5.2.2022

Starfshættir Isavia sæta ámæli

Morgunblaðið, laugardagur 5. febrúar 2022

Nú þegar rof­ar til að nýju við und­an­hald far­ald­urs­ins er þess vænst að aft­ur auk­ist um­svif í ferðaþjón­ustu og er spáð komu mörg hundruð þúsunda ferðamanna á þessu ári. Tæp­lega 100% þessa fjölda fer um Kefla­vík­ur­flug­völl. Þar ber að búa vel um hnúta við landa­mæra­eft­ir­lit og hefta ólög­mæta komu fólks til lands­ins. Öflug­asta úrræðið gegn skipu­lagðri glæp­a­starf­semi, hverju nafni sem nefn­ist, felst í ná­kvæmu landa­mæra­eft­ir­liti á veg­um lög­reglu og toll­v­arða.

Fylgja þarf skýrri stefnu stjórn­valda í þessu efni og skipu­leggja landa­mæra­vörslu með full­komn­ustu tækni og aðgangi að alþjóðleg­um gagna­grunn­um. Lög­gæsla þarna þjón­ar land­inu öllu og verður að taka mið af því.

Rík­is­valdið hef­ur tögl og hagld­ir við þetta höfuðhlið lands­ins. Hliðvarsl­an breytt­ist vegna far­ald­urs­ins. Nýta á það sem þá gafst best áfram til að tryggja ör­yggi lands og þjóðar.

Flug­vall­ar­svæðið er lokað og þess vand­lega gætt að þar séu aðeins starfs­menn með ör­ygg­is­vott­un. Rík­ar alþjóðleg­ar ör­ygg­is­skyld­ur hvíla á þeim sem reka alþjóðaflug­velli. Sé þeirra ekki gætt halda flug­fé­lög sig fjarri völl­un­um. Reglu­lega er gerð alþjóðleg út­tekt á ör­ygg­isþátt­un­um.

_dsc6138-1Séð yfir flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli (mynd: isavia.is).

Op­in­bera hluta­fé­lagið Isa­via rek­ur Kefla­vík­ur­flug­völl. Sam­keppnis­eft­ir­litið fylg­ist með fjár­hags­legri starf­semi Isa­via ohf. Í áliti eft­ir­lits­ins frá 6. janú­ar 2022 seg­ir að Isa­via sé „markaðsráðandi og og njóti jafn­framt ein­ok­un­ar­stöðu“ í rekstri milli­landa­flug­valla. Isa­via veiti aðstöðu fyr­ir þjón­ustu fyr­ir­tækja bæði inn­an og utan við Flug­stöð Leifs Ei­ríks­son­ar (FLE). Inni í flug­stöðinni snúi þetta t.d. að versl­un­ar- og veit­ing­a­rekstri og utan við flug­stöðina sé veitt aðstaða fyr­ir bíla­leigu­bíla, hóp­ferðafyr­ir­tæki og fyr­ir­tæki sem sinna bíla­geymsluþjón­ustu. Á flug­vell­in­um snúi leyf­is­veit­ing­ar Isa­via t.d. að flugaf­greiðslu og tækniþjón­ustu. Þá stundi Isa­via einnig sam­keppni við önn­ur fyr­ir­tæki, til dæm­is með rekstri bíla­stæða.

Isa­via á og rek­ur Frí­höfn­ina sem skil­ar mikl­um arði ár hvert.

Í álit­inu bein­ir sam­keppnis­eft­ir­litið átta til­mæl­um til þriggja ráðherra sem fara með mál­efni sem snerta Isa­via: fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, innviðaráðherra og ferðamála-, viðskipta- og menn­ing­ar­málaráðherra. Verði til­mæl­in fram­kvæmd seg­ir eft­ir­litið að megi bæta um­gjörð starf­semi á Kefla­vík­ur­flug­velli, skapa sam­keppni, draga úr kostnaði, efla ferðaþjón­ustu og bæta hag al­menn­ings. Álitið gef­ur Isa­via ohf. ekki háa ein­kunn.

