Þjóðhetja á biskupsstóli
Umsögn um bók, Morgunblaðið 5. desember 2020.
Uppreisn Jóns Arasonar eftir Ásgeir Jónsson. Almenna bókafélagið, 2020. Kilja, 120 bls.
Þorkell Jóhannesson, prófessor og rektor Háskóla Íslands, segir í Skírnisgrein um Jón biskup Arason frá 1950, þegar 400 ár voru liðin frá dauða Jóns og sona hans, Ara og Björns, að aftaka þeirra í Skálholti hafi verið stórkostlegasti atburður siðaskiptasögunnar. Hafi Jón Arason látið lífið sem réttur óbótamaður fyrir dómstóli óvina sinna og andstæðinga, dómsorðinu hafi hins vegar fyrir löngu verið hrundið fyrir dómstóli tímans í meðvitund þjóðarinnar. Enginn Íslendingur hafi komist nær því að mega kallast þjóðhetja en Jón biskup Arason. Sjálfur Jón Sigurðsson, sem manna best þekkti og skildi sögu þjóðarinnar, hafi kallað hann hinn síðasta Íslending.
Nú, 470 árum eftir aftökuna, hefur enn ein bókin verið skrifuð um síðasta katólska biskupinn fyrir siðaskipti, Uppreisn Jóns Arasonar . Höfundur er hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Árið 2006 ritstýrði Ásgeir bókinni Jón Arason biskup – ljóðmæli , öllum ljóðmælum Jóns Arasonar í fyrsta skipti í einni bók. Ásgeir skrifaði ítarlegan inngang og setti kvæðin í samhengi við tíðarandann og lífshlaup Jóns. Ljóð setja svip á nýju bókina og farið er orðum um veraldlegan kveðskap Jóns í viðauka.
Uppreisnarbókin er safn þátta. Má geta sér til að í henni sé að finna efni sem safnað hafi verið og skráð á nokkru árabili. Þannig er til dæmis á bls. 88 talað um að 450 ár séu liðin frá minningarstund árið 1551 á Hólum um biskupsfeðgana, nú eru árin orðin 470.
Bókin gefur mynd af Jóni og alþjóðlegum straumum sem birtust í valdabaráttu hér á landi. Vopnaðir flokkar fóru um landið. Íslendingar höfðu í heitingum hver við annan en beittu ekki vopnunum nema gegn erlendum mönnum. Spurningar vakna um miðlun upplýsinga á milli landa og manna. Víða verður að geta í eyður.
Jón forseti Sigurðsson sýndi hve illa einokunarverslun Dana fór með Íslendinga og mælti með verslunarfrelsi. Ásgeir Jónsson greinir valda- og viðskiptabaráttuna sem einkenndi biskupstíð Jóns. Hann tók afstöðu með Þjóðverjum og viðskiptafrelsi og stofnaði til uppreisnar gegn konungi og mönnum hans. Biskupinn galt fyrir það með lífi sínu.
Í viðtali um bókina í Morgunblaðinu 27. nóvember segir Ásgeir:
„Danir voru einfaldlega ekki heppilegt viðskiptaland fyrir Ísland, þar var hvorki markaður fyrir helstu afurðir Íslendinga né höfðu þeir þá vöru sem við þurftum. Þeir voru því alltaf milliliðir og stóðust enga samkeppni við aðra, svo þess vegna þurftu þeir að koma einokunarversluninni á, sem reyndist Íslendingum einstaklega þungbær, eins og Jón Sigurðsson forseti rakti síðar í Nýjum félagsritum .“
Af lýsingu Ásgeirs má ráða að mannlífið á Íslandi hafi verið miklu skemmtilegra fyrir dauða Jóns og siðaskipti en að þeim loknum. Það megi í ríkum mæli rekja til biskupsins sjálfs, manns skemmtana, dans og söngva:
„Jón Arason var dansaldarmaður fram í fingurgóma og líklega má skýra stóran hluta af hylli hans og velgengni með því hversu vel skáldskapargáfa hans og lunderni féllu að dansskemmtunum landsmanna.“ (43)
Gamanbrögðin spilltu ekki trúarhita Hólabiskups. Um trúarljóð hans segir Ásgeir að þar yrki maður beint til Krists konungs „af trúarhita og auðmýkt og játar honum hollustu sem foringi í herliði hans“. (47)
Lífsgleðin hvarf með katólskunni: „Þegar fram leið hófu bæði veraldleg og andleg yfirvöld baráttu gegn dönsunum og gengu af þeim dauðum í byrjun átjándu aldar.“ (46)
Refsigleði óx meðal Íslendinga eftir siðaskiptin, til dæmis aftökur sakamanna. Klaustur voru mörgum skjól. Þegar herlið konungs hafði rænt þau og eyðilagt lögðust margir í flakk.
Harðneskjuleg breyting á þjóðfélagsgerðinni eftir siðaskipti var engum ljós þegar Jón Arason var hálshöggvinn en vinsældir og virðingu hans í huga þjóðarinnar allt fram á þennan dag má ef til vill öðrum þræði rekja til alþýðuhylli hans og nálægðar við fólkið í landinu. Hann var andstæða þess sem á eftir kom.
Bók Ásgeirs Jónssonar um Jón Arason beinir athygli frá píslarvotti vegna trúar að veraldlegum valdsmanni sem vildi sjálfstæði gagnvart dönsku konungsvaldi. Þótt kirkjan hafi ekki tekið hann í dýrlingatölu er hann þjóðhetja.