10.5.2025

Þjóðaröryggi á óvissutímum

Morgunblaðið, laugardagur 10. maí 2025.

Í vik­unni var sagt að bresk yf­ir­völd byggju sig með leynd und­ir beina hernaðarlega árás Rússa. Emb­ætt­is­mönn­um hefði verið falið að upp­færa 20 ára gaml­ar áætlan­ir um til hvaða ráðstaf­ana skyldi grípa í hættu­ástandi eft­ir að Kreml­verj­ar hefðu hótað að ráðast á Bret­land.

Á vefsíðu The Tel­egraph gátu les­end­ur svarað spurn­ing­unni: Er Bret­land búið und­ir stríð? Þegar rúm­lega 52.000 les­end­ur höfðu svarað töldu 96% að svo væri ekki en 4% sögðu já.

Sér­fræðing­ar hafa ít­rekað bent bresk­um stjórn­völd­um á hætt­una af árás á mik­il­væga innviði eins og gasstöðvar, neðan­sjáv­ar­kapla, kjarn­orku­ver og sam­göngumiðstöðvar. Beitt yrði flug­skeyt­um með venju­leg­um sprengju­odd­um eða kjarna­odd­um eða gerðar yrðu netárás­ir.

Frétt­irn­ar um þessi viðbrögð breskra yf­ir­valda minna á það sem gerst hef­ur á Norður­lönd­un­um, utan Íslands, und­an­far­in miss­eri þar sem stjórn­völd hafa flutt þjóðunum varnaðarorð og gefið út bæk­linga um hvernig beri að búa sig und­ir hættu­tíma.

Umræður um al­varn­ir (n. tota­lfor­svar) í Nor­egi ásamt grein­ingu og skýrsl­um á fleiri sviðum ör­ygg­is­mála leiddu til þess að samstaða myndaðist um að semja í fyrsta sinn þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Nor­eg og kynnti Jon­as Gahr Støre for­sæt­is­ráðherra hana fimmtu­dag­inn 8. maí þegar þess var minnst að 80 ár voru liðin frá friðar­degi annarr­ar heims­styrj­ald­ar­inn­ar.

2024.10.21_VAHI_BES_K_STATSMINISTER_JGS-8Norskir hermenn og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra.

Á fundi sem Varðberg hélt þenn­an sama fimmtu­dag gerðu norsk­ir sér­fræðing­ar í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um grein fyr­ir því hvernig staðið hef­ur verið að mati á ógn og ör­yggi Nor­egs.

Þar ann­ast þrjár stofn­an­ir upp­lýs­inga­öfl­un með leynd (eft­ir­grennsl­ana­stofn­an­ir): Leyniþjón­usta hers­ins (Etter­retn­ing­stjenesten) sem afl­ar upp­lýs­inga um það sem ger­ist utan landa­mæra Nor­egs, Örygg­isþjón­usta lög­regl­unn­ar (Politiets sikk­er­het­stjeneste, PST) sem bein­ir at­hygli að ógn­um inn­an landa­mæra Nor­egs og Þjóðarör­ygg­is­stofn­un­in (Nasjonal sikk­er­hets­myndig­het, NSM) sem er ætlað að skapa sýn yfir hvað gera skuli gegn njósn­um, hryðju­verk­um og skemmd­ar­verk­um.

Um ára­bil hafa þess­ar stofn­an­ir miðlað upp­lýs­ing­um til al­menn­ings og leitað eft­ir sam­starfi við borg­ar­ana. Í fe­brú­ar í ár birtu þær í fyrsta sinn þrjár mats­skýrsl­ur sín­ar á sam­eig­in­leg­um fundi. Var það áfangi á leiðinni til þjóðaröygg­is­stefn­unn­ar.

