2.9.2023

Stjórnmálaskil skerpast

Morgunblaðið, laugardagur 2. september 2023.

Fyr­ir viku var hér nefnt að hugs­an­lega yrði bók­un 35 við EES-samn­ing­inn hita­mál á flokks­ráðsfundi sjálf­stæðismanna laug­ar­dag­inn 26. ág­úst. Svo varð ekki. Til­laga varðandi málið komst aldrei út úr umræðuhópi þar sem hún var felld.

Þeir sem eru í nöp við bók­un 35 sættu sig við þessa mála­miðlun: „Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn stend­ur vörð um full­veldi Íslands.“ Þetta er þó ekki ný­mæli í álykt­un­um flokks­ins. Löng­um hef­ur verið ályktað á sama veg eins og til dæm­is á lands­fundi 2022: „Meg­in­mark­mið í ut­an­rík­is­mál­um eru: að verja full­veldi, sjálf­stæði og ör­yggi þjóðar­inn­ar; að efla hag lands­ins og efna­hags­legt sjálf­stæði með öfl­ugri þátt­töku í alþjóðaviðskipt­um.“ Í álykt­un lands­fund­ar 2018 sagði: „Meg­in­mark­mið Sjálf­stæðis­flokks­ins í ut­an­rík­is­mál­um er: Að standa vörð um full­veldi þjóðar­inn­ar.“

Samstaða um þetta meg­in­mark­mið var staðfest á flokks­ráðsfund­in­um og hindr­ar á eng­an hátt fram­gang frum­varps ut­an­rík­is­ráðherra um hnökra­lausa fram­kvæmd bók­un­ar 35.

Ein­um kunn­asta starfs­manni rík­is­út­varps­ins, RÚV, Gísla Marteini Bald­urs­syni, þótti helst í frá­sög­ur fær­andi eft­ir flokks­ráðsfund­inn á X-síðu sinni (Twitter) „að eina sem flokk­ur­inn tal­ar um eft­ir helg­ina er stuðning­ur við hval­veiðar, andúð á Borg­ar­línu og fanga­búðir fyr­ir flótta­fólk“.

Á ein­hverri vefsíðu var sagt að með orðum sín­um gerði Gísli Marteinn „gys“ að Sjálf­stæðis­flokkn­um. Það kann að hafa verið ætl­un hans en held­ur kárn­ar gamanið við skoðun staðreynda. Sjálf­stæðis­menn ræða vissu­lega þessi mál en þau ber hins veg­ar hæst í fjöl­miðlum. Stjórn­ar­and­stæðing­ar telja, eða vona, að þau splundri stjórn­ar­sam­starf­inu.

372641758_10227230046729615_30496781432761112_nRíkisstjórnin fundaði á Egisstöðum fimmtudaginn 31, ágúst. Hér sjást ráðherrar Sjálfstæðisflokksins með foirvígismönnum flokksins í Fjarðarbyggð.

Lít­um á staðreynd­irn­ar. Í stjórn­mála­álykt­un sjálf­stæðismanna eru þessi sjö megin­á­herslu­atriði: (1) stór­auka græna orku­fram­leiðslu og byggja und­ir orku­skipti; (2) verja vernd­ar­kerfi flótta­manna og koma bönd­um á kostnað; (3) end­ur­skoða sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins; (4) efla lög­gæslu og bar­áttu gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi og hryðju­verka­ógn; (5) styrkja embætti rík­is­sátta­semj­ara; (6) stuðla að efna­hags­leg­um stöðug­leika og lækk­un verðbólgu með aðhaldi í rík­is­fjár­mál­um þar sem út­gjöld verði ekki auk­in og (7) auka hagræðingu með fækk­un stofn­ana, sölu rík­is­fyr­ir­tækja og fjár­fest­ingu í sta­f­rænni stjórn­sýslu.

Fram­kvæmd hvers og eins þess­ara verk­efna krefst mála­miðlana við rík­is­stjórn­ar­borðið og á alþingi. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn hreyf­ir þeim hins veg­ar öll­um og rök­styður í álykt­un sinni.

