Stemningin er ríkisstjórnarinnar
Morgunblaðið, laugardagur 17. maí 2025
Algengustu viðbrögð stjórnarsinna við gagnrýni stjórnarandstæðinga eru núna þau að þeir uni hlutskipti sínu svo illa að þeir geti ekki á heilum sér tekið. Þingmaður Flokks fólksins sagði til dæmis í vikunni: „Ef stjórnarandstöðunni mislíkar eitthvað við okkur í meiri hlutanum þá er komið hér og grátið í pontu fyrir framan alþjóð.“
Vissulega eru viðbrigði að bera ekki lengur ábyrgð á störfum ráðherra. Það er þó mikill misskilningur að það gagnist að svara gagnrýni nýrrar stjórnarandstöðu með því tilfinningatali sem núverandi stjórnarsinnar tileinka sér.
Stjórnarráðshúsið við Lækjartorg (mynd: Stjórnarráðið).
Nýrri stjórn fylgja ný vinnubrögð, nýtt andrúmsloft. Það var til dæmis mjög greinilegt eftir kosningarnar 20. apríl 1991 þegar Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur mynduðu 30. apríl ríkisstjórn undir forsæti Davíðs Oddssonar.
Þingið sem kom saman að loknum kosningunum sat í þremur málstofum: sameinuðu þingi, efri deild og neðri deild. Síðustu deildarfundir voru hins vegar haldnir 31. maí 1991 og síðan hefur alþingi starfað í einni málstofu. Þetta kallaði á nýja skipan á æðstu stjórn þingsins, forsætisnefnd.
Salóme Þorkelsdóttir var kjörin fyrsti forseti alþingis í október 1991 þegar sest var í eina málstofu. Varð það tilefni harðra mótmæla stjórnarandstæðinga og langra næturfunda að aðeins fulltrúar stjórnarflokkanna áttu sæti í fyrstu forsætisnefndinni sem kjörin var í október 1991.
Leiddu deilurnar til þess að stjórnarflokkarnir komu sumarið 1992 til móts við óskir stjórnarandstöðunnar og tryggt var með breytingum á þingsköpum að allir flokkar gætu átt aðild að forsætisnefnd þingsins. Skyldu þingflokkar njóta hlutfallslegs þingstyrks síns. Andrúmsloftið görbreyttist.
Eftir stjórnarskipti 1. febrúar 2009, þegar Samfylking og Vinstri græn mynduðu minnihlutastjórn með stuðningi Framsóknarflokksins undir forsæti Jóhönnu Sigurðardóttur, urðu hörð átök á alþingi milli stjórnar og stjórnarandstöðu.
Það var ætlun stjórnarsinna að sýna Sjálfstæðisflokknum í tvo heimana. Hreinsanir voru gerðar í æðstu stjórn Seðlabanka Íslands og kallað á Norðmann til að stjórna honum. Þá var gengið til þess að taka valdið til að breyta stjórnarskránni úr höndum alþingis og fela það sérstöku stjórnlagaþingi.
Þingflokkur sjálfstæðismanna snerist harkalega gegn þessum stjórnarskrártillögum. Fulltrúar þingflokksins í sérnefnd um stjórnarskrármálið lögðu að lokum fram tillögur til sátta sem snerust annars vegar um að setja auðlindaákvæði inn í stjórnarskrána, án þess að nota þar orðið „þjóðareign“, mikið ágreiningsorð meðal lögfræðinga. Hins vegar vildu sjálfstæðismenn nýtt ákvæði um leið til að breyta stjórnarskránni. Var það sniðið að danskri fyrirmynd og í raun orðréttur samkomulagstexti frá nefnd allra flokka um stjórnarskrármálið frá febrúar 2007. Loks var lagt til að alþingi kysi 25 manna ráðgjafanefnd til að semja tillögur um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.
Þegar stjórnarflokkarnir höfnuðu tillögum um sættir mögnuðust flokkadrættir, var málþófi fram haldið gegn stjórnarskrártillögum stjórnarflokkanna og urðu þær að engu.
Stjórnarflokkarnir fengu meirihluta í þingkosningum vorið 2009 og sátu við völd til 2013. Á þeim tíma klúðruðu þeir bæði stjórnarskrármálinu og öðru stórmáli sínu, umsókninni um aðild að ESB, auk þess að geta ekki brotið upp fiskveiðistjórnunarkerfið.
Það er ekki stjórnarandstaðan sem skapar illt andrúmsloft á alþingi heldur stjórnarflokkar sem eru svo uppteknir af nýfengnum völdum að þeir sjást ekki fyrir.
Í fyrra dæminu sáu stjórnarflokkarnir að sér eftir einn þingvetur og breyttu þingsköpum alþingis til að skapa betra jafnvægi milli stjórnar og stjórnarandstöðu og stuðla þannig að skilvirkari og málefnalegri þingstörfum.
Í seinna tilvikinu var öllum málefnalegum sjónarmiðum stjórnarandstöðunnar hafnað og stjórnin göslaðist áfram með ömurlegum afleiðingum.
Að þessu leyti minna fyrstu mánuðir ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur á það sem var í tíð Jóhönnu Sigurðardóttur.
Stöðuhroki Guðmundar Ara Sigurjónssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, strax við upphaf þings með kröfunni um stærsta þingflokksherbergið gaf tóninn. „Tilfinningabönd“ við herbergi skyldu rofin, ekki var minnst á umsamdar reglur. Það hafði þó ekki fyrr verið kjörinn nýr þingforseti úr Samfylkingunni en reglum um nýtingu þingflokksherbergja var breytt í þágu flokksins.
Yfirlýsingar Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um að sem ráðherra þyrfti hún ekki að virða lög við ákvarðanir um skipan í opinberar stjórnir sýndu valdhroka. Hann opinberaðist best í vikunni með óhróðri í garð þingmanns sem leyfði sér að spyrja Ingu um málið í þingsalnum.
Storkandi framkoma ráðherra Viðreisnar, Hönnu Katrínar Friðriksson og Daða Más Kristóferssonar, vegna frumvarpsins um tvöföldun auðlindagjalds á sjávarútveginn kallar á hörð viðbrögð innan og utan Alþingis.
Hanna Katrín Friðriksson hefur markvisst lokað á samskipti við fulltrúa Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi: „Ef okkur hefði tekist að ná upp samtali, er ég viss um að við hefðum getað komið okkur niður á einhverja niðurstöðu,“ sagði framkvæmdastjóri samtakanna. Aðferð Viðreisnarforystunnar við að knýja þetta óvandaða frumvarp í gegn sýnir að hún kýs frekar stríð en sátt.
Í þessu spennta andrúmslofti kýs ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur að starfa og kalla sjálfa sig verkstjórn. Þetta er val forystu ríkisstjórnarinnar en ekki stjórnarandstöðunnar.