„Þetta eru mestu al­vöru- og óvissu­tím­ar í Nor­egi frá ann­arri heims­styrj­öld­inni,“ sagði Støre þegar hann kynnti stefn­una og allt sam­fé­lagið yrði að leggja sitt af mörk­um: „Við erum ná­grann­ar Rúss­lands sem er hættu­legra og her­vædd­ara en áður og hef­ur stofnað til stór­stríðs í Evr­ópu.“

Hernaðarþátt­inn sem er sterk­ur í norsku þjóðarör­ygg­is­stefn­unni vant­ar í ís­lensku þjóðarör­ygg­is­stefn­una sem var fyrst kynnt í apríl 2016 og upp­færð í fe­brú­ar 2023.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið fer með ís­lensk varn­ar­mál. Í varn­ar­mála­lög­un­um frá 2008 seg­ir að ör­ygg­is- og varn­ar­mál snúi að sam­starfi Íslands við önn­ur ríki og alþjóðastofn­an­ir á sviði land­varna, sem og varna gegn öðrum hætt­um og ógn­um sem steðjað geti að ís­lensku þjóðinni og ís­lensku for­ráðasvæði, og eiga upp­tök sín í hinu alþjóðlega sam­fé­lagi.

Þá seg­ir í varn­ar­mála­lög­un­um að ut­an­rík­is­ráðherra beri „ábyrgð á gerð hættumats á sviði varn­ar­mála og mót­un og fram­kvæmd ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu Íslands á alþjóðavett­vangi“.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið sinn­ir mál­um á sviði hernaðar sem eiga upp­tök sín í alþjóðasam­fé­lag­inu. Hættumatið er á ábyrgð ut­an­rík­is­ráðherra sem ber að móta og fram­kvæma ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu þjóðar­inn­ar á alþjóðavett­vangi.

Ráðuneytið til­kynnti 11. apríl að all­ir þing­flokk­ar hefðu til­nefnt full­trúa í starfs­hóp sem ætti að fjalla um inn­tak og áhersl­ur ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu fyr­ir Ísland. Lýsa skyldi helstu ör­ygg­is­áskor­un­um til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógn­ir af manna­völd­um, draga fram mark­mið Íslands í alþjóðlegu ör­ygg­is- og varn­ar­sam­starfi, fjalla um nauðsyn­leg­an varn­ar­viðbúnað og getu sem þyrfti að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugs­an­leg­ar um­bæt­ur á laga- og stofnanaum­gjörð varn­ar­mála.

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, full­trúi Sjálf­stæðis­flokks­ins í hópn­um, sagði hér í blaðinu um síðustu helgi að hann hefði átt ell­efu fundi í höfuðstöðvum NATO í Brus­sel og einn fund með ut­an­rík­isþjón­ustu ESB. Taldi hún bæði skyn­sam­legt og eft­ir­sókn­ar­vert að viðhalda sam­stöðu í þess­um mála­flokki eins og hægt væri. Þver­póli­tísk þing­manna­nefnd sem tæki starf sitt al­var­lega væri góður vís­ir að því.

Boðað var að sam­ráðshóp­ur­inn lyki störf­um eigi síðar en 21. maí 2025. Þjóðarör­ygg­is­stefn­an verður vafa­laust upp­færð í sam­ræmi við niður­stöður hans.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Dag­ur B. Eggerts­son, full­trúi Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í þing­manna­hópn­um, hafa lýst vilja til að nýta spenn­una vegna ófriðar­ins í Úkraínu til að flýta ESB-þjóðar­at­kvæðagreiðslunni sem rík­is­stjórn­in boðar ekki síðar en á ár­inu 2027. Fjór­ir þing­flokk­ar af sex eru and­víg­ir aðild að ESB, þjóðar­at­kvæðagreiðslan snýst um hana, verði til henn­ar efnt. Að tengja ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu við ESB-aðild er ávís­un á deil­ur sem spilla sam­stöðu um þjóðarör­yggi.

Hitt er síðan ljóst að inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar er svo ekki nein samstaða um að flýta þjóðar­at­kvæðagreiðslunni. Kristrún Frosta­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra vill ekki að það sé gert. Það end­ur­spegl­ar ágrein­ing í Sam­fylk­ing­unni að Dag­ur B. gangi gegn Kristrúnu í þessu máli. Ágrein­ing­ur í þing­flokki for­sæt­is­ráðherra um teng­ingu ör­ygg­is- og ESB-mála er vara­sam­ur á þess­um ör­laga­tím­um.