3.5.2025

Þolgóð þjóð að sligast

Morgunblaðið, laugardagur 3. maí 2025

Ástand Íslands um 1700 – Lífs­hætt­ir í bænda­sam­fé­lagi ★★★★★ Höf­und­ar: Árni Daní­el Júlí­us­son, Björg­vin Sig­urðsson, Guðmund­ur Jóns­son, Ingi­björg Jóns­dótt­ir, Ólöf Garðars­dótt­ir, Óskar Guðlaugs­son og Sig­ríður Hjör­dís Jör­unds­dótt­ir. Rit­stjórn Guðmund­ur Jóns­son. Inn­bund­in og kilja, 442 bls. Sögu­fé­lag, 2024.
Í upp­hafi málþings Sagn­fræðistofn­un­ar Há­skóla Íslands 1. fe­brú­ar 2025, í til­efni af út­gáfu bók­ar­inn­ar Ástand Íslands um 1700 – Lífs­hætt­ir í bænda­sam­fé­lagi var til­kynnt að aðeins væru fá­an­leg fimm ein­tök af bók­inni. Sala henn­ar hefði verið góð og á næst­unni yrði hún end­ur­prentuð og gef­in út í kilju. Sögu­fé­lag sendi kilj­una á markað nú í apríl.

Á málþing­inu var auk umræðna um þetta merka fram­lag til Íslands­sög­unn­ar opnuð ný út­gáfa af vefsíðunni 1703.is. Þar er um að ræða Gagna­grunn um sam­fé­lags­gerð Íslands 1703 (GUS-1703), rann­sókn­ar­verk­efni sem sjö manna hóp­ur sagn­fræðinga og land­fræðinga vann að í Há­skóla Íslands, HÍ, 2017-2024. Mark­mið rann­sókn­ar­inn­ar var að afla þekk­ing­ar á lífs­hátt­um og fé­lags­gerð bænda­sam­fé­lags­ins fyrr á öld­um og voru árin í kring­um alda­mót­in 1700 í brenni­depli vegna ein­stak­lega ít­ar­legra skýrslna um þjóðar­hagi frá þeim tíma.

2256f8c3-f52e-49d3-aee8-6e5d044269db

Afrakst­ur rann­sókn­ar­inn­ar er birt­ur í bók­inni Ástand Íslands um 1700 und­ir rit­stjórn Guðmund­ar Jóns­son­ar, pró­fess­ors í sagn­fræði við HÍ. Auk hans komu að verk­inu: Árni Daní­el Júlí­us­son, sér­fræðing­ur við Sagn­fræðistofn­un HÍ; Björg­vin Sig­urðsson, hug­búnaðarsér­fræðing­ur hjá Sam­tök­um sveit­ar­fé­laga; Ingi­björg Jóns­dótt­ir, dós­ent í land­fræði við HÍ; Ólöf Garðars­dótt­ir, pró­fess­or í fé­lags­sögu við HÍ; Óskar Guðlaugs­son, doktorsnemi í sagn­fræði við HÍ, og Sig­ríður Hjör­dís Jör­unds­dótt­ir, skjala­vörður á Þjóðskjala­safni Íslands.

Á Íslandi var linnu­lítið hallæri frá ár­inu 1680 til 1702. „Hallærið hafði stór­kost­leg áhrif á líf og hagi lands­manna, olli upp­lausn um nokk­urra ára skeið og hrakti þúsund­ir fjöl­skyldna frá býl­um sín­um, marg­ir fóru á ver­gang og dóu úr hungri og vos­búð,“ seg­ir Guðmund­ur Jóns­son í inn­gangi bók­ar­inn­ar (15).

Vegna þess­ara hörm­unga ákvað nýkrýnd­ur kon­ung­ur Dan­merk­ur, Friðrik IV., að skipa tvo menn, Árna Magnús­son pró­fess­or í Kaup­manna­höfn og hand­rita­safn­ara og Pál Vídalín vara­lög­mann, í nefnd til að gera nýja jarðabók yfir landið allt og at­huga hvað væri mann­lífi helst til bjarg­ar.

