20.10.2018

Þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni

STJÓRNMÁL & STJÓRNSÝSLA tímarit HÍ 1. hefti 7. árg. 2011

Stjórnmál & Stjórnsýsla 1. tbl. 7. árg. Almennar greinar og erindi
Vefbirting 30. júní 2011 – Birtist á vefnum http://www.stjornmalogstjornsysla.is
Útgefandi: Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Gimli, Sæmundargötu 1, 101 Reykjavík,
Neðanmálsgreinarbrenglast við flutning greinarinnar á þessa síðu og er því bent á frumbirtingarvefsíðu vegna þeirra.
Myndin er af Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna 2001-2006.








Nýlega birtist vefsíða með gögnum Donalds Rumsfelds, varnarmálaráðherra Banda- ríkjanna frá 20. janúar 2001 til 18. desember 2006 Gögnin á síðunni staðfestu þá skoðun mína að Rumsfeld hefði ráðið úrslitum um lokun Keflavíkurstöðvarinnar.

Rumsfeld segir í ævisögu sinni Known and Unknown sem kom út í febrúar 2011: „Iceland was a wake-up call for me. If it was that hard to change our posture there changes elsewhere in the world would even be more difficult (bls. 304).“ Af þessum orðum má draga þá ályktun að reynsla Rumsfelds af því að loka Keflavíkurstöðinni hafi ráðið miklu um framgöngu hans annars staðar.

Sagan um brottför varnarliðsins er öðrum þræði lýsing á stjórnarháttum í Wash- ington. Hvað eftir annað erum við minnt á að stóru ríkin ráða að lokum. Viðfangsefni stjórnenda annarra ríkja er að laga sig að aðstæðum án þess að fórna meginhagsmunum þjóða sinna.

Þegar Ásta Möller mæltist til þess að ég ritaði þessa grein óskaði hún þess sérstak- lega að ég lýsti þætti mínum í umræðum um varnarmálin undanfarin 20 ár. Í greininni leitast ég við að verða við þeirri ósk.

Öryggismálanefnd til 1991

Á níunda áratugnum sat ég í öryggismálanefnd forsætisráðuneytisins fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Nefndin kom til sögunnar eftir að Framsóknarflokkur, Alþýðu- flokkur og Alþýðubandalag mynduðu ríkisstjórn árið 1978, án þess að lýsa því yfir í fyrsta sinn í sögu vinstri stjórna að bandaríska varnarliðið skyldi hverfa úr landi.

Árið 1978 var ég skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu og kom að því í umboði Ólafs Jóhannessonar forsætisráðherra að hrinda ákvæði stjórnarsáttmála ríkisstjórnar hans um öryggismálanefndina í framkvæmd. Hugmyndina um nefndina átti Benedikt Gröndal, formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra í ríkisstjórninni. Hann lét verulega að sér kveða í umræðum um öryggis- og varnarmál og ritaði mikið um þau.

Björgvin Vilmundarson, bankastjóri Landsbanka Íslands, tilnefndur af Alþýðu- flokknum, var formaður öryggismálanefndar á meðan hún starfaði. Nefndin tók til starfa í ársbyrjun 1979 og um mitt ár varð Gunnar Gunnarsson, síðar sendiherra, starfs- maður hennar. Ég tók sæti í nefndinni á árinu 1980 í stað Geirs Hallgrímssonar, for- manns Sjálfstæðisflokksins. Ég lét af störfum í forsætisráðuneytinu haustið 1979 og réðst til starfa sem blaðamaður á Morgunblaðinu. Ég sat í öryggismálanefnd, skrifaði mikið um varnar- og öryggismál og sótti víða ráðstefnur um þau erlendis á níunda áratugnum. Ég settist á alþingi vorið 1991 sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Davíð Oddsson forsætisráðherra lagði öryggismálanefnd niður frá og með 1. janúar 1991 en þáverandi starfsmaður hennar, Albert Jónsson, síðar sendiherra, tók við forstöðu alþjóðadeildar forsætisráðuneytisins. Mér kom þessi ákvörðun Davíðs í opna skjöldu, því að ekki var síður þörf á því að huga að öryggismálum Íslands á umbrotatímum við lok kalda stríðsins en á tíma þess.

Mér er enn í minni hve Ólafur Ragnar Grímsson, sem sat í nefndinni fyrir hönd Alþýðubandalagsins, brást illa við ákvörðun Davíðs um að leggja nefndina niður. Lét hann reiði sína meðal annars í ljós við mig í hliðarherbergi í Alþingishúsinu. Viðbrögð Ólafs Ragnars sýndu að honum þótti mikils virði að sitja í nefndinni. Þótt oft væri hart deilt á fundum hennar ræddu menn mál líðandi stundar einnig af mikil hreinskilni og átti formaður nefndarinnar ekki lítinn þátt í því með árlegu kvöldverðarboði.

Tveggja flokka nefnd um öryggis- og varnarmál

Hinn 23. júní 1992 ákvað Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra í samráði við Davíð að skipa nefnd fulltrúa stjórnarflokkanna, Alþýðuflokks og Sjálfsæðisflokks, auk þriggja embættismanna til að fjalla um öryggis- og varnarmál Íslands við breyttar aðstæður í alþjóðamálum. Hafði nefndin það hlutverk að „greina og leggja mat á stöðu Íslands við breyttar aðstæður í öryggis- og varnarmálum og fjalla í því sambandi sérstaklega um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna“. Skyldi nefndin óska eftir viðræðum við bandarísk stjórnvöld og aðra samstarfsaðila í Atlantshafsbandalaginu eftir því sem við ætti.

Benedikt Gröndal, fyrrverandi utanríkisráðherra, var skipaður formaður nefndar- innar. Hann vék hins vegar úr nefndinni vegna veikinda eftir nokkurra vikna starf og tók Þorsteinn Ingólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, við formennsku af honum og leiddi starf nefndarinnar til loka. Það kom í minn hlut að sitja í nefndinni fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Aðrir í nefndinni voru Karl Steinar Guðnason, alþingismaður úr Alþýðuflokknum, Gunnar Pálsson sendiherra og Albert Jónsson, deildarstjóri í forsætisráðuneytinu. Við skiluðum skýrslu 10. mars 19931 og hefur hún hlotið þann dóm „að teljast veigamesta og metnaðarfyllsta tilraun Íslendinga til að skilgreina varnar- og öryggishagsmuni sína að loknu köldu stríði“.2

Þegar nefndin kom til sögunnar höfðu Bandaríkjamenn fækkað orrustuþotum í Keflavíkurstöðinni úr 18 í 12 á árinu 1991. Colin Powell, þáv. formaður herráðs Banda- ríkjanna, kallaði AWACS-ratsjárþotur frá Íslandi og taldi þær nýtast betur til að leita að fíkniefnasmyglurum á Karabíahafi en fljúga yfir svæði þar sem engar sovéskar hervélar sæjust lengur á lofti.

Nefndin hélt til viðræðna í Washington 10. og 11. september 1992. Fyrir fundina þar ákváðum við í samráði við utanríkisráðherra, að höfuðviðfangsefni okkar í við- ræðunum yrðu að árétta viðvarandi íslenska öryggishagsmuni og nauðsyn fullnægjandi varna landsins í samvinnu við Bandaríkjamenn; leggja mat á stöðu varnarsamstarfsins við hinar breyttu aðstæður í Evrópu; afla í því sambandi sem gleggstra upplýsinga um áform bandarískra stjórnvalda um varnir Evrópu og Atlantshafs; gera bandarískum stjórnvöldum grein fyrir nauðsyn þess að öll áform um framtíð varnarliðsins yrðu kynnt íslenskum stjórnvöldum með hæfilegum fyrirvara og ákvarðanir þar að lútandi teknar í samráði við íslensk stjórnvöld.

Að loknum fundum nefndarinnar í Washington sendu stjórnvöld Íslands og Bandaríkjanna frá sér sameiginlega tilkynningu þar sem sagði:

Fulltrúar ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna hittust í Washington 10.–11. september 1992 og ræddu um tvíhliða samskipti ríkjanna í öryggismálum. Á fundum í utanríkisráðuneytinu, varnarmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu ræddu þeir um þær breytingar, sem orðið hafa á hernaðarlegri stöðu á Norður- Atlantshafi og almennt í heiminum auk þess sem viðræðurnar snerust um þróun samstarfs ríkjanna í varnarmálum á undanförnum áratugum. Þar áréttuðu þeir hve þetta samstarf hefði skilað miklum árangri, sem sjá mætti á jákvæðum breytingum á sviði öryggismála á síðustu árum. Einnig var lögð áhersla á að þrátt fyrir stórfelld umskipti í alþjóðastjórnmálum byggðist mat á gagnkvæmum öryggishagsmunum að verulegu leyti enn á landfræðilegum staðreyndum.

Báðir aðilar ítrekuðu áframhaldandi mikilvægi samstarfs þeirra sem byggist á varnarsamningnum frá 1951 og hefur stuðlað að því að tryggja öryggi þeirra og Atlantshafsbandalagsríkjanna allra. Bent var á að varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna hefði sérstaklega mikilvægu hlutverki að gegna sem liður í öryggiskerfinu er tengir NATO-ríki Evrópu og Norður-Ameríku um Atlantshaf. Þeir staðfestu vilja sinn til að halda áfram samstarfi sínu báðum til hagsbóta á grundvelli náinnar samvinnu og samráðs í anda varnarsamningsins frá 1951.3

Auk þess að fara til Bandaríkjanna stofnuðum við til viðræðna við yfirmenn í höfuð- stöðvum Atlantshafsbandalagsins og stjórnvöld í Noregi og Bretlandi.

Í niðurstöðum okkar sagði: „Varnarsamstarfið við Bandaríkin og þátttaka Íslands í samstarfinu innan Atlantshafsbandalagsins eru og verða hin bjargfasta undirstaða öryggis landsins.“ Þá sagði einnig: „Á tímum örra breytinga í heimsmálum standa Ís- lendingar ekki vörð um öryggi sitt nema með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi og með varnarsamstarfi við vinveitt nágrannaríki.“ Enn sagði:

Nauðsynlegt er, að trúverðugar varnir verði áfram í landinu til að verja fullveldi og lögsögu þjóðarinnar. Einnig þurfa að vera til áætlanir um aukinn viðbúnað, ef þörf krefur. Skýrt hefur komið fram hjá bandarískum stjórn- völdum að breyttar aðstæður dragi ekki úr þeirri skuldbindingu í varnar- samningnum að tryggja varnir lands og þjóðar. Jafnframt veldur niðurskurður á fjárveitingum til landvarna því að ekki er unnt að útiloka frekari samdrátt en þegar hefur orðið í Keflavíkurstöðinni. Málefni hennar mega ekki ráðast af einhliða ákvörðunum Bandaríkjamanna vegna þrýstings í ríkisfjármálum, heldur verða ákvarðanir að byggjast á sameiginlegu mati bandarískra og ís- lenskra stjórnvalda á breyttum aðstæðum í öryggismálum. Í viðræðum nefndarinnar við bandarísk stjórnvöld varð fullt samkomulag um þetta atriði.4Nefndin vakti athygli á því að aðstæður hefðu breyst að því leyti að rödd Íslands hefði ekki sama vægi og áður í umræðum um varnar- og öryggismál, þar sem hernaðarlegt mikilvægi landsins hefði minnkað við lyktir kalda stríðsins. Þá sagði orðrétt:

Það er mikilvægt að stjórnvöld og almenningur átti sig á þessari breytingu. Íslendingar verða að laga sig að henni og haga starfi sínu á alþjóðavettvangi í samræmi við það. Við hinar nýju aðstæður kann að vera erfiðara en áður að láta rödd Íslands heyrast eða fá aðrar þjóðir til að taka tillit til hennar.5

Þegar litið er til baka er ekki unnt að halda öðru fram en þessar niðurstöður nefndarinnar frá 10. mars 1993 hafi verið reistar á raunsæi. Í fyrsta lagi var gengið að því sem vísu að breyting yrði á starfsemi Keflavíkurstöðvarinnar vegna sparnaðar þótt lögð væri áhersla á að hann mætti ekki einhliða ráða ferð heldur skyldi haft samráð milli stjórnvalda ríkjanna. Í öðru lagi var viðurkennt að slagkraftur Íslendinga í við- ræðum um varnar- og öryggismál hefði minnkað vegna þess að lega landsins skipti ekki eins miklu máli hernaðarlega og áður.

Flugherinn býst til brottfarar

Nefndin frá 1992 var einmitt sett á laggirnar af því að íslensk stjórnvöld áttuðu sig á þessum þáttaskilum. Niðurstaða okkar nefndarmanna tekur mið af þeim. Gunnari Þór Bjarnasyni, sem fjallað hefur um brottför varnarliðsins þótti „óneitanlega nokkuð kaldhæðnislegt“ að strax hinn 16. apríl 1993 „gerði bandaríska sendiráðið í Reykjavík íslenskum stjórnvöldum grein fyrir því að vænta mætti róttækra breytinga á skipan varnarmála og hlutverki Keflavíkurstöðvarinnar“. Taldi Gunnar Þór, að þessar áætlanir hefðu „grafið undan meginniðurstöðu nefndarmanna“, um að ekki væru ráðgerðar „verulegar breytingar“ á Keflavíkurstöðinni í „náinni framtíð“. Hann hafði eftir ónafngreindum, íslenskum embættismanni að síðar hefði komið í ljós að „hermála- yfirvöld vestanhafs höfðu þegar komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að leggja niður herstöðina á Keflavíkurflugvelli“.6

Þessi staðhæfing hins ónafngreinda manns stenst ekki gagnrýni. Bandarísk stjórnvöld höfðu ekki komist að þessari niðurstöðu, þótt raddir heyrðust innan stjórnkerfisins, einkum frá flughernum, að eðlilegt væri að endurskoða umfang starf- seminnar með sparnað og betri nýtingu tækja í huga.

Stjórnarskipti urðu í Bandaríkjunum 20. janúar 1993 þegar Bill Clinton sór embættiseið sem forseti og nýir ráðherrar hans settust í ríkisstjórn.

Morgunblaðið birti forsíðufrétt 6. maí 1993 um að Bandaríkjamenn hefðu mikinn niðurskurð á Keflavíkurflugvelli í huga. Olli fréttin fjaðrafoki. Laugardaginn 8. maí birti Morgunblaðið síðan þessa tilkynningu á innsíðu:

Opinber yfirlýsing Bandaríkjastjórnar gefin út af fjölmiðlaskrifstofu varnar- málaráðuneytisins (Pentagon) síðdegis á föstudag:

„Hvað varðar niðurskurð í Keflavík mun Bandaríkjastjórn standa í hvívetna við tvíhliða varnarsamning sinn við Ísland frá árinu 1951. Til að fara náið eftir öryggissáttmála Bandaríkjanna og Íslands eru ríkisstjórnir landanna að hefja viðræður um málefni sem tengjast því bandaríska herliði sem hefur veru á Íslandi.

Samstaða ríkir um mikilvægi þess að viðhalda öflugum viðbúnaði af hálfu Banda- ríkjamanna og NATO í Keflavík. Bandaríkjamenn hafa á undanförnum árum verið að draga úr herstyrk sínum jafnt heima fyrir sem erlendis. Þessar breytingar má rekja til bættrar stöðu heimsmála í kjölfar endaloka kalda stríðsins og stöðu ríkisfjármála.

Engin ákvörðun hefur verið tekin varðandi Keflavíkurstöðina. Allar breytingar á samsetningu varnarliðsins þar munu verða teknar í samráði við íslensk stjórnvöld.“7

Orðalagið á þessari tilkynningu er dálítið sérstakt t.d. þegar vísað er til „öryggis- sáttmála Bandaríkjanna og Íslands“ eins og hann sé eitthvað annað en varnarsam- ningurinn. Ónákvæmni í þýðingu setur raunar svip sinn á allan hinn íslenska texta yfirlýsingarinnar.

Agnes Bragadóttir, sem skrifaði forsíðufréttina í Morgunblaðið 6. maí 1993, sagði síðar að heimildarmenn innan bandaríska utanríkisráðuneytisins hefðu skýrt sér frá því að hinn 16. apríl 1993 hefði „sendiráð Íslands í Washington“ [ekki bandaríska sendiráðið í Reykjavík eins og Gunnar Þór segir] sent utanríkisráðuneytinu í Reykjavík skeyti „þar sem fram kom að verið væri að kanna á vegum bandarískra hernaðar- yfirvalda kosti sem gætu þýtt umtalsverða breytingu á starfsemi varnarliðsins hér á landi, þegar í byrjun nýhafins árs“. Taldi Agnes að þetta „litla skeyti “ hefði „fengið allt kerfið til að nötra og skjálfa“. 8

Hvað sem þessu mati Agnesar leið var ljóst að breytingar yrðu í Keflavíkurstöðinni, spurningin snerist um hvenær og hve miklar. Skýrsla okkar frá 10. mars 1993 bar það glöggt með sér. Frá mínum bæjardyrum séð sneri vandinn að okkur Íslendingum og viðbrögðum okkar. Þess vegna þótti mér miklu skipta að Bandaríkjamenn féllust á þá kröfu okkar að um samráð þjóðanna yrði að ræða. Miðað við fréttir Morgunblaðsins vakti ekki fyrir Bandaríkjastjórn að leyna Íslendinga neinu.

Bókunin frá 1994

Davíð Oddsson forsætisráðherra hitti Al Gore, varaforseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í Washington 3. ágúst 1993. Þar var enn sammælst um samráð milli stjórnvalda ríkjanna. Bandaríkjastjórn skyldi ekki aðeins hafa samráð við ríkisstjórn Íslands um þessi mál heldur einnig að um sameiginlega niðurstöðu yrði að ræða. „Á fundinum kom mjög ákveðið fram sú afstaða varaforsetans, sem hann tók fram að væri einnig afstaða Clintons forseta, að það yrðu ekki gerðar breytingar á varnarstöðinni í Keflavík nema í nánu samráði við Íslendinga. Vegna varnarsamningsins væri þarna um að ræða sameiginlegar ákvarðanir landanna,“ sagði Davíð við Morgunblaðið.9

Hinn 6. ágúst 1993 kynntu Bandaríkjamenn fulltrúum Íslands tillögur sínar á formlegan hátt á fundi í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík.10 Agnes Bragadóttir sagði að Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefði aldrei kynnt utanríkismálanefnd alþingis efnislega hvað Bandaríkjamenn hefðu haft á prjónunum frá því að þeir sýndu Íslendingum þessar tillögur. Þá taldi Agnes að fyrir flughernum hefði vakað að hverfa héðan með fasta flugsveit en senda flugvélar á vettvang reglulega. Íslendingar hefðu hins vegar staðið gegn þessum áformum og haft sigur í fyrstu lotu viðræðna um Keflavíkurstöðina með bókun frá 4. janúar 1994.11

Ekki ríkti neitt trúnaðarsamband milli mín sem formanns utanríkismálanefndar alþingis (1992 til 1995) og Jóns Baldvins utanríkisráðherra. Hann sagði mér ekki frá því hvaða boð hann hefði frá Bandaríkjastjórn en Jón Baldvin hitti til dæmis Warren Christopher, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í september og desember 1993 og ræddu þeir meðal annars varnarmál.

