Þríeyki bolar Drífu frá ASÍ
Morgunblaðið, laugardagur 13. ágúst 2022.
Brottför Drífu Snædal úr stóli forseta Alþýðusambands Íslands, miðvikudaginn 10. ágúst, má rekja til ágreinings verkalýðsforingja um innri mál sambandsins sem magnast hefur undanfarin ár.
Átökin eru milli fylkinga forseta ASÍ og formanns Eflingar. Sólveig Anna Jónsdóttir varð formaður Eflingar-stéttarfélags 26. apríl 2018. Réttu hálfu ári síðar, í október 2018, hlaut Drífa Snædal kjör sem forseti ASÍ. Í kringum þær urðu til átakahópar, valdablokkir.
Frá árinu 2012 var Drífa framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands (SGS). Efling er stærsta félagið innan SGS. Sólveig Anna hlýtur því að hafa stutt Drífu til forsetaembættisins. Skildi leiðir síðan með svikabrigslum. Ástandið versnaði stig af stigi. Drífa sagði loks í afsagnartilkynningu sinni:
„Átök innan ASÍ hafa ... verið óbærileg og dregið úr vinnugleði og baráttuanda. Þegar við bætast ákvarðanir og áherslur einstakra stéttarfélaga, sem fara þvert gegn minni sannfæringu, er ljóst að mér er ekki til setunnar boðið. Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki samleið með í baráttunni.“
Sólveig Anna hrökklaðist úr formennsku Eflingar haustið 2021 vegna uppreisnar starfsfólks á skrifstofu félagsins. Hún bauð sig síðan fram að nýju og náði endurkjöri í febrúar 2022.
Þeir sem fylgdust með skrifum helstu samherja Sólveigar Önnu innan ASÍ, Ragnars Þórs Ingólfssonar í VR og Vilhjálms Birgissonar á Akranesi, í aðdraganda kosninganna í Eflingu í febrúar, sáu að þeir töldu endurkjör Sólveigar Önnu treysta þeirra eigin stöðu. Þeir fengju sóknarstöðu gegn Drífu Snædal.
Þríeykið: Ragnar Þór Ingólfsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson (mynd:mbl.is).
Ragnar Þór, einn af varaforsetum ASÍ, birti grein á vefsíðunni Vísi 10. febrúar 2022 þar sem hann lýsti ömurlegu andrúmslofti og starfsháttum innan ASÍ, sagði „bullandi“ og „ógeðslega“ pólitík í verkalýðshreyfingunni. Hún hefði raunar verið „ógeðsleg þau 13 ár“ sem hann hefði starfað þar.
Ógeðslega pólitíkin, falinn rógburður og baktjaldamakk væri að mestu stundað af fólki í felum. Sumir væru þó vel þekktir en færu fínt með það. Þetta fólk deildi níðskrifum á samfélagsmiðlum og tæki undir þau þegar rætt væri um þá sem ógnuðu þeim, eins og Sólveigu Önnu.
Þegar Drífa var spurð af Ríkisútvarpinu um þessa ádeilu Ragnars Þórs, sagðist hún ekki „festa fingur“ á málefnalegum ágreiningi innan ASÍ og þau Ragnar Þór hittust „mjög títt“ og töluðu saman.
Vilhjálmur Birgisson tók undir með Ragnari Þór og sagði að „hatrið og níðið“ í garð þeirra sem gagnrýndu stefnu ASÍ væri „grímulaust“.
Eftir að Sólveig Anna náði endurkjöri sagði Vilhjálmur á Facebook, 17. febrúar 2022, að hún yrði strax að byrja á þeim „umbótaverkefnum“ sem hún teldi nauðsynleg. Eitt af þeim væri að skipta „um æðstu forystu innan SGS sem og ASÍ!“. Var Vilhjálmur sjálfur kjörinn formaður SGS í mars 2022.
Nú telja Sólveig Anna, Ragnar Þór og Vilhjálmur sig hafa öll ráð ASÍ í sínum höndum. Sólveig Anna segist ekki hafa áhuga á forsetaembættinu. Ragnar Þór útilokar ekkert. Þríeykið á efsta valdastalli ASÍ náði æðsta markmiði sínu: Þau flæmdu Drífu á brott. Nú vilja þau ráða arftakanum.
Sólveig Anna þarf sviðna jörð til að hún njóti sín. Skýrslur um kjaramál, sem eru henni ekki að skapi, fara „beint í tætarann“. Forseti ASÍ, sem hún þolir ekki, skal víkja. Starfsfólk á skrifstofu Eflingar á að sitja og standa eins og formaðurinn vill, annars er það rekið.
Í afsagnaryfirlýsingu sinni sagði Drífa Snædal:
„Þegar stjórn Eflingar stóð fyrir hópuppsögn á skrifstofu félagsins, sá ég mig knúna til að mótmæla þeim, enda hefur verkalýðshreyfingin barist gegn hópuppsögnum í tímans rás. Ég þurfti einnig að bregðast við linnulausri, en óljósri gagnrýni formanns VR á mín störf.“
Þetta er samfelld sorgarsaga.
Valdabaráttan innan ASÍ er háð án tengsla við almenna félagsmenn í hreyfingunni. Forystumennirnir þurfa engar áhyggjur að hafa af brotthvarfi félagsmanna, að þeir taki pokann sinn, eins og Drífa. Hvergi í heimi er meiri þátttaka í verkalýðsfélögum en hér, liðlega 92%.
Það er skylduaðild að stéttarfélögum opinberra starfsmanna. Hvað sem líður félagafrelsi, er óformleg skylduaðild á almennum vinnumarkaði vegna forgangsréttarákvæða kjarasamninga sem tryggja stéttarfélögum tekjur og völd, á silfurbakka. Til þessara forréttinda verkalýðsfélaga má einnig rekja að hér eru stéttarfélög um 130.
Ragnar Þór Ingólfsson lítur auk þess á sig sem skuggastjórnanda Lífeyrissjóðs verslunarmanna og beitti sér gegn fjárfestingum hans í Icelandair á Covid-tímanum. Hann talaði á sínum tíma um að stofna stjórnmálaflokk.
Sólveig Anna stóð að stofnun Sósíalistaflokks Íslands. Barðist hún til valda í Eflingu í ársbyrjun 2018 með sósíalískum flokksbræðrum sínum, Viðari Þorsteinssyni og Gunnari Smára Egilssyni. Hvorugur er sýnilegur núna.
Þegar forystumenn þriggja verkalýðsfélaga hafa flæmt forseta ASÍ á brott, verða fylkingarnar innan sambandsins að þétta raðirnar vegna ASÍ-þings í október. Þær verða einnig að ákveða hvernig staðið verði að komandi kjaraviðræðum. Við gerð kjarasamninga skiptir svonefnt samflot aðildarfélaga ASÍ sköpum þegar samið er í upphafi við Samtök atvinnulífsins (SA). Sjálfri sér samkvæm sætti Sólveig Anna sig ekki við samflot við gerð lífskjarasamninganna og háði sitt einkastríð.
Hvenær liggur fyrir af hálfu verkalýðshreyfingarinnar hvort stofnað verður til samflots núna? Hver beitir sér fyrir því þegar ASÍ er forsetalaust – þríeykið? Ábyrgð þess er mikil.