Jarðabók­in er kynnt þannig á 1703.is: Með hverri jörð átti að fylgja lýs­ing, nafn jarðar og ábú­anda henn­ar, verðmæti, leigu­gjald, leigukú­gildi og kvaðir þær sem á jörðinni hvíldu. Til­greina skyldi bú­stofn bænda og hvað jörðin gæti borið mikið. Við hverja jörð átti að til­greina fjölda hús­manna og hjá­leigu­bænda á jörðinni, landskuld þeirra og aðrar álög­ur. Einnig átti að skrá eyðijarðir og or­sak­ir þess að þær hefðu farið í eyði. Jarðabók­in er því ekki fast­eigna­skrá eins og eldri jarðabæk­ur held­ur ná­kvæm jarðalýs­ing. Jarðabók­in er varðveitt á Þjóðskjala­safni Íslands.

Gerð jarðabók­ar­inn­ar hófst 1702 en lauk ekki fyrr en 1714. Skýrslu­gerðin átti að taka mun skemmri tíma. Höf­und­arn­ir lentu hins veg­ar í útistöðum við marga og í mála­rekstri vegna álykt­ana sinna og ábend­inga. Það var kannski þessi 300 ára gamla reynsla sem varð til þess að lög­fest var að ekki yrði unnt að stofna til mála­rekst­urs gegn þeim sem sömdu rann­sókn­ar­skýrslu alþing­is vegna hruns­ins 2008?

Guðmund­ur Jóns­son seg­ir að jarðabók­ar­nefnd­in sé ekki aðeins ein­stök í sögu Íslands. Rann­sókn­ar­nefnd­ir á veg­um yf­ir­valda hafi verið sjald­séðar í veldi Dana­kon­ungs. Heim­ild­irn­ar sem aflað hafi verið af nefnd­inni eigi sér ekki hliðstæður í ís­lenskri sögu „og jafn­vel þótt víðar væri leitað í Evr­ópu á 18. öld“ (15).

Nú er þessi gamla bók og aðrar heim­ild­ir um Ísland frá því fyr­ir rúm­um 300 árum opnuð okk­ur í nýrri bók og með sta­f­rænni tækni á net­inu. Orðið jarðabók má segja of jarðbundið til lýs­ing­ar á öllu því merki­lega efni sem unnt er að bregða ljósi á með bók­ina að leiðar­vísi.

Lest­ur­inn um ástand Íslands verður ferðalag und­ir leiðsögn fræðimanna um ræt­ur sam­fé­lags sem bognaði en brotnaði ekki við ótrú­lega áraun. Áfallaþolið virðist óend­an­legt svo að notað sé tísku­orð úr sam­tím­an­um til að lýsa seiglu þjóðar sem var að slig­ast.

Að lokn­um inn­gangi og grein­argóðri lýs­ingu á aðferðum, heim­ild­um og úr­vinnslu gagna eru tvær rit­gerðir um sam­fé­lag og mann­fjölda á tím­um mik­illa harðinda vegna kulda og eld­gosa. Þá eru fjór­ar rit­gerðir um byggð og búsvæði; jarðir, býli og bú­staði; eign­ar­hald á jörðum og ójöfnuð; höfuðból og jarðagóss. Loks eru þrjár rit­gerðir um stétt­ir og stig­veldi; leiguliða og ábúðar­kjör þeirra og „hinn lægri lýð“ smá­bænda og sjó­manna. Í lok hverr­ar rit­gerðar er efni henn­ar dregið sam­an í niður­stöður. Kort, talna­efni og töfl­ur eru til skýr­ing­ar.

Útdrátt­ur er á ensku, höf­und­ar eru kynnt­ir og töflu­viðauki gef­ur sýn á það sem vinna má úr gagna­grunn­in­um. Skrár eru um heim­ild­ir, töfl­ur, mynd­rit, kort, mynd­ir, manna­nöfn, staðanöfn og efn­isorð.