Samskipti mín við utanríkisráðuneytið voru formleg og einkum við ráðuneytisstjóra þess sem sat jafnan fundi utanríkismálanefndar. Vegna deilna um EES-málið skapaðist tortryggni milli stjórnarandstöðu og Jóns Baldvins í nefndinni. Þegar Jón Baldvin sat þar fundi kom oft til kappræðna. Stundum mátti ætla að barist væri bardagans vegna. Þeir Ólafur Ragnar Grímsson, Alþýðubandalagi, og Páll Pétursson, Framsóknarflokki, gáfu ekkert eftir gagnvart utanríkisráðherra. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kvennalista, tók annan pól í hæðina, enda sat hún hjá við afgreiðslu EES-samningsins.

Eftir að Bandaríkjastjórn lagði tillögur sínar fram í ágúst 1993 reyndi verulega á í samskiptum embættismanna Íslands og Bandaríkjanna. Innan bandaríska stjórnkerfisins var að myndast samstaða um að flugherinn hyrfi frá Íslandi og þar með þyrlubjörgunarsveitin. Ítrekað reyndu Bandaríkjamenn að sannfæra Íslendinga um að land þeirra mætti verja frá Bandaríkjunum.

Íslenskum stjórnvöldum var ljóst að færi fjöldi varnarliðsmanna niður fyrir tiltekið mark hyrfu fjárveitingar til félagslegra þátta í rekstri Keflavíkurstöðvarinnar og þar með mundi fjara hratt undan henni. Í 13 ár frá hausti 1993, þegar fyrstu formlegu tillögur Bandaríkjastjórnar um brotthvarf flughersins voru kynntar, til 30. september 2006 hélst rekstur stöðvarinnar hins vegar næsta óbreyttur þótt dregið yrði úr hernaðarlegri starfsemi þar eins og með brotthvarfi kafbátaleitarsveitarinnar, það er PC-3 Orion flugvéla flotans.

Milli jóla og nýárs 1993 boðuðu bandarísk stjórnvöld komu Williams J. Perrys, starfandi varnarmálaráðherra, til landsins til að ræða varnarsamstarfið. Íslenskum embættismönnum varð ekki ljóst fyrr en á fundi með honum hinn 4. janúar 1994 hverjar tillögur hans voru. Til íslenskra embættismanna barst síðar að William J. Perry hefði sjálfur ekki gert upp hug sinn um afstöðuna til óska íslenskra stjórnvalda um sýnilegar varnir með orrustuþotum fyrr en í flugvélinni á leið til Íslands.12

Hinn 4. janúar 1994 náðist samkomulag milli stjórnvalda Bandaríkjanna og Íslands um bókun til tveggja ára við varnarsamninginn. Jón Baldvin Hannibalsson og Perry staðfestu niðurstöðuna með undirskrift sinni í Reykjavík. Ákveðið var að fækka F-15 orrustuþotum Bandaríkjanna í Keflavíkurstöðinni úr 12 í fjórar að lágmarki.

Perry sagði af þessu tilefni: „Á þessu augnabliki sjáum við enga hernaðarlega ógn sem stafar að neinu NATO-ríki, þar með talin Ísland og Bandaríkin. En það er erfitt að segja til um hvað framtíðin felur í skauti sér. “ Hann taldi því nauðsynlegt að halda uppi lágmarksloftvörnum frá Íslandi, vegna legu landsins á Norður-Atlantshafi. Á lokastigi viðræðna um efni bókunarinnar lögðu Bandaríkjamenn til að teknar yrðu upp viðræður, með það í huga að auka hlut Íslendinga í rekstri flugbjörgunar- sveitarinnar, það er þyrlusveitarinnar í Keflavíkurstöðinni. Var þess getið í bókuninni að um þetta yrði rætt.13

Davíð Oddsson forsætisráðherra lýsti mikilli ánægju með niðurstöðuna frá 4. janúar en William J. Perry hafði gengið á hans fund og kynnt honum efni bókunarinnar. Taldi Davíð að niðurstaða samninganna væri mjög í að óskum Íslendinga. „Mér finnst mikilvægast við þessa niðurstöðu, að það er viðurkennt, það sem kom strax fram í samtali mínu við Al Gore varaforseta Bandaríkjanna, þar sem hann í umboði Bandaríkjaforseta lýsti því yfir, að þetta yrði sameiginleg niðurstaða ríkjanna. Það er dálítil breyting frá því sem áður var, því hér á árum fyrr voru vélar, til dæmis AWACS-ratsjárflugvélarnar, kallaðar til baka, orrustuþotur og fleira, án þess að íslensk stjórnvöld hefðu nokkuð með það að gera, heldur lásu bara um það í hermálablöðum eða fréttu eftir öðrum leiðum, eftir á, sem var auðvitað ekki í nógu góðu samræmi við varnarsamninginn, “ sagði Davíð við Morgunblaðið. Þá fagnaði hann því að kröfur Íslendinga um loftvarnir í hérlendis hefðu verið virtar.

„Grundvallarviðhorfíð sem viðurkennt er þarna, um að báðar þjóðirnar hafa með þessar ákvarðanir að gera, á jafnréttisgrundvelli, það er það mikilvægasta í þessu sambandi,“ sagði Davíð Oddsson að lokum við Morgunblaðið.14

Morgunblaðið ræddi einnig við mig, formann utanríkismálnefndar alþingis, um þessa niðurstöðu. Ég minnti á að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna stæði óhaggaður. Unnt væri að veita Íslandi nægilega vörn með fjórum orrustuþotum. Mikilvægast í bókuninni frá pólitískum sjónarhóli væri að um sameiginlega niðurstöðu væri að ræða. Ég lagði einnig mikla áherslu á þýðingu lokasetningar bókunarinnar, um að ríkisstjórnir landanna skuldbyndi sig til að kanna möguleika á að Íslendingar tækju aukinn þátt í leitar- og björgunarmálum. Í blaðinu sagði ég:

Þetta kemur heim og saman við tillögur sem gerðar voru af nefnd sem ég veitti forstöðu varðandi þyrlumálin og skilaði áliti í október 1991. Í því var lagt til að kannað yrði eftir pólitískum leiðum hvort það væri vilji hjá Bandaríkjastjórn til að Íslendingar tækju þessi störf að sér. Við töldum mjög mikilvægt að þetta yrði kannað og niðurstaða fengist um þetta atriði áður en ákvarðanir yrðu teknar um þyrlukost landhelgisgæslunnar og starfsemi þyrlu- björgunarsveitar á vegum hennar. Embættismönnum var falið að kanna þetta og þá kom fram, að það virtist ekki vera áhugi hjá Bandaríkjamönnum að ræða þetta við okkur. Nú er þetta komið þarna inn, að því er mér skilst að frumkvæði Bandaríkjamanna. Þetta tel ég mjög mikilvægt því ég hef lengi haldið því fram að reynsla okkar af rekstri ratsjárstofnunar hljóti að leiða til þess að við lýsum yfir áhuga á að taka að okkur rekstur á fleiri sviðum í tengslum við varnir landsins. Þar hef ég talið skynsamlegt að líta til björgunarsveitarinnar.15

Washingtonför í maí 1994

Um miðjan maí 1994 fórum við nokkur úr utanríkismálanefnd alþingis til Washington, auk mín nefndarmennirnir Anna Ólafsdóttir Björnsson, Kvennalista, Árni Ragnar Árnason, Sjálfstæðisflokki, Ólafur Ragnar Grímsson, Alþýðubandalagi, Páll Pétursson, Framsóknarflokki, og Rannveig Guðmundsdóttir, Alþýðuflokki. Þá var Þorsteinn Magnússon, ritari nefndarinnar, með í förinni, sem hafði verið þaulskipulögð af Einari Benediktssyni sendiherra og Jóni Agli Jónssyni sendiráðunaut. Ég segi þaulskipulögð því að á tveimur dögum 13. og 14. maí hittum við þingmenn beggja deila Bandaríkjaþings og embættismenn í utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneyti og þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

Tilgangur ferðarinnar var fjórþættur:

Að kanna hvort taka mætti upp regluleg tvíhliða samskipti milli alþingis og Bandaríkjaþings. Bandarísku þingmennirnir töldu ýmis tormerki á því enda hefði fulltrúadeild þeirra aðeins slík samskipti við þing Kanada, Mexíkó og Evrópu- sambandsins. Þar að auki færu bandarískir þingmenn sem minnst til útlanda. Sögðum við að sjálfsagt væri að halda fundina í Washington ef til þessara samskipta kæmi.

Að ræða viðskiptatengsl landanna og kanna þá sérstaklega hvort gera mætti tvíhliða fríverslunarsamning milli landanna um leið og rætt yrði um afstöðu Bandaríkjastjórnar til þróunar NAFTA-samningsins, það er fríverslunarsamnings ríkja N-Ameríku. Þá beindist áhugi Bandaríkjamanna að því að bæta ríkjum frá Rómönsku Ameríku í þetta viðskiptasamstarf. Þeir höfðu ekki leitt hugann að samstarfi við Ísland á þessum grunni. Alþingi hafði nýlega samþykkt aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu en um málið varð mikill ágreiningur.

Að ræða hvalveiðar og útskýra sjónarmið Íslendinga í þeim efnum og fá fram hvort afstaða Bandaríkjamanna til málsins hefði breyst. Bandarískir þingmenn og embættismenn lýstu eindreginni andstöðu við hvalveiðar. Íslendingar voru á þessum tíma utan Alþjóðahvalveiðiráðsins og látið var sem aðild að svæðisbundnum samtökum NAMMCO gæti komið í stað ráðsins sem skjól að alþjóðalögum fyrir hvalveiðar. Bandaríkjamenn blésu á það sjónarmið. Ég er þeirrar skoðunar að í ferðinni hafi meðnefndarmenn mínir áttað sig á því að aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu væri skilyrði fyrir því að hvalveiðar hæfust aftur frá Íslandi. Ég þurfti ekki að breyta um skoðun í þessu efni því að ég var annar tveggja þingmanna (hinn var Guðrún Helgadóttir, Alþýðubandalagi,) sem hafnaði úrsögn úr hvalveiðiráðinu. Nokkrum árum síðar sáu alþingismenn að sér og alþingi ákvað aðild að ráðinu sem fól í sér að Íslendingar settu fyrirvara við hvalveiðibann þess.

Að ræða samskipti landanna á sviði varnar- og öryggismála á grundvelli varnar- samningsins frá 1951 og með hliðsjón af bókun (Agreed Minutes) sem ríkisstjórnir landanna urðu sammála um 4. janúar 1994.

Í för okkar í maí 1994 hittum við þingmennirnir meðal annarra James J.Townsend, þáverandi yfirmann skrifstofu varnarmálaráðuneytisins um málefni Norðulanda, Bretlands og Kanada. Hann var gjörkunnugur málefnum Íslands enda hafði hann sinnt þeim síðan 1990. Vann hann meðal annars að samkomulaginu frá 4. janúar 1994 um fyrirkomulag mála í Keflavíkurstöðinni. Hann upplýsti okkur um að bandarískum embættismönnum hefði ekki dottið í hug að nefna rekstur Íslendinga á þyrlubjörgunar- sveitinni fyrr en á lokastigum málsins eftir að yfirmaður í flughernum hefði varpað hugmyndinni fram á leiðinni til Íslands. Kæmi til slíks samstarfs yrði það einsdæmi í sögu bandaríska flughersins.

Flugmenn landhelgisgæslunnar og síðan dómsmálaráðuneytið höfðu ekki áhuga á samstarfi við Bandaríkjamenn vegna þess að hugur þeirra stóð til þess að hingað yrði fengin stór frönsk en ekki bandarísk björgunarþyrla.

Við þingmennirnir vorum ekki leyndir því í bandaríska varnarmálaráðuneytinu að dregið yrði saman í hernaðarlegum útgjöldum Bandaríkjanna og þar á meðal til Keflavíkurstöðvarinnar. Ráðuneytið liti hins vegar þannig á að herstöðin í Keflavík væri „mjög mikilvæg“ eins og segir í frásögn af viðræðum okkar við James Townsend. Í máli hans kom einnig fram, að hann teldi „mjög ólíklegt að til lokunar Keflavíkur- stöðvarinnar kæmi að frumkvæði Bandaríkjanna“. Stöðin hefði aldrei „verið á lista yfir stöðvar sem til greina kæmi að loka“. Honum þótti einnig ólíklegt að Bandaríkjamenn flyttu allar F-15 orrustuþotur sínar frá Íslandi eftir tvö ár þegar samkomulagið í bókuninni frá 4. janúar 1994 rynni sitt skeið „þótt vissulega væri aldrei hægt að segja neitt með algjörri vissu um það mál“.16

Hlutur Íslendinga í eigin vörnum

Að ekki skyldi samið nema til tveggja ára 1994 gaf til kynna að Bandaríkjamenn væru ekki að fullu sáttir við niðurstöðuna. Tveggja ára gildistími bókunarinnar frá 1994 rann út á árinu 1996. Ég sat þá ekki lengur í utanríkismálanefnd heldur í ríkisstjórn sem menntamálaráðherra. Jón Baldvin var í stjórnarandstöðu en Halldór Ásgrímsson hafði tekið við embætti utanríkisráðherra við stjórnarskiptin eftir kosningar í apríl 1995.

Eftir að ég varð menntamálaráðherra beindust kraftar mínir að öðru en varnarmálum. Ég tók þó að mér að flytja fyrirlestur á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjavík um öryggismál 7. september 1995.17 Segja má að boðskapur minn um að Íslendingar tækju meiri ábyrgð á eigin vörnum hafi fylgt mér alla tíð síðan. Ég færði rök fyrir því að Íslendingar ættu að búa sig undir gjörbreytta afstöðu Bandaríkjamanna til dvalar varnarliðsins með því að íhuga, hvað þeir gætu sjálfir lagt af mörkum til að efla eigin varnir. Benti ég á að það væri frumskylda sérhverrar ríkisstjórnar að sýna fram á að hún hefði gert áætlanir til að verja borgara sína og land. Ekki væri til frambúðar unnt að setja allt sitt traust í þessu efni á Bandaríkjamenn.

Íslendingar væru meðal ríkustu þjóða heims, þeir stæðu ekki undir neinum útgjöldum vegna eigin varna og hefðu raunar frekar hagnast á þeim fjárhagslega en hitt í samstarfi við Bandaríkjamenn. Til langframa væri erfitt að sjá rök fyrir því að staða Íslendinga í þessu efni yrði önnur en til dæmis annarra Norðurlandaþjóða. Þær verðu milli 2 og 3% af þjóðarframleiðslu sinni til eigin varna. Ég minnti á að í nýlegum viðræðum milli bandaríska varnarmálaráðuneytisins og fulltrúa íslensku ríkisstjórnarinnar hefði megináhersla verið lögð á að spara og hagræða í störfum varnarliðsins en Íslendingar hefðu neitað að leggja fram fé til að standa undir kostnaði vegna dvalar varnarliðsins. Ég sagðist styðja þá afstöðu heilshugar því að greiðsla til Bandaríkjahers jafngilti í raun skattgreiðslu til Bandaríkjanna vegna eigin öryggis þeirra, eða það sem verra væri, herafli þeirra fengi stöðu málaliða á Íslandi. Ef við ættum að axla fjárhagslegar byrðar vegna eigin varna skyldum við gera það með því að taka sjálfir að okkur skilgreinda þætti þeirra.

Ég vék að íbúafjölda landsins og sagði að með því að nota þumalfingursreglu mætti ætla að unnt yrði að kalla 8 til 10% þjóðarinnar til að sinna vörnum landsins á hættustundu eða milli 20.000 og 28.000 manns án þess að efnhags- og atvinnulíf þjóðarinnar lamaðist. Við slíkan fjölda væri miðað í Lúxemborg. Þar sinntu um 1000 manns störfum í her landsins á friðartímum. Unnt yrði að þjálfa fámennan hóp Íslendinga, 500 til 1000 manns, til að starfa að vörnum landsins án þess að setja vinnumarkaðinn úr skorðum. Með því að hafa slíkan liðsafla í þágu landvarna gætu íslensk stjórnvöld brugðist við með öðrum hætti en ella. Til dæmis yrði unnt að gæta öryggis mikilvægra mannvirkja um land allt án þess að kalla þyrfti liðsauka frá Bandaríkjunum, ef ekki væri um stórhættuástand að ræða. Þá mætti nota liðið til að bæta almannavarnir og í því skyni að bregðast við náttúruhamförum.
Féll boðskapur minn ekki að skoðunum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra sem hafnaði honum. Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra, sagði tillögu mína „óábyrga“ og „fráleita“:18

Segja má að ég hafi kvatt beina þátttöku í umræðum um öryggis- og varnarmál Íslands með erindi mínu í september 1995 þar til ég varð svo dómsmálaráðherra vorið 2003. Að ég hafi gert mér einhverjar gyllivonir um að Bandaríkjastjórn héldi hér úti liðsafla til varnar landinu væru öfugmæli.

Snemma árs 1999 birtist greinargerð starfshóps utanríkisráðuneytisins, Öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót, sem dagsett er 21. febrúar 1999 og samin var af Gunnari Pálssyni, fastafulltrúa Íslands hjá NATO, Þórði Ægi Óskarssyni, skirfstofustjóra varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og Hjálmari W. Hannessyni, skifstofustjóra alþjóðaskrifstofu utanríkisráðuneytisins.

Meðal þess sem segir í niðurstöðum greinargerðarinnar er þetta:

Kannaðar verði leiðir til þess að Íslendingar geti axlað stærra hlutverk, einir eða í samstarfi við önnur ríki, í vörnum landsins þ. á m. á sviði löggæslu, varna gegn hryðjuverkum, almannavarna, björgunarstarfa, æfinga og eftirlits í kringum landið. Sjá verður til þess að mögulegt sé að nýta reynslu og þekkingu þeirra Íslendinga, sem starfað hafa að friðargæslu á erlendum vettvangi, í þágu varna landsins og öryggis eftir að þeir snúa heim.

