16.7.2022

Strategískar ákvarðanir um fisk

Morgunblaðið, laugardag 16. júli 2022.

Frá því var skýrt und­ir lok júní að fær­eyska fisk­eld­is­fyr­ir­tækið Bakkafrost hefði keypt Boeing 757-þotu til að ná for­skoti í keppn­inni um að koma fersk­um laxi á borð veit­ingastaða á Man­hatt­an á inn­an við 24 tím­um frá slátrun.

Í frétt breska blaðsins The Guar­di­an um þotu­kaup­in seg­ir að stjórn­end­ur Bakkafrosts, sem einnig eigi Scott­ish Salmon Comp­any (nú Bakkafrost Scot­land), svari gagn­rýni á kol­efn­is­spor þotuflugs­ins yfir Atlants­haf á þann veg að sporið minnki með því að fara ekki um Heathrow-flug­völl með lax­inn, jafn­framt minnki mat­ar­sóun þegar tím­inn stytt­ist milli slátr­un­ar og mat­ar­gerðar banda­rísku viðskipta­vin­anna.

Í Fær­eyj­um tala þeir um eld­islax­inn sinn sem „kampa­vínslax­inn“. Hann sé sem sagt allra laxa best­ur.

Seiðin í þenn­an hágæðalax koma héðan þar sem eld­is­fyr­ir­tæki verða sí­fellt öfl­ugri. Í nýj­asta tölu­blaði Bænda­blaðsins (7. júlí) er frétt um öran vöxt land­eld­is einkum á laxi og bleikju en fimm fyr­ir­tæki sem stundi „þauleldi fisks á landi“ hafi ný­lega stofnað sam­tök­in Eld­is, Land­eld­is­sam­tök Íslands.

Eld­is og Bænda­sam­tök Íslands (BÍ) hafa lýst yfir vilja til að greind­ur verði fýsi­leiki þess að „full­vinna líf­ræn­an úr­gang til áburðarfram­leiðslu“. Þetta verði ekki gert nema með styrkj­um, rann­sókn­um og þróun á tækni­lausn­um. Þessi líf­ræni úr­gang­ur og hliðar­af­urðir verði sí­fellt mik­il­væg­ari auðlind­ir til áburðarnotk­un­ar vegna hækk­ana á inn­flutt­um til­bún­um áburði.

Allt snert­ir þetta grunnþætti þess sem skipt­ir mat­væla­fram­leiðslur mestu nú á tím­um, að þeir fram­leiði dýra hágæðavöru og við alla fram­leiðsluna sé tekið mið af lofts­lags­mark­miðum og sjálf­bærni.

Að tengja sam­an land­búnað og fisk­eldi, end­ur­heimta fiski­mykju og nýta hana til líf­rænn­ar fram­leiðslu er liður í að styrkja for­send­ur fæðuör­ygg­is hér. Hvert skref sem stigið er til að minnka notk­un á inn­flutt­um áburði er skref í átt til auk­ins fæðuör­ygg­is.

Mesti kostnaður fisk­eld­is­stöðva felst í fóður­kaup­um. Von­ir eru bundn­ar við að rækt­un þör­unga á kolt­ví­sýr­ingi geri þá að heil­næmu og um­hverf­i­s­vænu fóður­hrá­efni við fisk­eldi. Þör­unga­rækt­un af þessu tagi er stunduð hér á landi. Líf­tæknifyr­ir­tækið Al­ga­líf í Reykja­nes­bæ fram­leiðir astax­anthín úr örþör­ung­um. Fram­leiðslan er seld út um all­an heim. Há­tæknifyr­ir­tækið VAXA Technologies rækt­ar smáþör­unga til mann­eld­is í jarðhitag­arði ON á Hell­is­heiði. Áhugi á öllu sem teng­ist þör­ung­um er mik­ill hér ef marka má ný­lega út­hlut­un á Lóu-styrkj­um til ný­sköp­un­ar og upp­bygg­ing­ar fyr­ir lands­byggðina.

Í fyrr­nefndri frétt Bænda­blaðsins seg­ir að hjá fimm land­eld­is­fé­lög­um sé árs­fram­leiðsla sem nem­ur 131.500 tonn­um af lan­döld­um laxi nú í sjón­máli. Til sam­an­b­urðar má geta að í fyrra var slátrað 44.500 tonn­um af sjókvíal­axi hér og nam út­flutn­ings­verðmætið rúm­um 20 millj­örðum króna. Á fyrstu 6 mánuðum núna, 2022, er út­flutn­ings­verðmæti eldisaf­urða hins veg­ar komið í tæpa 23 millj­arða króna. Það hef­ur aldrei verið meira á fyrri helm­ingi árs.

