Stefnt að nánara norrænu samstarfi
Morgunblaðið, föstudagur 10. júlí 2020.
Fyrir réttri viku (3. júlí) skilaði ég skýrslu sem utanríkisráðherrar Norðurlandaríkjanna fólu mér að semja um þrjá málaflokka: (1) loftslagsmál, (2) fjölþáttaógnir og netöryggi og (3) fjölþjóðasamstarf innan ramma alþjóðalaga. Skipunarbréfið er dagsett 2. desember 2019 og skilabréfið 1. júlí 2020. Skýrslan var samin þegar COVID-19-faraldurinn fór um heiminn, kemur hann því við sögu auk þess sem í viðauka er rætt um hernaðarlegar breytingar frá árinu 2009.
Miðað er við árið 2009 þegar í fyrsta sinn var gefin út skýrsla af svipuðum toga. Hún er eftir Thorvald Stoltenberg, fyrrverandi ráðherra í Noregi – Stoltenberg-skýrslan. Stoltenberg fjallaði meira um hernaðarleg málefni en ég geri. Hann skilaði skýrslu sinni í febrúar en um haustið 2009 kom NORDEFCO til sögunnar, það er formlegur norrænn samstarfsvettvangur um varnarmál sem síðan hefur þróast og fest í sessi.
Í janúar 2020 sat ég ráðstefnu á vegum Norðurlandaráðsdeildar danska þingsins til að minnast að 100 ár eru frá Genforeningen þegar Danir endurheimtu Suður-Jótland frá Þjóðverjum.
Á ráðstefnunni var meðal annars rætt um „skandinavismann“ á 19. öld, það er upphaf norrænnar samvinnu og þróun hennar þar til hún festi núverandi rætur, ef svo má að orði komast, eftir síðari heimsstyrjöldina. Danskur prófessor, Thorsten Borring Olesen við Árósaháskóla, minnti á að á fimmta áratugnum hefði mistekist að koma á norrænu varnarbandalagi. Á sjöunda áratugnum hefði hvorki tekist að form- né samningsbinda norrænt efnahagssamstarf í NORDEK. Þáttaskil hefðu ekki orðið fyrr en Thorvald Stoltenberg skilaði skýrslu sinni. Í fyrsta sinn hefðu norræn stjórnvöld sameinast um sameiginleg markmið í utanríkis- og öryggismálum.
Við skýrslugerðina nú hefur skýrst fyrir mér hve einstakt er að fimm ríki komi sér saman um að veita einum manni umboð til að vinna að slíkum texta og opna stjórnkerfi sín til upplýsingamiðlunar í því skyni. Segir þetta meira en allar tillögur um hve náið samstarf Norðurlandaríkjanna í utanríkis- og öryggismálum er orðið.
Fyrsta rannsóknarferð mín og samstarfskonu minnar, Jónu Sólveigar Elínardóttur, deildarstjóra á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, hófst í Ósló 13. janúar 2020. Lokaferðin var til Helsinki og flugum við þaðan fimmtudaginn 5. mars. Fyrir eða eftir fundi í þinghúsinu þá um morguninn tókust menn ekki lengur í hendur og lítið líf var á Helsinki-flugvelli enda Finnair hætt að fljúga til Kína af ótta við COVID-19-faraldurinn.
Okkur tókst sem sagt að heimsækja Ósló, Stokkhólm, Kaupmannahöfn og Helsinki fyrir COVID. Einnig fórum við í stutta ferð til Washington DC. Við áttum fundi með íslenskum ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum hér í Reykjavík. Fundirnir urðu tæplega 90 áður en yfir lauk.
Ríkisstjórnir landanna fimm skipuðu tvo trúnaðarmenn hver okkur til samráðs. Höfðum við boðað fund með þeim hér á landi en hurfum frá því og héldum þess í stað fjóra fjarfundi. Trúnaðarmennirnir bera enga ábyrgð á efni skýrslunnar, hún er alfarið mín.
Fjórtán tillögur
Fyrir utan að óska eftir að skýrslunni yrði skilað nú um mitt ár áttu tillögur að vera hnitmiðaðar, þar yrði ekki gert ráð fyrir neinum nýjum stofnunum og við það miðað að auka gildi þess norræna samstarfs sem nú er við lýði.