Greinargerðin var rædd á alþingi 25. febrúar 1999 en þá var ég fjarverandi vegna starfa sem menntamálaráðherra. Ég sagði hins vegar á vefsíðu minni að hugmyndir mínar í fyrirlestrinum 1995 um hlut Íslendinga í eigin vörnum hefði verið „af svipuðum toga“ og lýst væri í þessari nýju greinargerð embættismanna í utanríkisráðuneytinu „það er að við héldum áfram í NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin en skilgreindum betur, hvað við ætluðum að gera sjálfir við breyttar aðstæður“. Menn þyrftu ekki að hafa mikla þekkingu á öryggismálum til að átta sig á því að ráðstafanir til að ná þeim markmiðum greinargerðarinnar féllu utan hefðbundinna löggæslustarfa.19

Bókunin frá 1996

Þegar dró að lyktum tveggja ára gildistíma bókunarinnar frá 4. janúar 1994 ræddu fulltrúar Íslands og Bandaríkjanna saman. Hinn 9. apríl 1996 rituðu Halldór Ásgrímsson og Walter B. Slocombe, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, undir samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamstarfs ríkjanna á grundvelli varnarsamningsins frá árinu 1951, eins og þar sagði. Fór athöfnin fram í Ráðherra- bústaðnum við Tjarnargötu í Reykjavík.

Í samkomulaginu voru ítrekaðar skuldbindingar beggja ríkjanna um varnir Íslands á grundvelli varnarsamningsins frá 1951 og aðildar að Atlantshafsbandalaginu, og staðfest áframhaldandi vera varnarliðs Bandaríkjanna í varnarstöðinni. Áréttað var náið samstarf í öryggis- og varnarmálum, bæði tvíhliða og innan Atlantshafsbandalagsins.

Varnarviðbúnaður yrði óbreyttur í Keflavíkurstöðinni frá því sem ákveðið var í bókuninni frá 4. janúar 1994. Fjórar orrustuþotur yrðu á Íslandi og óbreyttur rekstur þyrlubjörgunarsveitarinnar. Háttsettir embættismenn mundu gera tillögur um leiðir til þess að draga úr kostnaði vegna reksturs varnarstöðvarinnar. Þá var rætt um verktöku á vegum varnarliðsins og skyldi sparað með breyttu fyrirkomulagi á því sviði.

Gildistími samkomulagsins frá apríl 1996 var fimm ár. Í lok kynningar utanríkisráðu- neytisins á samkomulaginu sagði: „Hinn langi gildistími samkomulagsins tryggir stöðugleika og treystir farsælt varnarsamstarf ríkjanna fram á næstu öld.“20

„Við teljum varnarstöðina mikilvæga til langs tíma litið og erum ákveðnir í að vera hér áfram, að fengnu samþykki almennings og stjórnvalda á Íslandi,“ sagði Slocombe í samtali við Morgunblaðið. Hann taldi ekki um neina hernaðarógn að ræða á Norður-Atlantshafi þá um stundir en bætti við: „Herafli og varnarbandalög eru hins vegar eins og tryggingar; menn halda áfram að fjárfesta í þeim, því að þótt engin hætta steðji að í allra nánustu framtíð eru alltaf hugsanleg vandamál og það er þess virði að viðhalda grundvallargetu og viðbúnaði, ef eitthvað fer úrskeiðis.“21

Umræður urðu ekki miklar um þetta samkomulag. Ég saknaði þess að í því var ekki lengur ákvæði um að haft yrði samráð milli stjórnvalda Íslands og Bandaríkjanna um ráðstafanir varðandi Keflavíkurstöðina. Ég taldi að úr því að ákvæði um samráð hefði einu sinni verið komið inn í texta af þessu tagi væri ástæðulaust eða jafnvel varasamt að sleppa því.

Samkomulagið frá 9. apríl 1996 gerði ráð fyrir óbreyttu ástandi í Keflavíkurstöðinni út síðara kjörtímabil Bills Clintons næði hann endurkjöri í forsetakosningunum haustið 1996. Clinton sór embættiseið forseta öðru sinni í janúar 1997. Í apríl 2001 hafði George W. Bush tekið við embætti forseta og Donald Rumsfeld varð varnarmála- ráðherra 20. janúar 2001.

Varnarsamningur í hálfa öld

Hinn 5. maí 2001 var þess minnst að hálf öld var liðin frá því að ritað var undir varnarsamninginn. Af því tilefni ritaði ég grein í Morgunblaðið þar sem sagði meðal annars:

Varnarsamningurinn frá 1951 hefur ekki gildi nema með rökum sé sýnt fram á, að gerðar séu ráðstafanir til að sinna skyldum í samræmi við efni hans. Það verður ekki gert nema unnt sé að fylgjast með skipaferðum við Ísland, halda uppi vörnum í lofthelgi Íslands, hafa tiltækar áætlanir um varnir landsins og æfa framkvæmd þeirra. Einnig þarf að sýna með áætlunum og viðbúnaði, hvernig unnt er að tryggja öryggi þeirra, sem lenda í lífsháska á Íslandi eða í nágrenni við landið.

Hinn 4. janúar 1994 var í fyrsta sinn gengið frá sameiginlegri bókun milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamningsins til næstu tveggja ára. Var gildistími bókunarinnar framlengdur til fimm ára hinn 9. apríl 1996. Er því enn kominn tími til þess að huga að þessari bókun. Að mínu áliti er þetta fyrirkomulag ekki skynsamlegt, enda í andstöðu við hefðir í samstarfi þjóðanna frá 1951 til 1994 og það eðli varnarsamningsins, að hann gildi, þar til annar hvor aðili hans vill rifta honum. Samkvæmt samningnum ber að standa að vörnunum í samræmi við sameiginlegt mat á öryggishags- munum hverju sinni. Með hina sameiginlegu og varanlegu hagsmuni í huga hafa Bandaríkjamenn hag af því að halda hér úti þeim liðsafla og tækjakosti, sem er nauðsynlegur til eftirlits í og á hafinu og dugar til fyrstu viðbragða á landi og í lofti. Ef fallið yrði frá því að framkvæma varnarsamninginn með þessum hætti, skapaðist sú pólitíska aðstaða, að á hættustundu kynnu ákvarðanir um slíka grunnþætti að leiða til hættulegrar stigmögnunar og skapa spennu í samskiptum þjóðanna og út á við.22

Þarna kom fram sú grundvallarafstaða að inntak varnarsamstarfsins réði gildi þess. Þeirri spurningu var hins vegar látið ósvarað hvaða tækjabúnað eða viðbúnað þyrfti hér á landi af hálfu Bandaríkjamanna til að sinna þessu verkefni. Ég benti hins vegar á hina pólitísku hættu af því að ekki væri haldið úti nauðsynlegum tækjakosti og liðsafla í landinu sjálfu. Í grein minni rakti ég einnig meginþætti fyrirlesturs míns frá 7. september 1995 og áréttaði þá skoðun, sem ég hafði lýst þar.

Í sama afmælisblaði Morgunblaðsins birtist viðtal við Davíð Oddsson forsætisráðherra sem sagði meðal annars:

Hér á ekki að vera varnarstöð ef hún þjónar eingöngu eftirlits- og forvarna- hlutverki fyrir Bandaríkjamenn vegna hugsanlegrar hættu á svæðinu og þjónar ekki því sem við skilgreinum sem varnir Íslands. Ef Bandaríkjamenn komast að þeirri niðurstöðu að þeir vilji ekki halda uppi stöð sem þjóni hagsmunum beggja verður hún einfaldlega lögð niður. Flóknara er þetta ekki og í þessu felst engin hótun. Bandaríkjamenn skilja þetta vel þótt til séu Íslendingar sem ekki gera það. Hér er um sameiginlega varnarstöð að ræða, hún ver hagsmuni beggja þjóðanna. Við munum á næstu árum þurfa að hafa svipaðan viðbúnað og hér er nú, ákveðinn lágmarksfjölda flugvéla. Stöðin getur ekki verið minni en hún er.

Þarna fór ekkert á milli mála annaðhvort yrði hér bandarískt varnarlið eða Kefla- víkurstöðinni yrði lokað. Orðin voru einnig túlkuð á þann veg að við brottför varnarliðsins yrði varnarsamningurinn frá 1951 einskis virði.

Rumsfeld kemur í varnarmálaráðuneytið

Þegar ég ritaði afmælisgrein mína um varnarsamninginn vorið 2001 vissi ég ekki um framvindu mála sem hófst innan Pentagons, varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, og stjórnkerfisins í Washington skömmu eftir að Donald Rumsfeld varð varnarmálaráð- herra. Upplýsingar um það má nálgast á vefsíðunni www.rumsfeld.com/ en þar er, eins og áður er sagt, að finna Rumsfeld Papers, opinber skjöl frá ferli hans. Styðst ég við þau skjöl í þessari frásögn án þess að vísa til þeirra hvers og eins neðanmáls.

Rumsfeld var sendiherra Bandaríkjanna hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO) frá febrúar 1973 til ágúst 1974, þegar íslensk stjórnvöld áttu í útistöðum við Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 mílur og þeirrar stefnu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannes- sonar að loka Keflavíkurstöðinni í áföngum. Hann kom hingað til lands sem NATO- sendiherra og minnist ég þess að hafa hitt hann í bandaríska sendiráðinu af því tilefni. Ég á ekki ánægjulega minningu um þá stund. Þótt Rumsfeld væri brosmildur var hann hryssingslegur.

Paul Wolfowitz var varavarnarmálaráðherra Rumsfelds frá 20. janúar 2001 til 1. júní 2005. Ég hafði kynnst honum á tíma kalda stríðsins þegar hann lét að sér kveða í umræðum um öryggismál. Sóttum við nokkrar ráðstefnur saman meðal annars hér á landi, einkum undir handarjaðri Johans Jörgens Holts sem síðar varð varnarmála- ráðherra og utanríkisráðherra Noregs en lést um aldur fram. Ég vissi að Wolfowitz hafði góða þekkingu á öryggismálum á norðurslóðum. Hann var í hópi ný-íhaldsmanna (neo-conservatives, gyðinga sem voru sumir hverjir á yngri árum langt til vinstri en snerust harkalega gegn Sovétríkjunum og öllum sem þeir töldu andstæðinga Bandaríkjanna og Ísraels).

Hinn 26. mars 2001, rúmum tveimur mánuðum eftir embættistöku sína, sendi Rumsfeld stutt minnisblað til Chris Williams, sérfræðings í varnar- og öryggismálum, sem var nefndur „hægri hönd“ Rumsfelds í fjölmiðlum.23 Í orðsendingunni sagði Rumsfeld að hann vildi setja af stað ferli til að fjarlægja herafla Bandaríkjanna (U.S capabilities) frá Íslandi. Hann gegndi ekki neinu sérstöku hlutverki fyrir utan að sinna leit og björgun í þágu Íslands. Rumsfeld sagði að sér væri sagt að með þessu mætti spara 645 stöður (slots) og meira en 120 milljónir dollara. Afrit var sent til Pauls Wolfowitz.

Íslensk stjórnvöld höfðu spurnir af því nokkru eftir komu Rumsfelds í varnar- málaráðuneytið að fulltrúar ýmissa bandarískra stjórnarstofnana hefðu komið saman til fundar (interagency meeting) til að ræða um Keflavíkurstöðina og lokun hennar undir þeim formerkjum að Íslendingar tækju við rekstri og viðhaldi flugvallarins, mannvirkja og ratsjárstöðvanna.

Hinn 11. júlí 2001 sendi Rumsfeld orðsendingu til Colins Powells, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Þar minnti hann á samtal þeirra um viðleitni til að draga saman herafla Bandaríkjanna á Íslandi, þar sem væru F-16 orrustuþotur, leitar- og björgunarsveit og stuðningslið. Varnarmálaráðuneytið hefði í nokkur ár leitast við að fækka í liðinu. Íslendingar stæðu hins vegar gegn því og andstaða þeirra endurspeglaðist síðan í afstöðu bandaríska utanríkisráðuneytisins. Rumsfeld sagðist mundu meta það við Powell ef hann liti á málið fyrir sig og utanríkisráðuneytið tæki síðan á málinu með varnarmálaráðuneytinu.

Colin Powell tók málið föstum tökum og brást skjótt við orðsendingunni frá Rumsfeld, því að hann svaraði honum strax daginn eftir, 12. júlí 2001. Powell sagði að markmið þeirra Rumsfelds væri hið sama varðandi dvöl bandarískra hermanna á Íslandi, að hún skilaði sem mestum árangri, samhliða því sem dregið yrði úr kostnaði Bandaríkjanna vegna hennar með því að skilja að hernaðarlegan hluta í rekstri Keflavíkurflugvallar og borgaralegan, tryggja aðgang að aðstöðu í Keflavíkurstöðinni og leggja rækt við góð samskipti við bandamann innan NATO, þau væru báðum aðilum til hagsbóta.

Powell sagði að í niðurstöðu af mati utanríkisráðuneytisins fælist að þeim Rumsfeld yrði ekki kleift að ná sameiginlegu markmiði sínu ef þeir ræddu um brottflutning orrustuþotnanna í tengslum við viðræður um stöðina.

Hann sagðist telja að unnt væri að ná meiri árangri með því að skilja umræður um orrustuþoturnar, leitar- og björgunarsveitina og stuðningsliðið frá viðræðum um endurskoðun á varnarsamningnum. Hann lagði til að í þessu skyni yrði stofnað til viðræðna við Íslendinga haustið 2001 þar sem farið yrði nákvæmlega yfir stöðuna í öryggismálum og þeim yrði skýrt frá niðurstöðum athugana sem byggðust á því að rökstutt yrði frá núllgrunni hvort þörf væri á fjárveitingu en ekki miðað við útgjöld síðasta árs ( Zero-Based Review). Í þessum viðræðum myndu þeir miða að því að fjarlægja orrustuþoturnar. Þeir mundu vinna að sparnaði auk sveigjanleika og uppstokkunar á dvöl varnarliðsins í sérstökum viðræðum um Keflavíkurstöðina.

Þessi skoðun kemur fram í vélrituðum texta bréfsins en Powell ritar á það með eigin hendi orðsendingu til „Don“ þar sem honum er bent á meðfylgjandi skýrslu frá Barböru J. Griffiths, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, og segir síðan: „Let ́s chat after you‘ve read“ – spjöllum saman eftir að þú hefur lesið.

Skýrsla Barböru J. Griffiths sendiherra var rituð í ársbyrjun 2001 og send utan- ríkisráðuneytinu í Washington sem ábending um að hinn 8. apríl 2001 rynni út fimm ára tíminn samkvæmt bókuninni frá 9. apríl 1996.

Sendiherrann sagði að hernaðarlegt mat sem byggðist á núllgrunni (Zero-Based Review (ZBR)) við ákvörðun fjárveitinga leiddi til róttækra nýrra kosta varðandi varnir Íslands, þar á meðal samstilltrar viðveru (Synchronized Presence) sem gerði ráð fyrir vörnum Íslands frá CONUS, það er meginlandi Bandaríkjanna. Enginn þessara kosta hefði verið kynntur fyrir ríkisstjórn Íslands. Tillögur í þessa veru færu yfir rauða strikið sem Íslendingar hefðu dregið, en þeir segðu að fjórar orrustuþotur á Íslandi væru lágmarkið sem þyrfti til að sanna íslensku þjóðinni að um trúverðugar varnir væri að ræða og þar með tryggja almennan og pólitískan stuðning við Keflavíkur- stöðina. Nú þyrftu Bandaríkjamenn að meta hvort það væri skynsamleg samningatækni að fara yfir þetta rauða strik við upphaf viðræðna og þar með vega að pólitískri samstöðu á Íslandi um dvöl varnarliðsins.

Sendiherrann sagði að tímabært væri að setja markmiðum og aðferðum Bandaríkja- manna nýjan ramma vegna væntanlegra viðræðna. Fælist framtíðin í samstilltri skipan (Synchronized Posture) eða annarri skipan á tækjum flughersins sem gjörbreytti því sem verið hefði undanfarin 50 ár þyrfti Bandaríkjastjórn að stofna til viðræðna utan þess ramma sem mótaður hefði verið með bókuninni frá 9. apríl 1996. Nauðsynlegt væri að búa ríkisstjórn Íslands undir slíkar breytingar og sannfæra hana um að samþykkja afstöðu Bandaríkjastjórnar og gefa ríkisstjórn Íslands tækifæri til að kynna almenningi, sem yrði tortrygginn, og stjórnarandstöðu sem væri óvinsamleg, hina nýju skipan. Samhliða þessu yrði lögð áhersla á að ná samkomulagi innan ramma bókunarinnar um skiptingu kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar á þann veg að Bandaríkjamenn misstu ekki stjórn á þeim þáttum sem skiptu þá máli auk þess sem opnað yrði ferli þar sem vinna mætti að kostnaðarskiptingunni.

Eftir að hafa kynnt þessi almennu markmið lýsti sendiherrann nánar á þremur blaðsíðum stöðu mála hér á landi. Lofaði hún sérstaklega varðstöðu Sjálfstæðisflokksins um varnarsamstarfið og dvöl varnarliðsins og lét þess getið að Davíð Oddsson forsætisráðherra væri öflugur stuðningsmaður Atlantshafssamstarfsins og Keflavíkur- stöðvarinnar. Í sömu andrá og sendiherrann lýsti þessu sagði hún að það væri borin von að ætla sér að ná árangri í viðræðum við Íslendinga með því að fara yfir rauða strikið. Slík framganga stefndi einungis mikilvægum samningsmarkmiðum Bandaríkjamanna í voða.

Þá minnti sendiherrann á að Íslendingar gætu gripið til margvíslegra örþrifaráða úr vopnabúri smáþjóðar sem teldi á sér troðið. Atkvæði Íslendinga skipti sama máli og annarra innan NATO og annars staðar, og það hefði almennt fallið að markmiðum Bandaríkjanna. Í bréfinu var sagt frá því að Li Peng, fjórði forsætisráðherra Kínverska alþýðulýðveldisins, hefði nýlega kórónað langan lista háttsettra Kínverja sem sótt hefðu Ísland heim á liðnum árum. Kínverjum væri mikið í mun að afla sér stuðnings- manna á alþjóðavettvangi.

