13.8.2022

Þríeyki bolar Drífu frá ASÍ

Morgunblaðið, laugardagur 13. ágúst 2022.

Brott­för Drífu Snæ­dal úr stóli for­seta Alþýðusam­bands Íslands, miðviku­dag­inn 10. ág­úst, má rekja til ágrein­ings verka­lýðsfor­ingja um innri mál sam­bands­ins sem magn­ast hef­ur und­an­far­in ár.

Átök­in eru milli fylk­inga for­seta ASÍ og for­manns Efl­ing­ar. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir varð formaður Efl­ing­ar-stétt­ar­fé­lags 26. apríl 2018. Réttu hálfu ári síðar, í októ­ber 2018, hlaut Drífa Snæ­dal kjör sem for­seti ASÍ. Í kring­um þær urðu til átaka­hóp­ar, valda­blokk­ir.

Frá ár­inu 2012 var Drífa fram­kvæmda­stjóri Starfs­greina­sam­bands Íslands (SGS). Efl­ing er stærsta fé­lagið inn­an SGS. Sól­veig Anna hlýt­ur því að hafa stutt Drífu til for­seta­embætt­is­ins. Skildi leiðir síðan með svika­brigsl­um. Ástandið versnaði stig af stigi. Drífa sagði loks í af­sagn­ar­til­kynn­ingu sinni:

„Átök inn­an ASÍ hafa ... verið óbæri­leg og dregið úr vinn­ugleði og bar­áttu­anda. Þegar við bæt­ast ákv­arðanir og áhersl­ur ein­stakra stétt­ar­fé­laga, sem fara þvert gegn minni sann­fær­ingu, er ljóst að mér er ekki til set­unn­ar boðið. Ég treysti mér ekki til að vinna með fólki sem ég á ekki sam­leið með í bar­átt­unni.“

Sól­veig Anna hrökklaðist úr for­mennsku Efl­ing­ar haustið 2021 vegna upp­reisn­ar starfs­fólks á skrif­stofu fé­lags­ins. Hún bauð sig síðan fram að nýju og náði end­ur­kjöri í fe­brú­ar 2022.

Þeir sem fylgd­ust með skrif­um helstu sam­herja Sól­veig­ar Önnu inn­an ASÍ, Ragn­ars Þórs Ing­ólfs­son­ar í VR og Vil­hjálms Birg­is­son­ar á Akra­nesi, í aðdrag­anda kosn­ing­anna í Efl­ingu í fe­brú­ar, sáu að þeir töldu end­ur­kjör Sól­veig­ar Önnu treysta þeirra eig­in stöðu. Þeir fengju sókn­ar­stöðu gegn Drífu Snæ­dal.

T1103974Þríeykið: Ragnar Þór Ingólfsson, Sólveig Anna Jónsdóttir og Vilhjálmur Birgisson (mynd:mbl.is).

Ragn­ar Þór, einn af vara­for­set­um ASÍ, birti grein á vefsíðunni Vísi 10. fe­brú­ar 2022 þar sem hann lýsti öm­ur­legu and­rúms­lofti og starfs­hátt­um inn­an ASÍ, sagði „bullandi“ og „ógeðslega“ póli­tík í verka­lýðshreyf­ing­unni. Hún hefði raun­ar verið „ógeðsleg þau 13 ár“ sem hann hefði starfað þar.

Ógeðslega póli­tík­in, fal­inn róg­b­urður og baktjalda­makk væri að mestu stundað af fólki í fel­um. Sum­ir væru þó vel þekkt­ir en færu fínt með það. Þetta fólk deildi níðskrif­um á sam­fé­lags­miðlum og tæki und­ir þau þegar rætt væri um þá sem ógnuðu þeim, eins og Sól­veigu Önnu.

Þegar Drífa var spurð af Rík­is­út­varp­inu um þessa ádeilu Ragn­ars Þórs, sagðist hún ekki „festa fing­ur“ á mál­efna­leg­um ágrein­ingi inn­an ASÍ og þau Ragn­ar Þór hitt­ust „mjög títt“ og töluðu sam­an.

Vil­hjálm­ur Birg­is­son tók und­ir með Ragn­ari Þór og sagði að „hatrið og níðið“ í garð þeirra sem gagn­rýndu stefnu ASÍ væri „grímu­laust“.