Gísli Marteinn vill ekki hval­veiðar, hann styður Borg­ar­línu og að til sé grátt svæði í út­lend­inga­mál­um fyr­ir aktív­ista og þá sem fylgja svo óljósri stefnu að ekki sé unnt að ráða í hana. Hann nefn­ir mál sem hon­um eru efst í huga.

Öll mál­in ber stjórn­mála­mönn­um að leiða til lykta. Þeir sem telja að þau séu ekki póli­tísk viðfangs­efni vilja skilja þau eft­ir órædd og óleyst. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er annarr­ar skoðunar. Hann vill fá botn í mál­in.

Mat­vælaráðherra Svandís Svavars­dótt­ir tók um­deilda ákvörðun í vor þegar hún frestaði hval­veiðum. Bæði var deilt um efni ákvörðun­ar­inn­ar og einnig hvernig ráðherra stóð að henni. Vil­hjálm­ur Birg­is­son, verka­lýðsfor­ingi á Akra­nesi, sagði ólög­lega veist að starfs­ör­yggi og af­komu fé­lags­manna sinna. Eig­end­ur Hvals hf. töldu sig eiga skaðabóta­kröfu á hend­ur rík­is­sjóði. Nú leggst Svandís ekki gegn hval­veiðum enda verði farið að ströng­um skil­yrðum. Hún skapaði sér óvin­sæld­ir hjá hval­veiðisinn­um í vor en hval­veiðiand­stæðing­um núna. U-beygj­ur reyn­ast stjórn­mála­mönn­um sjald­an affara­sæl­ar.

Flokks­ráð sjálf­stæðismanna samþykkti að end­ur­skoða ætti sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins. Þar kann að vera um 300 millj­arða króna út­gjalda­dæmi að ræða. Eng­inn veit þó með vissu í hvert allt þetta fé á að renna. Í ára­tugi hef­ur verið rætt um Sunda­braut án þess að ljóst sé hvar eða hvernig yf­ir­völd Reykja­vík­ur­borg­ar vilja að hún teng­ist vega­kerf­inu vest­an Elliðaár­vogs. Lof­orð eru gef­in fyr­ir kosn­ing­ar en efnd­irn­ar láta á sér standa. Þessa hörmu­legu stöðu verður að ræða á stjórn­mála­vett­vangi. Sam­göngusátt­mál­inn er gerður af stjórn­mála­mönn­um. Dauðahald í borg­ar­línu leys­ir ekki þenn­an vanda.

Skoðanir eru skipt­ar á alþingi um út­lend­inga­mál. Laga­breyt­ing var þó samþykkt á liðnum vetri í and­stöðu við minni­hluta þing­manna. Nú má skilja orð þeirra sem urðu und­ir á þann veg að ekki eigi að virða lög­in af því að ekki náðist sam­komu­lag á þingi um bú­setu­úr­ræði þeirra sem neita að fara að lög­um. Gráa svæðið sem þá myndaðist er nú notað í von um að af óviss­unni spretti óvirðing fyr­ir nýju laga­ákvæðunum í heild. Dóms­málaráðherra Guðrún Haf­steins­dótt­ir ætl­ar hins veg­ar að flytja frum­varp til að afmá þetta gráa svæði. Það styður flokks­ráð sjálf­stæðismanna, að kenna lausn­ina við flótta­manna­búðir er í anda No bor­ders.

Menn lesa og leggja út af álykt­un flokks­ráðsfund­ar sjálf­stæðismanna á þann veg sem þeim þókn­ast. Hver og einn sér það í stjórn­mála­álykt­un­um sem höfðar til hans. Eitt atriði get­ur skyggt á allt annað.

Það verður spenn­andi að sjá hvaða stefnu stjórn­mála- og fjöl­miðlaum­ræðurn­ar taka nú eft­ir að hvala­málið er úr sög­unni sem ágrein­ings­mál á milli flokka rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Á alþingi hafa flokkslín­ur ekki ráðið í at­kvæðagreiðslum en sveifl­ur hafa verið mikl­ar, einkum vegna alþjóðlegs þrýst­ings. Hann er nú mun minni en áður þótt ráðherr­ann sveifl­ist.

Fyrr á árum barst þung­ur þrýst­ing­ur frá Washingt­on gegn hval­veiðum. Hann kem­ur nú frá Hollywood. Á því er aug­ljós mun­ur.