Stefnuræða og alþjóðastraumar
Morgunblaðið, laugardagur 17. september 2022
Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur á alþingi að kvöldi miðvikudags 14. september kvartaði stjórnarandstaðan undan því að ríkisstjórnin væri ekki nægilega athafnasöm. Hún forðaðist ákvarðanir. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði í lok ræðu sinnar: „...fyrst og síðast þurfum við ríkisstjórn sem eyðir ekki dýrmætum tíma í innbyrðis átök og innanmein, ríkisstjórn sem rýfur kyrrstöðuna, ríkisstjórn sem eykur samstarf og samstöðu með öðrum þjóðum, ríkisstjórn sem býður ekki upp á sömu þreyttu lausnirnar við þekktum og endurteknum vanda dag eftir dag, ár eftir ár og vonast eftir annarri niðurstöðu“.
Þegar hlustað er á orð sem þessi fara þau hjá flestum inn um annað eyrað og út um hitt sem almennt tuð stjórnarandstöðu. Á prenti gefa þau tilefni til athugunar.
Stjórnarflokkarnir hafa starfað saman í fimm ár. Þeim tókst að ná samkomulagi um stjórnarsáttmála að nýju eftir kosningarnar í fyrra. Þótti Þorgerði Katrínu það taka of langan dýrmætan tíma vegna innbyrðis átaka og innanmeina? Varla. Stjórnarmyndunarviðræðurnar stóðu jafnlengi og kjörbréf þingmanna voru rannsökuð. Á fáeinum vikum í desember voru fjárlög ársins 2022 síðan afgreidd.
Starfað er eftir stjórnarsáttmálanum. Samhliða framkvæmd hans viðra stjórnarflokkarnir áherslur sínar. Það kemur til dæmis engum á óvart að Sjálfstæðisflokkinn og VG greini á um hlut ríkisins í atvinnulífinu eða skatta á fjármagnstekjur. Í samstarfi flokkanna í ríkisstjórn er lokaorðið að finna í stjórnarsáttmálanum.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í upphafi ræðu sinnar:
„Ísland var uppselt í sumar. Atvinnuleysi er nú minna en fyrir heimsfaraldur, lægra en að meðaltali frá árinu 2000. Fiskverð er hátt. Orkufyrirtækin á Íslandi skila verulega góðri afkomu, þeirri bestu í sögunni. Hagvöxtur er um 10% í ár og í fyrra. 13.000 störf hafa orðið til á einu ári á Íslandi og afkoma ríkissjóðs batnar um 100 milljarða milli ára. Fram undan er mikil uppbygging innviða, átak í uppbyggingu og fjölgun íbúða. Verðbólgan er tekin að lækka.“
Er þetta til marks um kyrrstöðu? Sé það svo að ríkisstjórnin bjóði upp á „sömu þreyttu lausnirnar“ og þær skili þessum árangri hljótum við að vona að hún haldi því áfram.
Að ríkisstjórnin hafi ekki aukið samstarf og samstöðu með öðrum þjóðum stenst ekki. Ríkisstjórnin axlaði alþjóðlegar skuldbindingar í sumar með samþykkt forsætisráðherra á nýrri grunnstefnu NATO og sameiginlegri yfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna um öryggis- og varnarmál. Næsta skref er að kynna hvernig staðið verður að verkefnum sem yfirlýsingunum fylgja. Loftslagsstefna Íslands tekur mið af alþjóðlegum skuldbindingum. Vegna innrásar Rússa í Úkraínu hefur landið verið opnað fyrir flóttafólki þaðan. Íslensk stjórnvöld eiga aðild að stuðningsaðgerðum við Úkraínu vegna stríðsins.
Viðreisnarformaðurinn getur ekki vænst þess að ríkisstjórnin taki upp stefnu hennar í ESB-aðildarmálum. Hún hefur að vísu þrengst á þann hátt að formaðurinn talar ekki lengur um kosti aðildar eða upptöku evrunnar heldur þess í stað um ágæti þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild. Til hennar verður ekki efnt nema þingmeirihluti mæli með ESB-aðild, hann er ekki fyrir hendi. Ný þingsályktunartillaga Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir árslok 2023 um framhald aðildarviðræðna við ESB er því sýndartillaga.
Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, flutti
nú í fyrsta sinn á þingferli sínum ræðu í útvarpsumræðum. Hún var
eini ræðumaðurinn sem vék að því að huga þyrfti að
varnarsamstarfinu „í nýrri og hættulegri heimsmynd“. Þetta er
tímabær og réttmæt ábending sem kemur til frekari umræðu á þingi
þegar áhættumat þjóðaröryggisráðs verður kynnt.
Sprengjuárásir á almenna borgara eru algengari í Svíþjóð en nokkru öðru vestrænu landi,
Umræðudaginn bárust fréttir frá Svíþjóð um að Magdalena Andersson, forsætisráðherra jafnaðarmanna, viðurkenndi ósigur stjórnar sinnar í kosningunum þótt flokkur hennar hefði aukið fylgi sitt og væri stærsti flokkur Svíþjóðar og Norður-Evrópu eins og hún orðaði það. Úrslit sænsku kosninganna urðu jafnaðarkonunni Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, tilefni til að segja í ræðustól þingsins að í Svíþjóð væri „jaðarhreyfing nýnasista orðin næststærsti stjórnmálaflokkurinn“ og kalla mætti nýja strauma í evrópskum stjórnmálum „fasisma á fínum fötum“. Hreyfingarnar ættu það sameiginlegt „að ráða ekki við stærstu verkefni samtímans“.
Þarna er harkalega að orði kveðið eins og um eitthvert náttúrulögmál sé að ræða. Svo er þó ekki. Þróun í þessa átt má í Svíþjóð til dæmis rekja til andvaraleysis eða viljandi afstöðu um að sópa vanda í útlendingamálum undir teppið og taka ekki af nægri festu á glæpagengjum. Að stórum hluta almennings er nóg boðið veldur því að 20% sænskra kjósenda greiða Svíþjóðardemókrötunum atkvæði í kosningum sem snerust mjög um glæpi og morð.
Í stefnuræðunni vék Katrín Jakobsdóttir að réttindum innflytjenda og vinnu við stefnu í málefnum útlendinga. Hún væri löngu tímabær í landi þar sem hátt í 16% landsmanna væru innflytjendur. Samfélagsleg þátttaka fólks sem hingað flytti til að sinna ýmsum störfum skipti „nefnilega okkur öll máli“.
Það er brýnt að á komandi vetri læri þingmenn af reynslu nágrannaþjóða í útlendingamálum, setji hér lög og móti stefnu á grunni þess lærdóms. Annað býður hættunni heim.