Frá ár­inu 2015 hef­ur fram­leiðslan í sjókvía­eldi 13 fald­ast. Á ár­inu 2020 nam fram­leiðsla á laxi úr land­eldi hins veg­ar rétt um 6% af heild­ar­fram­leiðslu á eld­islaxi, aðeins um 2,1 þúsund tonn­um. Mik­ill stór­hug­ur ein­kenn­ir því háu töl­urn­ar um land­eldi í sjón­máli. Fram­leiðslu­kostnaður við land­eldi er sagður marg­fald­ur á við kostnað úr sjókvía­eldi. Kol­efn­is­spor vegna lax sem al­inn er á landi er sagt stærra en vegna eld­is í sjókví. Lík­legt er að land­eldi á laxi verði að mestu stundað á svæði sem teyg­ir sig frá Þor­láks­höfn vest­ur á Reykja­nes.

20210615_samherji_fiskeldi_sudurnes_fra_landi_650Þegar skýrt var frá því fyrir einu ári að Samherji og HS Orka hefðu samið um landeldi birtist þessi mynd á vefsíðu Samherja.

Sum­arið 2021 var skýrt frá því að Sam­herji fisk­eldi ehf. hefði samið við HS Orku um upp­bygg­ingu lax­eld­is á landi í Auðlindag­arðinum við Reykja­nes­virkj­un. Einnig hefði verið samið við land­eig­end­ur vegna upp­bygg­ing­ar­inn­ar. Fé­lagið hefði tryggt sér aðgang að sjó og raf­orku til að fram­leiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi ár­lega auk þess sem nýtt­ur verður ylsjór sem er affall frá kæl­ingu Reykja­nes­virkj­un­ar. Um væri að ræða 45 millj­arða fjár­fest­ingu í land­eldi.

Nú er rætt um óæski­lega samþjöpp­un í sjáv­ar­út­vegi því vegna kaupa Síld­ar­vinnsl­unn­ar í Nes­kaupstað á Vísi í Grinda­vík fyr­ir 31 millj­arð króna. Á fisk­veiðiár­inu 2022-2023 eru vænt­ar afla­heim­ild­ir Vís­is um 15 þúsund þorskí­gildist­onn.

Fjór­um vik­um fyr­ir Vís­is-kaup­in birt­ust frétt­ir um að Síld­ar­vinnsl­an hefði keypt 34,2% hlut í norska lax­eld­is­fé­lag­inu Arctic Fish Hold­ing AS fyr­ir um 14,8 millj­arða króna. Arctic Fish Hold­ing á 100% hluta­fjár í Arctic Fish ehf. einu af stærstu lax­eld­is­fyr­ir­tækj­um hér, rek­ur það eld­is­stöðvar á Vest­fjörðum með rúm­lega 27 þúsund tonna leyfi fyr­ir eldi í sjó.

Án þess á nokk­urn hátt sé gert lítið úr eign­ar­haldi á þorskí­gildist­onn­um og gildi veiða og vinnslu þeirra blas­ir við að hér verði sama þróun og í Nor­egi: eldi í sjó og á landi og út­flutn­ing­ur á slátruðum eld­is­fiski vegi meira við sköp­un verðmæta en gam­al­grónu veiðarn­ar.

Alls eru 98% ís­lensks sjáv­ar­fangs flutt á er­lenda markaði. Þar er sam­keppni hörð og kröf­ur mikl­ar. Flug­vél­ar­kaup Bakkafrosts sýna að keppi­naut­ar um bestu markaðina vilja skapa sér for­skot með of­ur­gæðum. Sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tæki hér keppa við þá bestu.

Í þessu ljósi ber að skoða strategísk­ar ákv­arðanir öfl­ug­ustu sjáv­ar­út­vegs­fyr­ir­tækj­anna. Þær eru tekn­ar til að styrkja sam­keppn­is­stöðu þjóðar­inn­ar allr­ar sem fram­leiðanda mat­væla í hæsta gæðaflokki. Er fagnaðarefni að fyr­ir­tæk­in hafi fjár­hags­leg­an styrk til stór­sókn­ar án þess að vera háð op­in­berri fyr­ir­greiðslu.