„Rauða strikið“ sem sendiherrann nefnir oftar en einu sinni í skýrslu sinnar táknar ótta hennar við að ríkisstjórn Íslands vegi að varnarsamningnum sjálfum telji hún Bandaríkjamenn ganga fram af stífni og hörku.

Barbara J. Griffiths var sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi frá 29. septemer 1999 til 29. júlí 2002. Skýrsla hennar sýnir að starfsmenn sendiráðs Bandaríkjanna á Íslandi gerðu sér glögga grein fyrir pólitískri stöðu mála hér á landi í byrjun árs 2001 og hvaða dilk það drægi á eftir sér að ganga af hörku fram gegn ríkisstjórn Íslands og stefnu hennar í varnarmálunum.

Sendiherrann gengur að því sem vísu að Bandaríkjamenn hafi einhliða rétt til að gjörbreyta viðveru sinni á Íslandi. Engin áhersla er lengur lögð á samráð eða sameiginlega niðurstöðu. Vandinn snýst um hvernig eigi að skýra Íslendingum frá ákvörðunum Bandaríkjastjórnar um þetta efni án þess að hér fari allt í bál og brand.

Halldór hittir Powell

Halldór Ásgrímsson hitti Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í fyrsta sinn á tvíhliða fundi 8. ágúst 2001. Hann var haldinn í Washington og ræddu ráðherrarnir að sögn utanríkisráðuneytisins ýmis sameiginleg hagsmunamál Íslands og Bandaríkjanna, m.a. varnarsamstarfið og samstarf innan Atlantshafsbandalagsins. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi varnarsamstarfsins og að samstarf ríkjanna á þeim vettvangi hefði ávallt verið mjög farsælt.24

Halldór sagðist ekki hafa merkt neina stefnubreytingu í máli Powells gagnvart varnarsamstarfinu við íslensk stjórnvöld, þrátt fyrir stjórnarskiptin í Bandaríkjunum. Hann sagði fundinn hafa verið vinsamlegan og mikilvægan undanfara þeirra viðræðna ríkjanna sem halda ætti áfram þá um haustið varðandi „varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna“ eins og sagði ranglega í Morgunblaðinu, því að málið snerist um bókun- ina við samninginn sem rann út í apríl 2001. Það var algengur misskilningur í fjöl- miðlum að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna lægi undir í viðræðum fulltrúa þjóðanna en ekki hin tímabundna bókun. Í frétt Morgunblaðsins sagði einnig:

„Við ræddum allítarlega varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina og stöðu þeirra mála. Ég fór yfir okkar áherslur í þeim efnum, sem eru þær helstar að við viljum ekki sjá miklar breytingar. Við teljum að starfsemin á Keflavíkurflugvelli sé á því stigi að þar sé um að ræða lágmarksvarnir fyrir landið. Bandaríkjamenn hafa verið að skera niður framlög til varnarmála á síðustu árum og alltaf er eitthvað í gangi í því sambandi,“ sagði Halldór.

Aðspurður hvort rætt hefði verið að hafa orrustuþotur og björgunarsveit áfram í Keflavík sagði Halldór það ekki hafa verið rætt sérstaklega. Hann hefði fyrst og fremst lýst þeirri skoðun Íslendinga að sá viðbúnaður sem væri á Keflavíkurflugvelli í dag væri lágmarksviðbúnaður. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki uppi óskir um breytingar þar á og Bandaríkjamenn hefðu ekki heldur lagt fram óskir um breytingar. 25

Auk ráðherranna sátu sendiherrar ríkjanna, Jón Baldvin Hannibalsson, sendiherra í Washington, og Barbara J. Griffiths, sendiherra í Reykjavík, fundinn. Með hliðsjón af skýrslunni sem Griffiths hafði sent Powell og hann framsent til Rumsfelds 12. júlí 2001, fáeinum vikum fyrir komu Halldórs til Washington, má ætla að Powell og Rumsfeld hafi ekki rætt framtíð Keflavíkurflugvallar sín á milli fyrir komu Halldórs. Spurning er hvort Powell hafi gert Halldóri grein fyrir hugmynd sinni um tvískiptar viðræður um varnarsamstarfið á væntanlegum fundum íslenskra og bandarískra embættismanna um þau.

Barbara J. Griffiths taldi í skýrslu sinni í upphafi árs 2001 miklu skipta hvernig ríkisstjórn Íslands yrði skýrt frá stefnu hinnar nýju ríkisstjórnar Bandaríkjanna í varnarmálum. Að lýsa henni á þann veg sem Halldór gerði, þegar hann sagðist ekki hafa merkt neina stefnubreytingu af hálfu nýju ríkisstjórnarinnar, gefur tvennt til kynna: að Powell hafi ákveðið að tala ekki hreint út um málið eða hann hafi gert það á svo diplómatískan hátt að Halldór hafi ekki áttað sig á hinum nýju áherslum.

Um fjórum vikum eftir fund utanríkisráðherra í Washington fengu ráðamenn í Washington um annað að hugsa í öryggismálum en varnir Íslands. Hinn 11. september 2001 réðust hryðjuverkamenn á tviburaturnana í New York og risabyggingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, í Washington. Daginn fyrir árásina flutti Rumsfeld ræðu yfir starfsmönnum ráðuneytis síns og boðaði aðgerðir til að draga úr skrifræði og umbreyta heraflanum í sparnaðarskyni. Hann fékk fljótt um annað hugsa.

Hvað gerði sendiráð Íslands í Washington?

Skýrsla Barböru J. Griffiths sendiherra um stöðu varnarsamstarfsins við lyktir gildistíma sameiginlegu bókunarinnar frá 8. apríl 1996 sýnir, eins og áður segir, að bandarísk stjórnvöld fengu í hendur heildstætt mat á stöðu mála hér á landi og ráð um hvernig haldið skyldi á málum. Það sem sendiherrann kennir við synchronized presence eðasynchronized posture ber að skilja á þann veg að á Íslandi verði ekki orrustuþotur að staðaldri.

Ekki liggja fyrir gögn um hvaða skýrslur hafi borist með stöðumati frá sendiráði Íslands í Washington um það leyti sem kom að þáttaskilum í varnarsamstarfinu með brottfalli bókunarinnar frá 1996.

Jón Baldvin Hannibalsson varð sendiherra Íslands í Washington 1. janúar 1998 og gegndi embættinu fram undir árslok 2002. Aðgangur er ekki opinber að þeim skýrslum sem Jón Baldvin sendi íslenskum stjórnvöldum. Því er ekki vitað um mat hans á gangi þessara varnar- og öryggismála á þessum sögulega tíma. Spurning er hvort hann hafi áttað sig á stefnubreytingunni sem varð eftir að Donald Rumsfeld tók við embætti varnarmálaráðherra. Hvergi er til þess vitnað í bandarískum skjölum að ráðamenn í Washington hafi rætt þessi stóru mál sérstaklega við sendiherra Íslands í borginni. Jón Baldvin hefur meðal annars lýst skoðun sinni á gangi þessara mála á þennan hátt:

Sú skoðun er útbreidd, að leiðtogar lýðveldisins hafi verið Bandaríkjunum helst til leiðitamir, enda hafi varnarliðið verið hér fyrst og fremst til að gæta bandarískra hagsmuna í kalda stríðinu fremur en að verja Ísland fyrir hugsanlegri innrás og hernámi. Það sé svo þessu sjónarmiði til staðfestingar, að þegar Bandaríkjamenn eygðu enga ógn framar við sína hagsmuni á Norður- Atlanzhafi, hafi þeir einhliða tekið ákvörðun um að pakka saman og hverfa á braut, hvað svo sem leið vilja íslenskra stjórnvalda. Um réttmæti þessarar sögutúlkunar má svo sem deila. Hitt fer ekki á milli mála, að margir þeirra, sem litið hafa á Bandaríkjamenn sem sérstaka „vinaþjóð“ Íslendinga, hafa lýst vonbrigðum sínum með viðskilnað Bandaríkjastjórnar og tala um, að traust þeirra á stórveldinu hafi beðið hnekki. Meðal þeirra eru bæði fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, og ritstjóri Morgunblaðsins[Styrmir Gunnarsson].

Ekki verður hins vegar séð, að meirihluti þjóðarinnar harmi brottför hersins. Flestir virðast því fegnir, að þessum kafla Íslandssögunnar er nú lokið. En hvert á að senda þakkarskeytið, með leyfi? Verðum við ekki að senda það á Hvíta húsið eða til Pentagon? Ekki getum við sent það í stjórnarráðið eða upp á Rauðarárstíg [heimilisfang utanríkisráðuneytisins], því að brottför hersins var sannarlega ekki okkar mönnum að þakka. Hún var þeim, þvert á móti, þvert um geð!26

Af þessum orðum verður ekki ráðið að Jóni Baldvini hafi verið kappsmál að varnarliðið yrði hér lengur en Bandaríkjamenn vildu. Hvergi kemur neitt fram sem bendir til þess að hann hafi kynnt utanríkisráðuneyti eða ríkisstjórn röksemdir sem styrktu stefnu íslenskra stjórnvalda í viðræðum við Bandaríkjastjórn.

Ásgeir Sverrisson, blaðamaður Morgunblaðsins, sérfróður um erlend málefni, fór til Washington í apríl 2002 og ritaði yfirlitsgrein um samskipti Íslands og Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum. Hann dró ekki dul á þá skoðun sína að til róttækra breytinga drægi en sagði jafnframt:

Vert er að leggja á það áherslu að innan bandaríska stjórnkerfisins er engar þær raddir að finna, sem binda vilja enda á varnarsamstarf ríkjanna. Banda- ríkjamenn taka varnarsamninginn alvarlega og eru ákveðnir í að standa við þær skuldbindingar, sem hann kveður á um. „Íslendingar eru vinir okkar og traustir bandamenn og við ætlum okkur að leysa þetta mál,“ sagði háttsettur embættismaður, sem rætt var við í Washington.27

Í huga Bandaríkjamanna snerist málið ekki um að ljúka varnarsamstarfinu við Íslendinga heldur laga framtíð þess að breyttum aðstæðum í öryggismálum og nýrri tækni.

Ásgeir fjallaði einnig ítarlega um breytingar á skipan herstjórna innan NATO en í apríl 2002 ákvað Bandaríkjastjórn að færa yfirstjórn varnarliðsins í Keflavík frá Norfolk í Bandaríkjunum til Evrópuherstjórnarinnar í Stuttgart í Þýskalandi. Olli þetta nokkru fjaðrafoki hér á landi.

Ég sat utan ríkisstjórnar frá 1. mars 2002 til maí 2003. Fagnaði ég grein Ásgeirs á vefsíðu minni og sagði meðal annars:

Víst er mikilvægt að velta fyrir sér stöðunni innan herstjórnarkerfis NATO og síðan Bandaríkjanna sérstaklega, en hitt skiptir mestu, að sameiginlegt mat sé lagt til grundvallar á þeim varnarhagsmunum, sem eru í húfi og hvernig þeirra er gætt og hvaða boðleiðir eru milli stjórnmálamanna, sem gefa heraflanum fyrirmæli. Hershöfðingjar eru talsmenn ákveðinna hagsmuna en taka ekki ákvarðanir um það, hvaða pólitískar ráðstafanir eru gerðar til að gæta þeirra.

Þess hefur alltof oft gætt hjá þeim, sem hafa lítinn áhuga eða þekkingu á öryggismálum, að líta á þau, sem málefni fyrir herforingja. Stjórnmálamenn, sem líta þannig á málin, bregðast þeirri frumskyldu sinni að gera ráðstafanir til að tryggja öryggi borgaranna, sem þeir starfa fyrir. Íslensk stjórnvöld verða að takast á við þetta viðfangsefni án þess að telja að unnt sé að leysa það með því að gera einhliða kröfur á Bandaríkjamenn. Varnarsamningurinn byggist á því að verið er að gæta gagnkvæmra hagsmuna á tvíhliða grundvelli. Ef annar aðili hans kemst að þeirri niðurstöðu að ekki sé lengur þörf á að gera þetta sameiginlega eru forsendur samningsins brostnar.

Ég hef á undanförnum árum haldið því fram, að gæsla öryggishagsmuna okkar Íslendinga hafi breyst á þann veg, að við hljótum sjálf að axla meiri byrðar vegna þeirra en áður. Atburðirnir 11. september [2001] styrktu mig í þeirri trú. Hvað sem við verðum að gera sjálf, getum við hins vegar aldrei gert neitt sem kemur að styrkleika og öryggi í stað varnarsamningsins við Bandaríkin og þess að hafa bandarískan viðbúnað í landinu. Engin Evrópuþjóð kemst hernaðarlega með tærnar þar sem Bandaríkjamenn hafa hælana – varnarsamningur okkar við þá hefur auk þess það stórpólitíska gildi að hann gerir okkur kleift að standa utan við Evrópusambandið.28

Í þessum orðum legg ég enn megináherslu á að við Íslendingar hugum sjálfir að öryggismálum okkar. Varnarsamningurinn hafi fyrst og síðast gildi sem öryggistrygging að lokum en viðbúnaðurinn taki mið af aðstæðum hverju sinni.

Leiðtogar NATO í Prag

Leiðtogafundur NATO var haldinn í Prag, höfuðborg Tékklands, 21. og 22. nóvember 2002. Davíð Oddsson hitti þar George W. Bush, forseta Bandaríkjanna. Tókust með þeim persónuleg kynni sem áttu eftir að skipta máli við framvindu varnarviðræðna Íslendinga og Bandaríkjamanna.

Prag-fundur NATO vakti einkum athygli í fjölmiðlum vegna þess að þar var staðfest stækkun Atlantshafsbandalagsins til austurs. Morgunblaðið spurði Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sem sat fundinn ásamt Davíð hvort hann teldi að breytingar á hermálastefnu bandalagsins gætu haft í för með sér breytingar á viðbúnaði í Keflavíkurstöðinni. Halldór svaraði:

Allt hefur þetta áhrif, ekki bara í Keflavík heldur annars staðar. Við leggjum megináherslu á að ákveðnar lágmarksvarnir þurfi að vera fyrir hendi í Keflavík, ekki bara vegna sögunnar heldur vegna aðstæðna sem nú eru uppi í heiminum. Við teljum að þessar breytingar, sem við erum að upplifa, kalli á áframhaldandi varnir í Keflavík, ekki síst vegna hugsanlegra hryðjuverka.

Halldór benti á að Keflavík væri mikilvægur flugvöllur fyrir flutninga yfir Atlantshafið, ekki aðeins á hernaðarsviðinu, heldur líka fyrir almennar samgöngur:

Keflavík er varaflugvöllur fyrir mjög stóran hluta af öllu farþegaflugi yfir Atlantshafið, þannig að við leggjum mikla áherslu á þýðingu varnarstöðvarinnar í þessari breyttu mynd, meðal annars vegna hryðjuverkaógnar gagnvart flugi.“

Halldór sagði að nú væri aðaláhersla í öryggismálum á baráttuna gegn hryðjuverkum. Þær hættur væru allt annars eðlis en þær sem menn litu til þegar lagður hefði verið grunnur að vörnum Íslands og við uppbyggingu þeirra:

Það eru nýjar áherslur af hálfu bandalagsins, en hvaða áhrif það hefur til langframa á stöðu Íslands er ekki gott að segja á þessu stigi. Það er nýbúið að flytja yfirstjórn Keflavíkurstöðvarinnar til Evrópu frá Bandaríkjunum og það er verið að fara yfir hlutverk hennar og framtíðarstöðu. Á sama tíma eru áhrif Evrópusambandsins á þessu sviði að aukast. Norðurlandasamvinnan er líka að breytast í átt til miklu meiri Evrópusamvinnu. Hér á þessum fundi fáum við staðfestar gífurlegar breytingar - og ég verð að segja byltingu - í umhverfi okkar öryggismála.29

Öll gáfu þessi orð Íslendingum réttilega til kynna að gífurlegar breytingar hefðu orðið í öryggismálum í þeirra heimshluta og leiðtogar NATO-ríkjanna hefðu staðfest það.

Rumsfeld heldur sínu striki

Skömmu eftir leiðtogafundinn í Prag sendi Donald Rumsfeld enn á ný orðsendingu til undirmanna sinna vegna Íslands, að þessu sinni 5. desember 2002 til Dougs Feiths sem tók við af Walter B. Slocombe sem aðstoðarvarnarmálaráðherra í júlí 2001 og gegndi embættinu til 2005. Rumsfeld sagði:

Hvers vegna náum við ekki þessum flugvélum frá Íslandi? Við höfum fullkomna afsökun. Við erum önnum kafnir í Afganistan og kannski kemur að Írak, og mér virðist einfaldlega að ef við getum ekki fært góð rök fyrir þessu núna, getum við aldrei fært góð rök fyrir því.

Geti þeir ekki komið hingað fyrr en í janúar, hvers vegna sendum við ekki einhvern til Íslands til að tala við þá?

Grípum tækifærið!

Þakkir.

Orðsendingin bar með sér að Rumsfeld ætlaði ekki að gefa neitt eftir varðandi Ísland og hann væri orðinn langþreyttur á því að eitthvað gerist í málinu.

Breytingar urðu í sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík og sendiráði Íslands í Washington á árinu 2002. Barbara J. Griffiths yfirgaf Ísland í lok júlí 2002. Nýr bandarískur sendiherra, James I. Gadsden, kom til Reykjavíkur 9. desember 2002 og dvaldist til 14. júlí 2005. Helgi Ágústsson, eftirmaður Jóns Baldvins í sendiherra- embættinu í Bandaríkjunum, afhenti George W. Bush forseta trúnaðarbréf sitt 9. desember 2002. Helgi sat í Washington til 1. nóvember 2006 þegar Albert Jónsson tók við af honum.

Valur Ingimundarson segir að bandarísk stjórnvöld hafi látið til „skarar skríða“ gagnvart Íslendingum í lok desember 2002 í tengslum við fund bandarískra og íslenskra embættismanna í Washington en boðað hafi verið til hans til að undirbúa viðræður um bókunina frá 1996 sem rann út í apríl 2001. Valur segir:

Eftir fundinn, þar sem Bandaríkjamenn höfðu lýst því yfir að þeir hygðust standa við varnarsamninginn, voru háttsettir íslenskir embættismenn kallaðir á annan fund hjá J. D. Crouch, aðstoðarvarnarmálaráðherra, og tjáð að orrustuþoturnar yrðu fjarlægðar vorið 2003. Skilaboðin voru þau að Bandaríkjamenn hefðu tekið ákvörðunina áður en viðræðurnar um framlengingu bókunarinnar hæfust.

