2.11.2024

Þingvallaályktun fyrir Úkraínu

Morgunblaðið, laugardagur 2. nóvember 2024.

Fund­ir nor­rænna for­sæt­is­ráðherra, ut­an­rík­is­ráðherra og þing­manna á Þing­völl­um og í Reykja­vík í vik­unni færðu Íslend­inga nær stríðinu í Úkraínu og harðstjórn­um Bela­rús og Rúss­lands með heim­sókn­um Volódimírs Selenskís Úkraínu­for­seta og Svjatlönu Tsikanoskaju, leiðtoga lýðræðis­hreyf­ing­ar­inn­ar í Bela­rús.

Enn einu sinni var staðfest að stríð Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta í Úkraínu er brot á alþjóðalög­um og aðför að sjálfs­ákvörðun­ar­rétti þjóða, landa­mæra­helgi og lýðræðis­leg­um stjórn­ar­hátt­um.

Al­var­leg viðvör­un felst í orðum Selenskís um að hann ótt­ist að vest­ræn ríki bregðist við þátt­töku norðurkór­eskra her­manna í stríði í Evr­ópu á sama hátt og þau gerðu 2014 þegar Rúss­ar lögðu und­ir sig Krímskaga.

Vest­ræn­ir leiðtog­ar héldu þá að með sér­greind­um refsiaðgerðum en fram­haldi á orku­viðskipt­um við Rússa mætti halda Pútín í skefj­um. Hann myndi aldrei stíga neitt skref sem stofnaði gassölu hans til Evr­ópu í hættu. Þá var jafn­vel látið eins og Pútín ætti að ráða hvort Úkraína gengi í NATO eða Evr­ópu­sam­bandið. Úkraín­u­stjórn yrði að sætta sig við orðinn hlut. Krím væri rúss­neskt þótt Sov­ét­leiðtog­inn Níkíta Krút­sjoff hefði gefið Úkraínu skag­ann.

Í þessu skjóli her­vædd­ist Pútín stig af stigi og und­ir lok árs 2021 sendi hann her­deild­ir grá­ar fyr­ir járn­um að landa­mær­um Úkraínu, meðal ann­ars í gegn­um Bela­rús. Fram á síðasta dag fyr­ir inn­rás­ina 24. fe­brú­ar 2022 var hún sögð óhugs­andi og síðan að henni lyki á nokkr­um dög­um með sigri Rússa.

Úkraín­u­stjórn dró ann­an lær­dóm af yf­ir­gangi og inn­limun Rússa árið 2014 en stjórn­ir Vest­ur­landa og bjó þjóð sína mark­visst und­ir stríð með dræm­um vest­ræn­um stuðningi. Þegar á reyndi sner­ist úkraínska þjóðin rösk­lega til varn­ar og nú 32 mánuðum síðar berst hún enn. All­an þenn­an tíma hef­ur Selenskí veitt þjóð sinni inn­blásna for­ystu og aldrei gef­ist upp við að tala máli henn­ar.

Screenshot-2024-11-02-at-16.44.40Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á brúnni yfir Nikulásargjá (Peningagjá) á Þingvöllum mánudaginn 28. október 2024 (mynd: vefsíða forsætisráðuneytisins).

Screenshot-2024-11-02-at-16.43.53Norrænu forsætisráðherrarnir funduðu með Selenskí Í gestastofunni á Hakinu við Almannagjá á Þingvöllum mánudaginn 28. október 2024 (mynd foraætisráðuneytið).

Þetta gerði hann á fjórða leiðtoga­fundi Úkraínu og nor­rænu ríkj­anna fimm á Þing­völl­um mánu­dag­inn 28. októ­ber. Þar lýstu nor­rænu for­sæt­is­ráðherr­arn­ir því yfir að þeir myndu styðja og leggja sig áfram fram um að efla varn­ar­mátt Úkraínu­hers í bar­áttu hans fyr­ir ör­yggi og friði í Evr­ópu. Ráðherr­arn­ir lýstu stuðningi við siguráætl­un Úkraínu sem Selenskí hef­ur kynnt. Þeir myndu stuðla að því að henni yrði hrundið í fram­kvæmd.

