17.5.2025

Stemningin er ríkisstjórnarinnar

Morgunblaðið, laugardagur 17. maí 2025

Al­geng­ustu viðbrögð stjórn­arsinna við gagn­rýni stjórn­ar­and­stæðinga eru núna þau að þeir uni hlut­skipti sínu svo illa að þeir geti ekki á heil­um sér tekið. Þingmaður Flokks fólks­ins sagði til dæm­is í vik­unni: „Ef stjórn­ar­and­stöðunni mis­lík­ar eitt­hvað við okk­ur í meiri hlut­an­um þá er komið hér og grátið í pontu fyr­ir fram­an alþjóð.“

Vissu­lega eru viðbrigði að bera ekki leng­ur ábyrgð á störf­um ráðherra. Það er þó mik­ill mis­skiln­ing­ur að það gagn­ist að svara gagn­rýni nýrr­ar stjórn­ar­and­stöðu með því til­finn­inga­tali sem nú­ver­andi stjórn­arsinn­ar til­einka sér.

Rekstur_rikisinsStjórnarráðshúsið við Lækjartorg (mynd: Stjórnarráðið).

Nýrri stjórn fylgja ný vinnu­brögð, nýtt and­rúms­loft. Það var til dæm­is mjög greini­legt eft­ir kosn­ing­arn­ar 20. apríl 1991 þegar Sjálf­stæðis­flokk­ur og Alþýðuflokk­ur mynduðu 30. apríl rík­is­stjórn und­ir for­sæti Davíðs Odds­son­ar.

Þingið sem kom sam­an að lokn­um kosn­ing­un­um sat í þrem­ur mál­stof­um: sam­einuðu þingi, efri deild og neðri deild. Síðustu deild­ar­fund­ir voru hins veg­ar haldn­ir 31. maí 1991 og síðan hef­ur alþingi starfað í einni mál­stofu. Þetta kallaði á nýja skip­an á æðstu stjórn þings­ins, for­sæt­is­nefnd.

Salóme Þor­kels­dótt­ir var kjör­in fyrsti for­seti alþing­is í októ­ber 1991 þegar sest var í eina mál­stofu. Varð það til­efni harðra mót­mæla stjórn­ar­and­stæðinga og langra næt­ur­funda að aðeins full­trú­ar stjórn­ar­flokk­anna áttu sæti í fyrstu for­sæt­is­nefnd­inni sem kjör­in var í októ­ber 1991.

Leiddu deil­urn­ar til þess að stjórn­ar­flokk­arn­ir komu sum­arið 1992 til móts við ósk­ir stjórn­ar­and­stöðunn­ar og tryggt var með breyt­ing­um á þingsköp­um að all­ir flokk­ar gætu átt aðild að for­sæt­is­nefnd þings­ins. Skyldu þing­flokk­ar njóta hlut­falls­legs þingstyrks síns. And­rúms­loftið gör­breytt­ist.

Eft­ir stjórn­ar­skipti 1. fe­brú­ar 2009, þegar Sam­fylk­ing og Vinstri græn mynduðu minni­hluta­stjórn með stuðningi Fram­sókn­ar­flokks­ins und­ir for­sæti Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur, urðu hörð átök á alþingi milli stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu.

Það var ætl­un stjórn­arsinna að sýna Sjálf­stæðis­flokkn­um í tvo heim­ana. Hreins­an­ir voru gerðar í æðstu stjórn Seðlabanka Íslands og kallað á Norðmann til að stjórna hon­um. Þá var gengið til þess að taka valdið til að breyta stjórn­ar­skránni úr hönd­um alþing­is og fela það sér­stöku stjórn­lagaþingi.

Þing­flokk­ur sjálf­stæðismanna sner­ist harka­lega gegn þess­um stjórn­ar­skrár­til­lög­um. Full­trú­ar þing­flokks­ins í sér­nefnd um stjórn­ar­skrár­málið lögðu að lok­um fram til­lög­ur til sátta sem sner­ust ann­ars veg­ar um að setja auðlinda­ákvæði inn í stjórn­ar­skrána, án þess að nota þar orðið „þjóðar­eign“, mikið ágrein­ings­orð meðal lög­fræðinga. Hins veg­ar vildu sjálf­stæðis­menn nýtt ákvæði um leið til að breyta stjórn­ar­skránni. Var það sniðið að danskri fyr­ir­mynd og í raun orðrétt­ur sam­komu­lag­stexti frá nefnd allra flokka um stjórn­ar­skrár­málið frá fe­brú­ar 2007. Loks var lagt til að alþingi kysi 25 manna ráðgjafa­nefnd til að semja til­lög­ur um heild­ar­end­ur­skoðun stjórn­ar­skrár­inn­ar.