Íslensk stjórnvöld brugðust mjög hart við. Davíð Oddsson kom þeim skilaboðum til bandaríska sendiherrans, James Gadsdens, að það jafngilti uppsögn varnarsamningsins ef Bandaríkjamenn kölluðu þoturnar á brott.30

Hinn 6. febrúar 2003 komu æðstu menn Bandaríkjanna í utanríkis- og öryggismálum saman til fundar um Írak. Við öllum blasti að Bandaríkjastjórn og ríkisstjórn Bretlands ætluðu ekki að sitja aðgerðalausar andspænis Saddam Hussein, einræðisherra í Írak. Á þessum fundi voru þó málefni Íslands einnig á dagskrá. Frásögn um fundinn er að finna í skjölum Rumsfelds á netinu:

Dr. Jack Dyer Crouch II, aðstoðarvarnarmálaráðherra á sviði alþjóðaöryggis (6. ágúst 2002 til 31. október 2003) spurði á fundinum hvernig unnt væri að fá Íslendinga til að skilja að Bandaríkjamenn ætluðu að fjarlægja tæki sín og mannafla frá landinu. Rumsfeld sagði að þetta væri lykilatriði (leading edge) í aðgerðum sem mundu ná til annars bandarísks herafla í Evrópu. Innan NATO hefði enginn annar áhuga á að fylla í skarðið af því að verkefnið á Íslandi væri tóm vitleysa (makes no sense). „Við erum fúsir til að hafa fólk þar fram yfir [þing]kosningarnar [á Íslandi 10. maí 2003]“, er haft eftir Rumsfeld. Í fundargerðinni segir:

Powell: Íslendingar eru góðir bandamenn. Vegna stjórnmála og huglægt hafa þeir pólitíska þörf fyrir eitthvað sem líkist varnarviðbúnaði. Við viljum halda Íslandi á réttum stað. Getum við ekki látið flugvélarnar vera þar áfram á grundvelli einhverrar áætlunar um að þeim sé skipt út reglulega (some rotational scheme)? Hættan er sú að þeir grípi til uppsagnarákvæða varnarsamningsins frá 1951. Yrði hvorki þeim í hag né okkur. Forsætisráðherrann ýtti á Bush vegna þessa í Prag.

Rumsfeld: Við munum fækka fólki þar úr 3.800 í 1.200. Viðvera okkar er hluti af þjóðarframleiðslu þeirra – skiptir ekki litlu. Ef við tökum ekki á þessu á Íslandi hvernig getum við endurskipulagt okkur í Evrópu eins og forsetinn vill að við gerum?

Condoleezza Rice, þjóðaröryggisráðgjafi: Getum við skipt út vélum reglulega? Geta Íslendingar borgað meira og við haldið liði áfram þar úti um einhvern tíma? Batnar ástandið ef við frestum þessu aðeins?

Powell: Við getum skipt út F-15 þotum. Það hefur gildi. Ég hélt að EUCOM [Evrópuherstjórnin] væri að skoða þetta í alvöru.

Crouch: „Ralston hershöfðingi bað bandamenn um að hlaupa í skarðið. Enginn áhugi. Ef þið viljið skipta út, eigið þið þá við að flugvélar séu þar um ákveðinn tíma til æfinga, það er hugsanlegt.“

Powell: Vandinn er EXORD [fyrirmæli í fjárlögum] Damóklesarsverðið 1. mars. Finnum leið til að milda þetta.

Rumsfeld: Það sem þeir vilja í raun er leit og björgun vegna fiskiskipa og þjóðarframleiðslu.

Rice: Hinn 1. júní þurfum við að hafa framkvæmdaáætlun tilbúna.
Crouch: Við þurfum að hefja viðræður. Við getum sagt þeim að við bíðum aðeins.

Rice: Skoðið skilgreiningu á „varnarviðbúnaði“ fyrir Ísland.

Rumsfeld: Við verðum að ljúka einhverju af þessum málum. Þau taka of langan tíma og við höfum öll mjög mikið að gera.

Af frásögn þessari má ráða að samtal Davíðs Oddssonar við George W. Bush í Prag hafi leitt til þess að innan bandaríska stjórnkerfisins var tekið til við að leita annarra leiða en þeirra sem kenna mátti við Rumsfeld og byggðust á því að hverfa skilyrðislaust frá Íslandi. Skilja má orð Powells þannig að Davíð hafi sagt Bush að varnarsamning- urinn væri í hættu yrði samningurinn án sýnilegs innihalds.

Ummæli Rumsfelds um að Íslendingar séu fyrst og síðast að hugsa um þjóðhagsleg málefni þegar þeir óski eftir sýnilegri viðveru Bandaríkjamanna á Keflavíkurflugvelli sýnir að hann hafði alrangar hugmyndir um málflutning íslenskra stjórnvalda. Hann byggðist ekki á efnahagslegum sjónarmiðum.

Hugmyndin um tímabundna viðveru kom fram í minnisblaði Barböru J. Griffiths í ársbyrjun 2001 og var enn á kreiki innan bandaríska stjórnkerfisins í febrúar 2003, eins og ofangreind frásögn ber með sér. Hana má einnig skilja sem málamiðlun innan bandaríska stjórnarráðsins. Bandaríkjamenn höfðu meira að segja reifað hana við bandamenn í Evrópu með óskum um þátttöku þeirra, án þess að fá nokkurn hljómgrunn.

Af upphafsorðum Rumsfelds í frásögninni er augljóst að hann áttaði sig á því að ekki var skynsamlegt að kalla menn og tæki úr Keflavíkurstöðinni fyrir kosningarnar á Íslandi 10. maí 2003. Hinn 20. mars 2003 réðust Bandaríkjamenn og bandamenn þeirra inn í Írak. Ríkisstjórn Íslands lagði þeim pólitískt lið auk þess sem heimilað var að nota Keflavíkurflugvöll í tengslum við innrásina.

Bandaríkjastjórn sýnir spilin

Því er gjarnan haldið fram að ríkisstjórn Íslands hafi tekið afstöðu sína til Íraksstríðsins vegna hagsmuna sinna í viðræðunum við Bandaríkjastjórn í varnarmálum. Þetta styðst ekki við neitt. Hefði ríkisstjórnin ekki skipað sér í þá sveit ríkja sem hún gerði í mars 2003 hefði hún í raun kúvent í stefnu sinni og störfum innan NATO sem byggðist á samstarfi við svonefndan Atlantshafshóp bandalagsríkja, þar sem Bandaríkjamenn og Bretar höfðu forystu, þjóðirnar sem voru í fararbroddi gegn Saddam Hussein.

Föstudaginn 2. maí 2003, átta dögum fyrir þingkosningar, urðu stórtíðindi í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. James Gadsden, sendiherra, gekk á fund Davíðs Oddssonar og tilkynnti honum að Bandaríkjamenn ætluðu að flytja orrustuþotur sínar frá Íslandi 2. júní. Davíð ákvað í samráði við Halldór Ásgrímsson að skýra ekki frá málinu fyrir kosningar. Hann rökstuddi það síðar þannig:

Við töldum að ef þessu máli yrði hent inn í hringiðu kosninga þá fengi það enga málefnalega umfjöllun. Þetta yrðu stóryrði, yfirlýsingar og hringavitleysa sem eingöngu myndi skaða málið en gæti kannski orðið ríkisstjórnarflokkunum til framdráttar í kosningum. En menn urðu að halda ró sinni og vinna að málinu með eðlilegum hætti og koma því í eðlilegan farveg þótt menn væru mjög uppteknir við annað því okkar dagskrá var algjörlega skipulögð á þessum tíma. Okkar dagskrá var skipulögð frá morgni til kvölds. Þannig að þetta var nú ekki besta sendingin sem maður fékk viku fyrir kosningar.31

Robertson lávarður, framkvæmdastjóri NATO, var í Washington 5. og 6. maí. Halldór Ásgrímsson náði í hann í síma, áður en hann hitti George W. Bush í Hvíta húsinu. Lýsti lávarðurinn þar áhyggjum íslenskra stjórnvalda vegna tilkynningarinnar 2. maí. Forsetinn kom af fjöllum og bað menn að fara sér hægt. Hinn 6. maí hringdi Colin Powell í Halldór og sagði að málinu hefði verið frestað.32 Davíð Oddsson sagði síðar (2006) í sjónvarpssamtali:

Þegar þetta mál kemur fyrst til umræðu í Hvíta húsinu og þeir eru þar inni aðalritari NATO [Robertson lávarður] og Colin Powell og fleiri og Íslandsmálið kemur á dagskrá þá spyr forsetinn um hvað eru menn að ræða og þá segja þeir að það sér verið að tala um að fjarlægja þarna þoturnar. Þá segir forsetinn: Davíð Oddsson er vinur minn, látið hann í friði. Og tók fyrir annað mál. Þannig að þetta liggur allt fyrir og er skjalfest.33

Hættumat á vegum NATO?

Ég frétti af fundi Gadsdens sendiherra með Davíð og tók saman nokkra punkta um málið eins og það horfði við mér 4. maí 2003. Forsenda mín var að Bandaríkjamenn ætluðu að kalla herlið sitt heim. Þá mætti fara þá leið að krefjast þess að tímafrestir vegna uppsagnar varnarsamningsins tækju að líða samkvæmt 7. grein samningsins. Við slíka kröfu hæfist 18 mánaða ferli og myndi NATO leggja mat sitt á hvort áfram væri nauðsynlegt að halda aðstöðunni á Keflavíkurflugvelli.

Ekkert sameiginlegt hættumat lægi fyrir af hálfu Íslendinga og Bandaríkjamanna með samþykki Atlantshafsráðsins. Einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna um að kalla héðan flugherafla sinn væri brot á fyrirheiti þeirra um samráð. Með þessu yrði vegið að pólitísku trausti í samskiptum ríkjanna.

Pólitískar forsendur slíkrar ákvörðunar væru ekki skynsamlegar. Yrði flugherinn kallaður einhliða á brott frá Íslandi í óþökk íslenskra stjórnvalda væri tekin sú pólitíska áhætta að það yrði talið til marks um stigmögnun á hættutímum ef ósk kæmi um að hér yrðu á nýjan leik orrustuþotur með fast aðsetur. Íslensk stjórnvöld hefðu ekki áhuga á að semja um leikreglur til að auðvelda bandaríska flughernum að koma hingað þegar honum einhliða hentaði.

Við mat á nýrri stöðu af hálfu Íslendinga væri nauðsynlegt að hafa í huga að Íslendingar hefðu í áranna rás látið Bandaríkjamenn um að ákveða tæknibúnað í Keflavíkurstöðinni í samráði við íslensk stjórnvöld. Þessi búnaður hefði tekið mið af hernaðartækni á hverjum tíma. Allar frásagnir af nýlegum átökum í Írak bæru með sér að þar hefði verið reynd hernaðartækni sem breytti fyrri hugmyndum um hernað auk þess sem ljóst væri að engin þjóð stæðist Bandaríkjamönnum snúning að þessu leyti. Ég velti fyrir mér hvort Bandaríkjamenn hefðu sýnt fram á að þessi nýja tækni gerði þeim kleift að tryggja öryggi Íslands þannig að unnt væri að halda því fram að varnarsamningurinn hefði inntak, þótt hér væri í raun enginn viðbúnaður.

Við brottför orrustuvélanna vaknaði sú spurning hvernig Íslendingar ætluðu að gæta öryggis gegn hryðjuverkum á flugleiðum yfir Norður-Atlantshaf á flugstjórnarsvæði sínu. Ríki hefðu sérstökum skyldum að gegna í því efni. Hingað hefði nýlega komið þingnefnd frá Tékklandi til að kynnast samstarfi okkar við Bandaríkjaher á þessu sviði, því að þar í landi hefðu menn ekki haft burði til að endurnýja flugher sinn til að sinna þessari skyldu gagnvart hugsanlegum hryðjuverkaárásum. Sérstakt áhyggjuefni væri að Rússar hefðu að nýju hafið flug inn í íslenska lofthelgi án þess að gera boð á undan sér.

Taldi ég nauðsynlegt að íslensk stjórnvöld gripu til aðgerða í Bandaríkjunum og innan NATO til að kynna málstað sinn.

Kæmi til brottfarar varnarliðsins ættu íslensk stjórnvöld að lýsa áformum sínum um að endurmeta allar öryggisráðstafanir í þágu lands og þjóðar og stíga þau skref sem talin væru nauðsynleg til að fylla tómarúmið. Þar yrði treyst á stofnanir sem fyrir væru, það er landhelgisgæslu, almannavarnir og lögreglu. Ekki yrði útilokað að grípa til frekari öryggisráðstafana væri þess talin þörf á grundvelli hættumats.

Þá bæri íslenskum stjórnvöldum að lýsa yfir því að ráðist yrði í endurskipulagningu landhelgisgæslunnar til að stórefla hana svo að hún gæti tekið að sér hluta verkefna varnarliðsins. Gæslan ætti að taka yfir mannvirki á Keflavíkurflugvelli, hugað yrði að kaupum á nýrri þyrlu og ráðist í að smíða 3.000 lesta varðskip.

Lýsa bæri yfir því að Keflavíkurflugvöllur yrði rekinn áfram sem samkeppnisfær alþjóðaflugvöllur sem uppfyllti allar öryggiskröfur.

Þessi leið sem ég reifaði í minnisblaðinu var ekki farin. Ríkisstjórnin hafði ekki áhugi á að láta reyna á hættumat af hálfu NATO. Embættismenn höfðu sannfærst um að hvorki innan herstjórna NATO né á pólitískum vettvangi hjá yfirstjórn þess eða í einstökum ríkjum teldu menn hernaðarleg rök hníga að nauðsyn þess að Bandaríkja- menn héldu úti Keflavíkurstöðinni. Það mundi því ekki treysta samningsstöðu Íslendinga gagnvart Bandaríkjamönnum á fá slíkt mat í hendur. Afstaða ríkisstjórn- arinnar var þessi: Á Íslandi eiga að vera grunnvarnir eins og í öðrum NATO-ríkjum, óháð hættumati; varnarsamningur án varna væri innihaldslaus.

Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hélt áfram að loknum kosningum 10. maí og samið var um að Davíð Oddsson yrði forsætisráðherra til 15. september 2004 en þá tæki Halldór Ásgrímsson við embættinu og Davíð yrði utanríkisráðherra. Ég varð að nýju ráðherra eftir kosningar og tók 23. maí 2003 við embætti dómsmálaráðherra, það er yfirstjórn þeirra málaflokka sem ég taldi brýnt að endur- skipuleggja hyrfi bandaríska varnarliðið á brott.

Minnispunktar mínir frá 4. maí 2003 sýna að ég hafði gert upp við mig að Banda- ríkjamenn mundu kalla liðsafla sinn frá Íslandi og haga bæri aðgerðum í því ljósi. Ég lagði ekki til uppsögn varnarsamningsins þótt ég teldi eðlilegt að fá hættumat af hálfu NATO sem vissulega gat leitt til uppsagnar samningsins samkvæmt 7. grein hans og var samningsbundin forsenda uppsagnar.

Reiknað fyrir Rumsfeld

Donald Rumsfeld lét ekki staðar numið í viðleitni sinni við að loka Keflavíkurstöðinni, þótt forsetinn hefði beðið menn að anda rólega eftir fundinn með Robertson lávarði hinn 5. maí 2003. Hinn 29. maí 2003 sendi varnarmálaráðherrann minnisblað til Colins Powells og Condoleezzu Rice um kostnað við úthaldið á Íslandi. „It is too much. We have to get it fixed“, það er of hátt við verðum að kippa þessu í lag, sagði hann.

Minnisblaðið var dagsett 23. maí 2003 og samið af Dov S. Zakheim, sérfræðingi í öryggismálum. Hann hafði látið sig varða öryggismál á Norður-Atlantshafi á tímum kalda stríðsins. Zakheim sagði að bandaríska varnarmálaráðuneytið greiddi um 225 milljónir dollara á ári vegna Keflavíkurstöðvarinnar (59 milljónir dollara vegna flug- hersins og 166 milljónir dollara vegna flotans): 121 milljón dollara vegna stöðvarinnar, viðhalds á búnaði og ratsjáreftirlits; 12 milljónir dollara vegna íbúðarhúsa og 92 milljónir dollara vegna kostnaðar við starfsmannahald. Í stöðinni væru 2.464 hernaðarlegir og borgaralegir starfsmenn (642 frá flughernum og 1.822 frá flotanum). Þá lýsir Zakheim tækjakosti og nýtingu hans. Hann lætur þess getið að flugherinn reki ratsjárkerfið fyrir 17 milljónir dollara. Þá kemur fram að á fjárlagaárinu 2004 lækki árleg útgjöld vegna Íslands í 160 milljónir dollara, þar sem flugherinn geri ekki ráð fyrir fjárveitingu eftir fjárlagaárið 2003. Þá segir Zakheim:

Flugherinn vildi fjarlægja liðsafla sinn frá Íslandi frá og með fjárlagaári 2002 en fékk fyrirmæli um að veita fé vegna starfseminnar þar á fjárlagaárinu 2003. Flotinn reiknar með um 160 milljón dollara útgjöldum fjárlagaárið 2004 og framvegis vegna starfsemi á Íslandi.

Flugherinn telur að hann geti tryggt varnir Íslands með því að senda liðsafla á vettvang (force projection). Með því að hverfa frá Íslandi má spara 27 milljónir dollara árlega (rekstur vallar og ratsjár) og létta á þrýstingi vegna hinna fáséðu/mjög eftirsóttu leitar- og björgunarsveita og véla.

Reynt að ná til Bush

Fimmtudaginn 5. júní 2003 hittu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson fulltrúa Bandaríkjastjórnar undir forystu Elisabeth Jones, aðstoðarutanríkisráðherra, á fundi í Ráðherrabústaðnum. Í hópi Bandaríkjamannanna var Ian Brzezinski, pólitískur embættismaður í varnarmálaráðuneytinu, en faðir hans Zbignew var á sínum tíma öryggisráðgjafi Jimmys Carters Bandaríkjaforseta.

