Þorvaldur Búason - minningarorð
Morgunblaðið, laugardagur 22. október 2022.
Þorvaldur Búason 11. mars 1937- 6. október 2022. Útför Þorvaldar var gerð frá Breiðholtskirkju
20. október 2022.
Undir lok sjöunda áratugarins kynntumst við Þorvaldur Búason þegar hann var í forystu Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE) og ég sat í formennsku Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Urðum við samstarfsmenn þegar hann varð fyrsti stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta sem stofnuð var með lögum árið 1968 og kom það því í hans hlut að ýta þessu farsæla þjónustufyrirtæki úr höfn. Félagsstofnunin hefur síðan orðið að meira stórveldi en nokkurn okkar sem áttum hlut að upphafi hennar gat boðið í grun þótt við gerðum okkur góða grein fyrir mikilvægu hlutverki hennar.
Í vönduðum vinnubrögðum sem Þorvaldur tileinkaði sér var aldrei slakað á ýtrustu kröfum og hverjum steini velt til að finna vel rökstudda niðurstöðu. Þetta einkenndi störf hans í stjórn Félagsstofnunar stúdenta og hvarvetna annars staðar þar sem hann lét að sér kveða í samstarfi okkar í meira en hálfa öld.
Eftir að ég varð menntamálamálaráðherra 1995 varð hann ráðgjafi minn og ráðuneytisins á mörgum sviðum. Skömmu eftir að mér hafði verið falið embættið fórum við nokkur saman vestur í Breiðavík en Þorvaldur átti sér þá griðastað á Látrum þangað sem hann átti ættir að rekja. Vörðum við nokkrum dögum í nágrenni Látrabjargs við að brjóta viðfangsefni ráðuneytisins til mergjar og átta okkur á hvaða leiðir væru bestar til að ná árangri á starfssviði þess.
Á árunum sem síðan fylgdu urðu margvíslegar breytingar, ekki síst á skipulagi háskóla, rannsókna og vísinda þar sem farið var inn á nýjar brautir. Enginn árangur hefði náðst í því efni án nýrra aðferða við ráðstöfun á opinberu fé til æðri menntunar og haldgóðs reiknilíkans sem nýttist í því skyni. Grunnur var lagður að því að ríkið greiddi fyrir æðri menntun án tillits til þess hvort skóli væri rekinn af ríkinu eða einkaaðila. Þarna reyndi mjög á vandvirkni og rökfesti Þorvalds. Við sem fylgdum málinu fram höfðum ávallt fast land undir fótum með vísan til þess sem frá honum kom.
Það varð síður en svo til að spilla samskiptum okkar að við vorum sammála um meginskoðanir í stjórnmálum. Þegar Þorvaldur og félagar hans söfnuðu á fáeinum vikum 55.522 undirskriftum undir merkjum Varins lands fyrri hluta árs 1974 var þannig um hnúta búið við söfnun, skráningu og varðveislu gagna að aldrei lék neinn vafi á að rétt og af fyllsta öryggi væri að öllu staðið. Þar réð nákvæmni og vandvirkni Þorvalds miklu.
Áratugum saman hittumst við reglulega í hádegisverði með fleiri félögum og ræddum landsins gagn og nauðsynjar. Frómari manni en Þorvaldi hef ég ekki kynnst. Hann var fastur fyrir en sanngjarn, vildi hvorki að réttu máli væri hallað né láta því ómótmælt væri það gert. Mátum við félagar hann mikils og kveðjum vin okkar með söknuði og samúðarkveðjum til Kristínar, konu hans, sona og fjölskyldu allrar.
Blessuð sé minning Þorvalds Búasonar.