5.12.2020

Þjóðhetja á biskupsstóli

Umsögn um bók, Morgunblaðið 5. desember 2020.

Uppreisn Jóns Arasonar eft­ir Ásgeir Jóns­son. Al­menna bóka­fé­lagið, 2020. Kilja, 120 bls.
Þorkell Jó­hann­es­son, pró­fess­or og rektor Há­skóla Íslands, seg­ir í Skírn­is­grein um Jón bisk­up Ara­son frá 1950, þegar 400 ár voru liðin frá dauða Jóns og sona hans, Ara og Björns, að af­taka þeirra í Skál­holti hafi verið stór­kost­leg­asti at­b­urður siðaskipta­sög­unn­ar. Hafi Jón Ara­son látið lífið sem rétt­ur óbótamaður fyr­ir dóm­stóli óvina sinna og and­stæðinga, dómsorðinu hafi hins veg­ar fyr­ir löngu verið hrundið fyr­ir dóm­stóli tím­ans í meðvit­und þjóðar­inn­ar. Eng­inn Íslend­ing­ur hafi kom­ist nær því að mega kall­ast þjóðhetja en Jón bisk­up Ara­son. Sjálf­ur Jón Sig­urðsson, sem manna best þekkti og skildi sögu þjóðar­inn­ar, hafi kallað hann hinn síðasta Íslend­ing.

Nú, 470 árum eft­ir af­tök­una, hef­ur enn ein bók­in verið skrifuð um síðasta kat­ólska bisk­up­inn fyr­ir siðaskipti, Upp­reisn Jóns Ara­son­ar . Höf­und­ur er hag­fræðing­ur­inn Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri. Árið 2006 rit­stýrði Ásgeir bók­inni Jón Ara­son bisk­up – ljóðmæli , öll­um ljóðmæl­um Jóns Ara­son­ar í fyrsta skipti í einni bók. Ásgeir skrifaði ít­ar­leg­an inn­gang og setti kvæðin í sam­hengi við tíðarand­ann og lífs­hlaup Jóns. Ljóð setja svip á nýju bók­ina og farið er orðum um ver­ald­leg­an kveðskap Jóns í viðauka.

GV7162AH8Upp­reisn­ar­bók­in er safn þátta. Má geta sér til að í henni sé að finna efni sem safnað hafi verið og skráð á nokkru ára­bili. Þannig er til dæm­is á bls. 88 talað um að 450 ár séu liðin frá minn­ing­ar­stund árið 1551 á Hól­um um bisk­ups­feðgana, nú eru árin orðin 470.

Bók­in gef­ur mynd af Jóni og alþjóðleg­um straum­um sem birt­ust í valda­bar­áttu hér á landi. Vopnaðir flokk­ar fóru um landið. Íslend­ing­ar höfðu í heit­ing­um hver við ann­an en beittu ekki vopn­un­um nema gegn er­lend­um mönn­um. Spurn­ing­ar vakna um miðlun upp­lýs­inga á milli landa og manna. Víða verður að geta í eyður.

Jón for­seti Sig­urðsson sýndi hve illa ein­ok­un­ar­versl­un Dana fór með Íslend­inga og mælti með versl­un­ar­frelsi. Ásgeir Jóns­son grein­ir valda- og viðskipta­bar­átt­una sem ein­kenndi bisk­up­stíð Jóns. Hann tók af­stöðu með Þjóðverj­um og viðskiptafrelsi og stofnaði til upp­reisn­ar gegn kon­ungi og mönn­um hans. Bisk­up­inn galt fyr­ir það með lífi sínu.

Í viðtali um bók­ina í Morg­un­blaðinu 27. nóv­em­ber seg­ir Ásgeir:

„Dan­ir voru ein­fald­lega ekki heppi­legt viðskipta­land fyr­ir Ísland, þar var hvorki markaður fyr­ir helstu afurðir Íslend­inga né höfðu þeir þá vöru sem við þurft­um. Þeir voru því alltaf milliliðir og stóðust enga sam­keppni við aðra, svo þess vegna þurftu þeir að koma ein­ok­un­ar­versl­un­inni á, sem reynd­ist Íslend­ing­um ein­stak­lega þung­bær, eins og Jón Sig­urðsson for­seti rakti síðar í Nýj­um fé­lags­rit­um .“

Af lýs­ingu Ásgeirs má ráða að mann­lífið á Íslandi hafi verið miklu skemmti­legra fyr­ir dauða Jóns og siðaskipti en að þeim lokn­um. Það megi í rík­um mæli rekja til bisk­ups­ins sjálfs, manns skemmt­ana, dans og söngva:

„Jón Ara­son var dans­ald­armaður fram í fing­ur­góma og lík­lega má skýra stór­an hluta af hylli hans og vel­gengni með því hversu vel skáld­skap­ar­gáfa hans og lund­erni féllu að dans­skemmt­un­um lands­manna.“ (43)

Gam­an­brögðin spilltu ekki trú­ar­hita Hóla­bisk­ups. Um trú­ar­ljóð hans seg­ir Ásgeir að þar yrki maður beint til Krists kon­ungs „af trú­ar­hita og auðmýkt og ját­ar hon­um holl­ustu sem for­ingi í herliði hans“. (47)

Lífs­gleðin hvarf með kat­ólsk­unni: „Þegar fram leið hófu bæði ver­ald­leg og and­leg yf­ir­völd bar­áttu gegn döns­un­um og gengu af þeim dauðum í byrj­un átjándu ald­ar.“ (46)

Ref­sigleði óx meðal Íslend­inga eft­ir siðaskipt­in, til dæm­is af­tök­ur saka­manna. Klaust­ur voru mörg­um skjól. Þegar herlið kon­ungs hafði rænt þau og eyðilagt lögðust marg­ir í flakk.

Harðneskju­leg breyt­ing á þjóðfé­lags­gerðinni eft­ir siðaskipti var eng­um ljós þegar Jón Ara­son var háls­höggv­inn en vin­sæld­ir og virðingu hans í huga þjóðar­inn­ar allt fram á þenn­an dag má ef til vill öðrum þræði rekja til alþýðuhylli hans og ná­lægðar við fólkið í land­inu. Hann var and­stæða þess sem á eft­ir kom.

Bók Ásgeirs Jóns­son­ar um Jón Ara­son bein­ir at­hygli frá píslar­votti vegna trú­ar að ver­ald­leg­um valds­manni sem vildi sjálf­stæði gagn­vart dönsku kon­ungs­valdi. Þótt kirkj­an hafi ekki tekið hann í dýr­linga­tölu er hann þjóðhetja.