík­is­stjórn Davíðs Odds­son­ar, þar sem ég var ráðherra, dró lög­in til baka og þess vegna gekk „til­raun“ þeirra Svans og ÓRG um þanþol 26. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar ekki upp fyrr en í fyrri Ices­a­ve-at­kvæðagreiðslunni árið 2010 og yfir því gladd­ist hann með Svani.

22a5cfc4-e23d-452b-b27b-730a74e829c0

Trúnaður­inn

Í inn­gangi seg­ir ÓRG vissu­lega álita­mál hvort for­seti eigi að skýra frá trúnaðarsam­töl­um, jafn­vel þótt ára­tug­ir hafi liðið. Þá seg­ir hann: „Traustið sem viðmæl­end­ur báru með sér á fund­inn tog­ast á við skyld­una gagn­vart þjóðinni, að miðla henni upp­lýs­ing­um og efniviði í lær­dóms­ríkt vega­nesti“ (12).

Frá­sögn af leynifundi ÓRG og Guðna Ágústs­son­ar land­búnaðarráðherra 12. júlí 2004 er ekki skráð í dag­bók­ina fyrr en 10 dög­um síðar. ÓRG gaf þar til kynna að hann myndi að nýju synja fjöl­miðlalög­um kæmu þau til hans í breytt­um bún­ingi. Í lok frá­sagn­ar sinn­ar seg­ist hann svo hafa áttað sig á því að fjöl­miðlalög­in réðu ekki af­stöðu Guðna til Sjálf­stæðis­flokks­ins held­ur hitt að „klíka sjálf­stæðismanna“ í stjórn Lands­sam­bands hesta­manna hefði niður­lægt hann við setn­ingu lands­móts hesta­manna með því að ætla að gera Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dótt­ur mennta­málaráðherra að „ráðherra ís­lenska hests­ins“. Hún hefði riðið fremst við setn­ingu lands­móts­ins. Tel­ur ÓRG að vegna þessa hafi Guðni tekið for­ystu gegn fjöl­miðlafrum­varp­inu í þing­flokki fram­sókn­ar og ýtt Hall­dóri Ásgríms­syni flokks­for­manni til hliðar (78).

Tí­unda ág­úst 2004 var Hall­dór Ásgríms­son orðinn for­sæt­is­ráðherra vegna veik­inda Davíðs Odds­son­ar. Þá fór formaður stjórn­ar­and­stöðuflokks­ins VG, Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, í tveggja og hálfs tíma há­deg­is­verð á Bessa­stöðum. Í dag­bók­ina dag­inn eft­ir skrif­ar ÓRG um spjall þeirra og má ráða af frá­sögn­inni að leynifund­inn með Guðna hafi borið á góma, hann hefði tekið for­ystu í and­óf­inu gegn sjálf­stæðismönn­um á loka­spretti fjöl­miðlamáls­ins „m.a. vegna reiði út í Sjálf­stæðis­menn vegna fram­göng­unn­ar við hann á lands­móti hesta­manna!“ (91).

Viðtal Guðna og ÓRG sýn­ir tvennt: (1) Orðin leynifund­ur eða trúnaðarsam­tal hafa sér­staka merk­ingu hjá ÓRG. Trúnaður­inn nær ekki lengra en hon­um sjálf­um hent­ar. Hann ýtir hon­um til hliðar í því trausti að viðmæl­and­inn segi ekki sína hlið á sam­tal­inu. (2) Guðni ræðir við for­set­ann af ein­lægni og í góðri trú um mál sem hon­um er viðkvæmt en for­set­inn hef­ur þetta hjart­ans mál í flimt­ing­um.

Össur

Össur Skarp­héðins­son (ÖS) var ávallt til í póli­tískt makk með for­set­an­um. Össur var augu hans og eyru meðal stjórn­mála­manna í öll­um flokk­um. Banda­lag hafði mynd­ast með Öss­uri og ÓRG á rit­stjórn Þjóðvilj­ans á ní­unda ára­tugn­um. Þeir voru í flokksklíku Alþýðubanda­lags­ins gegn Svavari Gests­syni og Stein­grími J. Sig­fús­syni. Ligg­ur ÓRG þungt orð til Svavars og ekki síður Indriða H. Þor­láks­son­ar (IHÞ), emb­ætt­is­manns í fjár­málaráðuneyt­inu, sem vann með Svavari, í umboði Stein­gríms J., að gerð Ices­a­ve-samn­ing­anna. Jó­hanna Sig­urðardótt­ir for­sæt­is­ráðherra og Össur Skarp­héðins­son væna Indriða H. um að leika „tveim­ur skjöld­um“ í Ices­a­ve-viðræðum við Breta og Hol­lend­inga og ÓRG sagði í frá­sögn af sam­tali sínu við Jó­hönnu:

„Ég nefndi að ég hefði hent IHÞ út úr ráðherra­skrif­stof­unni þegar ég var fjár­málaráðherra. Hann væri þver­haus og merkikerti sem tæki sér vald sem hann risi ekki und­ir“ (165).