Fundur var stuttur en Elisabeth Jones afhenti Davíð bréf frá Bush forseta, sem Davíð sagðist mundu svara, en hann vildi ekki ræða efni bréfs forsetans. Helgi Ágústsson, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum, afhenti fulltrúum þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna svarbréf Davíðs hinn 11. júní 2003. Daniel Fried, sérlegur ráðgjafi Bandaríkjaforseta og yfirmaður Evrópu- og Evrasíumála á utanríkisskrifstofu Hvíta hússins, veitti bréfinu móttöku fyrir hönd forsetans. Helgi varðist frétta um efni bréfs forsætisráðherra og viðræður sínar við Fried.34 Íslenskir og bandarískir embættismenn ræddu saman um varnarmálin í Reykjavík 23. júní án þess að skýrt væri frá efnisatriðum viðræðna.

Ég ritaði Paul Wolfowitz varavarnarmálaráðherra bréf sem dagsett er 12. júní 2003 og vakti athygli hans á því að Davíð Oddsson hefði ritað George W. Bush bréf um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Mælti ég með því að leitað yrði álits NATO á málinu samkvæmt 7. grein varnarsamningsins því að pólitískt væri erfitt að verja gildi varnarsamningsins ef menn teldu hann í raun ekki annað en formið eitt. Mér þætti miður ef afstaða Bandaríkjastjórnar mótaðist af skammsýni. Mikilvægt væri að ræða málið á pólitískum forsendum meðal annars með hliðsjón af stöðu Íslands milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Forseti Bandaríkjanna og forsætisráðherra Íslands þyrftu að eiga fund um málið.

Wolfowitz svaraði aldrei bréfinu. Íslenskur embættismaður sem ræddi við hann eftir að hann varð bankastjóri Alþjóðabankans í júní 2005 dró í efa að málefni Íslands hefðu verið á hans könnu á þeim tíma sem bréfið var ritað. Rumsfeld hefði sjálfur haldið utan um málið eins og frásagnir í Rumsfeld-skjölunum staðfesta.

Efling landhelgisgæslu, lögreglu og almannavarna

Eftir að ég varð dómsmálaráðherra 23. maí 2003 kom í minn hlut að móta stefnu og leggja á ráðin um framtíð stofnana á starfssviði mínu. Í því efni leit ég meðal annars til þess sem var á döfinni í viðræðum við Bandaríkjastjórn um framtíð Keflavíkurstöðv- arinnar.

Hinn 14. ágúst 2003 tók ég saman minnisblað um stefnu í varnarmálum þar sem ég lagði áherslu á að íslensk stjórnvöld yrðu sjálf að taka ákvarðanir um það sem þau ætluðu að gera í varnar- og öryggismálum og yrði stefna um það lögð til grundvallar í viðræðum við Bandaríkjamenn sem snertu heildarstefnu þeirra í þessum málum. Taldi ég að viðræðurnar ættu ekki að aðeins að snúast um það sem gert yrði innan varnarsvæða, þess vegna væri nauðsynlegt að dómsmálaráðuneytið kæmi að þeim og á vegum þess færi fram stefnumörkun um öryggismál Íslands sem tæki mið af þróun samstarfsins á vettvangi NATO, þátttöku Íslands í friðargæslu og stefnu Bandaríkjanna í varnar- og öryggismálum. Tryggja yrði að löggjöf um öryggismál á Íslandi inn á við og út á við gerði íslenskum stjórnvöldum kleift að sinna þeim verkefnum sem eðlilegt væri að þau sinntu.

Þá lagði ég til að tekin yrði ákvörðun um smíði ný varðskips við fjárlagagerð ársins 2004 og jafnframt boðað að hafinn yrði undirbúningur að því að kaupa nýja, stóra þyrlu fyrir landhelgisgæsluna. Við endurskoðun á lögum um landhelgisgæsluna yrði hugað að hlutverki hennar við tundurduflavarnir hér við land og annars staðar.

Einnig taldi ég nauðsynlegt að efla víkingasveitina – sérsveit lögreglunnar – fjölga í henni úr 20 í 40 menn og hún yrði gerð að sjálfstæðri einingu til starfa hvar sem væri á landinu. Sveitin skyldi flutt undir ríkislögreglustjóra og búnaður hennar efldur.

Við endurskoðun laga um almannavarnir yrði hugað að fyrirmyndum frá NATO og nánara samstarfi við NATO. Stefnt yrði að því að koma hér á fót miðstöð þekkingar og æfinga á öllu NATO-svæðinu á ákveðnum sviðum almannavarna. Varnarþörf gegn eiturefna- og sýklavopnum yrði skilgreind.

Lagði ég til að dómsmálaráðherra yrði falin forysta við að leiða starf á þessum sviðum í samráði við forsætisráðherra og utanríkisríkisráðherra.

Í ráðherrastörfum mínum hafði ég þau markmið sem ég setti í þessu minnisblaði að leiðarljósi og náðist árangur á öllum sviðum og raunar meiri en þarna er nefnt, því að landhelgisgæslan hefur eignast nýja eftirlitsflugvél.

Tækifæri til nýmæla

Á þessum dögum í ágúst 2003 lögðu íslensk stjórnvöld megináherslu á að forseti Bandaríkjanna og nánustu samstarfsmenn hans fjölluðu um samskiptin við Ísland. Í grein sem ég skrifaði í Morgunblaðið 16. ágúst 2003 undir fyrirsögninni „Endursköpum varnarsamstarfið“ taldi ég að einörð andstaða Davíðs Oddssonar gegn „tæknilegum hugmyndum varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna“ hefði dugað til að leggja grunn að nýjum áfanga í varnarsamskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Eftir að bréf höfðu gengið á milli hans og George W. Bush og embættismenn komið saman til viðræðna á grundvelli þeirra neitaði Davíð jafnfast og áður að málið yrði rætt áfram nema merki sæjust um ný viðhorf Bandaríkjamanna.

Í stað viðræðna embættismanna hófust tvíhliða samtöl Davíðs og Condoleezzu Rice í síma. Í hinu síðara þeirra, miðvikudaginn 13. ágúst, skýrði Rice frá því að Bandaríkjaforseti hefði að sinni afturkallað öll fyrirmæli um brottflutning F-15 þotna frá Íslandi. Lýsti Davíð yfir ánægju með þá niðurstöðu og síðar þennan sama dag tilkynnti Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Halldóri Ásgrímssyni utan- ríkisráðherra þetta á formlegan hátt.

Ég benti á að varnarviðræðunum væri ekki lokið. Umgjörð þeirra hefði hins vegar verið gjörbreytt frá því sem var 2. maí sl. þegar ákvörðun um einhliða brottflutning þotnanna mánuði síðar hefði verið tilkynnt. Nú væri ekki lengur rætt um málið milli ríkisstjórnanna með dagsetningar yfir höfði sér og fallist hefði verið á það meginsjónarmið Davíðs að Bandaríkjastjórn gerði ekkert einhliða, þvert á móti yrðu málin rædd frá öllum hliðum.

Greininni lauk ég á þessum orðum:

Nú hafa skapast nýjar forsendur til viðræðna við Bandaríkjastjórn. Forsetinn hefur gefið embættismönnum sínum nýtt og víðtækara umboð sem miðar að því að varnarsamstarfið við Ísland þróist áfram á grundvelli sameiginlegra hagsmuna. Einhliða tæknilegar lausnir víkja fyrir niðurstöðu sem á að taka mið af stórpólitískum hagsmunum.

Er mikilvægt að hið nýja tækifæri, sem skapast hefur vegna trausts milli ríkisstjórna landanna og sögulegra, góðra tengsla í meira en sex áratugi, verði nýtt til að marka samstarfinu öflugan grundvöll enn til langrar framtíðar.
Til að nýta þetta tækifæri sem best er óhjákvæmilegt að mótuð verði skýr stefna um hlut okkar Íslendinga sjálfra með sterkri lögreglu, landshelgisgæslu og almannavörnum. Verður ekki undan því vikist að laga starfsemi þessara meginstoða öryggis okkar að breyttum kröfum.35

Heimsókn til Washington 2004

Hinn 14. apríl 2004 sendi Rumsfeld minnisblað til Doug Feith með afriti til Dicks Myers, hershöfðingja, og Pauls Wolfowitz og spyr: Hversu lengi enn ætlum við að reyna að koma á almennilegu skikki á Íslandi og Sinaí-skaga?

Hinn 16. apríl ritar Feith á þetta blað: „Ég vinn að því að koma Ian Brzezinski til Íslands í lok apríl til að skýra ríkisstjórn Íslands frá því að Bandaríkjamenn hverfi þaðan nú í sumar [2004]. [Stephen] Hadley [aðstoðarþjóðaröryggisráðgjafi] hefur unnið með okkur að málinu til þessa.“

Ian Brzezinski fór ekki til Íslands á þessum tíma hins vegar hitti ég hann á fundi í Washington 4. maí 2004. Þangað fór ég með embættismönnum úr dómsmálaráðu- neytinu og Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra. Þá voru 10 ár liðin frá því að ég var í svipaðri ferð og heimsótti þing, ráðuneyti og stofnanir í Washington. Keflavíkurstöðin var enn á sínum stað og enn spurðum við um framtíð hennar og hvort ekki mætti ná sameiginlegri niðurstöðu um hana.

Ég hitti John Ashcroft dómsmálaráðherra, Henry J. Hyde, þingmann og formann utanríkismálanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og embættismenn í þjóðaröryggis- ráðinu, utanríkisráðuneytinu, varnarmálaráðuneytinu og heimavarnaráðuneytinu og hjá bandarísku strandgæslunni og alríkislögreglunni FBI. Þá ræddi ég við tvo blaðamenn frá Washington Times og Washington Post. Guðni Bragason, sendifulltrúi í Washington, sat fundina með okkur og bar veg og vanda að því að skipuleggja þá á þremur dögum, 3. til 5. maí. Helgi Ágústsson sendiherra sat fundinn í utanríkisráðuneytinu. Auðunn Atlason í sendiráðinu í Washington tók þátt í fundunum í utanríkisráðuneytinu og varnarmálaráðuneytinu.

Henry J. Hyde fulltrúadeildarþingmaður bryddaði að fyrra bragði upp á málefnum Keflavíkurstöðvarinnar á fundi okkar 3. maí og sagðist andvígur því að flugsveitin yrði flutt á brott. Hann vísaði sjónarmiðum bandaríska varnarmálaráðuneytisins algjörlega á bug og sagði það aðeins sjá málið frá fjárhagslegri og tæknilegri hlið. Frá sínum bæjardyrum séð væri málið fyrst og fremst stjórnmálalegs eðlis. Hann styddi sjónarmið Íslendinga af einurð (strongly support) og myndi halda áfram að tala máli þeirra.

Þegar ég hitti síðan Elisabeth Jones, sem kom til Íslands 5. júní 2003, í utanríkisráðuneytinu og hlustaði á hana flytja hin tæknilegu rök til stuðnings brottför orrustuþotnanna benti ég henni á, að líta yrði á málið í stærra samhengi, það hefði Henry J. Hyde gert og væri því ósammála henni. Þau rök dugðu skammt og hélt hún sér við vangaveltur um hvort Íslendingar gætu ekki komið upp eigin loftvörnum og sætt sig við að NATO ríki skiptust á að senda orrustuþotur til Íslands. Ég taldi ekkert koma í stað herstyrks Bandaríkjanna ef á reyndi. Um væri að ræða pólitískt mál en ekki tæknilegt. Hún áréttaði mikilvægi varnarsamningsins og þess að finna farsæla lausn á deilunni.

Á fundi mínum með Ian Brzezinski lagði ég áherslu á nauðsyn sýnilegra varna á Íslandi, það skipti ekki aðeins máli fyrir Íslendinga heldur einnig nágrannaþjóðir. Hvað sem liði stöðunni í Rússlandi á líðandi stundu gæti allt breyst þar eins og annars staðar. Flugsveit á Íslandi hefði ekki síður pólitísku en hernaðarlegu hlutverki að gegna.

Ian Brzezinski lagði sig mjög fram um að sannfæra okkur um hve úrelt væri að líta á orrustuþoturnar sem tryggingu fyrir öryggi Íslands. Hægt væri að verja landið með öðrum hætti. Taldi hann íslensk stjórnvöld ekki hafa skýrt almenningi rétt frá gildi flugsveitarinnar, væri talið að hún dygði til varnar gegn hryðjuverkamönnum. Hann sagðist undrandi yfir því hve mikil tök fornaldarlegur symbólismi (archaic and symbolic holdover) hefði á Íslendingum. Tekið yrði á málum Keflavíkurstöðvarinnar við endurskoðun á varnarstefnu Bandaríkjanna. Flugvélarnar á Keflavíkurflugvelli væru of dýrar til að hafa þær aðeins til æfinga. Svarið núna væri varnarviðbúnaður úr fjarlægð (projected defense). Honum þótti greinilega nokkur býsn að forseti Bandaríkjanna hefði rætt við forsætisráðherra Íslands um fjórar orrustuþotur. Það væru engin sannfærandi rök fyrir nauðsyn þess að halda þotunum á Keflavíkurflugvelli. Um væri að ræða óheilbrigðan symbólisma, fjarlægan raunveruleikanum.

Þegar ég dró saman efni fundanna í Washington í skýrslu minni, sem ég dreifði til samstarfsmanna, taldi ég brýnt að fá sem fyrst niðurstöðu í viðræðurnar um varnarmálin og halda fast við hinar pólitísku skuldbindingar af hálfu Bandaríkjaforseta um að „ekkert sé gert á hlut okkar Íslendinga“ eins og ég orðaði það. Þá ætti að sýna fram á að íslensk stjórnvöld væru að sinna verkefnum í öryggismálum meðal annars gegn hryðjuverkum. Bandaríkjamenn hefðu ekki sett fram gagntillögu í varnarmála- viðræðunum en segðu allt varnarstöðva-kerfi sitt í endurskoðun og litið yrði til Íslands í því samhengi. Ég lauk skýrslunni á þessum orðum:

Íslendingar báru gæfu til þess eftir síðari heimsstyrjöldina að skipa sér í fylkingu á þann veg, að nýst hefur þjóðinni á einstakan hátt. Nú þarf einnig að taka þannig á öryggismálum þjóðarinnar að nýtist henni til langrar frambúðar. Þar gegnir samstarf við Bandaríkin áfram lykilhlutverki og þess vegna er óhjákvæmilegt að skilgreina stöðu stjórnvalda rétt og finna lausn, sem tryggir gagnkvæma hagsmuni beggja ríkja.

Meginerindi mitt til Washington var ekki að ræða hernaðarleg málefni heldur að vekja athygli Bandaríkjastjórnar á þeim ráðstöfunum sem gerðar hefðu verið eða væru á döfinni af hálfu íslenskra stjórnvalda á sviði borgaralegra öryggisráðstafana, það er gegn hryðjuverkum og til að tryggja öryggi á hafinu. Ég hélt mér við þessi málefni sem dómsmálaráðherra og hafði ekki bein afskipti af viðræðunum við Bandaríkjamenn um varnarmál.

Davíð hittir Bush

Davíð Oddsson hitti George W. Bush að máli í Hvíta húsinu 6. júlí 2004, var þetta þriðji fundur íslensks forsætisráðherra með forseta Bandaríkjanna. Faðir minn, Bjarni Benediktsson, hitti Lyndon B. Johnson sumarið 1964, var ég með í þeirri ferð og sat fundinn. Þorsteinn Pálsson hitti Ronald Reagan sumarið 1988. Fundur Davíðs og Bush reyndist aðeins áfangi á leið í varnarmálunum. Á honum var ákveðið að málið yrði framvegis rætt á forræði utanríkisráðherra landanna.36

Efnislega fóru viðræðurnar í þann farveg að skoðað yrði hvort þátttaka Íslendinga í kostnaði við starfsemina á Keflavíkurflugvelli gæti leitt til samkomulags og þess að flugher Bandaríkjanna yrði áfram í landinu. Íslendingar hreyfðu því nú í fyrsta sinn að þeir greiddu kostnað vegna borgaralegs flugs um Keflavíkurflugvöll, enda væri hernaðarflug orðið tiltölulega lítill hluti umferðar um völlinn.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson höfðu stólaskipti innan ríkisstjórnarinnar í september 2004 eins og um hafði verið samið við myndun ríkisstjórnarinnar. Gegndi Davíð embætti utanríkisráðherra fram undir lok september 2005, þegar Geir H. Haarde tók við af honum, hann varð síðan forsætisráðherra um miðjan júní 2006, þegar Halldór sagði af sér og tók Valgerður Sverrisdóttir þá við sem utanríkisráðherra. Um ár leið frá fundi Davíðs og Bush þar til viðræðunefndir Íslendinga og Bandaríkjamanna hittust að nýju á fundum, það er í júlí 2005. Viðfangsefnið var að komast að niðurstöðu um skiptingu kostnaðar vegna starfseminnar á Kefla- víkurflugvelli. Íslendingar litu þannig á að ræða ætti um hlutdeild þeirra í hinni borg- aralegu starfsemi á vellinum. Bandaríkjamenn töldu hins vegar að málið snerist um hvenær Íslendingar tækju að sér umsýslu og rekstur allra mannvirkja á vallarsvæðinu auk ratsjárkerfisins en varnarliðið hyrfi af landi brott. Í viðræðunum bar svo mikið á milli aðila um sjálfan grundvöll þeirra að ekkert miðaði í þeim. Eftir fund í Reykjavík september 2005 gerðu íslensku samningamennirnir undir forystu Alberts Jónssonar sér vonir um að sameiginlegur viðræðugrundvöllur hefði fundist. Á fundi í Washington í október kom hins vegar í ljós að svo var ekki því að Bandaríkjamenn vildu að Íslendingar stæðu undir öllum kostnaði öðrum en eldsneyti á bandarísku

orrustuþoturnar, viðhaldi þeirra og launum flugmanna. Lauk fundinum í styttingi.
Í desember 2005 hittust Geir H. Haarde utanríkisráðherra og Nicholas Burns, að- stoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, í tengslum við fund Öryggis- og samvinnu- stofnunar Evrópu í Ljúbljana, höfuðborg Slóveníu. Þar sammæltust þeir um að koma viðræðunum á réttan kjöl að nýju. Síðan efndi Geir til fundar með Condoleezzu Rice, sem þá var orðin utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Burns í Washington 2. febrúar 2006. Á fundi Geirs og síðan embættismanna ríkjanna lögðu Íslendingar fram enn nýjar tillögur um kostnaðarhlutdeild sína í rekstri Keflavíkurflugvallar.

Í ársbyrjun 2006 lét ég taka saman áætlun um hvernig standa ætti að málum ef þyrlubjörgunarsveit varnarliðsins hyrfi og Landhelgisgæsla Íslands tæki að sér verkefni

hennar. Kynnti ég ríkisstjórninni þessa áætlun samhliða því sem rætt var við Bandaríkjamenn og sagði ég að Íslendingar gætu sinnt leit- og björgun og fyllt skarð bandarísku sveitarinnar ef landhelgisgæslan hefði fjórar þyrlur í þjónustu sinni.

