8.1.2022

Stjórnarskútan dregur upp segl

Morgunblaðið, laugardagur 8. janúar 2022

Stjórn­mála­lífið hef­ur verið dá­lítið und­ar­legt frá þing­kosn­ing­un­um 25. sept­em­ber 2021. Tveggja mánaða töf varð á að alþingi yrði starf­hæft vegna óvissu um kjör­bréf. Form­leg end­ur­nýj­un stjórn­ar­sam­starfs­ins dróst því til 28. nóv­em­ber 2021. Þá var stjórn­arsátt­mál­inn kynnt­ur, skipt­ing ráðuneyta milli flokka, fjöldi þeirra og mann­val í ráðherra­sæti.

Eft­ir það fór allt á fulla ferð. For­sæt­is­ráðherra flutti stefnuræðu 1. des­em­ber og fyrsta umræða um fjár­lög árs­ins 2022 fór fram 2. des­em­ber. Þing­fund­ir voru til 22. des­em­ber og síðan að nýju 27. og 28. des­em­ber þegar fjár­laga­frum­varpið var af­greitt sem lög frá alþingi.

Að ekki sé for­svar­an­legt að kjósa í sept­em­ber vegna þess að þá gef­ist of skamm­ur tími til að af­greiða fjár­lög á ekki við rök að styðjast. Ein­kenni­legt er að nýir þing­menn tali á þenn­an veg. Al­mennt hlýt­ur að koma þeim í fyrstu á óvart hve vinnu­tím­an­um á þingi er sóað miðað við aðra staði og hve þing­mönn­um er erfitt að til­einka sér vinnu­brögð til að nýta tím­ann sem best og á skipu­leg­an hátt.

Fr_20211129_170980

Í síðustu alþing­is­kosn­ing­um 20. ald­ar­inn­ar, árið 1999, komst á sú meg­in­flokka­skip­an sem enn er. Þá buðu Sam­fylk­ing og Vinstri-græn fram í fyrsta skipti sam­hliða Sjálf­stæðis­flokki og Fram­sókn­ar­flokki sem sátu sam­an í rík­is­stjórn­um frá 1995 til 2007. Frjáls­lyndi flokk­ur­inn fékk menn kjörna 1999 og átti þing­menn í 10 ár. Fylgið hrundi af hon­um 2009 í fyrstu alþing­is­kosn­ing­un­um eft­ir banka­hrunið.

Í kosn­ing­un­um 2009 voru sjö flokk­ar í fram­boði. Fyr­ir utan flokk­ana fjóra fékk Borg­ara­hreyf­ing­in menn kjörna á þing 2009. Hún klofnaði á kjör­tíma­bil­inu og komu Pírat­ar í henn­ar stað 2013, þá fékk Björt framtíð einnig fyrst menn á þing en 15 flokk­ar voru í kjöri og 6 fengu menn kjörna. Í kosn­ing­un­um 2016 fékk Viðreisn í fyrsta sinn menn kjörna. Þá voru 12 flokk­ar í fram­boði og 7 fengu þing­menn. Árið 2017 fengu Miðflokk­ur og Flokk­ur fólks­ins þing­menn kjörna í fyrsta skipti. Þá voru 11 flokk­ar í kjöri og 8 fengu þing­menn. Árið 2021 voru einnig 11 flokk­ar í kjöri og nú gerðist það í fyrsta sinn frá 2007 að eng­inn nýr flokk­ur fékk kjör­inn mann á þing, sömu flokk­arn­ir 8 hafa því átt menn á þingi frá 2017.

Eft­ir að þing­flokk­um fjölgaði reynd­ist erfiðara að mynda rík­is­stjórn­ir. Ný kjöl­festa skapaðist þó að lokn­um kosn­ing­um 2017 þegar for­ystu­menn VG og Sjálf­stæðis­flokks­ins tóku hönd­um sam­an. Þeir ýttu grund­vallarágrein­ings­mál­um til hliðar og mynduðu þriggja flokka stjórn með Fram­sókn­ar­flokkn­um. Reynd­ist þetta fyrsta þriggja flokka rík­is­stjórn­in sem naut sam­heldni til að sitja heilt kjör­tíma­bil og gerði svo gott bet­ur með end­ur­nýjuðu og öfl­ugra umboði í kosn­ing­un­um 25. sept­em­ber 2021.