Danski stjórnarandstöðuþingmaðurinn Bertel Haarder í Venstre-flokknum hefur manna lengst setið á ráðherrastóli í Danmörku og kom meðal annars að endanlegu uppgjöri handritamálsins á níunda áratugnum. Hann gagnrýndi jafnaðarmanninn Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, fyrir að ekki yrði fjallað um hefðbundin varnarmál í skýrslu minni. Haarder telur að þess vegna þurfi Stoltenberg II-skýrslu. Lýsti ég þeirri skoðun við Haarder að í ljósi breyttra aðstæðna kynni að vera eðlilegt að norrænu varnarmálaráðherrarnir óskuðu eftir slíkri skýrslu. Þeir bæru pólitíska ábyrgð á NORDEFCO.
Í texta mínum er að finna fjórtán tillögur og eru fyrirsagnir þeirra þessar í íslenskri þýðingu:
1. Aukin sameiginleg stefnumörkun á sviði loftslagsmála.
2. Loftslagsöryggi og þróunarmál.
3. Opinberir og einkaaðilar vinni saman á sviði orkuskipta.
4. Sameiginleg afstaða til Kína á norðurslóðum.
5. Hafrannsóknir til að minnka áhrif loftslagsbreytinga.
6. Sameiginleg afstaða gegn fjölþáttaógnum.
7. Viðbúnaður vegna heimsfaraldra.
8. Sameiginlegar reglur tryggi lýðræði í netheimum.
9. Samstarf á sviði nýrrar tækni og varnir gegn netárásum.
10. Umbætur og nútímavæðing alþjóðastofnana.
11. Norrænt samstarf um utanríkisþjónustu.
12. Hlutverk sendiráða og fastanefnda eflt.
13. Rannsóknir á sviði utanríkis- og öryggismála efldar.
14. Stafræn kynning á norræna vörumerkinu og norrænum gildum.
Hér verður ekki gert upp á milli þessara tillagna. Engin þeirra er sett fram nema rökstuðningur fylgi og öllum er þeim ætlað að auka gildi norræns samstarfs og svara kalli þeirra sem telja að sameiginlega eigi Norðurlandaríkin að leggja skerf af mörkum til betri heims.
Strax á fyrsta fundi okkar í Ósló hafði alþjóðasérfræðingur á orði að nú væri meiri áhugi á The Nordic Brand – norræna vörumerkinu – en oft áður og tækist Norðurlandaríkjunum að svara eftirspurninni með góðri „vöru“ kynnu þau að auka hróður sinn og stuðla að því að sameiginleg gildi þeirra nytu stuðnings og meira fylgis, sem yrði frjálslyndri lýðræðisstefnu til framdráttar í alþjóðlegu samstarfi og myndi bæta heiminn.
Framhaldið
Í ljós kemur hverjar af tillögunum 14 lifa. Stefnt er að því að í september ræði norrænu utanríkisráðherrarnir skýrsluna á fundi sínum. Eins og fyrir var lagt er ekki stofnað til neins nýs heldur lögð áhersla á að nýta sem best og í skilgreindum tilgangi það sem fyrir hendi er.
Í tillögunum er bent á mikilvægi samvinnu opinberra aðila og einkaaðila. Nýta eigi rannsóknir og sérfræðilega opinbera þekkingaröflun, til dæmis til framleiðslu á endurnýjanlegri orku í samstarfi við einkaaðila. Á Norðurlöndunum er mikil þekking og reynsla fyrir hendi við nýtingu á jarðvarma, vatnsorku og vindorku fyrir utan kjarnorkuna og viðleitni í þágu grænnar stóriðju. Þegar utanríkis- og þróunarstefna verður sífellt grænni með vaxandi alþjóðlegum styrkjum ber að auðvelda norrænum fyrirtækjum að nýta sér ný tækifæri.
Opinberir aðilar setja reglur um upplýsingatækni en netkerfin og búnaðurinn eru í höndum einkaaðila. Regluverkið til varnar kerfunum er opinbert en kerfin virka ekki nema í samvinnu við einkaaðila. Opið samstarf til að vernda einstaklinga gegn misnotkun er óhjákvæmilegt.
Í þágu norrænna gilda á alþjóðavettvangi ber að nýta nýja miðla og samskiptaleiðir. Norðurlönd þarf að kynna eins og hverja aðra vöru. Kynningarstarfið styrkist sé skipulega staðið að fræðilegum rannsóknum sjálfstæðra stofnana á stöðu og styrk Norðurlandaríkjanna í alþjóðlegu samstarfi.