Ýmis orð eru fram­andi, eins og eft­ir­liggj­ar­ar. Það voru ein­stak­ling­ar sem bjuggu yfir vetr­ar­tím­ann í búðum kaup­manna til þess að geta opnað búðina í neyð til að bjarga fólki. Amt­maður rök­studdi nauðsyn þeirra í skýrslu til yf­ir­valda í Kaup­manna­höfn í des­em­ber 1700 með því að lít­ill kaup­mátt­ur al­menn­ings leiddi til þess að ýms­ir auðugir menn, bæði ver­ald­leg­ir og kirkj­unn­ar, keyptu á sumr­in meiri vör­ur en þeir hefðu þörf fyr­ir. Vör­una seldu þeir síðan fólki í neyð um vet­ur á upp­sprengdu verði. Í apríl 1701 veitti kon­ung­ur kaup­mönn­um heim­ild til að hafa eft­ir­liggj­ara á Íslandi (96-97).

Emb­ætt­is­menn, prest­ar og dansk­ir kaup­menn voru for­rétt­inda­stétt­ir í land­inu. Mann­v­irðing­arstig­inn heima í héraði birt­ist í því að með alþing­is­samþykkt frá 1639 var mælt fyr­ir um að fyrst­ir til að versla við kaup­menn skyldu vera yf­ir­valds­menn, þá lögréttu­menn og síðast­ir bænd­ur. Land­eig­end­ur eða stönd­ug­ir lög­býl­is­bænd­ur voru í for­svari í störf­um hrepps­nefnda og í kirkj­um og veisl­um, ekki síst brúðkaups­veisl­um, þar réð virðing­arstaða sæta­skip­an og siðum. Meira að segja var reynt að stýra klæðaburði eft­ir efna­hag manna með laga­regl­um um skrúðklæðnað (281).

Íbúar lands­ins voru alls 50.140 árið 1703. Jarðeig­end­ur voru um 1.300 manns sem áttu góðan helm­ing allra jarðeigna í land­inu. Aðeins tæp­lega 300 ein­stak­ling­ar bjuggu þó á eign­ar­jörðum sín­um – all­ir hinir sátu á leigujörðum (295).

Lög­býl­is­bænd­ur voru tæp­lega 32 þúsund, af þeim voru lang­flest­ir leiguliðar; hjá­leigu­menn voru 16,5% þjóðar­inn­ar; þurra­búðar­menn 2,1%, hús­menn 2% en ómag­ar og flakk­ar­ar voru 7.313 eða 14,6% þjóðar­inn­ar (285-289).

Þess­ar töl­ur lýsa aðeins stóru drátt­un­um en þegar ástand lands­ins er greint blas­ir við flók­in og marg­brot­in þjóðlífs­mynd sem fróðlegt er að kynn­ast. Ekki er látið við það eitt sitja að lýsa því sem við blas­ir hér á landi held­ur er gripið til sam­an­b­urðar við önn­ur nor­ræn og evr­ópsk lönd.

Lög­um sam­kvæmt voru leiguliðar á Íslandi per­sónu­lega frjáls­ir menn, aðeins bundn­ir jarðeig­anda með leigu­mála. Stór hluti danskra leiguliða var hins veg­ar bund­inn átt­haga­fjötr­um eða sett­ur und­ir dómsvald lands­drottna (321).

Á fjöl­sótta sagn­fræðinga­fund­in­um sem nefnd­ur var hér í upp­hafi lýsti einn fund­ar­manna bók­inni sem bauta­steini í ís­lenskri sögu­rit­un.

Fram hjá þess­ari stór­fróðlegu bók verður ekki litið við rit­un Íslands­sög­unn­ar nú eft­ir út­komu henn­ar. Of snemmt er að segja hvernig hún breyt­ir viðhorfi okk­ar seinni tíma manna til sög­unn­ar. Hún mun þó ör­ugg­lega gera það.