Í sjötta og lokalið Þing­valla­álykt­un­ar­inn­ar árétta for­sæt­is­ráðherr­arn­ir fyrri yf­ir­lýs­ing­ar um að framtíðarstaður Úkraínu sé inn­an NATO. Þeir muni halda áfram að styðja Úkraínu á óbreyt­an­legri leið þjóðar­inn­ar til fullr­ar þátt­töku í sam­starfi ríkja Evr­ópu og Norður-Am­er­íku með aðild að NATO. Þeir fagna því að NATO hafi stofnað til sér­staks verk­efn­is til að sam­hæfa aðstoð og þjálf­un í þágu Úkraínu. Þá segj­ast þeir sann­færðir um að aðild Úkraínu að ESB verði til hags­bóta fyr­ir sam­bandið og stuðli að friði, stöðug­leika og far­sæld í Evr­ópu. Þeir fagna því að ESB-aðild­ar­viðræður Úkraín­u­stjórn­ar séu hafn­ar og segj­ast hafa hert á sam­eig­in­leg­um aðgerðum til að styðja ESB-aðild Úkraínu. Allt er þetta sögu­lega markvert. Pútín réðst inn í Úkraínu til að afmá landið af póli­tísku landa­korti Evr­ópu, þannig skyldi í eitt skipti fyr­ir öll komið í veg fyr­ir að Úkraínu­menn yrðu aðilar að NATO eða ESB. Nú er hvort tveggja í sjón­máli.

Úkraín­u­stjórn sótti um NATO-aðild í sept­em­ber 2022 þegar inn­rás­ar­her Rússa hafði verið um hálft ár í landi henn­ar. Inn­an NATO hafa menn setið hik­andi yfir svari í rúm tvö ár. Í Kyiv er sagt að verði bréf­inu ekki svarað já­kvætt sem fyrst þýði ekk­ert að semja um frið við Rússa, þeir hefji hernað aft­ur. Eft­ir að hafa safnað kröft­um í eitt ár eða tvö viti þeir að ekki sé NATO að mæta.

Að því kann að koma að Selenskí sjái og sann­færi þjóð sína um að ekki verði lengra kom­ist á víg­vell­in­um. Hann verði að sætta sig við að Rúss­ar ráði yfir hluta Úkraínu. Land hans fái á hinn bóg­inn aðild að NATO og ESB og þar með trygg­ingu fyr­ir var­an­leg­um friði. Sam­ein­ing allr­ar Úkraínu í eitt ríki ger­ist síðar, eins og varð í Þýskalandi með hruni múrs­ins.

Það var dýr­mæt­ur ár­ang­ur fyr­ir Selenskí að fá þann stuðning nor­rænu ríkj­anna fimm sem birt­ist í Þing­valla­álykt­un­inni. Með Eystra­salts­ríkj­un­um þrem­ur og Póllandi, sem eru sama sinn­is inn­an NATO, sýn­ir hún stuðning níu ríkja af 32 við aðild Úkraínu að banda­lag­inu.

Íslend­ing­ar eru stolt­ir og njóta virðing­ar og vináttu víða vegna bar­áttu fyr­ir sjálf­stæði Eystra­salts­ríkj­anna fyr­ir rúm­um 30 árum. Þá hikuðu ís­lensk stjórn­völd ekki við að storka Sov­ét­stjórn­inni og nutu til þess al­menns stuðnings.

Í því ljósi er ótrú­legt að heyra úr­töluradd­ir hér þegar ákveðið er að mót­mæla glæpa­stjórn Pútíns með stuðningi við Úkraínu­menn, sem sættu ólög­mætri og til­efn­is­lausri inn­rás.

Þegar skamm­ast er yfir því að verk­efna­lausu sendi­ráði Íslands í Moskvu hafi verið lokað ber það vott um hræðslu eða und­ir­gefni and­spæn­is grimmd Pútíns. Öll vest­ræn sendi­ráð í Moskvu hafa neyðst til að stór­efla ör­ygg­is­gæslu eig­in starfs­fólks vegna áreit­is í þess garð. Norðmenn lokuðu ræðis­skrif­stofu í Múrm­ansk, þeir gátu ekki tryggt ör­yggi starfs­manna henn­ar. Lok­un var einnig besta leið ís­lenskra yf­ir­valda.

Ísland er ekki hlut­laust, held­ur virk­ur aðili að NATO. Á þann hátt tryggj­um við best eigið ör­yggi og leggj­um Úkraínu öfl­ug­ast lið. Stönd­um með Úkraínu og lýðræðis­hreyf­ingu Bela­rús við hlið annarra nor­rænna þjóða. Ein­dreg­in nor­ræn samstaða með Úkraínu verður ekki dreg­in í efa eft­ir fund­ina hér í vik­unni. Það er fagnaðarefni.