11.11.2023

Þingmenn eru samhuga um Gaza

Morgunblaðið, 11. nóvember 2023.


Fyr­ir viku birt­ist stjórn­mála­út­tekt á vefsíðunni Politico í Evr­ópu und­ir fyr­ir­sögn­inni: Um heim all­an er vinstrið að splundr­ast vegna Ísra­els. Í und­ir­fyr­ir­sögn sagði að Gaza-Ísra­el-stríðið hefði skapað upp­nám meðal vinst­ris­inna í óra­fjar­lægð frá Mið-Aust­ur­lönd­um. Það kynni að reyn­ast dýr­keypt þegar kosn­ing­ar nálguðust.

Á vefsíðunni er farið yfir at­b­urðarás­ina frá 7. októ­ber þegar Ham­as-liðar myrtu 1.400 al­menna borg­ara í Ísra­el á hrylli­leg­an hátt. Við frétt­ir af hryðju­verk­un­um hefðu stjórn­mála­menn hvarvetna á Vest­ur­lönd­um lýst skömm sinni á ódæðinu og heitið Ísra­el­um stuðningi.

Síðan hefðu ógn­vekj­andi frétt­ir borist um dauða þúsunda Palestínu­manna í árás­um Ísra­ela á Gaza. Þá hefði samstaðan að baki Ísra­el brostið. Vinst­ris­innaðir vest­ræn­ir stjórn­mála­menn ættu í mest­um vand­ræðum vegna máls­ins.

_120632330_070524380-1Sir Keir Starmer

Í Bretlandi stefndi Keir Star­mer, leiðtogi Verka­manna­flokks­ins, ótrauður að því að verða næsti for­sæt­is­ráðherra. Átök­in á Gaza reynd­ust nú erfiðasta þolraun hans á þeirri leið.

Þegar blaðamenn ræddu við for­sæt­is­ráðherra Norður­land­anna eft­ir fund þeirra í Osló í fyrri viku voru jafnaðar­menn­irn­ir í hópn­um ósam­mála.

Jon­as Gahr Støre, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, varði ákvörðun stjórn­ar sinn­ar um að greiða ein nor­rænu rík­is­stjórn­anna at­kvæði með til­lögu (frá Jórdan­íu) á alls­herj­arþingi Sam­einuðu þjóðanna þar sem hryðju­verk Ham­as voru ekki for­dæmd (til­laga Kan­ada um það var felld).

Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur, varði hins veg­ar hjá­setu stjórn­ar sinn­ar með þess­um orðum: „Við erum ekki ósam­mála um mik­il­vægi mannúðaraðstoðar á Gaza. Það snert­ir okk­ur öll þegar við sjá­um og heyr­um um al­menna borg­ara sem deyja, einkum börn. Í SÞ-álykt­un­ina vantaði greini­lega for­dæm­ingu á hryðju­verka­árás Ham­as og rétt Ísra­ela til sjálfs­varn­ar inn­an ramma alþjóðalaga.“

Mik­il­væg samstaða náðist um álykt­un um af­stöðu Íslands vegna átak­anna fyr­ir botni Miðjarðar­hafs í ut­an­rík­is­mála­nefnd alþing­is miðviku­dag­inn 8. nóv­em­ber. Til­lag­an sýndi skýr­an vilja til að skapa víðtæka sam­stöðu í mál­inu og festa það ekki í hefðbundn­um flokk­spóli­tísk­um deilufar­vegi. Það var staðfest með 49 sam­hljóða at­kvæðum þing­manna 9. nóv­em­ber.

Þegar Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sótti í þing­ræðu í byrj­un vik­unn­ar að Bjarna Bene­dikts­syni ut­an­rík­is­ráðherra vegna hjá­set­unn­ar í New York og taldi hana leiða í ljós djúp­stæðan ágrein­ing inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar og jafn­vel al­menn­an skort á ut­an­rík­is­stefnu svaraði Bjarni með þess­um orðum:

„Það er eng­inn efn­is­leg­ur ágrein­ing­ur [inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar] um þau meg­in­at­riði sem við höf­um lagt áherslu á í alls­herj­arþing­inu, sem er að það verði að gera vopna­hlé, það verði að fylgja alþjóðalög­um án und­an­tekn­inga og það verði að koma neyðarbirgðum til fólks sem þjá­ist og er í al­gerri neyð.“

Bjarni fagnaði einnig þegar Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, formaður Viðreisn­ar, sagðist ætla að leggja fram til­lögu til þings­álykt­un­ar um málið.

