Þingvallaályktun fyrir Úkraínu
Morgunblaðið, laugardagur 2. nóvember 2024.
Fundir norrænna forsætisráðherra, utanríkisráðherra og þingmanna á Þingvöllum og í Reykjavík í vikunni færðu Íslendinga nær stríðinu í Úkraínu og harðstjórnum Belarús og Rússlands með heimsóknum Volódimírs Selenskís Úkraínuforseta og Svjatlönu Tsikanoskaju, leiðtoga lýðræðishreyfingarinnar í Belarús.Enn einu sinni var staðfest að stríð Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta í Úkraínu er brot á alþjóðalögum og aðför að sjálfsákvörðunarrétti þjóða, landamærahelgi og lýðræðislegum stjórnarháttum.
Alvarleg viðvörun felst í orðum Selenskís um að hann óttist að vestræn ríki bregðist við þátttöku norðurkóreskra hermanna í stríði í Evrópu á sama hátt og þau gerðu 2014 þegar Rússar lögðu undir sig Krímskaga.
Vestrænir leiðtogar héldu þá að með sérgreindum refsiaðgerðum en framhaldi á orkuviðskiptum við Rússa mætti halda Pútín í skefjum. Hann myndi aldrei stíga neitt skref sem stofnaði gassölu hans til Evrópu í hættu. Þá var jafnvel látið eins og Pútín ætti að ráða hvort Úkraína gengi í NATO eða Evrópusambandið. Úkraínustjórn yrði að sætta sig við orðinn hlut. Krím væri rússneskt þótt Sovétleiðtoginn Níkíta Krútsjoff hefði gefið Úkraínu skagann.
Í þessu skjóli hervæddist Pútín stig af stigi og undir lok árs 2021 sendi hann herdeildir gráar fyrir járnum að landamærum Úkraínu, meðal annars í gegnum Belarús. Fram á síðasta dag fyrir innrásina 24. febrúar 2022 var hún sögð óhugsandi og síðan að henni lyki á nokkrum dögum með sigri Rússa.
Úkraínustjórn dró annan lærdóm af yfirgangi og innlimun Rússa árið 2014 en stjórnir Vesturlanda og bjó þjóð sína markvisst undir stríð með dræmum vestrænum stuðningi. Þegar á reyndi snerist úkraínska þjóðin rösklega til varnar og nú 32 mánuðum síðar berst hún enn. Allan þennan tíma hefur Selenskí veitt þjóð sinni innblásna forystu og aldrei gefist upp við að tala máli hennar.
Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á brúnni yfir Nikulásargjá (Peningagjá) á Þingvöllum mánudaginn 28. október 2024 (mynd: vefsíða forsætisráðuneytisins).
Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu með Selenskí Í gestastofunni á Hakinu við Almannagjá á Þingvöllum mánudaginn 28. október 2024 (mynd foraætisráðuneytið).
Þetta gerði hann á fjórða leiðtogafundi Úkraínu og norrænu ríkjanna fimm á Þingvöllum mánudaginn 28. október. Þar lýstu norrænu forsætisráðherrarnir því yfir að þeir myndu styðja og leggja sig áfram fram um að efla varnarmátt Úkraínuhers í baráttu hans fyrir öryggi og friði í Evrópu. Ráðherrarnir lýstu stuðningi við siguráætlun Úkraínu sem Selenskí hefur kynnt. Þeir myndu stuðla að því að henni yrði hrundið í framkvæmd.
Í sjötta og lokalið Þingvallaályktunarinnar árétta forsætisráðherrarnir fyrri yfirlýsingar um að framtíðarstaður Úkraínu sé innan NATO. Þeir muni halda áfram að styðja Úkraínu á óbreytanlegri leið þjóðarinnar til fullrar þátttöku í samstarfi ríkja Evrópu og Norður-Ameríku með aðild að NATO. Þeir fagna því að NATO hafi stofnað til sérstaks verkefnis til að samhæfa aðstoð og þjálfun í þágu Úkraínu. Þá segjast þeir sannfærðir um að aðild Úkraínu að ESB verði til hagsbóta fyrir sambandið og stuðli að friði, stöðugleika og farsæld í Evrópu. Þeir fagna því að ESB-aðildarviðræður Úkraínustjórnar séu hafnar og segjast hafa hert á sameiginlegum aðgerðum til að styðja ESB-aðild Úkraínu. Allt er þetta sögulega markvert. Pútín réðst inn í Úkraínu til að afmá landið af pólitísku landakorti Evrópu, þannig skyldi í eitt skipti fyrir öll komið í veg fyrir að Úkraínumenn yrðu aðilar að NATO eða ESB. Nú er hvort tveggja í sjónmáli.
Úkraínustjórn sótti um NATO-aðild í september 2022 þegar innrásarher Rússa hafði verið um hálft ár í landi hennar. Innan NATO hafa menn setið hikandi yfir svari í rúm tvö ár. Í Kyiv er sagt að verði bréfinu ekki svarað jákvætt sem fyrst þýði ekkert að semja um frið við Rússa, þeir hefji hernað aftur. Eftir að hafa safnað kröftum í eitt ár eða tvö viti þeir að ekki sé NATO að mæta.
Að því kann að koma að Selenskí sjái og sannfæri þjóð sína um að ekki verði lengra komist á vígvellinum. Hann verði að sætta sig við að Rússar ráði yfir hluta Úkraínu. Land hans fái á hinn bóginn aðild að NATO og ESB og þar með tryggingu fyrir varanlegum friði. Sameining allrar Úkraínu í eitt ríki gerist síðar, eins og varð í Þýskalandi með hruni múrsins.
Það var dýrmætur árangur fyrir Selenskí að fá þann stuðning norrænu ríkjanna fimm sem birtist í Þingvallaályktuninni. Með Eystrasaltsríkjunum þremur og Póllandi, sem eru sama sinnis innan NATO, sýnir hún stuðning níu ríkja af 32 við aðild Úkraínu að bandalaginu.
Íslendingar eru stoltir og njóta virðingar og vináttu víða vegna baráttu fyrir sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrir rúmum 30 árum. Þá hikuðu íslensk stjórnvöld ekki við að storka Sovétstjórninni og nutu til þess almenns stuðnings.
Í því ljósi er ótrúlegt að heyra úrtöluraddir hér þegar ákveðið er að mótmæla glæpastjórn Pútíns með stuðningi við Úkraínumenn, sem sættu ólögmætri og tilefnislausri innrás.
Þegar skammast er yfir því að verkefnalausu sendiráði Íslands í Moskvu hafi verið lokað ber það vott um hræðslu eða undirgefni andspænis grimmd Pútíns. Öll vestræn sendiráð í Moskvu hafa neyðst til að stórefla öryggisgæslu eigin starfsfólks vegna áreitis í þess garð. Norðmenn lokuðu ræðisskrifstofu í Múrmansk, þeir gátu ekki tryggt öryggi starfsmanna hennar. Lokun var einnig besta leið íslenskra yfirvalda.
Ísland er ekki hlutlaust, heldur virkur aðili að NATO. Á þann hátt tryggjum við best eigið öryggi og leggjum Úkraínu öflugast lið. Stöndum með Úkraínu og lýðræðishreyfingu Belarús við hlið annarra norrænna þjóða. Eindregin norræn samstaða með Úkraínu verður ekki dregin í efa eftir fundina hér í vikunni. Það er fagnaðarefni.