25.3.2023

Þingmenn dýpka varnarmálaumræður

Morgunblaðið, laugardagur, 25. mars 2023.

Xi Jin­ping Kína­for­seti og Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti sögðust hafa stofnað til var­an­legs efna­hags­sam­starfs milli þjóða sinna þegar þeir hitt­ust í Moskvu þriðju­dag­inn 21. mars. Rúss­ar ætla að selja meiri orku til Kína og kín­versk fyr­ir­tæki ætla að láta meira að sér kveða í Rússlandi. Mark­mið for­set­anna er að hindra að vest­ræn ríki geti raskað efna­hag þjóða þeirra með refsiaðgerðum.

Orku­lind­ir Rússa, olíu- og gas­lind­ir, eru mest­ar á norður­slóðum. Þess vegna mun þetta var­an­lega sam­starf sem for­set­arn­ir kynntu óhjá­kvæmi­lega hafa áhrif fyr­ir öll ríki sem átt hafa aðild að Norður­skauts­ráðinu með Rúss­um.

Skil­in sem orðið hafa milli NATO-þjóðanna og Rússa á meg­in­landi Evr­ópu teygja sig nú í Norður-Íshafið. Af­hroðið sem land­her Rússa hef­ur beðið á víg­vell­in­um í Úkraínu verður til þess að áhersla Rússa á kjarn­orku­herafla sinn eykst. Meg­in­styrk­ur hans er á norður­slóðum aust­an við landa­mæri Nor­egs á Kóla­skag­an­um. Kjarn­orkukaf­bát­ar með lang­dræg­ar kjarnaflaug­ar sveima um norður­höf­in og rúss­neska brjóst­vörn­in teyg­ir sig að norðausturodda Íslands.

50001mynd4Gömul mynd yfir nýframkvæmdasvæði Íslenskra aðalverktaka á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli (mynd; vefsíða ÍAV).

Auk­in hernaðarleg um­svif Rússa sam­hliða vax­andi nýt­ingu auðlinda í hánorðri sýna hve ís­hafið og sigl­inga­leiðir þar skipta rúss­neska ráðamenn miklu. Þeir og for­ystu­menn annarra ríkja í Norður­skauts­ráðinu tala þó gjarn­an um svæðið sem lág­spennusvæði þegar rætt er um ör­ygg­is­mál. Yf­ir­lýs­ing­um í þá veru fækk­ar og hljóma nú sem öf­ug­mæli í eyr­um margra.

Við blas­ir há­spenna þegar olía og gas í norðri er helsta sölu­vara Rússa til Kín­verja svo að þjóðirn­ar geti staðið á eig­in fót­um þótt vest­ræn ríki grípi til efna­hags­legra refsiaðgerða. Yf­ir­lýs­ing­ar eft­ir fund­ina í Moskvu bera keim af hót­un­um um að fram­veg­is haldi ekk­ert aft­ur af ein­ræðis­ríkj­un­um tveim­ur.

Nor­ræn viðhorf í ör­ygg­is­mál­um hafa gjör­breyst á inn­an við einu ári. Af fjöl­mörgu sem má tí­unda skulu nefnd sex atriði:

1. Finn­ar og Sví­ar hafa sótt um aðild að NATO.

2. Norðmenn hafa hækkað viðbúnaðarstig herafla síns og aukið varn­ir gegn skemmd­ar­verk­um á hafi úti.

3. Dan­ir leggja nú mun meiri áherslu á varn­ir Græn­lands og Fær­eyja en þeir hafa nokkru sinni gert.

4. Ákveðið hef­ur verið að opna rat­sjá í þágu NATO í Fær­eyj­um sem lokað var árið 2007.

5. Kynnt­ar hafa verið hug­mynd­ir um að Dan­ir ætli að breyta flug­vell­in­um í Syðri-Straum­firði á Græn­landi í her­stöð á næsta ári.

6. Nor­rænu rík­in fjög­ur, án herlausa Íslands, hafa mótað sam­ræmda varn­aráætl­un og vilja nor­rænt her­stjórn­ar­svæði í NATO.