Þegar stjórn­ar­flokk­arn­ir höfnuðu til­lög­um um sætt­ir mögnuðust flokka­drætt­ir, var málþófi fram haldið gegn stjórn­ar­skrár­til­lög­um stjórn­ar­flokk­anna og urðu þær að engu.

Stjórn­ar­flokk­arn­ir fengu meiri­hluta í þing­kosn­ing­um vorið 2009 og sátu við völd til 2013. Á þeim tíma klúðruðu þeir bæði stjórn­ar­skrár­mál­inu og öðru stór­máli sínu, um­sókn­inni um aðild að ESB, auk þess að geta ekki brotið upp fisk­veiðistjórn­un­ar­kerfið.

Það er ekki stjórn­ar­andstaðan sem skap­ar illt and­rúms­loft á alþingi held­ur stjórn­ar­flokk­ar sem eru svo upp­tekn­ir af ný­fengn­um völd­um að þeir sjást ekki fyr­ir.

Í fyrra dæm­inu sáu stjórn­ar­flokk­arn­ir að sér eft­ir einn þing­vet­ur og breyttu þingsköp­um alþing­is til að skapa betra jafn­vægi milli stjórn­ar og stjórn­ar­and­stöðu og stuðla þannig að skil­virk­ari og mál­efna­legri þing­störf­um.

Í seinna til­vik­inu var öll­um mál­efna­leg­um sjón­ar­miðum stjórn­ar­and­stöðunn­ar hafnað og stjórn­in göslaðist áfram með öm­ur­leg­um af­leiðing­um.

Að þessu leyti minna fyrstu mánuðir rík­is­stjórn­ar Kristrún­ar Frosta­dótt­ur á það sem var í tíð Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur.

Stöðuhroki Guðmund­ar Ara Sig­ur­jóns­son­ar, þing­flokks­for­manns Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, strax við upp­haf þings með kröf­unni um stærsta þing­flokks­her­bergið gaf tón­inn. „Til­finn­inga­bönd“ við her­bergi skyldu rof­in, ekki var minnst á um­samd­ar regl­ur. Það hafði þó ekki fyrr verið kjör­inn nýr þing­for­seti úr Sam­fylk­ing­unni en regl­um um nýt­ingu þing­flokks­her­bergja var breytt í þágu flokks­ins.

Yf­ir­lýs­ing­ar Ingu Sæ­land, for­manns Flokks fólks­ins, um að sem ráðherra þyrfti hún ekki að virða lög við ákv­arðanir um skip­an í op­in­ber­ar stjórn­ir sýndu vald­hroka. Hann op­in­beraðist best í vik­unni með óhróðri í garð þing­manns sem leyfði sér að spyrja Ingu um málið í þingsaln­um.

Stork­andi fram­koma ráðherra Viðreisn­ar, Hönnu Katrín­ar Friðriks­son og Daða Más Kristó­fers­son­ar, vegna frum­varps­ins um tvö­föld­un auðlinda­gjalds á sjáv­ar­út­veg­inn kall­ar á hörð viðbrögð inn­an og utan Alþing­is.

Hanna Katrín Friðriks­son hef­ur mark­visst lokað á sam­skipti við full­trúa Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi: „Ef okk­ur hefði tek­ist að ná upp sam­tali, er ég viss um að við hefðum getað komið okk­ur niður á ein­hverja niður­stöðu,“ sagði fram­kvæmda­stjóri sam­tak­anna. Aðferð Viðreisn­ar­for­yst­unn­ar við að knýja þetta óvandaða frum­varp í gegn sýn­ir að hún kýs frek­ar stríð en sátt.

Í þessu spennta and­rúms­lofti kýs rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur að starfa og kalla sjálfa sig verk­stjórn. Þetta er val for­ystu rík­is­stjórn­ar­inn­ar en ekki stjórn­ar­and­stöðunn­ar.