8.5.2021

Sturlunga Óttars

Bækur - Sagnfræði - Morgunblaðið, laugardagur 8. maí 2021

Sturlunga geðlæknis ****- eft­ir Óttar Guðmunds­son. Skrudda, 2020. 239 bls., myndskreytt, nafna­skrá.

Þeir sem sökkva sér niður í Sturlungu hafa hver sína skoðun á verk­inu. Sitja má lengi á rökstól­um um efni verks­ins í viðleitni til að brjóta það til mergjar. Skoðanir á efn­inu jafn­marg­ar og túlk­end­urn­ir.

Er þetta ekki ein­mitt ein­kenni meist­ara­verka? Hver var til­gang­ur Sturlungu? Hvers vegna kaus Sturla Þórðar­son (f. 1214, d. 1284) að lýsa frænd­um sín­um og ófriði milli þeirra á þenn­an hátt? Er unnt að greina það til hlít­ar?

Þegar Magnús Jóns­son pró­fess­or beitti sér fyr­ir út­gáfu Sturlungu í tveim­ur bind­um árið 1946 var til­gang­ur hans að svala fróðleiksþorsta les­enda á miklu auðveld­ari hátt en áður hafði verið gert. „Það, sem þurfti, var að láta les­end­ur Sturlungu fá nógu kunn­uga og fróða fylgd­ar­menn um þetta völ­und­ar­hús, fylgd­ar­menn, er svarað gætu spurn­ing­um og reist nógu skýr merki við vegi og vega­mót,“ seg­ir Magnús í for­mála ann­ars bind­is út­gáf­unn­ar frá 1946.

Óttar Guðmunds­son geðlækn­ir ger­ist fróður fylgd­armaður og tek­ur sér fyr­ir hend­ur að fara lækn­is­hönd­um um texta Sturlu í bók­inni Sturlunga geðlækn­is . Hann birt­ir les­end­um bók­ar sinn­ar sýn lækn­is­ins á ein­stak­linga í verk­inu. Hann set­ur Sturlungu einnig í nýj­an bún­ing, brýt­ur hana upp til að bregða sam­felldri birtu á ein­stak­linga og at­b­urði.

Óttar seg­ir Sturlungu skrifaða „í sím­skeyta- og ann­ála­stíl“. Bók­in geymi fjölda styttri sagna og komi nokkr­ir höf­und­ar að rit­un henn­ar. Lesa verði per­sónu­lýs­ing­ar á milli lín­anna, eig­in­leg­ar mann- og út­lits­lýs­ing­ar séu fáar, ein­stök­um per­són­um sé ekki fylgt eft­ir gegn­um ævi­skeiðið held­ur sé rak­in at­b­urðasaga þar sem menn komi mis­mikið við sögu. Litlu rými sé eytt til að lýsa til­finn­ing­um fólks.

GF916H3MG

Þrátt fyr­ir þessa ann­marka á per­sónu­lýs­ing­um í Sturlungu ræðst Óttar í að beita aðferðum geðlækn­is við grein­ingu á mörg­um sem koma við sögu. Þar er af nógu að taka. Í upp­hafi bók­ar­inn­ar birt­ir Óttar skrá yfir „helstu per­són­ur Sturlungu“. Á list­an­um eru 98 nöfn á sex blaðsíðum. Hann seg­ir um hlut­verk geðlækn­is­ins:

„Menn þurfa að ráða í hegðun og svip­brigði auk þess að hlusta á það sem sagt er og túlka á besta hátt. Bók eins og Sturlunga skýr­ir frá hegðun og hátta­lagi fólks og sam­skipt­um þess inn­byrðis. Geðlækn­ir­inn rýn­ir í þetta og túlk­ar síðan út frá skil­merkj­um fræðanna. Þess­ar túlk­an­ir verða aldrei eins og vís­indi exc­elskjal­anna held­ur alltaf um­deil­an­leg­ar. Senni­lega munu eng­ir tveir geðlækn­ar túlka Sturlungu á sama veg vegna þess hversu per­sónu­leg­ar slík­ar vanga­velt­ur eru.“ (s. 18.)

Á hnit­miðaðan hátt set­ur Óttar þenn­an ramma utan um verk sitt. Þessi bönd halda hon­um þó ekki alltaf. Stund­um vegna eig­in frænd­semi við Sturlunga eða hann fær­ir frá­sögn­ina inn í sam­tím­ann til að bregða á hana meiri birtu. Hann seg­ist til dæm­is sem ung­ling­ur ekki hafa hatað neinn mann meira en Giss­ur jarl Þor­valds­son. Hann vissi af ein­um sam­tíma­manni með því nafni og skildi ekki hvernig hann gat heitið því og átti bágt með að ávarpa hann. Skoðun Ótt­ars á Giss­uri hef­ur breyst með ár­un­um og hann met­ur nú og ber virðingu fyr­ir „póli­tísk­um hæfi­leik­um hans og kaldrifjaðri greind“.

(s. 229.)

Texti Ótt­ars er skipu­lega og skýrt fram sett­ur í stutt­um efn­isköfl­um þar sem áliti eða hug­leiðing­um geðlækn­is­ins er skotið inn á milli. Jó­hanna V. Þór­halls­dótt­ir ger­ir myndskreyt­ing­ar og kápu bók­ar­inn­ar sem skapa text­an­um loft en minna jafn­framt á al­var­leika þess sem um er skrifað. Nafna­skrá er í bók­inni.

Með stutt­um bakþönk­um í Frétta­blaðinu hef­ur Óttar áunnið sér hylli stórs hóps les­enda sem kann að meta að hann hik­ar ekki við að segja skoðanir sín­ar umbúðalaust án til­lits til þess hvort þær falla að póli­tísk­um rétt­trúnaði eða ekki. Oft er þetta ögr­andi og Óttar beit­ir sömu aðferð við grein­ingu á sögu­hetj­um Sturlungu. Lýs­ing­arn­ar eru óvægn­ar á frillu­lífi, hrotta­skap og víga­ferl­um.

Bók Ótt­ars er vel skrifað sjálf­stætt verk sem stend­ur vel fyr­ir sínu hvort sem menn eru sam­mála hon­um eða ekki. Hann bregður eig­in sýn á ólg­andi líf Sturlungu og kveik­ir ör­ugg­lega áhuga ein­hverra les­enda á að sækja í ótæm­andi upp­sprett­una sjálfa og svala sér á henni.