Þýsk harka gegn hælisleitendum
Morgunblaðið, laugardagur 21. september 2024
Útlendingamál ber nú hátt á vettvangi stjórnmála víða um lönd. Ný ríkisstjórn í Hollandi vill fá fyrirvara vegna aðildarinnar að ESB til að ná betri stjórn á streymi fólks til landsins. Sænska ríkisstjórnin hefur gripið til ráðstafana sem hafa strax minnkað streymi hælisleitenda til Svíþjóðar og ætlar hún að ganga enn lengra.
Í Þýskalandi varð morðárás sýrlensks hælisleitanda sem hafði verið neitað um hæli til þess að þriggja flokka stjórn Olafs Scholz kúventi í útlendingamálum. Sýrlendingurinn, sem tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams, myrti þrjá með hnífi í Solingen, skammt frá Düsseldorf, 23. ágúst. Uppnám varð meðal almennings og á stjórnmálavettvangi.
Ákveðið var að frá og með mánudeginum 16. september yrði í gildi landamæraeftirlit í að minnsta kosti sex mánuði gagnvart þeim sem koma frá öllum löndunum níu sem eiga land að Þýskalandi.
Morðin í Solingen kunna að hafa ýtt undir fylgisaukningu þjóðernisflokksins Alternative fûr Deutschland (AfD) í kosningum til þinga í sambandslöndunum Thüringen og Saxlandi 1. september.
Ríkisstjórn Þýskalands býr við þverrandi stuðning. Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz kanslari brást strax við Solingen-morðunum með yfirlýsingu um að herða yrði reglur um vopnaburð og standa betur að brottflutningi þeirra sem hefði verið neitað um hælisvist.
Eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu hélt Scholz þingræðu þar sem hann boðaði þáttaskil í þýskum varnarmálum og stóraukin útgjöld til þeirra. Nú sneri hann við blaðinu í útlendingamálum. Hann sagði stjórn sína verða að gera allt í hennar valdi til að tryggja að þeir sem ættu ekki og mættu ekki vera í Þýskalandi yrðu fluttir úr landi. Brottflutningi yrði hraðað, þætti það nauðsynlegt.
Friedrich Merz, formaður mið-hægri Kristilega demókrataflokksins (CDU), stærsta stjórnarandstöðuflokksins, hitti Scholz 27. ágúst á 70 mínútna sögulegum fundi, sem blöðin kalla síðan Solingen-toppfundinn. Merz lagði hart að kanslaranum að stöðva komu Afgana og Sýrlendinga til landsins og allra sem kæmu án þess að hafa sótt um heimild til þess.
Það vakti sérstaka athygli að Merz sagðist hafa boðið Scholz að vinna með honum að því að móta nýja útlendingastefnu jafnvel án þess að fulltrúar flokkanna, Græningja og Frjálslyndra, sem sitja með jafnaðarmönnum í stjórn, kæmu þar að verki. Hefði Scholz tekið tilboðinu jafngilti það endalokum stjórnarsamstarfsins.
Krafa Merz um að lýst yrði neyðarástandi í Þýskalandi vegna stöðunnar í útlendingamálum hlaut ekki hljómgrunn.
Samhliða því sem samtöl stjórnmálamanna og aðgerðir við landamærin hafa að markmiði að tryggja öryggi íbúa Þýskalands eru þýsku flokkarnir einnig að skapa sér stöðu með tilliti til kosninga til sambandsþingsins í september á næsta ári.
Solingen-toppfundurinn var haldinn í vikunni fyrir þingkosningarnar í Thüringen og Saxlandi. Hann kann að hafa haft áhrif á streymi fylgis til AfD. Þótt úrslitin væru flokknum mjög hagstæð komst hann ekki í þá valdastöðu sem ýmsar spár sýndu.
Eftir úrslitin 1. september sáu stjórnarflokkarnir og kristilegu flokkarnir, CDU/CSU, enn meiri ástæðu en ella til að herða sig í útlendingamálunum.
Miklar vangaveltur hafa verið um kanslaraefni kristilegu flokkanna, CDU/CSU. Þriðjudaginn 18. september var ákveðið að gamli höfuðandstæðingur Angelu Merkel innan CDU, Friederich Merz, yrði kanslaraefni þeirra í kosningunum 2025. Markus Söder, forsætisráðherra Bæjaralands, leiðtogi kristilegra sósíalflokksins CSU, hefur samþykkt Merz og þar með slegið öll innri átök um þetta efni út af borðinu. [Hér hef breytt texta frá því greinin birtist í Morgunblaðinu en þar er talað um kristilega sósíalista, sem flokkurinn er ekki, hann er félagslega sinnaður (sozial)]
Þinghúsið _ Reichstag _ í Berlín.
Nú blasir við einvígi um kanslarastólinn milli Friederichs Merz og Olafs Scholz. Sé litið á fylgi flokkanna er Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) í mikilli lægð með aðeins 14-15% fylgi en CDU/CSU nýtur stuðnings um 33%. Þegar kemur að traustinu í garð þeirra Merz og Scholz sýnir nýleg könnun hins vegar að þeir standa jafnir með 26% stuðning hvor um sig.
Í þýska vikublaðinu Die Zeit birtist fimmtudaginn 12. september niðurstaða í skoðanakönnun sem sýnir að straumur hælisleitenda er efst á blaði þegar spurt er um það sem valdi Þjóðverjum mestum áhyggjum. Næst er verðbólga, loftslagsbreytingar og aukinn ójöfnuður. Fólk óttast fjölgun afbrota, aukin félagsleg útgjöld og meiri hægri öfgahyggju verði ekki gripið til einhverra ráða.
Þess vegna vilja hvorki meira né minna en 82% aðspurðra í könnuninni að þýska ríkið stöðvi straum ólöglegs aðkomufólks, hlutfallið er aðeins hærra í eystri hluta landsins en þeim vestari.
Nú sunnudaginn 22. september verður kosið til landsþingsins í Brandenburg. Þar er mikið í húfi fyrir SPD. Flokkurinn hefur verið stærsti flokkurinn í Brandenburg frá sameiningu Þýskalands og leiðir nú ríkisstjórn þar með CDU og Græningjum. Spár sýna að nú fái AfD mest fylgi og SPD verði í öðru sæti.
Lítum okkur nær. Skýr merki eru um áhrif hertra laga og skarpari gæslu. Hælisumsóknir eru 50% færri en á sama tíma í fyrra. Frávísanir á landamærunum hafa nífaldast á örfáum árum. Undanfarið eru brottvísanir langt yfir 200 á mánuði. Í fyrra tókst mest að vísa frá 61 á mánuði fyrir utan skipulagt flug til Venesúela, þá var fjöldinn um 230. Efnislegt mat á umsókn veiks barns breytir ekki stóru myndinni.
Við höfum þó aðeins náð í skottið á nýjum reglum annarra landa. Betur má ef duga skal. Brambolti og argaþrasi til að grafa undan framkvæmd haldfastra útlendingalaga má líkja við skemmdarverk.