22.4.2024

Sýndarkæra frá Svörtu loftum

Morgunblaðið, mánudagur,22. apríl 2024.

Seðlabank­inn gegn Sam­herja – eft­ir­för eða eft­ir­lit? ★★★★· Eft­ir Björn Jón Braga­son. Al­menna bóka­fé­lagið, 2024. Kilja, 226 bls., nafna­skrá.

Gjald­eyr­is­höft voru meðal ráða sem gripið var til hrun­haustið 2008. Þau yrðu kannski við lýði í 10 mánuði eða svo á meðan siglt yrði í gegn­um brimskafl­inn. Reynd­in var önn­ur eins og lýst er í bók­inni sem hér er til um­sagn­ar: Seðlabank­inn gegn Sam­herja – eft­ir­lit eða eft­ir­för? eft­ir Björn Jón Braga­son.

Ákveðið var að fela Seðlabanka Íslands að sjá um eft­ir­lit með fram­kvæmd gjald­eyr­is­haft­anna. Í bók­inni birt­ist hve fljótt höft og skammt­an­ir leiða af sér öfg­ar og of­læti eft­ir­lits­manna. Er þakk­arvert að Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, bjó yfir seiglu, djörf­ung og fjár­mun­um til að snú­ast til varn­ar og sig­urs gegn bank­an­um sem gróf mark­visst und­an öfl­ugu fyr­ir­tæki hans.

Björn Jón Braga­son, lög­fræðing­ur og sagn­fræðing­ur, sendi árið 2016 frá sér bók­ina Gjald­eyris­eft­ir­litið – vald án eft­ir­lits? Nýja bók­in er sjálf­stætt fram­hald at­hug­ana höf­und­ar þótt hann veki nokkr­um sinn­um máls á því sem hann hafði áður birt. Hér verður litið til þess sem snýr að Sam­herja.

Í upp­hafi spyr höf­und­ur hver eigi að gæta eft­ir­lits­mann­anna. Þar er þó til þess að líta að Már Guðmunds­son seðlabanka­stjóri og sam­starfs­fólk hans fékk marg­ar viðvar­an­ir frá eft­ir­lits­mönn­um vegna at­lögu þeirra að Sam­herja. Þau létu sér því miður ekki segj­ast.

Umboðsmaður alþing­is viðraði snemma þá skoðun að regl­ur seðlabank­ans um gjald­eyr­is­mál væru ekki tæk refsi­heim­ild. Þegar þáver­andi viðskiptaráðherra, Árni Páll Árna­son, Sam­fylk­ingu, hreyfði því við Má Guðmunds­son að lög­festa yrði regl­ur bank­ans taldi banka­stjór­inn það óráð, lög­fest­ing­in yrði túlkuð á þann veg að seðlabank­inn hefði ekki haft næg­ar lög­heim­ild­ir og fyr­ir hendi væri réttaró­vissa. Ráðherr­ann hafði mót­bár­ur banka­stjór­ans að engu (38). Banka­stjór­inn vildi halda and­liti út á við í stað þess að eyða réttaró­vissu.

Í krafti úr­sk­urða tveggja dóm­ara sem reist­ir voru á gögn­um sem síðan var fleygt (118) gripu seðlabank­inn og frétta­stofa rík­is­út­varps­ins til sam­stilltra hús­leit­araðgerða gegn Sam­herja 27. mars 2012 og er þeim ná­kvæm­lega lýst í bók­inni. Frétta­stof­an notaði þá tíma sem hún hafði í dag­skránni til að vekja ræki­lega at­hygli á aðgerðunum gegn Sam­herja. Var út­send­ing­um á efni háttað eft­ir ósk­um seðlabank­ans (90). Ráðherr­ar VG og Sam­fylk­ing­ar í rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur lágu ekki á liði sínu við að sverta fyr­ir­tækið.

Í sýnd­ar­rétt­ar­höld­um er ákvörðun um sekt eða sak­leysi sak­born­ings tek­in fyr­ir fram. Rétt­ar­höld­in fá oft mikið rými í fjöl­miðlum. Þau snú­ast ekki um til­tek­inn glæp. Þeim er ætlað að þjóna ákveðnum til­gangi, oft póli­tísk­um. Þau eru var­in sem víti til varnaðar.