Skýrði Geir frá því í Washington 2. febrúar 2006 að frá hausti 2008 mundu Íslendingar greiða allan kostnað vegna þyrlubjörgunar í landinu, meðal annars til að þjóna flugvélum varnarliðsins að þessu leyti.

Lokatilkynning Bandaríkjastjórnar

Þótt öllum sem fylgdust með gangi viðræðna Íslendinga og Bandaríkjamanna um Keflavíkurstöðina væri ljóst að róttækar breytingar á varnarsamstarfinu væru á næsta leiti kom það eins og þungt högg miðvikudaginn 15. mars 2006 þegar Nicholas Burns aðstoðarutanríkisráðherra hringdi í Geir H. Haarde utanríkisráðherra laust fyrir hádegi og tilkynnti honum að Keflavíkurstöðinni yrði lokað fyrir 30. september 2006.

Í símtali Burns við Geir og síðan í tilkynningu sem Carol van Voorst, sendiherra Bandaríkjanna (á Íslandi 3. janúar 2006 til 20. janúar 2009), afhenti Geir og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra síðar þennan miðvikudag 15. mars sagði að forseti Bandaríkjanna hefði fallist á tillögu Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra um að bundinn yrði endi á fasta viðveru orrustuþotna varnarliðsins eins og það var orðað. Breyttar aðstæður í öryggismálum á Norður-Atlantshafi og mikið álag á Bandaríkjaher í öðrum heimshlutum og þörf fyrir búnað hans og mannskap þar yllu því að ákveðið hefði verið að kalla bandaríska liðsaflann frá Keflavíkurstöðinni.

Ég skrifaði 15. mars í dagbók vefsíðu minnar:

Vara þig fimmtánda mars, sagði spámaðurinn við Júlíus Sesar, sem svaraði: Svo maðurinn er draumvís! Við skeytum ekk' um hann; og höldum áfram. Og síðar segir Sesar hjá Shakespeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar: Fimmtándi mars er kominn. Og spámaðurinn svarar: Já kominn Sesar; kominn, ekki liðinn.

Síðar þennan dag var Sesar myrtur, árið 44 fyrir Krist.

Þótt sjálfur Sesar félli fyrir morðingjahendi þennan dag, lauk ekki sögu Rómaveldis, hún hélt áfram.

Um héraðsdóm í Baugsmáli í dag ætla ég ekki að ræða – jafnvel lýsing mín á staðreyndum, getur valdið uppnámi.

Þótt Bandaríkjamenn hafi tilkynnt í dag, að þeir ætli ekki að hafa orrustuþotur með fast aðsetur á Keflavíkurflugvelli, heldur varnarsamstarfið áfram. Frá mínum bæjardyrum séð hefur lengi verið ljóst, að við yrðum að axla meiri ábyrgð á eigin vörnum en á tímum kalda stríðsins. Við verðum einnig að meta hættuna, sem að öryggi okkar steðjar á annan hátt en þá var gert. Ríkisstjórnin kom saman í alþingishúsinu í dag kl. 17.00 – en við endurbætur á því var innréttað fundarherbergi fyrir hana í þinghúsinu, þar sem á sínum tíma var skrifstofa forseta Íslands en síðan mötuneyti þingsins, þar til það fluttist í nýja skálann. Ég veit ekki til þess, að fyrr hafi verið haldinn ríkisstjórnarfundur á þessum stað, en fundurinn var boðaður með skömmum fyrirvara til að ræða þá ákvörðun, sem Nick Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti Geir H. Haarde utanríkisráðherra fyrr um daginn símleiðis, að Bandaríkjaforseti hefði ákveðið, að frá og með september nk. í síðasta lagi myndu bandarísku orrustuþoturnar hverfa frá landinu. Klukkan 15.00 í dag hitti bandaríski sendiherrann forsætisráðherra og utanríkisráðherra og skýrði þeim frá þessari niðurstöðu.

Geir H. Haarde skýrði þingflokki sjálfstæðismanna, sem kom saman klukkan 16.00, frá þessu, skömmu áður en fundur ríkisstjórnarinnar hófst. Rétt fyrir klukkan 18.00 var send út fréttatilkynning um málið og lauk ríkisstjórnarfund- inum skömmu síðar, en þá var boðaður fundur í utanríkismálanefnd alþingis.37

Það sem ég sagði um Baugsmálið þennan dag laut að því að þá sýknaði héraðsdómur alla hina ákærðu í þessari lotu málsins. Orð mín um það mál ollu meira fjaðrafoki á þessum tíma en það sem ég sagði um varnarmálin. Það var svo sem tímanna tákn að Össur Skarphéðinsson, síðar utanríkisráðherra Samfylkingarinnar, lét að því liggja að Geir hefði pantað símtal frá Burns þennan dag til að tilkynning Bandaríkjastjórnar drægi athygli frá sýknudóminum í Baugsmálinu.38

Dagbókarfærslan endurspeglar ekki andrúmsloft undrunar og reiði sem ríkti á fundunum þar sem skýrt var frá afstöðu Bandaríkjastjórnar. Hvort þetta kom þeim sem áttu mest samskipti við Bandaríkjamenn algjörlega í opna skjöldu dreg ég í efa. Eftir fundi Geirs H. Haarde með Burns í desember og Rice í janúar hljóta menn að hafa skynjað að ekki yrði lengra komist gagnvart Bandaríkjastjórn þótt ekki hefðu orðið endanleg viðræðuslit.

Borgaralegur viðbúnaður efldur

Hinn 16. mars 2006 gaf Geir H. Haarde alþingi skýrslu um stöðu varnarmálanna og flutti ég þar ræðu og sagði meðal annars að það væri alrangt að af hálfu stjórnvalda hefði ekki verið staðið að því að móta hér stefnu í samræmi við breyttar aðstæður í öryggismálum. Minnti ég á eflingu sérsveitar lögreglunnar, boðaði frumvörp til laga um landhelgisgæslu og almannavarnir auk þess alþingi fjallaði þá um lög um nýskipan lögreglumála með stækkun liðsheilda lögreglunnar, breyttu skipulagi hennar, m.a. í kringum Keflavíkurflugvöll, Breytingarnar miðuðu að því efla lögreglustjórn þar til að takast á við ný verkefni í ljósi breyttra aðstæðna.

Á árinu 2005 hafði ríkisstjórnin ákveðið að verja þremur milljörðum af því fé sem fékkst við sölu landssímans til að efla landhelgisgæsluna með nýju varðskipi og eftirlitsflugvél.

Hinn 20. mars 2006 sagði ég á fundi Félags stjórnmálafræðinga um varnarmálin, að brýnasta verkefni, sem sneri að íslenskum stjórnvöldum vegna tilkynningar Bandaríkjastjórnar um brottför varnarliðsins væri að fylla skarðið eftir þyrlubjörgunar- sveitina.

Hinn 24. mars 2006 féllst ríkisstjórnin á tillögu mína um hvernig staðið yrði að undirbúningi við að efla þyrlusveit landhelgisgæslunnar svo að hún gæti fyllt skarðið við brottför varnarliðsins.

Frakkar sýna áhuga - loftrýmisgæsla

Ég fór til Frakklands í apríl 2006 og ræddi við fulltrúa Eurocopter, framleiðanda Super- Puma-þyrlna af þeirri gerð sem landhelgisgæslan notar. Þá hitti ég yfirmenn flota, lögreglu og landamæravörslu auk þess að eiga fund með Brice Hortefeux, sem síðar varð innanríkisráðherra Frakka, en var á þessum tíma hægri hönd Nicolas Sarkozys, þáverandi innanríkisráðherra. Tómas Ingi Olrich sendiherra sat einnig þennan fund sem varð okkur öllum sérstaklega eftirminnilegur. Aðstoðarmenn Hortefeux höfðu stillt upp fánum í skrifstofu hans og skyldum við standa fyrir framan þá við myndatöku. Þegar við gengum að fánunum komst ég ekki hjá því að vekja athygli Hortefeux á því að við hlið hins franska væri norski fáninn en ekki hinn íslenski.

Hápunktur Frakklandsferðarinnar var fundur 27. apríl með Michéle Aillot-Marie varnarmálaráðherra í höll hennar í hjarta Parísar. Þar fóru menn ekki fánavillt þegar heiðursvörður tók á móti okkur Tómasi Inga og þjóðsöngvar landanna voru leiknir. Aillot-Marie var vel að sér um stöðuna í samskiptum Bandaríkjanna og Íslands og taldi bæði sjálfsagt og eðlilegt að Frakkar létu sig öryggi Íslands skipta enda hefðu þeir mikilvægra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Gaf hún yfirmanni í franska hernum, sem sat fundinn, fyrirmæli um að búa sig undir frekari umsvif í tengslum við Ísland.

Hinn 5. maí til 20. júni 2008 voru fjórar Mirage 2000 orrustuþotur frá franska flughernum á Keflavíkurflugvelli og með vélunum var 110 manna her. Hófst þar með fyrsta loftrýmisgæsla í lofthelgi Íslands frá brottför varnarliðsins í lok september 2006.

Loftrýmisgæsla NATO á Íslandi var samþykkt af fastaráði NATO í júlí 2007 í samræmi við óskir Geirs H. Haarde forsætisráðherra á leiðtogafundi NATO í Riga í nóvember 2006. Eftir brotthvarf bandaríska varnarliðsins í lok september 2006 hafði engin loftrýmisgæsla farið fram frá Íslandi þar til Frakkarnir komu.

Ósk íslenskra stjórnvalda um loftrýmisgæslu af hálfu NATO byggðist á því grundvallaratriði innan bandalagsins að ekkert NATO ríki yrði án slíkrar gæslu og ríkjum án flughers yrði veitt slík gæsla af hálfu flugherja annarra bandalagsríkja.

Rumsfeld fagnar sigri

Donald Rumsfeld sendi Eric Edelman aðstoðarvarnarmálaráðherra minnisblað 14. júlí 2006. Minnisblaðinu fylgir bréf um Ísland sem ekki er birt í Rumsfeld-skjölunum. Rumsfeld segir að næst þegar háttsettir íslenskir embættismenn komi til Washington „it might be nice for me to meet with them“, kynni að vera skemmtilegt fyrir mig að hitta þá. Hann bætir við: „Let‘s make darn sure that when we end this we end it on a high note“, við skulum svo sannarlega sjá til þess að þegar við ljúkum þessu, gerum við það með glæsibrag. Viðhengið sem vantar hefur greinilega glatt hann svo mjög að hann vildi láta svo lítið að hitta loksins háttsetta Íslendinga.

Hinn 18. september 2006 skrifar Rumsfeld þetta sér til minnis: „Ég verð að muna að ég byrjaði árið 2001 að reyna að fækka bandarískum flugvélum og mannafla á Íslandi sem varð að gera og færa annað. Þetta kostar okkur milli 230 og 250 milljón dollara á ári. Það tók mig fram á síðari hluta 2006 að ná þessu fram vegna andstöðu utanríkisráðuneytisins.“

Miðað við þá áherslu sem íslensk stjórnvöld lögðu á bein samskipti við bandaríska forsetaembættið til að kynna sinn málstað er athyglisvert að Rumsfeld minnist ekki á það í þessu minnisblaði fyrir sjálfan sig heldur telur að bandaríska utanríkisráðuneytið eitt hafi tafið fyrir áformum sínum um að loka Keflavíkurstöðinni.

Þegar skjölin á vefsíðu Rumsfelds eru skoðuð má draga í efa að bandaríska utan- ríkisráðuneytið hafi tafið mest fyrir því að áform hans um að loka Keflavíkurstöðinni næðu fram að ganga. Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi hefði ekki gengið á fund forsætisráðherra og utanríkisráðherra 2. maí 2003 án þess að hafa um það fyrirmæli frá Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna dró sig stundum í hlé en ekki verður séð að það hafi haldið málstað íslenskra stjórnvalda sérstaklega fram innan bandaríska stjórnkerfisins eða lagt annað mat á gildi viðveru bandaríska varnarliðsins í Keflavíkurstöðinni en varnarmálaráðuneytið þótt diplómatarnir hafi stundum viljað fara mildari leið að Íslendingum en Rumsfeld.

Hinn 19. september sendi Rumsfeld enn minnisblaði til Edelmans. Hann segir að eftirfarandi þurfi að gera: 1. Þakka Tom Hall. 2. Semja fyrir sig „closeout letter“ „lokunarbréf“ til „the right people in Iceland“ , rétta fólksins á Íslandi.

Tom Hall, sem Rumsfeld nefnir í minnisblaði sínu, tók við störfum yfirmanns í Keflavíkurstöðinni 1989 og gegndi embættinu fram á tíunda áratuginn. Varnarmála- ráðuneytið kallaði á hann til að vinna að framkvæmd ákvörðunarinnar um lokun stöðvarinnar og eiga samskipti um það við Íslendinga vegna þekkingar hans á íslensk- um málefnum. Í fylgiskjali með bréfi Rumsfelds til Edelmans er að finna greinargerð frá Hall um lyktir málsins og er hún dagsett 14. september 2006, en þann dag hittust viðræðunefndir Íslands og Bandaríkjanna í Washington.

Hall segist hafa lokið síðasta fundi með fulltrúum íslensku ríkisstjórnarinnar. Hann hafi ásamt Alberti Jónssyni, formanni íslensku nefndarinnar, gengið frá samkomulagi um lokun flotastöðvarinnar í Keflavík og lagað öll ákvæði tengd varnarsamningi ríkjanna frá 1951 að þessari breytingu. Carol von Voorst, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hafi ritað undir sameiginlega niðurstöðu ásamt Alberti Jónssyni, þar sem mótuð sé „framtíðarleið“ í samskiptum ríkjanna.

„Við höfum ritað undir góða samninga, við höldum varnarsamningnum og tengslum þjóða okkar og við höfum lagt grunn að framtíð Íslands í NATO og tvíhliða samskiptum við okkur. Forsætisráðherrann lýsti áhyggjum sínum og vilja til að fá „jákvæða niðurstöðu“ í þessu ferli. Við höfum náð því marki og ég held að hann muni lýsa yfir því ef og þegar hann hefur tök á hitta þig í framtíðinni,“ sagði Hall og lýsti síðan meginatriðum þess sem um hafði verið samið. Það hefði til dæmis reynst auð- veldara en spáð hefði verið að útvega 1.000 íslenskum starfsmönnum varnarliðsins aðra vinnu. Þá hefðu Íslendingar samþykkt að halda við og reka aðstöðu fyrir NATO sem herafli Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja gæti notað framvegis til æfinga og aðgerða, ef þörf krefði. Keflavíkurflugvöllur yrði áfram alþjóðavöllur sem mundi skipta höfuðmáli fyrir Bandaríkin og NATO. Samkomulag hefði náðst um umhverfis- mál. Evrópuherstjórnin í Stuttgart væri að semja áætlun fyrir heræfingar. Slíkar æfingar skiptu Íslendinga miklu því að þær sýndu að Bandaríkjamenn „hefðu farið frá Íslandi en ekki yfirgefið okkur“. Leyst hefði verið úr ratsjármálum en framtíð ratsjáreftirlitsins mundi ráðast af viðræðum milli Íslendinga og fulltrúa NATO, en ratsjárnar væru tækjabúnaður NATO. Bandaríkjamenn mundu halda fjarskiptastöð sinni í Grindavík. Síðustu liðsmenn Bandaríkjanna mundu hverfa frá Íslandi að kvöldi 30. september.

Ríkisstjórn Íslands kynnir ráðstafanir

Hinn 15. maí 2006 sendi ég Geir H. Haarde utanríkisráðherra á fjórum blöðum punkta um varnar- og öryggismálaáætlun fyrir Ísland. Skipti ég viðfangsefninu í þrjá meginþætti: Í fyrsta lagi varnir samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna. Í öðru lagi varnar- og öryggissamvinna við önnur ríki og þar með einnig Bandaríkin á öðrum sviðum en mælt er fyrir um í varnarsamningnum og í þriðja lagi ráðstafanir af hálfu íslenskra yfirvalda.

Undir öðrum lið taldi ég eðlilegt að rætt yrði við Dani, Norðmenn, Þjóðverja, Frakka og Breta um öryggisráðstafanir á hafinu og heimsóknir herskipa frá þeim til Íslands. Einnig ætti að huga að aukinni samvinnu og samningum á sviði alþjóðlegs björgunarsamstarfs. Lagði ég til og fékk samþykkt í ríkisstjórn, að efnt yrði til alþjóð- legrar ráðstefnu um samstarf og samráð um öryggi í siglingum og mikla sjóflutninga. Var hún haldin 2. nóvember 2006.

Að mínu mati skipti miklu að ríkisstjórnin sendi frá sér yfirlýsingu um ráðstafanir á hennar vegum og ný verkefni íslenskra stjórnvalda við brottför varnarliðsins. Var hún samþykkt og birt 26. september 2006.

