10.1.2019

Þjóðhöfðingjabók

Morgunblaðið fimmtiudagur 10. janúar 2019

Höfundur: Vera Illugadóttir.

Útgefandi: Sögur, 2018. Innb. 293 bls.

Líklega fjarar óðfluga undan bókum af þessu tagi því að auðvelt er að nálgast upplýsingar á borð við þær sem þarna birtast á netinu. Á Wikipediu.org er til dæmis listi yfir alla þjóðhöfðingja Íslands frá Hákoni gamla til Kristjáns X. auk mun meiri upplýsinga en í bókinni er að finna. Auk konungborins fólks er í bókinni rakin ævi forsetanna sex á Bessastöðum.

Fram að lýðveldisstofnun er lýst valdabaráttu, stríðum, ástamálum og undarlegheitum þeirra sem fara með æðstu stjórn þjóðarinnar. Miðað við hve hart þeir gengu oft að almúgafólki með hernaði og blóðsúthellingum máttu Íslendingar þakka fyrir að búa svo fjarri vígaslóðinni.

G9O13QOQLTextinn er stundum í séð-og-heyrt-stíl. Orðfærið fellur ekki alltaf að konunglegri tign viðfangsefnisins.

Í bókinni má sjá villur í ártölum. Þær fara illa í bók sem er reist á að ártöl séu rétt.

Athugasemdir við efni má einnig gera. Hér skulu þrjú dæmi nefnd: Friðrik áttundi var hér á ferð árið 1907. Fór hann hring á Suðurlandi. Eitt frægasta atvik ferðarinnar gerðist 7. ágúst þegar áð var við Kolviðarhól á leið til Reykjavíkur. Þar hélt konungur ræðu og sagði meðal annars: „Látum þessa ferð tengja fast band milli hinnar íslensku og hinnar dönsku þjóðar og mín! Markmið mitt er sannleikur og réttlæti báðum ríkjum mínum til handa.“ Orðin „báðum ríkjum“ vöktu mikla athygli. Á ræðuna er ekki minnst í bókinni.

Minnt er á fullveldisdaginn 1. desember 1918 og samningaviðræðurnar sem leiddu til hans. Þar segir: „Kristján [X.] kom ekki á neinn hátt nálægt þeim viðræðum“ (bls. 230). Þess er látið ógetið að konungur hratt viðræðunum af stað í nóvember 1917 þegar Jón Magnússon forsætisráðherra vildi ræða við hann um sérstakan siglingafána Íslendinga.

Sagt er frá skeytinu sem Kristján X. sendi í tilefni af stofnun lýðveldis á Þingvöllum 17. júní 1944. Skeytið er birt í heild (bls. 235) og síðan sagt: „Íslendingar kusu að heyra ekki gremjuna í fyrri hluta setningarinnar en fögnuðu árnaðaróskunum með húrrahrópum.“

Þess er látið ógetið að Íslendingar heyrðu ekki allt skeytið á Þingvöllum því að Björn Þórðarson forsætisráðherra valdi þann kost að minnast ekki á upphafsorðin. Þeim sem vilja kynna sér þá sögu nánar er bent á nýjasta hefti Þjóðmála og grein Ólafs Egilssonar, fyrrv. sendiherra, þar.

Útlit bókarinnar fellur að efni hennar. Kápan er blá og fánalitir á kili og á baki en framan á kápunni eru kórónur og hattar fyrir 34 karla og tvær konur, þjóðhöfðingja Íslands í 756 ár.