Sam­keppnis­eft­ir­litið tel­ur: (1) Isa­via túlki lög á þann hátt að þrengt sé gild­is­svið sam­keppn­islaga, Isa­via fari á skjön við það sem eft­ir­litið tel­ur fel­ast í lög­un­um. (2) Skýr­ar regl­ur um gjald­töku verði að taka mið af ein­ok­un­ar­stöðu Isa­via. (3) Sam­keppn­is­sjón­ar­mið skuli ráða við setn­ingu reglna um fram­kvæmd og efni útboða og sér­leyf­is­samn­inga. (4) Setja verði regl­ur um þátt­töku Isa­via í sam­keppn­is­starf­semi á eða við flug­völl­inn. (5) Standa verði vörð um sam­keppni í flugaf­greiðslu. (6) Úthluta af­greiðslu­tíma flug­véla í ljósi hags­muna al­menn­ings og ferðaþjón­ust­unn­ar af virkri flug­sam­keppni. (7) Auka verði hag­kvæmni í starf­semi Kefla­vík­ur­flug­vall­ar. (8) Eig­enda­stefna Isa­via skuli taka til­lit til fram­an­greindra til­lagna og gerð op­in­ber.

Gagn­rýn­in sem felst í of­an­greind­um til­lög­um sam­keppnis­eft­ir­lits­ins er rök­studd með dæm­um á 32 bls. álits­ins. Aðfinnsl­urn­ar eru reist­ar á kvört­un­um sem borist hafa til eft­ir­lits­ins. Sýna þær að víða er pott­ur brot­inn en erfitt að knýja fram um­bæt­ur.

Álit sam­keppnis­ef­ir­lits­ins sýn­ir í raun að starfs­hætt­ir þessa stóra op­in­bera fyr­ir­tæk­is eru óviðun­andi þótt það blasi ekki við þeim sem um völl­inn fara. Öryggi og þjón­ustu við farþega og flugrek­end­ur er sinnt þannig að al­mennt hleyp­ur ekki snurða á þráðinn nema vegna veðurs eða annarra ytri aðstæðna.

Í ný­legri skýrslu fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins seg­ir að ís­lenska ríkið eigi al­farið eða ráðandi eign­ar­hluti í 40 fyr­ir­tækj­um, rík­is­fé­lög­um, með mis­mun­andi starf­semi og mark­mið. Fyr­ir­tæk­in séu mörg stór og áhrifa­mik­il á ís­lensk­um markaði og gegni mik­il­vægu hlut­verki í sam­fé­lag­inu.

Isa­via er eitt þess­ara rík­is­fé­laga og nýt­ur sér­stöðu vegna ein­ok­un­ar­stöðu sinn­ar. Rík­is­orku­fyr­ir­tæki keppa við einka­fyr­ir­tæki. Rík­is­út­varpið ohf., fjár­magnað með nefskatti og aug­lýs­ing­um, kepp­ir við einka­fyr­ir­tæki á afþrey­ing­ar­markaði. Ísland­s­póst­ur hf. er í sam­keppn­is­rekstri á sviði flutn­ingaþjón­ustu og hraðsend­ingaþjón­ustu.

Þegar rætt er um þessi fyr­ir­tæki er oft stutt í ásak­an­ir um að gagn­rýn­end­ur vilji ekki gæta al­manna­hags. Látið er eins og eina leiðin til gæslu hans sé að sporna gegn frum­kvæði og fram­taki ein­stak­linga á viðkom­andi sviði. Frek­ar ætti að nálg­ast viðfangs­efnið með spurn­ingu um hvort kröf­ur sam­tím­ans knýi á um til­vist viðkom­andi rík­is­fé­lags, hvort ekki sé væn­legra að skapa sam­keppni, draga úr kostnaði, efla þjón­ustu og auka hag al­menn­ings með því að minnka hlut rík­is­ins í viðkom­andi rekstri, auka svig­rúm ein­stak­lings­ins á kostnað rík­is­fé­lag­anna.

Myndi ríkið koma á fót slíku fyr­ir­tæki/​stofn­un við nú­ver­andi aðstæður í þjóðfé­lag­inu? Næg­ir ekki að treysta á fram­tak ein­stak­linga og fé­laga þeirra? Sé svarið við fyrri spurn­ing­unni nei og seinni spurn­ing­unni já ætti að selja rík­is­fé­lagið eða gjör­breyta því. Tregðan til að fara í þá átt er skaðleg.