Í yfirýsingunni sagði (1) að stofnað yrði hlutafélag í eigu ríkisins um framtíðarþróun og umbreytingu fyrrverandi varnarsvæðis á Keflavíkurflugvelli; (2) til að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir hugað að því að koma á fót miðstöð þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar sem kæmu að öryggismálum landsins, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða vegna hættu af mannavöldum; (3) samhliða nýskipan lögreglumála yrði samstarf lögreglu, landhelgisgæslu, slökkviliða og björgunarsveita aukið enn frekar, þannig að tryggja megi þátttöku varaliðs hvarvetna þar sem þess kann að vera þörf í landinu; (4) tryggt yrði að íslensk yfirvöld hefðu lögheimildir til náins samstarfs við stjórnvöld og alþjóðastofnanir þar sem skipst væri á trúnaðarupplýsingum; (5) unnið yrði að því að koma á öflugu, öruggu fjarskiptakerfi, Tetra kerfi, sem næði til landsins alls; (6) þegar hefðu verið gerðar ráðstafanir til að efla þyrluþjónustu landhelgisgæslunnar auk þess sem ný flugvél og nýtt varðskip yrðu keypt; (7) ríkisstjórnin myndi vinna að því að koma á fót samstarfsvettvangi fulltrúa stjórnmálaflokkanna þar sem fjallað yrði um öryggi Íslands á breiðum grundvelli, meðal annars í samstarfi við sambærilega aðila í nálægum löndum; (8) yfirstjórn málaflokka og stjórnsýsla á Keflavíkurflugvelli breyttist til „samræmis við það sem almennt tíðkast í landinu“, fyrst um sinn yrði stjórnsýslan á fyrrverandi varnarsvæði þó óbreytt, þá yrði skilgreint sérstakt svæði á flugvellinum undir yfirstjórn utanríkisráðherra, sem yrði til afnota vegna æfinga á vegum Bandaríkjanna og annarra ríkja Atlantshafsbandalagsins eða annarra hernaðarþarfa; og (9) gerðar yrðu ráðstafanir til að lesið yrði úr öllum merkjum frá ratsjárstofnun sem þýðingu hefðu varðandi eftirlit með flugvélum í lofthelgi Íslands.39

Með Rumsfeld í Washington

Hinn 11. október 2006 var ég í Washington ásamt Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgerði Sverrisdóttur utanríkisráðherra og skrifaði í dagbókina á vefsíðu minni:

Var klukkan 10.30 í höfuðstöðvum bandarísku strandgæslunnar og hitti þar Thad W. Allen yfirmann hennar. Ræddum við samstarf strandgæslunnar og Landhelgisgæslu Íslands.
Klukkan 11.40 vorum við komnir í bandaríska utanríkisráðuneytið en klukkan 12.00 komu þau Geir H. Haarde forsætisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra þangað. Þau fóru á fund með Condoleezzu Rice utanríkisráðherra og síðan var samkomulag ríkjanna um varnarmál undirritað við hátíðlega athöfn í Treaty Room ráðuneytisins.

Klukkan 13.30 var ég með ráðherrunum tveimur í Pentagon, þar sem Donald Rumsfeld tók á móti okkur með formanni bandaríska herráðsins og fleiri nánum samstarfsmönnum sínum og ræddum við framtíðarsamstarf þjóðanna á um 40 mínútna fundi.

Rumsfeld lék á als oddi á þessum fundi. Hann lagði sig fram um að sýna íslenskum gestum sínum vinsemd í anda þess sem hann hafði boðað í minnisblaði til samstarfsmanna sinna. Ég hreyfði því hvort svo væri í raun að Bandaríkjastjórn hefði ekki áhuga á að reka áfram ratsjárstöðvarnar á Íslandi, en samið hafði verið um að þær yrðu á vegum Bandaríkjamanna fram á mitt ár 2007. Hann gaf ekkert út á það og hafði í raun lítinn áhuga á öðru en hann sjálfan varðaði.

Þegar Rumsfeld tók við yfirstjórn varnarmálaráðuneytisins árið 2001 sneri hann þangað aftur eftir tæpan aldarfjórðung, Hann var varnarmálaráðherra 1975 til 1977 í stjórn Geralds Fords forseta. Bandarískur embættismaður sagði mér að við endur- komuna hefði Rumsfeld þótt sem „the inmates“, vistmennirnir, hefðu náð undirtökunum innan ráðuneytisins, það er embættismenn og herforingjar réðu meiru en góðu hófi gegndi og þeir yrðu að finna fyrir hinu pólitíska valdi. Hann leit á sig sem ráðherra breytinga en átti undir högg að sækja í því efni vegna árásarinnar á Pentagon 11. september 2001 og síðan tveggja styrjalda í Afganistan og Írak.

Stjórn hans á ráðuneytinu bar þess merki að enginn skyldi efast um hver þar ætti síðasta orðið. Hann lét svonefnd „snowflakes“, snjókorn, svífa frá sér með fyrirmælum til samstarfs- og undirmanna sinna. Efni nokkurra þeirra er lýst hér að framan. Vegna styrjaldanna í Afganistan og Írak varð Rumsfeld mjög í sviðsljósinu og oft tók hann á sig ábyrgð á umdeildum ákvörðunum til að verja George W. Bush forseta. Vegna þekkingar sinnar á bandaríska stjórnkerfinu og pólitískrar stöðu mátti hann sín mikils í Washington þótt ekki nyti hann almennra vinsælda.

Eftir að Donald Rumsfeld hitti okkur Íslendinga í fundarherbergi sínu hinn 11. október 2006 sat hann aðeins rúma tvo mánuði áfram í hinu háa embætti sínu. Hann lét af embætti varnarmálaráðherra 18. desember 2006. Í kveðjuræðu sinni sagði hann: „Ég hef haft mikið gagn af gagnrýni og ég hef aldrei þjáðst vegna skorts á henni.“

Unnið úr niðurstöðunni

Hinn 29. mars 2007 flutti ég ræðu á fundi Varðbergs og Samtaka um vestræna samvinnu þar sem ég lýsti skoðun minni á íslenskum öryggismálum undir heitinu:Okkar ábyrgð – öryggi og varnir Íslendinga. Ég fór þar yfir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 26. september 2006 og rakti hvernig staðið hefði verið að framkvæmd hennar. Í upphafi ræðu minnar sagði ég:

Ég tel íslenskum stjórnvöldum alls ekki um megn að taka á sig öryggisskyldur sjálfstæðs ríkis og bregðast við ógnum með skjótum og skilvirkum hætti til þess að tryggja og verja öryggi borgara sinna. Ef við viljum getum við verið virkir og áreiðanlegir þátttakendur með vinaþjóðum við að tryggja öryggi í okkar heimshluta. Ef við höldum rétt á málum getum við tekist á við ger- breyttar aðstæður á skynsamlegan og öflugan hátt.

Öryggis- og varnarmálin eru nú enn frekar en áður innanríkismál fremur en utanríkismál. Vissulega eru meginstoðir landvarnarstefnu Íslands enn sem fyrr varnarsamningurinn við Bandaríkin og þátttaka okkar í NATO. Við gæslu öryggis borgaranna skiptir samstarf við aðrar stofnanir en hermála- yfirvöld austan hafs og vestan hins vegar meira máli en fyrr í sögu okkar, þegar lagt er mat á hættur, sem að kunna að steðja.

Þessar staðreyndir birtast okkur í samkomulaginu, sem gert var við Bandaríkja- menn síðastliðið haust, þar sem lagt er á ráðin um samvinnu við bandarísku strandgæsluna, alríkislögregluna, tollgæslu og landamæraverði. Öryggisgæsla í þágu flugs og siglinga hefur flust i hendur borgaralegra yfirvalda hér og annars staðar með alþjóðareglum um flugvernd og siglingavernd. Bandaríska heima- varnaráðuneytið kemur að þeim málum en ekki varnarmálaráðuneytið, svo að dæmi sé tekið.

Inntakið í samstarfinu um öryggismál við Bandaríkjamenn breyttist verulega með hinu nýja samkomulagi á grundvelli varnarsamningsins. Áherslan fluttist frá landvörnum í hefðbundnum skilningi þess orðs til heimavarna, þar sem borgaralegar stofnanir koma sífellt meira til sögunnar.

Sé litið til samstarfs Evrópuríkja er þróunin hin sama. Innan ramma Schengen- samstarfsins er sífellt meiri áhersla lögð á lögreglusamvinnu í þágu aukins öryggis. Á það hefur verið bent, að Evrópusambandið sé samstarfsaðili bandaríska heimavarnaráðuneytisins og slík borgaraleg samvinna í þágu öryggis skipti hinn almenna borgara jafnvel meiru eins og málum sé nú háttað en herafli grár fyrir járnum.

Þessi skoðun mín um mikilvægi borgaralegra varna og nauðsyn þess að Íslendingar hugi sjálfir að þeim á sama tíma og lögð er rækt við aðildina að NATO og tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin á nýjum grunni hefur ekki breyst á þeim fjórum árum sem liðin eru frá því að ég flutti þessa ræðu.

Fyrsta varnaræfingin á Íslandi á grundvelli samkomulags íslenskra og bandarískra stjórnvalda frá 11. október, 2006 um varnir landsins fór fram hér á landi dagana 13. - 16. ágúst 2007. Þar var æfður flutningur liðsafla til landsins á hættu - og ófriðartímum, hvernig staðið skyldi að ákvörðunum og samræmdum vinnubrögðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Æfingin skiptist í tvo aðskilda þætti: loftvarnaræfingu og hins vegar æfingu gegn hermdar- og hryðjuverkum.

Þátttakendur í loftvarnaræfingunni voru Bandaríkjamenn með þrjár F-15 orrustu- flugvélar og tvær KC-135 eldsneytisflugvélar og Norðmenn með tvær F-16 orrustuflugvélar og eina P-3 eftirlits- og kafbátarleitarflugvél. Tvær AWACS – ratsjárflugvélar NATO komu að æfingunni Varðskipið Triton frá Danmörku stóð leitar- og björgunarvakt auk tveggja þyrlna landhelgisgæslunnar.

Þátttakendur í æfingunni gegn hermdar- og hryðjuverkum voru 20 norskir, 6 danskir og 16 lettneskir sérsveitarmenn auk 15 manna úr sérsveit ríkislögreglustjóra eða alls 65 manns.

Íslenskum stjórnvöldum hefur reynst erfiðast að ákvarða hvernig staðið skuli að borgaralegum tengslum þeirra sjálfra við hernaðaryfirvöld eins og endurspeglast í vandræðaganginum í tengslum við setningu varnarmálalaga og Varnarmálastofnun. Þetta á að nokkru rætur að rekja til þess að innan utanríkisráðuneytisins hafa menn viljað halda í málefni sem eru betur komin á verksviði annarra ráðuneyta.

Niðurstaða

Þróunin frá 2006 sýnir að hagsmunum Bandaríkjamanna hefði verið betur borgið á norðurslóðum með fastri viðveru í einhverri mynd í Keflavíkurstöðinni. Vilji þeir nýta aðstöðu hér á landi á nýjan leik í hernaðarlegum tilgangi yrði það talið til marks um stigmögnun eða jafnvel ögrandi aðgerð. Öll ríki á norðurslóðum, sem ráða yfir herafla, eru á einn eða annan hátt að efla hernaðarmátt sinn vegna breytinga á norðurskauti við hlýnun jarðar. Jafnframt leggja þau öll áherslu á að allt fari þar fram með friði og verði leyst á grundvelli hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Varnarsamningurinn og samkomulagið frá 11. október 2006 veitir Bandaríkja- mönnum einstæða stöðu í tengslum Íslendinga við aðrar þjóðir. Þeir hafa hins vegar ekki lagt mikla rækt við þessi tengsl síðan 2006.

Þess sjást nú merki að afstaða bandaríska utanríkisráðuneytisins til norðurslóða sé að breytast. Fyrst utanríkisráðherra Bandaríkjanna tók Hillary Clinton þátt í ráð- herrafundi Norðurskautsráðsins á Nuuk í Grænlandi 12. maí 2011. Fundarseta hennar verður til þess að beina athygli ráðuneytisins að þessum heimshluta á annan hátt en verið hefur frá 1991, það er í 20 ár.

Íslendingar hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu. Umsóknin samrýmist að mínu mati ekki ákvörðun um að Ísland ætli að láta að sér kveða á norðurslóðum. Evrópusambandið tekur við hafréttarheimildum Íslands sem strandríkis samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Vilji ríkisstjórn Íslands leggja rækt við samskipti við Bandaríkin og Kanada á hún ekki að stefna að aðild að Evrópusambandinu. Komi til ESB-aðildar Íslands mun Bandaríkjastjórn telja að leið hennar til Íslands liggi um Brussel. Tæplega 70 ára beinu og nánu tvíhliða sambandi bandarískra og íslenskra stjórnvalda yrði kastað á glæ.

Með breyttum aðstæðum á norðurslóðum og aukinni ábyrgð þjóða þar vegna vax- andi siglinga, meðal annars skemmtiferðaskipa með mörg þúsund manns innan borðs, er brýnt að Íslendingar stofni til náinnar samvinnu við strandgæslu Bandaríkjanna og yfirvöld kanadíska flotans um leið og lögð er rækt við hið árangursríka samstarf við Dani sem halda úti eftirlitskipum við Grænland. Í austri ber að efla samstarf við Norðmenn og tengja sem best saman leit og björgun með þeim en það verður auðveld- ara en áður með komu varðskipsins Þórs sumarið 2011 og með nýjum björgunarþyrlum.

Bandaríkjastjórn sýndi mikla skammsýni á árinu 2006 þegar hún kallaði allan liðsafla sinn frá Íslandi. Skjöl Donalds Rumsfelds sýna að þar réðu tæknileg viðhorf meiru en pólitísk, Ísland varð að lokum skiptimynt í valdabaráttu og breytingaáráttu Rumsfelds í Washington. Þótt Rumsfeld hafi lagt sig fram um að ná pólitískri stjórn á embættismönnum og herforingjum í Pentagon skorti hann pólitíska víðsýni þegar hann fjallaði um málefni Íslands. Hann situr einnig undir þeirri gagnrýni að hafa dregið styrjaldir á langinn vegna þvermóðsku sinnar. Það telst ekki neinum stjórn- málamanni til tekna.

Frá 2009 hafa íslensk stjórnvöld sýnt sambærilega skammsýni og Bandaríkjastjórn í málefnum norðurslóða með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og stefna þar með að því að Ísland hverfi úr hópi strandríkja í umræðum um framtíðarskipan á norðurskautssvæðinu.

Þegar ég bauð mig fram til setu á alþingi vorið 1991 sagði ég í blaðagrein að Íslend- ingar yrðu að taka virkan þátt í mótun og framkvæmd öryggisstefnu sinnar. Þeir ættu að leysa bandaríska varnarliðið af hólmi, þar sem það samræmdist markmiði varnar- samningsins um að tryggja öryggi landsins og hafsvæðanna umhverfis það. Við ættum að knýja á dyr Evrópuþjóða og óska efir nánara samstarfi við þær um öryggismál.40

Ég tel að þetta hafi gengið eftir á þeim 20 árum sem liðin eru frá því að þessi orð féllu. Þótt ég berðist fyrir því að Bandaríkjastjórn sýndi vilja sinn til að virða varnarsamninginn með viðveru á Keflavíkurflugvelli var ég andvígur því að rifta samningnum kysu Bandaríkjamenn aðra leið til að standa við skuldbindingar sínar samkvæmt honum. Öll rök hníga að því að einörð afstaða íslenskra stjórnvalda en ekki bandaríska utanríkisráðuneytið hafi tafið brottför varnarliðsins um 13 ár. Hitt er spurning sem ekki verður svarað hvort meiri sveigjanleiki af hálfu Íslendinga á fyrri stigum málsins hefðu getað beint niðurstöðu málsins í annan farveg en þann sem leiddi til alhliða brottfarar Bandaríkjahers. Eitt er víst: víðsýnni varnarmálaráðherra en Donald Rumsfeld hefði sótt málið á annan hátt en hann gerði. Seta Rumsfelds í embætti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna réð að lokum úrslitum um að Keflavíkurstöðinni var lokað 30. september 2006.

Aftanmálsgreinar [til að nýta þær er nauðsynlegt að fara í frumheimildina, sjá fremst í greininni]. 

1

2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16

17
18
19
20
21
22
23
i
24
25
26
27
28
29
30
31
32
33
34
35
36
37 38 39

40

264

Þegar Rumsfeld lokaði Keflavíkurstöðinni

page38image57713664page38image57713472

Öryggis- og varnarmál Íslands, skýrsla nefndar á vegum ríkisstjórnarinnar, mars 1993. Gunnar Þór Bjarnason: Óvænt áfall eða fyrirsjáanleg tímamót, Háskólaútgáfan 2008, bls. 40.

„Mat öyggishagsmuna enn byggt á landfræðilegum staðreyndum“, Morgunblaðið, 16. september 1992.Öryggis- og varnarmál Íslands, bls. 51.
Ibid, bls 52.
Gunnar Þór Bjarnason: bls. 41.

„Staðið hvívetna við tvíhliða varnarsamning við Ísland“, Morgunblaðið 8. maí 1993. „Skeytið sem fékk kerfið til að skjálfa og nötra“, Morgunblaðið, 6. janúar 1994. „Varnarstöð aðeins breytt í nánu samráði við Ísland“, Morgunblaðið, 4. ágúst 1993. „Samráð verður haft áfram næstu vikur“, Morgunblaðið, 7. ágúst 1993.

„Skeytið sem fékk kerfið til að skjálfa og nötra“, Morgunblaðið, 6. janúar 1994.

Ónefndur embættismaður.

„Nauðsynlegt að lágmarksvörnum verði haldið uppi á Íslandi“, Morgunblaðið, 5. janúar 1994.

„Jafnræði í ákvarðanatöku viðurkennt“, Morgunblaðið, 5. janúar 1994.

„Stefnt að sameiginlegri niðurstöðu eftir tvö ár“, Morgunblaðið, 5.janúar 1994.

Skýrsla um fundi fulltrúa utanríkismálanefndar alþingis með þingmönnum og embættismönnum í Washington 12. og 13. maí 1994, í vörslu Bj. Bj.

http://www.bjorn.is/greinar/nr/575
Gunnar Þór Bjarnason bls. 43. http://www.bjorn.is/pistlar/1999/02/28/nr/285 http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/1653
„Varnarstöðin mikilvæg til langs tíma litið“, Morgunblaðið, 10. apríl 1996. ttp://www.bjorn.is/greinar/nr/665 http://www.rightweb.irc-online.org/profile/Williams_Christopher http://www.utanrikisraduneyti.is/frettir/nr/1507

„Powell kynnti engar áherslubreytingar“, Morgunblaðið, 9. ágúst. http://jbh.is/default.asp?ID=33
Ásgeir Sverrisson: „Varnarsamstarf á krossgötum?“, Morgunblaðið, 18. apríl 2002.http://www.bjorn.is/pistlar/2002/04/20/nr/769
„Munum þurfa að auka framlög til öryggismála“, Morgunblaðið, 23. nóvember 2002. Valur Ingimundarson Skírnir 180. hefti 2006, bls 47.
„Stefnt að viðræðum í náinni framtíð“, Morgunblaðið, 24. júlí 2003.
Gunnar Þór Bjarnason: bls. 49.
„Sunnudagskvöld með Evu Maríu“, viðtal við Davíð Oddsson, RÚV, 3. september 2006. „Svarbréf forsætisráðherra komið til Bush“, Morgunblaðið, 12. júní 2003. http://www.bjorn.is/greinar/nr/2520
Gunnar Þór Bjarnason: bls. 52.
http://www.bjorn.is/dagbok/2006/03
Útvarp Saga, 8. ágúst 2006.
http://www.forsaetisraduneyti.is/frettir/nr/2381
Björn Bjarnason Morgunblaðið , 3. apríl 1991.