Það eru ekki aðeins stjórn­mála­menn sem fá á bauk­inn í dag­bók for­set­ans. Hann vand­ar eng­um kveðjurn­ar sem hann tel­ur óverðuga. Vand­ræðin í Jó­hönnu­stjórn­inni vegna Ices­a­ve mögnuðust stig af stigi. Lýs­ing­ar ÓRG á glím­unni við Ögmund Jónas­son og sundr­ungaröfl inn­an VG verða leiðigjarn­ar.

Að lok­um snýr ÓRG baki við Jó­hönnu og stjórn­inni í Ices­a­ve-mál­inu og skil­ur eft­ir á eyðiskeri. Hann vill þó friðmæl­ast að nýju og nýt­ir sam­bandið við Össur til þess.

Áhugi á nán­um tengsl­um milli Íslands og Kína sam­ein­ar þá. Össur hafði auk þess á sín­um herðum að vinna að aðild Íslands að ESB. Hann taldi í júní 2010 að vegna Ices­a­ve ynnu Bret­ar gegn því að aðild­ar­viðræðurn­ar hæf­ust. Össur safnaði liði í þágu aðild­ar Íslands inn­an ESB og spurði ÓRG hvort hann vildi hringja í T. Halon­en, for­seta Finn­lands, sem sat í leiðtogaráði ESB, og vísa í vin­sam­legt sam­tal Öss­ur­ar og ÓRG við hana í New York í sept­em­ber 2008 þar sem hún hefði lofað stuðningi við ESB-aðild Íslands (262).

Í sept­em­ber 2008 var ESB-aðild Íslands ekki á stefnu­skrá rík­is­stjórn­ar Íslands. Samt sátu starf­andi ut­an­rík­is­ráðherra og for­seti Íslands þá á hljóðskrafi við for­seta Finn­lands í New York um hana! Eng­in skýr­ing er gef­in í dag­bók­inni á til­efni þessa sam­tals en í júní 2010, eft­ir að alþingi hafði í júlí 2009 samþykkt ESB-aðild­ar­um­sókn, bað Össur vin sinn, for­seta Íslands, um hjálp til að þoka aðild­inni áfram.

ÓRG sagði við Össur að hann gæti bara sjálf­ur hringt í finnska for­set­ann. Össur gaf sig ekki gagn­vart ÓRG sem sagði „hæpið“ að hann færi að blanda sér „beint í ESB-ferlið“. Hins veg­ar sagði hann dag­bók­inni að mik­il­vægt væri að gera það til að „treysta á ný sam­bandið við Össur“. ÓRG sagðist geta sagt að rík­is­stjórn­in hefði beðið sig um að hringja ef málið kæmi „ein­hvern tím­ann til tals“. Hann hringdi því í finnska for­set­ann 4. júní 2010 til að hjálpa Öss­uri við að ýta ESB-aðild­ar­viðræðunum af stað „og var það fínt sam­tal“ (263).

Úr því að ÓRG tel­ur sig knú­inn til þess að birta valda kafla úr dag­bók­um sín­um vegna „skyldu gagn­vart þjóðinni“ og til að „miðla henni upp­lýs­ing­um og efniviði í lær­dóms­ríkt vega­nesti“ má spyrja hvers vegna hann hélt því leyndu að hann hefði tekið að sér að reka er­indi fyr­ir rík­is­stjórn­ina í ESB-aðild­ar­ferl­inu.

Þetta brall til að koma sér aft­ur í mjúk­inn hjá Jó­hönnu eft­ir fyrri Ices­a­ve-at­kvæðagreiðsluna heppnaðist.

Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son (SDG) formaður Miðflokks­ins var nýorðinn formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins 1. fe­brú­ar 2009 þegar ÓRG gerði Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að for­sæt­is­ráðherra í minni­hluta­stjórn Sam­fylk­ing­ar með VG. Stjórn­in hefði aldrei verið mynduð nema með samþykki fram­sókn­ar­manna og SDG. Dag­bók­in ber hins veg­ar með sér að Jó­hanna lagði fæð á SDG. Stein­grím­ur J., fjár­málaráðherra og formaður VG, sagði við ÓRG strax í mars 2009 að SDG væri „ekki að gera sig, virkaði jafn­vel nokkuð skrít­inn“ (113).

Ní­unda ág­úst 2009 sagði Össur við ÓRG „að ef ekki væri fyr­ir SDG þá væri auðvelt að kippa Fram­sókn­ar­flokkn­um inn í stjórn­ina“. Jó­hanna vildi hins veg­ar ekki vinna með hon­um og fundaði frek­ar með Sjálf­stæðis­flokkn­um (156).