Bcf38bc7-c069-4592-9ba2-e72a4aa7911d

Seðlabank­inn komst aldrei svo langt gagn­vart Sam­herja með hús­leit sinni og kær­um að rétt­ar­höld hæf­ust um efni máls­ins. Bank­inn hafði aldrei neitt hald­bært sak­ar­efni í hönd­un­um. Hann stóð þess í stað að sýnd­arkæru. Már Guðmunds­son banka­stjóri sagði í grein­ar­gerð til bankaráðs að aðgerðir bank­ans hefðu haft „tölu­verð fæl­ingaráhrif“. Þetta hefði til dæm­is mátt „glögg­lega sjá eft­ir hús­leit­ina hjá Sam­herja“ (170). Út á við sagði banka­stjór­inn hrak­för bank­ans stafa af „laga­klúðri“. Hefði bank­inn ekki kært Sam­herja hefði hann brotið lög (135). Talið um laga­klúður beindi at­hygli frá klúðri seðlabank­ans sjálfs.

Í stað þess að skoða mál til hlít­ar inn­an bank­ans og fara að ráðum þeirra sem hvöttu til varúðar, meðal ann­ars bankaráðsmanna, gösluðust starfs­menn gjald­eyris­eft­ir­lits­ins áfram und­ir for­ystu banka­stjór­ans sem dró aðeins upp þá mynd sem hann taldi sér og bank­an­um til fram­drátt­ar. Bank­inn gekk svo langt að villa um fyr­ir umboðsmanni alþing­is.

Umboðsmaður sendi frá sér álit í janú­ar 2019 vegna kvört­un­ar Þor­steins Más sem taldi að bank­inn hefði ekki haft laga­grund­völl til að ákv­arða per­sónu­lega sekt á sig og það hefði bank­inn vitað við sekt­ar­gjörðina árið 2016.

Í álit­inu taldi umboðsmaður bank­ann hafa brotið á Þor­steini Má og gagn­rýndi stjórn­sýslu bank­ans harðlega og hvernig staðið hefði verið að upp­lýs­inga­gjöf til sín. Sagði hann að niðurstaða rík­is­sak­sókn­ara frá 2014 hefði vakið at­hygli sína. Sak­sókn­ari hafnaði þá kæru bank­ans á hend­ur Sam­herja vegna skorts á refsi­heim­ild­um í lög­un­um um gjald­eyr­is­mál. Sagðist umboðsmaður ekki hafa vitað um þessa af­stöðu rík­is­sak­sókn­ara þegar hann ritaði bank­an­um bréf í októ­ber 2015 og lýsti vafa um heim­ild seðlabank­ans til að leggja á stjórn­valds­sekt­ir. Í lok nóv­em­ber 2015 sat umboðsmaður fund að beiðni bank­ans um refsi­heim­ild­ir bank­ans. Þá létu starfs­menn bank­ans enn hjá líða að upp­lýsa hann um af­stöðu rík­is­sak­sókn­ara (167-8).

Þegar þetta álit umboðsmanns var rætt í bankaráði seðlabank­ans sagði formaður­inn, Þór­unn Guðmunds­dótt­ir, Sjálf­stæðis­flokki, að „ekki ætti að nota sak­born­inga sem til­rauna­dýr til að fá niður­stöðu í laga­túlk­un­um“ (169).

Bók­ar­höf­und­ur sýn­ir að þetta voru ein­mitt stjórn­ar­hætt­ir bank­ans. Hann lét aðra reka mál ofan í sig og síðan kom banka­stjór­inn í fjöl­miðla og sagði mál „um­deild“ eða um „laga­klúður“ væri að ræða og dró þannig niður­stöðuna inn á grátt svæði þótt af­drátt­ar­laust lægi fyr­ir að bank­inn bryti á rétti annarra með ákvörðunum sín­um.

Í bók­inni eru birt fjöl­mörg dæmi um harða gagn­rýni bankaráðsmanna en Már svaraði með und­an­brögðum auk þess sem hann naut stuðnings ým­issa í bankaráðinu eins og Ágústs Ólafs Ágústs­son­ar, Sam­fylk­ingu. Sjón­ar­mið hans var að bankaráðið ætti að gæta sín í af­skipt­um sín­um, „bank­inn hlyti að taka sjálf­stæða ákvörðun“ (142).