Aðeins einu sinni frá 2009, í nokkra mánuði 2016 til 2017, komust jaðarflokk­ar í rík­is­stjórn, Björt framtíð og Viðreisn með Sjálf­stæðis­flokkn­um. Björt framtíð þoldi ekki álagið og þurrkaðist út í kosn­ing­um 2017.

Jaðarflokk­arn­ir sem svo eru nefnd­ir hér brotna yf­ir­leitt af ein­hverj­um hefðbundnu flokk­anna, skýr­ustu dæm­in um það nú eru: (1) Miðflokk­ur­inn, stofn­and­inn, Sig­mund­ur Davíð Gunn­laugs­son, dreif sig af stað að nýju eft­ir skip­brot inn­an Fram­sókn­ar­flokks­ins, Miðflokk­ur­inn berst nú fyr­ir lífi sínu. (2) Viðreisn, nú­ver­andi flokks­formaður, Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, hvarf bit­ur frá vara­for­mennsku í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Viðreisn fjar­læg­ist stöðugt upp­hafser­indi sitt, að berj­ast fyr­ir aðild Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu.

All­ar full­yrðing­ar um að banka­hrunið haustið 2008 leiddi til upp­stokk­un­ar í ís­lensk­um stjórn­mál­um reynd­ust rang­ar. Fjöldi fram­boða í kosn­ing­um til alþing­is frá 2013 til 2021 sýn­ir að gerð hef­ur verið hver at­lag­an eft­ir aðra að grunni flokka­kerf­is­ins sem var lagður í kosn­ing­un­um árið 1999. At­lög­urn­ar hafa mis­heppn­ast.

Nú síðast var látið eins og sósí­al­ismi væri kom­inn í tísku hér og fengi braut­ar­gengi með mönn­um á þingi. Þeir sigr­ar unn­ust hjá álits­gjöf­um en ekki við kjör­borðið. Skömmu eft­ir kosn­ing­arn­ar glutruðu sósí­al­ist­arn­ir niður tök­un­um sem þeir höfðu náð inn­an alþýðusam­bands­ins með for­ystu í Efl­ingu. Hrökt­ust þeir þaðan vegna ásak­ana um of­ríki og mann­vonsku.

Snurðulaus af­greiðsla fjár­laga á skömm­um tíma fyr­ir ára­mót sannaði að góður ein­hug­ur er inn­an þing­meiri­hlut­ans. Eft­ir að þing kem­ur sam­an 17. janú­ar 2022 er mark­mið for­sæt­is­ráðherra að fyr­ir 1. fe­brú­ar verði samþykkt þings­álykt­un­ar­til­laga henn­ar um skip­an ráðuneyta. Til­lag­an er arf­ur frá stjórn­artíð Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur sem böðlaði stjórn­ar­ráðsfrum­varpi sínu í gegn­um þingið um mitt ár 2011.

Frum­varpið flutti Jó­hanna í trássi við tvo ráðherra í stjórn sinni og við mikla óánægju inn­an þing­flokks VG. Í þingum­ræðum var hún sökuð um að ganga gegn varnaðarorðum rann­sókn­ar­nefnd­ar alþing­is um hætt­una af „odd­vitaræði“ eða „for­ingj­aræði“. Til að sporna gegn hætt­unni setti þing­nefnd í frum­varpið ákvæði um að ekki yrðu gerðar breyt­ing­ar á ráðuneyt­um án samþykk­is alþings. Þings­álykt­un­ar­til­laga for­sæt­is­ráðherra er flutt vegna þessa ákvæðis.

Ýmis­legt er enn óljóst varðandi breytta verka­skipt­ingu milli ráðuneyta. Þau mál skýr­ast vafa­laust í þingum­ræðunum. Þá hlýt­ur starfs­heitið dóms­málaráðherra að koma til sög­unn­ar að nýju. Skrýtið er að kalla ráðherra dóms­málaráðuneyt­is­ins inn­an­rík­is­ráðherra. Enn und­ar­legra er að rekja þetta nafnarugl til þess að nú­ver­andi ráðherra sé ólög­lærður. Áður hafa aðrir en lög­lærðir setið í embætti dóms­málaráðherra.