Stjórnarsáttmáli í augsýn
Morgunblaðið, laugardagur 21. desember 2024.
Nú er boðað að Samfylkingin leiði ríkisstjórn að nýju eftir tæplega 12 ára fjarveru úr stjórnarráðinu. Þegar þetta er skrifað hefur verið kynnt að stjórnarsáttmáli sjái dagsins ljós um helgina. Þær sem að stjórnarmynduninni standa kenna sáttmálann og stjórnina við jólagjöf.
Á pólitískum tímamótum vakna spurningar um hvort Kristrún Frostadóttir taki upp þráðinn þar sem forveri hennar og flokkssystir, Jóhanna Sigurðardóttir, skildi við hann vorið 2013, má þar nefna stjórnarskrármálið og ESB-aðildina.
Jóhanna og Steingrímur J. Sigfússon, þáv. formaður VG, spiluðu saman á vinstri kantinum eins lengi og þau nutu trausts til þess. Kristrún hefur haldið sig frá þeim kanti. Kemst hún upp með það til lengdar? Reynir Samfylkingin ekki að fylla tómarúmið sem myndaðist með tapi Pírata og VG í kosningunum 30. nóvember 2024? Til þess verður flokkurinn að færa sig til vinstri og út á jaðarinn.
Fyrir kosningar vorið 2013 stefndi augljóslega í óefni fyrir stjórnarflokkana og tók Árni Páll Árnason við formennsku í Samfylkingunni og Katrín Jakobsdóttir í VG áður en gengið var að kjörborðinu. Þá hafði utanríkisráðherrann hætt ESB-aðildarviðræðunum. Stjórnarskrármálinu hafði verið ýtt til hliðar. Fylgið hrundi engu að síður af flokkunum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland við kynningu á stjórnarsáttmálanum laugardaginn 21. desember 2024 í Hafnarborg í Hafnarfirði (mynd: mbl.is/Eyþór).
Kristrún Frostadóttir lauk BS-prófi í hagfræði frá Háskóla Íslands á miðju stjórnartímabili Jóhönnu árið 2011 og MA-prófi í hagfræði frá Boston-háskóla árið 2014. Þá tók hún MA-próf í alþjóðafræði með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla árið 2016. Hún var því með hugann við annað en íslensk stjórnmál á þeim miklu umbrotatímum þegar núverandi flokkakerfi mótaðist.
Nú er VG-flokkurinn horfinn af þingi. Rætur hans teygðu sig 94 ár aftur til stofnunar Kommúnistaflokks Íslands árið 1930.
Kristrún er fjórði formaður Samfylkingarinnar eftir Jóhönnu. Óleyst baráttumál Samfylkingarinnar lifa hins vegar formennina og knúið verður á um þau þótt Kristrún hafi ýtt þeim til hliðar eða falið þau í kosningabaráttunni vegna skorts á kjörþokka.
Umræður um útgáfu leyfis til hvalveiða á tíma starfsstjórnarinnar eru til marks um hve fjölmiðlamönnum finnst lítið til raunverulegra viðfangsefna nýrrar ríkisstjórnar koma. Hún verður örugglega þakklát fyrir að í fimm ár þurfi hún ekki að huga að hvalveiðum enda verði þær stundaðar lögum samkvæmt.
Allir hagvísar eru góðir. Miðað við allt álagið á ríkissjóð undanfarin ár stendur hann og efnahagur þjóðarbúsins vel. Þá hafa verið gerðir kjarasamningar til langs tíma.
Það er óskhyggja að ný ríkisstjórn með óreyndu fólki hafi burði til hagræðingar í ríkiskerfinu. Að sameina ráðuneyti og fækka aðstoðarmönnum ráðherra og þingmanna við stjórnarmyndun er ódýr andlitslyfting sem breytir ekki neinu um ríkisrekstur í stóra samhenginu.
Séu verkefni á vegum ríkisins óþörf á að hætta þeim. Ríkið á að halda að sér höndum og skapa einkaaðilum meira svigrúm. Á þann hátt verður best staðið að því að minnka umsvif ríkisins. Nýgræðingar í ráðherraembættum munu hvorki hafa vilja né getu til að takmarka ríkisumsvif.
Ólíklegt er að Samfylkingin vilji rifa seglin í ríkisrekstri. Hún hefur staðið fyrir því að 10 milljörðum króna er varið til stafrænna lausna innan borgarkerfisins. Verkefninu væri betur borgið í höndum einkaaðila. Alma Möller hefur sem landlæknir beitt sér gegn þróun stafrænnar einkavæðingar innan heilbrigðiskerfisins. Á gervigreindartímum er þetta ótrúleg skammsýni.
Því miður hefur lítið sem ekkert verið rætt um stöðu Íslands í heiminum í tengslum við stjórnarmyndunina. Veit einhver eitthvað um afstöðu Kristrúnar Frostadóttur til stríðsins í Úkraínu? Íslendingar hljóta að leggja sitt af mörkum til alhliða stuðnings við úkraínsku þjóðina á úrslitastundu í vörn hennar gegn innrásarliði Rússa. Sjáist þess ekki merki í stjórnarsáttmála verður því fagnað í Moskvu.
Ákveði ný ríkisstjórn að kasta þjóðinni nú út í deilur um hvort sækja eigi um aðild að ESB yrði það til marks um rangt mat á forgangi í utanríkismálum og við gæslu hagsmuna þjóðarinnar út á við.
Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-aðildarumsókn er tilefnislaus aðför að EES-aðildinni og grefur undan því mikilvæga samstarfi. Þá sýnir það hræðslu við raunveruleikann að ESB-aðildarsinnar skuli láta hjá líða að kynna þjóðinni strax hvernig þeir vilja breyta stjórnarskránni í þágu baráttumáls síns – áður en þeir óska eftir umboði til að gangast undir evrópsku sjávarútvegsstefnuna og afsala þjóðinni forræði á Íslandsmiðum. Á þeim punkti strönduðu aðildarviðræður Jóhönnustjórnarinnar.
Ytri varnir landsins verður að efla. Landamæravörslu ber að styrkja enn frekar og standa fast gegn öllum tillögum eða tilraunum til að skapa Íslandi sérstöðu í útlendingamálum með rýmri reglum hér en annars staðar.
Við gerð forsetaúrskurðar um skiptingu mála milli ráðuneyta ber að sjá til þess að lögregla, landhelgisgæsla, almannavarnir, netöryggi og varnarmál séu í sama ráðuneyti. Greiningu, viðbúnað og aðgerðir á þessum sviðum verður að samhæfa og tengja sameiginlegum aðgerðum norrænu ríkjanna og NATO. Það sem nú gerist í fjölþátta stríði á Eystrasalti mun gerast á Norður-Atlantshafi. Við slíkri hættu verður ný ríkisstjórn að bregðast.
Hvarvetna í nágrannalöndunum grípa stjórnvöld til aðgerða til að efla öryggi borgara sinna. Þar er ekki um að ræða hernaðarleg skref heldur myndu þau öll vera á verksviði borgaralegra íslenskra stofnana.