Þolgóð þjóð að sligast
Morgunblaðið, laugardagur 3. maí 2025
Ástand Íslands um 1700 – Lífshættir í bændasamfélagi ★★★★★ Höfundar: Árni Daníel Júlíusson, Björgvin Sigurðsson, Guðmundur Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir, Ólöf Garðarsdóttir, Óskar Guðlaugsson og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir. Ritstjórn Guðmundur Jónsson. Innbundin og kilja, 442 bls. Sögufélag, 2024.Í upphafi málþings Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands 1. febrúar 2025, í tilefni af útgáfu bókarinnar Ástand Íslands um 1700 – Lífshættir í bændasamfélagi var tilkynnt að aðeins væru fáanleg fimm eintök af bókinni. Sala hennar hefði verið góð og á næstunni yrði hún endurprentuð og gefin út í kilju. Sögufélag sendi kiljuna á markað nú í apríl.
Á málþinginu var auk umræðna um þetta merka framlag til Íslandssögunnar opnuð ný útgáfa af vefsíðunni 1703.is. Þar er um að ræða Gagnagrunn um samfélagsgerð Íslands 1703 (GUS-1703), rannsóknarverkefni sem sjö manna hópur sagnfræðinga og landfræðinga vann að í Háskóla Íslands, HÍ, 2017-2024. Markmið rannsóknarinnar var að afla þekkingar á lífsháttum og félagsgerð bændasamfélagsins fyrr á öldum og voru árin í kringum aldamótin 1700 í brennidepli vegna einstaklega ítarlegra skýrslna um þjóðarhagi frá þeim tíma.
Afrakstur rannsóknarinnar er birtur í bókinni Ástand Íslands um 1700 undir ritstjórn Guðmundar Jónssonar, prófessors í sagnfræði við HÍ. Auk hans komu að verkinu: Árni Daníel Júlíusson, sérfræðingur við Sagnfræðistofnun HÍ; Björgvin Sigurðsson, hugbúnaðarsérfræðingur hjá Samtökum sveitarfélaga; Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði við HÍ; Ólöf Garðarsdóttir, prófessor í félagssögu við HÍ; Óskar Guðlaugsson, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ, og Sigríður Hjördís Jörundsdóttir, skjalavörður á Þjóðskjalasafni Íslands.
Á Íslandi var linnulítið hallæri frá árinu 1680 til 1702. „Hallærið hafði stórkostleg áhrif á líf og hagi landsmanna, olli upplausn um nokkurra ára skeið og hrakti þúsundir fjölskyldna frá býlum sínum, margir fóru á vergang og dóu úr hungri og vosbúð,“ segir Guðmundur Jónsson í inngangi bókarinnar (15).
Vegna þessara hörmunga ákvað nýkrýndur konungur Danmerkur, Friðrik IV., að skipa tvo menn, Árna Magnússon prófessor í Kaupmannahöfn og handritasafnara og Pál Vídalín varalögmann, í nefnd til að gera nýja jarðabók yfir landið allt og athuga hvað væri mannlífi helst til bjargar.
Jarðabókin er kynnt þannig á 1703.is: Með hverri jörð átti að fylgja lýsing, nafn jarðar og ábúanda hennar, verðmæti, leigugjald, leigukúgildi og kvaðir þær sem á jörðinni hvíldu. Tilgreina skyldi bústofn bænda og hvað jörðin gæti borið mikið. Við hverja jörð átti að tilgreina fjölda húsmanna og hjáleigubænda á jörðinni, landskuld þeirra og aðrar álögur. Einnig átti að skrá eyðijarðir og orsakir þess að þær hefðu farið í eyði. Jarðabókin er því ekki fasteignaskrá eins og eldri jarðabækur heldur nákvæm jarðalýsing. Jarðabókin er varðveitt á Þjóðskjalasafni Íslands.
Gerð jarðabókarinnar hófst 1702 en lauk ekki fyrr en 1714. Skýrslugerðin átti að taka mun skemmri tíma. Höfundarnir lentu hins vegar í útistöðum við marga og í málarekstri vegna ályktana sinna og ábendinga. Það var kannski þessi 300 ára gamla reynsla sem varð til þess að lögfest var að ekki yrði unnt að stofna til málareksturs gegn þeim sem sömdu rannsóknarskýrslu alþingis vegna hrunsins 2008?
Guðmundur Jónsson segir að jarðabókarnefndin sé ekki aðeins einstök í sögu Íslands. Rannsóknarnefndir á vegum yfirvalda hafi verið sjaldséðar í veldi Danakonungs. Heimildirnar sem aflað hafi verið af nefndinni eigi sér ekki hliðstæður í íslenskri sögu „og jafnvel þótt víðar væri leitað í Evrópu á 18. öld“ (15).
