Það er kominn 17. júní!
Morgunblaðið, laugardagur, 17. júní 2023
Í dag er þess minnst að 79 ár eru liðin frá því að lýðveldi var stofnað á Íslandi í samræmi við sambandslögin frá 1918. Sumarið 1944 var tekið að rofa til í hildarleik annarrar heimsstyrjaldarinnar, þótt enn ríkti óvissa um lyktir hennar.
Heimurinn var að jafna sig af fyrstu heimsstyrjöldinni þegar sambandslagasáttmálinn var gerður árið 1918. Í honum var lýst yfir ævarandi hlutleysi sem varð að engu með aðild íslensku ríkisstjórnarinnar að samningi Breta og Bandaríkjamanna sumarið 1941 þegar bandaríski herinn tók að sér að verja landið og breska hernámsliðið hvarf á brott.
Fyrsta ár lýðveldisins töldu stjórnvöld að nýju hlutleysi skynsamlegan kost og vildu ekki að Ísland gerðist stofnríki Sameinuðu þjóðanna þar sem þá yrði lýst yfir stríði á hendur Þjóðverjum og Japönum. Þessi afstaða breyttist strax árið 1946.
Eftir að Ísland gerðist stofnaðili NATO (1949) og gerði tvíhliða varnarsamning við Bandaríkin (1951) hvarf hlutleysið endanlega úr sögunni. Þjóðin varð virkur þátttakandi í varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisþjóða. Nú kemur vel í ljós gildi þess að eiga öfluga bandamenn þegar stríð geisar í Evrópu.
Þjóðhátíðarfáninn blaktir að Kvoslæk 17. júní 2023.
Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld tækju skýra afstöðu með vestrænum lýðræðisríkjum og væru í þeirra hópi í kalda stríðinu telja ólíklegustu menn enn að Ísland sé hlutlaust. Þetta stafar annaðhvort af óskhyggju eða þekkingarleysi. Síðari ástæðan er alvarlegri. Hún sýnir áhugaleysi á stöðu þjóðarinnar á mesta hættutíma í Evrópu frá lokum annars heimsstríðsins.
Hættan er þess eðlis að Svíar sem hafa fylgt hlutleysisstefnu í 200 ár ákváðu að segja skilið við hana og ganga í NATO. Finnar sem eiga 1.340 km löng sameiginleg landamæri með Rússum og höfðu vináttusamning við þá í kalda stríðinu sneru einnig við blaðinu og gengu í NATO.
Í tæp 80 ár höfum við Íslendingar deilt um hvernig sjálfstæðið sé best tryggt. Nú telja til dæmis ýmsir að tímabær ákvörðun utanríkisráðherra um að takmarka umsvif rússneska sendiráðsins í Reykjavík sé of mikil ögrun við Rússa. Því er ranglega haldið fram að ráðherrann hafi hvorki kynnt ríkisstjórn málið né utanríkismálanefnd alþingis.
Rússnesk stjórnvöld sýna Íslendingum jafnan þá hlið sem fellur best að hagsmunum þeirra hverju sinni. Á fyrstu árum lýðveldisins keyptu Rússar af okkur fisk. Pólitískt eðli viðskiptanna birtist þegar þeim var hætt við upphaf bandarísku Marshall-aðstoðarinnar við okkur.
Í upphafi sjötta áratugarins var ekkert íslenskt sendiráð í Moskvu. Það var opnað að nýju haustið 1953. Í mars 1953 andaðist harðstjórinn Stalín og þá um vorið tóku Sovétmenn að gera viðskiptasamninga við ýmis Evrópuríki og var Ísland síðast í röðinni. Af Íslands hálfu var samningurinn ekki rökstuddur sem svar við löndunarbanni Breta vegna landhelgisdeilu. Rökin voru þau að dreifa yrði sölu íslensks fisks sem mest til að lokun eins markaðar gengi ekki of nærri efnahag þjóðarinnar.
Í kalda stríðinu notuðu Rússar tvíhliða viðskiptin purkunarlaust til að réttlæta mikinn fjölda sendiráðsmanna sinna og kaup fasteigna. Féllu skrif Morgunblaðsins til dæmis ekki að skoðun sovéska sendiherrans eða verslunarfulltrúans var kvartað vegna þeirra við gerð viðskiptasamninga. Íslensku samningamennirnir vildu að farið yrði mildum orðum um Sovétstjórnina, annars næðust ekki samningar við hana. Móðir Sergeijs Lavrovs, núverandi utanríkisráðherra Rússa, var áhrifamikil í rússnesku samninganefndunum.
Í upphafi níunda áratugarins var hart tekist á um kjarnavopn í Evrópu. Þá hönnuðu sovéskir áróðursmenn þá kenningu að „eðli“ bandaríska varnarliðsins hér hefði breyst. Belski ofursti, fréttaskýrandi Rauðu stjörnunnar, málgagns sovéska hersins, notaði þessa tilbúnu eðlisbreytingu til að hóta Íslendingum oftar en einu sinni með kjarnorkusprengjum. Vakti Morgunblaðið athygli á því, t.d. í leiðara 13. júní 1981, „hve mikill samhljómur [væri] í málflutningi … Alþýðubandalagsins og Belski ofursta í Moskvu“. Nú eru líka dæmi um einkennilegan samhljóm hér með hræðsluáróðri Moskvuvaldsins.
Um þessar mundir eru alls 20 starfsmenn í rússneska sendiráðinu í Reykjavík. Gert er ráð fyrir að þeir verði átta 1. ágúst 2023, það er fækki um 12. Af þessum 20 eru 9 stjórnarerindrekar (diplómatar) sem er óvenjulega há tala á alla mælikvarða í sendiráði sem er í raun einangrað og sinnir engum tvíhliða samskiptum.
Rússneski sendiherrann kveður sér stundum hljóðs hér á síðum blaðsins til að útbreiða lygar um stríðið í Úkraínu og á vefsíðu sendiráðsins hefur verið vegið að persónu Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur á ákaflega ódiplómatískan hátt.
Sjálfstæði gerir þjóðum og einstaklingum kleift að leggja sitt af mörkum af styrkleika og sjálfsöryggi í stað öryggisleysis eða undirgefni. Ríki sem leggjast gegn alþjóðakerfi sem reist er á virðingu fyrir lögum og rétti vilja fá svigrúm til að sýna mátt sinn og megin að eigin geðþótta. Alþjóðalög eru helsta skjól smáþjóða og ákvörðun utanríkisráðherra vegna stjórnmálasambandsins við Rússa er í samræmi við þau.
Að fara að lögum er ekki ógn við neinn. Við getum látið ytri áhrif stjórna okkur eða eflt eigið sjálfstraust. Við ráðum hvort við eigum allt undir öðrum eða stöndum á eigin fótum.
Styrkur Íslendinga sem þjóðar felst að lokum í menningunni. Landið, sagan og tungan eru uppspretta sjálfstæðisviljans – hér og í Úkraínu.
Gleðilegan 17. júní!