Þetta eru aðeins dæmi, list­inn gæti orðið miklu lengri. Hvar stend­ur Ísland í þessu til­liti?

Þriðju­dag­inn 22. mars ræddu þing­menn ár­lega skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir sagði að við hefðum treyst stöðu okk­ar inn­an NATO og aukið sam­starfið við rík­in sem standa að sam­eig­in­lega viðbragðsliðinu í norðri (JEF) og og nor­ræna varn­ar­sam­starf­inu (NOR­D­EFCO). Við hefðum aukið sam­starfið og sam­talið við Banda­rík­in og þar væri ým­is­legt í vinnslu sem mundi „birt­ast okk­ur á næstu miss­er­um og end­ur­spegla þær breyt­ing­ar sem eru að eiga sér stað í kring­um okk­ur“. Það þýddi að við mund­um þurfa að gera ákveðnar breyt­ing­ar hér.

Þá tók ráðherr­ann und­ir með Loga Ein­ars­syni, tals­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í umræðunum, um „að það væri gott og heil­brigt fyr­ir al­menn­ing og fyr­ir stjórn­mál­in að við tækj­um dýpra sam­tal um það hvaða breyt­ing­ar hafa átt sér stað. Hvað þýða þær fyr­ir Ísland? Hvað þýða þær inn á við en ekki síður þegar kem­ur að hlut­verki okk­ar út á við?“

Sem svar við spurn­ingu Þor­gerðar Katrín­ar Gunn­ars­dótt­ur, for­manns Viðreisn­ar, sagðist ut­an­rík­is­ráðherra „fagna mjög þing­manna­máli um að koma á fót ein­hvers kon­ar vett­vangi til að dýpka umræðu um ör­ygg­is- og varn­ar­mál“. Þarna vísaði hún til til­lögu þing­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins um rann­sókna­set­ur um ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Ráðherr­ann vísaði að nýju til NATO, JEF og NOR­D­EFCO auk Banda­ríkja­manna og sagði það mat þess­ara aðila að við þyrft­um ekki fasta viðveru herafla hér og hún sagði: „Hversu trú­verðugt væri það ef við mynd­um finna upp á því hér að segja: Heyrðu, það er reynd­ar okk­ar mat út frá umræðum á vett­vangi sem við höf­um komið á fót að við þurf­um mörg hundruð manna herlið á Kefla­vík­ur­flug­velli?“

Þessi orðaskipti ráðherr­ans og helstu tals­manna stjórn­ar­and­stöðunn­ar í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um stuðla að því að dýpka umræðurn­ar og koma þeim á hreyf­ingu.

Í setn­ing­ar­ræðu á lands­fundi Vinstri-grænna (VG) 17. mars talaði Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra um „viðhalds­fram­kvæmd­ir“ á Kefla­vík­ur­flug­velli. Í skýrslu ut­an­rík­is­ráðherra seg­ir einnig frá ný­fram­kvæmd­um. Raun­ar er þetta mesta upp­færsla á varn­ar­mann­virkj­um á vell­in­um frá því á ní­unda ára­tugn­um þegar Alþýðubanda­lagið (for­veri VG) var í rík­is­stjórn.

Á alþingi boðaði ut­an­rík­is­ráðherra að frek­ari breyt­ing­ar á fram­kvæmd varn­ar­mála væru í vænd­um þótt ekki yrði um var­an­lega dvöl herafla að ræða.

Að því kem­ur fyrr en síðar að rík­is­stjórn­in verður að taka ákv­arðanir vegna áætl­ana Atlants­hafs­her­stjórn­ar NATO í Nor­folk. Þá er einnig nauðsyn­legt að fyr­ir liggi hvernig Ísland teng­ist nýrri sam­eig­in­legri nor­rænni her­stjórn inn­an vé­banda NATO.

Öll óvissa um þetta er óviðun­andi. Það er fagnaðarefni að umræður um þessi mál urðu opn­ari á alþingi síðastliðinn þriðju­dag.

Fram­hald þeirra verður að taka mið af meg­in­straum­um alþjóðamála þar sem sam­starf Rússa og Kín­verja veg­ur þungt og ekki síst í norðri.