Nú er þessi gamla bók og aðrar heimildir um Ísland frá því fyrir rúmum 300 árum opnuð okkur í nýrri bók og með stafrænni tækni á netinu. Orðið jarðabók má segja of jarðbundið til lýsingar á öllu því merkilega efni sem unnt er að bregða ljósi á með bókina að leiðarvísi.
Lesturinn um ástand Íslands verður ferðalag undir leiðsögn fræðimanna um rætur samfélags sem bognaði en brotnaði ekki við ótrúlega áraun. Áfallaþolið virðist óendanlegt svo að notað sé tískuorð úr samtímanum til að lýsa seiglu þjóðar sem var að sligast.
Að loknum inngangi og greinargóðri lýsingu á aðferðum, heimildum og úrvinnslu gagna eru tvær ritgerðir um samfélag og mannfjölda á tímum mikilla harðinda vegna kulda og eldgosa. Þá eru fjórar ritgerðir um byggð og búsvæði; jarðir, býli og bústaði; eignarhald á jörðum og ójöfnuð; höfuðból og jarðagóss. Loks eru þrjár ritgerðir um stéttir og stigveldi; leiguliða og ábúðarkjör þeirra og „hinn lægri lýð“ smábænda og sjómanna. Í lok hverrar ritgerðar er efni hennar dregið saman í niðurstöður. Kort, talnaefni og töflur eru til skýringar.
Útdráttur er á ensku, höfundar eru kynntir og töfluviðauki gefur sýn á það sem vinna má úr gagnagrunninum. Skrár eru um heimildir, töflur, myndrit, kort, myndir, mannanöfn, staðanöfn og efnisorð.
Ýmis orð eru framandi, eins og eftirliggjarar. Það voru einstaklingar sem bjuggu yfir vetrartímann í búðum kaupmanna til þess að geta opnað búðina í neyð til að bjarga fólki. Amtmaður rökstuddi nauðsyn þeirra í skýrslu til yfirvalda í Kaupmannahöfn í desember 1700 með því að lítill kaupmáttur almennings leiddi til þess að ýmsir auðugir menn, bæði veraldlegir og kirkjunnar, keyptu á sumrin meiri vörur en þeir hefðu þörf fyrir. Vöruna seldu þeir síðan fólki í neyð um vetur á uppsprengdu verði. Í apríl 1701 veitti konungur kaupmönnum heimild til að hafa eftirliggjara á Íslandi (96-97).
Embættismenn, prestar og danskir kaupmenn voru forréttindastéttir í landinu. Mannvirðingarstiginn heima í héraði birtist í því að með alþingissamþykkt frá 1639 var mælt fyrir um að fyrstir til að versla við kaupmenn skyldu vera yfirvaldsmenn, þá lögréttumenn og síðastir bændur. Landeigendur eða stöndugir lögbýlisbændur voru í forsvari í störfum hreppsnefnda og í kirkjum og veislum, ekki síst brúðkaupsveislum, þar réð virðingarstaða sætaskipan og siðum. Meira að segja var reynt að stýra klæðaburði eftir efnahag manna með lagareglum um skrúðklæðnað (281).
Íbúar landsins voru alls 50.140 árið 1703. Jarðeigendur voru um 1.300 manns sem áttu góðan helming allra jarðeigna í landinu. Aðeins tæplega 300 einstaklingar bjuggu þó á eignarjörðum sínum – allir hinir sátu á leigujörðum (295).
Lögbýlisbændur voru tæplega 32 þúsund, af þeim voru langflestir leiguliðar; hjáleigumenn voru 16,5% þjóðarinnar; þurrabúðarmenn 2,1%, húsmenn 2% en ómagar og flakkarar voru 7.313 eða 14,6% þjóðarinnar (285-289).
Þessar tölur lýsa aðeins stóru dráttunum en þegar ástand landsins er greint blasir við flókin og margbrotin þjóðlífsmynd sem fróðlegt er að kynnast. Ekki er látið við það eitt sitja að lýsa því sem við blasir hér á landi heldur er gripið til samanburðar við önnur norræn og evrópsk lönd.
Lögum samkvæmt voru leiguliðar á Íslandi persónulega frjálsir menn, aðeins bundnir jarðeiganda með leigumála. Stór hluti danskra leiguliða var hins vegar bundinn átthagafjötrum eða settur undir dómsvald landsdrottna (321).
Á fjölsótta sagnfræðingafundinum sem nefndur var hér í upphafi lýsti einn fundarmanna bókinni sem bautasteini í íslenskri söguritun.
Fram hjá þessari stórfróðlegu bók verður ekki litið við ritun Íslandssögunnar nú eftir útkomu hennar. Of snemmt er að segja hvernig hún breytir viðhorfi okkar seinni tíma manna til sögunnar. Hún mun þó örugglega gera það.