Í maí 2010 er síðan svo komið að Össur seg­ir við ÓRG að sér líki mun bet­ur við SDG en Jó­hönnu. „Það væri for­ystu­tóma­rúm í land­inu,“ sagði Össur og velti fyr­ir sér kosn­ing­um. „Þetta var fínt sam­tal við ÖS og gott að geta átt slík trúnaðarsam­töl við hann,“ seg­ir ÓRG við dag­bók­ina 4. maí 2010 (255). Og 15. júní 2010 skrifaði ÓRG:

„Ég spurði hann [Össur] þá beint: Ef JS [Jó­hanna] gefst upp og ég fæli hon­um að mynda rík­is­stjórn, hvort hann teldi að sér tæk­ist það, þ.e. með Frs­fl. og Sjst­fl.. Játaði ÖS því og var mjög flatteraður yfir þess­ari hug­mynd. „Þú ert að tryggja að ég fari glaður af þess­um fundi,“ sagði hann hlæj­andi.“ Áður hafði Össur sagt að fram­sókn­ar­menn­irn­ir SDG og Birk­ir Jón „væru oft að tala við sig“ (267).

Þarna leggja þeir fé­lag­ar á ráðin um ann­an kost en sitj­andi rík­is­stjórn eft­ir að fyrri Ices­a­ve-samn­ing­ur­inn hafði verið felld­ur. Össur neydd­ist til að setja ESB-málið á ís og hann varð aldrei for­sæt­is­ráðherra. Jó­hanna sat út kjör­tíma­bilið.

Um­skipt­ing­ur

Lokakafli bók­ar­inn­ar er um aðdrag­anda og af­leiðing­ar þess að ÓRG neitaði að skrifa und­ir seinni Ices­a­ve-lög Jó­hönnu­stjórn­ar­inn­ar en þau voru felld í þjóðar­at­kvæðagreiðslu 9. apríl 2011.

ÓRG talaði á fjöl­menn­um fundi í Kaup­manna­höfn skömmu síðar og taldi að sér hefði tek­ist að halda á málstað sín­um á „in­tell­ektúal hátt“ og verið vel tekið. Hon­um þótti „líka merki­legt“ hve fólk sýndi hon­um mikið þakk­læti í Kefla­vík og á Kast­rup eða í flug­vél­inni. Hann hefði ekki áður fundið slík viðbrögð. „Það er greini­legt að þetta hef­ur haft djúp áhrif á þjóðarsál­ina.“ Hrifn­ing­in næði þó ekki til gam­alla vina sinna og fé­laga. Mörður Árna­son, þingmaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, hefði litið und­an í flug­stöðinni til að þurfa ekki að heilsa sér. „Sama gild­ir um flesta sem voru mín­ir helstu stuðnings­menn áður! Fórn­ar­kostnaður­inn er tölu­verður,“ sagði hann dag­bók­inni 14. apríl 2011.

Nokkr­um dög­um síðar, 17. apríl, sagði hann að Svan­ur Kristjáns­son hefði reynt að út­skýra á Rás 2 að ÓRG hefði „farið gegn stjórn­ar­skránni!“ Hann hefði farið gegn samn­ings­leiðinni og með dóm­stóla­leiðinni. ÓRG sagðist hafa hringt í Svan og beðið hann um til­vitn­an­ir í sig þar sem hann styddi dóm­stóla­leiðina. Svan­ur hefði svarað með tölvu­pósti og stutt­um „skæt­ingi“ en eng­um til­vitn­un­um. „Þessu liði er ekki sjálfrátt!“ skrifaði ÓRG hneykslaður (332-333).

Á ystu nöf

Hér verður ekki meira sagt um efni þess­ar­ar bók­ar. Þar birt­ist drama­tískt póli­tískt sjón­arspil. Oft­ar en einu sinni kem­ur fram að þeir sem standa ÓRG næst hvetja hann til að fara ekki fram úr sér; hlaupa ekki á sig í kapp­semi sinni. Gerði hann það með því að birta dag­bæk­urn­ar? Hann er á ystu nöf. Bók­in verður ör­ugg­lega seint tal­in hand­bók um góða stjórn­ar­hætti á Bessa­stöðum.

Dæm­in sem nefnd eru hér að ofan eru ekki val­in af handa­hófi. Hvert um sig lýs­ir raun­veru­leg­um at­b­urðum og seg­ir mikla sögu um beit­ingu for­seta­valds­ins eða mis­beit­ingu en ekk­ert um þjóðina eins og ætla mætti af heiti bók­ar­inn­ar.

Í bók­inni eru mynd­ir af einka­skjöl­um ÓRG, tíma­lín­ur vegna fjöl­miðlalag­anna og Ices­a­ve-lag­anna auk nafna­skrár. Þar er a.m.k. ein villa: Þórir Gunn­ars­son, fyrrv. ræðismaður í Prag, er sagður Guðmunds­son (230). Þá skrif­ar ÓRG inn­gang og í lok­in veg­vísi fyr­ir þá sem vilja nota það sem hann seg­ir sem for­dæmi.

Meg­ingalli bók­ar­inn­ar er lé­leg leiðsögn fyr­ir les­and­ann. Það skort­ir gagn­orða texta sem setja það sem sagt er frá í dag­bók­inni í sam­hengi við at­b­urði líðandi stund­ar, utan hug­ar­heims Ólafs Ragn­ars Gríms­son­ar. Fyr­ir bragðið detta menn stund­um inn í fram­andi at­b­urðarás án þess að fóta sig til fulln­ustu.