Þá báru sum­ir bankaráðsmenn bein­lín­is ill­an hug til Sam­herja eins og kem­ur fram í bók­un Bolla Héðins­son­ar, Sam­fylk­ingu, 21. nóv­em­ber 2018 sem seg­ir Sam­herja ekki hafa „úr háum söðli að detta þegar siðgæðis­kröf­ur eru ann­ars veg­ar og fyr­ir­tækið í raun orðið hættu­legt tján­ing­ar­frels­inu í land­inu“ (162).

Bók­ar­höf­und­ur seg­ir stefnu­breyt­ingu hafa orðið í upp­lýs­inga­gjöf af hendi seðlabank­ans eft­ir að Ásgeir Jóns­son tók við sem banka­stjóri af Má 20. ág­úst 2019 (179).

Meðal þess sem op­in­beraðist eft­ir banka­stjóra­skipt­in var að Ingi­björg Guðbjarts­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri gjald­eyris­eft­ir­lits­ins, og Helgi Selj­an, fréttamaður rík­is­út­varps­ins, „höfðu átt í um­fangs­mikl­um sam­skipt­um“. Tel­ur höf­und­ur að tölvu­sam­skipti þeirra sýni „nán­ast sam­hæfðar aðgerðir frétta­stof­unn­ar og gjald­eyris­eft­ir­lits­ins“ (180).

Það sem snýr að ákæru­vald­inu í bók­inni sýn­ir að þar ger­ast hlut­ir hæg­ar en góðu hófi gegn­ir auk þess sem leynd­ar­hyggja er úr hófi fram.

Hvað sem líður tveim­ur bók­um höf­und­ar og alúð hans við gagna- og upp­lýs­inga­öfl­un er sög­unni af fram­kvæmd gjald­eyr­is­haft­anna ekki lokið, öll kurl eru ekki enn til graf­ar kom­in.

Í loka­út­gáf­unni ætti að nota graf­íska tækni og tíma­lín­ur til að sýna á eins ein­fald­an hátt og kost­ur er gang mála og úr­slit þeirra.

Í bókarlok slær höf­und­ur á kostnað rík­is­sjóðs vegna máls­ins sem hófst með hús­leit­inni í mars 2012 og tel­ur hann slaga upp í tvo millj­arða króna án þess að fjár­út­lát­in skili nokkr­um ár­angri fyr­ir máls­hefj­anda, seðlabank­ann. Þá áætl­ar höf­und­ur að Sam­herji hafi varið um ein­um millj­arði til að verj­ast. „Í heild má því segja að Seðlabanka­málið hafi kostað um þrjá millj­arða króna og senni­lega meira“ (212).

Texti höf­und­ar er vandaður en frá­sögn­in flók­in eins og klæk­ir bank­ans. Nafn Ingva Hrafns Óskars­son­ar bankaráðsmanns er mis­ritað og hann kallaður Ingi og í nafna­skrá er sagt að hann komi við sögu á bls. 142 og 143 en hans er aðeins getið á bls. 141. Á bls. 26 seg­ir að sá sem þetta rit­ar hafi beitt sér fyr­ir því að til varð embætti sér­staks sak­sókn­ara af því að svo virðist sem hann hafi „borið lítið traust til efna­hags­brota­deild­ar Rík­is­lög­reglu­stjóra“. Fyr­ir þessu eru eng­ar heim­ild­ir. Í ræðum og grein­um haustið 2008 eru færð mál­efna­leg rök fyr­ir nauðsyn breyt­ing­anna sem gerðar voru.

Björn Jón Braga­son á þakk­ir skild­ar fyr­ir að brjót­ast í gegn­um allt efnið sem býr að baki bók­inni og auðvelda al­menn­um les­anda að gera sér grein fyr­ir hvernig þrem­ur millj­örðum króna hef­ur til þessa verið varið á hálf­gerðu hliðarspori í kerfi þar sem menn skjóta sér á bak við rann­sókn­ar­hags­muni, banka­leynd eða vernd heim­ild­ar­manna þegar leitað er upp­lýs­inga. Seðlabank­inn fær fall­ein­kunn og rétt­ar­varsl­an þunga gagn­rýni í þess­ari bók. Rík­is­út­varpið ætti að gera hreint fyr­ir sín­um dyr­um.