Í mála­miðlun­inni sem náðist í ut­an­rík­is­mála­nefnd­inni fær eng­inn allt sitt fram og enda­laust má deila um orðalag. Flutn­ings­menn til­lög­unn­ar sögðu hana efn­is­lega reista á til­lögu Jórdan­íu og breyt­ing­ar­til­lögu Kan­ada á alls­herj­arþing­inu 27. októ­ber. Með til­lög­unni vildi ut­an­rík­is­mála­nefnd „leggja áherslu á nauðsyn þess að óbreytt­ir borg­ar­ar njóti vernd­ar í sam­ræmi við alþjóðalög um mannúð og mann­rétt­indi og harm­ar gríðarlega þján­ingu, mann­tjón og mann­fall al­mennra borg­ara, eyðilegg­ingu heim­ila og innviða sem verður að stöðva“.

Í verki sýn­ir rík­is­stjórn­in stuðning með stór­auknu fram­lagi Íslands við Palestínuflótta­mannaaðstoð Sam­einuðu þjóðanna (UN­RWA, The United Nati­ons Reli­ef and Works Agency for Palest­ine Refu­gees) sem alls­herj­arþingið kom á fót árið 1949. Í þökk­um UN­RWA fyr­ir stuðning­inn er tekið fram að Íslend­ing­ar gefi, miðað við höfðatölu, einna mest allra þjóða til UN­RWA.

Allt þetta ber að virða þegar met­in er afstaða alþing­is og rík­is­stjórn­ar­inn­ar vegna hörm­ung­anna af völd­um stríðsins á Gaza.

Eng­inn get­ur með nein­um rök­um haldið því fram að ís­lensk­ir stjórn­mála­menn og stjórn­völd láti sig átök­in á Gaza engu varða. Árás­ir á ís­lenska ráðherra með ásök­un­um um að óvissa sé um af­stöðu rík­is­stjórn­ar­inn­ar eiga ekki við nein rök að styðjast.

Því ræður vilji til að ýta und­ir sundr­ung sé gert lítið úr fram­lagi Íslands.

Í maí 2018 sigraði ísra­elska söng­kon­an Netta Barzilai í söngv­akeppni Evr­ópu. Þá sagði Sema Erla Ser­d­ar, fyrrv. formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Kópa­vogi og fyrrv. formaður fram­kvæmda­stjórn­ar Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, á FB-síðu sinni laug­ar­dag­inn 12. maí:

„Með sigri Ísra­els í Eurovisi­on hef­ur Evr­ópa enn og aft­ur lagt bless­un sína yfir fjölda­morð, landrán, her­nám, pynt­ing­ar og ómannúðlega og ógeðfellda meðferð ísra­elska hers­ins og ísra­elskra stjórn­valda á sak­laus­um palestínsk­um börn­um, kon­um og mönn­um. Þetta er ógeðslegt. Ógeðslegt.“

Þeim sem nálg­ast allt sem snert­ir Ísra­el á þenn­an hátt dug­ar ekki álykt­un alþing­is. Þeir hafa annað mark­mið en sætt­ir hér eða þar.

Það er nefnt til marks um skýr­an vilja Keirs Star­mers til að losa Verka­manna­flokk­inn und­an öll­um ásök­un­um um gyðinga­hat­ur að hann rak mann úr þing­flokkn­um fyr­ir að vísa til slag­orðsins um frelsi fyr­ir Palestínu­menn frá ánni til hafs­ins. Slag­orðið er túlkað sem krafa um að Ísra­els­ríki sé afmáð af kort­inu. Í álykt­un alþing­is er kraf­ist tveggja ríkja lausn­ar.