Þjóðaröryggi á óvissutímum
Morgunblaðið, laugardagur 10. maí 2025.
Í vikunni var sagt að bresk yfirvöld byggju sig með leynd undir beina hernaðarlega árás Rússa. Embættismönnum hefði verið falið að uppfæra 20 ára gamlar áætlanir um til hvaða ráðstafana skyldi grípa í hættuástandi eftir að Kremlverjar hefðu hótað að ráðast á Bretland.
Á vefsíðu The Telegraph gátu lesendur svarað spurningunni: Er Bretland búið undir stríð? Þegar rúmlega 52.000 lesendur höfðu svarað töldu 96% að svo væri ekki en 4% sögðu já.
Sérfræðingar hafa ítrekað bent breskum stjórnvöldum á hættuna af árás á mikilvæga innviði eins og gasstöðvar, neðansjávarkapla, kjarnorkuver og samgöngumiðstöðvar. Beitt yrði flugskeytum með venjulegum sprengjuoddum eða kjarnaoddum eða gerðar yrðu netárásir.
Fréttirnar um þessi viðbrögð breskra yfirvalda minna á það sem gerst hefur á Norðurlöndunum, utan Íslands, undanfarin misseri þar sem stjórnvöld hafa flutt þjóðunum varnaðarorð og gefið út bæklinga um hvernig beri að búa sig undir hættutíma.
Umræður um alvarnir (n. totalforsvar) í Noregi ásamt greiningu og skýrslum á fleiri sviðum öryggismála leiddu til þess að samstaða myndaðist um að semja í fyrsta sinn þjóðaröryggisstefnu fyrir Noreg og kynnti Jonas Gahr Støre forsætisráðherra hana fimmtudaginn 8. maí þegar þess var minnst að 80 ár voru liðin frá friðardegi annarrar heimsstyrjaldarinnar.
Norskir hermenn og Jonas Gahr Støre forsætisráðherra.
Á fundi sem Varðberg hélt þennan sama fimmtudag gerðu norskir sérfræðingar í varnar- og öryggismálum grein fyrir því hvernig staðið hefur verið að mati á ógn og öryggi Noregs.
Þar annast þrjár stofnanir upplýsingaöflun með leynd (eftirgrennslanastofnanir): Leyniþjónusta hersins (Etterretningstjenesten) sem aflar upplýsinga um það sem gerist utan landamæra Noregs, Öryggisþjónusta lögreglunnar (Politiets sikkerhetstjeneste, PST) sem beinir athygli að ógnum innan landamæra Noregs og Þjóðaröryggisstofnunin (Nasjonal sikkerhetsmyndighet, NSM) sem er ætlað að skapa sýn yfir hvað gera skuli gegn njósnum, hryðjuverkum og skemmdarverkum.
Um árabil hafa þessar stofnanir miðlað upplýsingum til almennings og leitað eftir samstarfi við borgarana. Í febrúar í ár birtu þær í fyrsta sinn þrjár matsskýrslur sínar á sameiginlegum fundi. Var það áfangi á leiðinni til þjóðaröyggisstefnunnar.
„Þetta eru mestu alvöru- og óvissutímar í Noregi frá annarri heimsstyrjöldinni,“ sagði Støre þegar hann kynnti stefnuna og allt samfélagið yrði að leggja sitt af mörkum: „Við erum nágrannar Rússlands sem er hættulegra og hervæddara en áður og hefur stofnað til stórstríðs í Evrópu.“
Hernaðarþáttinn sem er sterkur í norsku þjóðaröryggisstefnunni vantar í íslensku þjóðaröryggisstefnuna sem var fyrst kynnt í apríl 2016 og uppfærð í febrúar 2023.
Utanríkisráðuneytið fer með íslensk varnarmál. Í varnarmálalögunum frá 2008 segir að öryggis- og varnarmál snúi að samstarfi Íslands við önnur ríki og alþjóðastofnanir á sviði landvarna, sem og varna gegn öðrum hættum og ógnum sem steðjað geti að íslensku þjóðinni og íslensku forráðasvæði, og eiga upptök sín í hinu alþjóðlega samfélagi.
Þá segir í varnarmálalögunum að utanríkisráðherra beri „ábyrgð á gerð hættumats á sviði varnarmála og mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands á alþjóðavettvangi“.
Utanríkisráðuneytið sinnir málum á sviði hernaðar sem eiga upptök sín í alþjóðasamfélaginu. Hættumatið er á ábyrgð utanríkisráðherra sem ber að móta og framkvæma öryggis- og varnarstefnu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi.
Ráðuneytið tilkynnti 11. apríl að allir þingflokkar hefðu tilnefnt fulltrúa í starfshóp sem ætti að fjalla um inntak og áherslur öryggis- og varnarstefnu fyrir Ísland. Lýsa skyldi helstu öryggisáskorunum til lengri og skemmri tíma með áherslu á ytri ógnir af mannavöldum, draga fram markmið Íslands í alþjóðlegu öryggis- og varnarsamstarfi, fjalla um nauðsynlegan varnarviðbúnað og getu sem þyrfti að vera til staðar á Íslandi, auk þess að benda á hugsanlegar umbætur á laga- og stofnanaumgjörð varnarmála.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í hópnum, sagði hér í blaðinu um síðustu helgi að hann hefði átt ellefu fundi í höfuðstöðvum NATO í Brussel og einn fund með utanríkisþjónustu ESB. Taldi hún bæði skynsamlegt og eftirsóknarvert að viðhalda samstöðu í þessum málaflokki eins og hægt væri. Þverpólitísk þingmannanefnd sem tæki starf sitt alvarlega væri góður vísir að því.
Boðað var að samráðshópurinn lyki störfum eigi síðar en 21. maí 2025. Þjóðaröryggisstefnan verður vafalaust uppfærð í samræmi við niðurstöður hans.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra og Dagur B. Eggertsson, fulltrúi Samfylkingarinnar í þingmannahópnum, hafa lýst vilja til að nýta spennuna vegna ófriðarins í Úkraínu til að flýta ESB-þjóðaratkvæðagreiðslunni sem ríkisstjórnin boðar ekki síðar en á árinu 2027. Fjórir þingflokkar af sex eru andvígir aðild að ESB, þjóðaratkvæðagreiðslan snýst um hana, verði til hennar efnt. Að tengja öryggis- og varnarstefnu við ESB-aðild er ávísun á deilur sem spilla samstöðu um þjóðaröryggi.
Hitt er síðan ljóst að innan ríkisstjórnarinnar er svo ekki nein samstaða um að flýta þjóðaratkvæðagreiðslunni. Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra vill ekki að það sé gert. Það endurspeglar ágreining í Samfylkingunni að Dagur B. gangi gegn Kristrúnu í þessu máli. Ágreiningur í þingflokki forsætisráðherra um tengingu öryggis- og ESB-mála er varasamur á þessum örlagatímum.