Eft­ir að Sól­veig Anna náði end­ur­kjöri sagði Vil­hjálm­ur á Face­book, 17. fe­brú­ar 2022, að hún yrði strax að byrja á þeim „um­bóta­verk­efn­um“ sem hún teldi nauðsyn­leg. Eitt af þeim væri að skipta „um æðstu for­ystu inn­an SGS sem og ASÍ!“. Var Vil­hjálm­ur sjálf­ur kjör­inn formaður SGS í mars 2022.

Nú telja Sól­veig Anna, Ragn­ar Þór og Vil­hjálm­ur sig hafa öll ráð ASÍ í sín­um hönd­um. Sól­veig Anna seg­ist ekki hafa áhuga á for­seta­embætt­inu. Ragn­ar Þór úti­lok­ar ekk­ert. Þríeykið á efsta vald­astalli ASÍ náði æðsta mark­miði sínu: Þau flæmdu Drífu á brott. Nú vilja þau ráða arf­tak­an­um.

Sól­veig Anna þarf sviðna jörð til að hún njóti sín. Skýrsl­ur um kjara­mál, sem eru henni ekki að skapi, fara „beint í tæt­ar­ann“. For­seti ASÍ, sem hún þolir ekki, skal víkja. Starfs­fólk á skrif­stofu Efl­ing­ar á að sitja og standa eins og formaður­inn vill, ann­ars er það rekið.

Í af­sagn­ar­yf­ir­lýs­ingu sinni sagði Drífa Snæ­dal:

„Þegar stjórn Efl­ing­ar stóð fyr­ir hópupp­sögn á skrif­stofu fé­lags­ins, sá ég mig knúna til að mót­mæla þeim, enda hef­ur verka­lýðshreyf­ing­in bar­ist gegn hópupp­sögn­um í tím­ans rás. Ég þurfti einnig að bregðast við linnu­lausri, en óljósri gagn­rýni for­manns VR á mín störf.“

Þetta er sam­felld sorg­ar­saga.

Valda­bar­átt­an inn­an ASÍ er háð án tengsla við al­menna fé­lags­menn í hreyf­ing­unni. For­ystu­menn­irn­ir þurfa eng­ar áhyggj­ur að hafa af brott­hvarfi fé­lags­manna, að þeir taki pok­ann sinn, eins og Drífa. Hvergi í heimi er meiri þátt­taka í verka­lýðsfé­lög­um en hér, liðlega 92%.

Það er skylduaðild að stétt­ar­fé­lög­um op­in­berra starfs­manna. Hvað sem líður fé­laga­frelsi, er óform­leg skylduaðild á al­menn­um vinnu­markaði vegna for­gangs­rétt­ar­á­kvæða kjara­samn­inga sem tryggja stétt­ar­fé­lög­um tekj­ur og völd, á silf­ur­bakka. Til þess­ara for­rétt­inda verka­lýðsfé­laga má einnig rekja að hér eru stétt­ar­fé­lög um 130.

Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son lít­ur auk þess á sig sem skugga­stjórn­anda Líf­eyr­is­sjóðs versl­un­ar­manna og beitti sér gegn fjár­fest­ing­um hans í Icelanda­ir á Covid-tím­an­um. Hann talaði á sín­um tíma um að stofna stjórn­mála­flokk.

Sól­veig Anna stóð að stofn­un Sósí­al­ista­flokks Íslands. Barðist hún til valda í Efl­ingu í árs­byrj­un 2018 með sósíal­ísk­um flokks­bræðrum sín­um, Viðari Þor­steins­syni og Gunn­ari Smára Eg­ils­syni. Hvor­ug­ur er sýni­leg­ur núna.

Þegar for­ystu­menn þriggja verka­lýðsfé­laga hafa flæmt for­seta ASÍ á brott, verða fylk­ing­arn­ar inn­an sam­bands­ins að þétta raðirn­ar vegna ASÍ-þings í októ­ber. Þær verða einnig að ákveða hvernig staðið verði að kom­andi kjaraviðræðum. Við gerð kjara­samn­inga skipt­ir svo­nefnt sam­flot aðild­ar­fé­laga ASÍ sköp­um þegar samið er í upp­hafi við Sam­tök at­vinnu­lífs­ins (SA). Sjálfri sér sam­kvæm sætti Sól­veig Anna sig ekki við sam­flot við gerð lífs­kjara­samn­ing­anna og háði sitt einka­stríð.

Hvenær ligg­ur fyr­ir af hálfu verka­lýðshreyf­ing­ar­inn­ar hvort stofnað verður til sam­flots núna? Hver beit­ir sér fyr­ir því þegar ASÍ er for­seta­laust – þríeykið? Ábyrgð þess er mik­il.