Starfshættir Isavia sæta ámæli
Morgunblaðið, laugardagur 5. febrúar 2022
Nú þegar rofar til að nýju við undanhald faraldursins er þess vænst að aftur aukist umsvif í ferðaþjónustu og er spáð komu mörg hundruð þúsunda ferðamanna á þessu ári. Tæplega 100% þessa fjölda fer um Keflavíkurflugvöll. Þar ber að búa vel um hnúta við landamæraeftirlit og hefta ólögmæta komu fólks til landsins. Öflugasta úrræðið gegn skipulagðri glæpastarfsemi, hverju nafni sem nefnist, felst í nákvæmu landamæraeftirliti á vegum lögreglu og tollvarða.
Fylgja þarf skýrri stefnu stjórnvalda í þessu efni og skipuleggja landamæravörslu með fullkomnustu tækni og aðgangi að alþjóðlegum gagnagrunnum. Löggæsla þarna þjónar landinu öllu og verður að taka mið af því.
Ríkisvaldið hefur tögl og hagldir við þetta höfuðhlið landsins. Hliðvarslan breyttist vegna faraldursins. Nýta á það sem þá gafst best áfram til að tryggja öryggi lands og þjóðar.
Flugvallarsvæðið er lokað og þess vandlega gætt að þar séu aðeins starfsmenn með öryggisvottun. Ríkar alþjóðlegar öryggisskyldur hvíla á þeim sem reka alþjóðaflugvelli. Sé þeirra ekki gætt halda flugfélög sig fjarri völlunum. Reglulega er gerð alþjóðleg úttekt á öryggisþáttunum.
Séð yfir flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli (mynd: isavia.is).
Opinbera hlutafélagið Isavia rekur Keflavíkurflugvöll. Samkeppniseftirlitið fylgist með fjárhagslegri starfsemi Isavia ohf. Í áliti eftirlitsins frá 6. janúar 2022 segir að Isavia sé „markaðsráðandi og og njóti jafnframt einokunarstöðu“ í rekstri millilandaflugvalla. Isavia veiti aðstöðu fyrir þjónustu fyrirtækja bæði innan og utan við Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE). Inni í flugstöðinni snúi þetta t.d. að verslunar- og veitingarekstri og utan við flugstöðina sé veitt aðstaða fyrir bílaleigubíla, hópferðafyrirtæki og fyrirtæki sem sinna bílageymsluþjónustu. Á flugvellinum snúi leyfisveitingar Isavia t.d. að flugafgreiðslu og tækniþjónustu. Þá stundi Isavia einnig samkeppni við önnur fyrirtæki, til dæmis með rekstri bílastæða.
Isavia á og rekur Fríhöfnina sem skilar miklum arði ár hvert.
Í álitinu beinir samkeppniseftirlitið átta tilmælum til þriggja ráðherra sem fara með málefni sem snerta Isavia: fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra. Verði tilmælin framkvæmd segir eftirlitið að megi bæta umgjörð starfsemi á Keflavíkurflugvelli, skapa samkeppni, draga úr kostnaði, efla ferðaþjónustu og bæta hag almennings. Álitið gefur Isavia ohf. ekki háa einkunn.
Samkeppniseftirlitið telur: (1) Isavia túlki lög á þann hátt að þrengt sé gildissvið samkeppnislaga, Isavia fari á skjön við það sem eftirlitið telur felast í lögunum. (2) Skýrar reglur um gjaldtöku verði að taka mið af einokunarstöðu Isavia. (3) Samkeppnissjónarmið skuli ráða við setningu reglna um framkvæmd og efni útboða og sérleyfissamninga. (4) Setja verði reglur um þátttöku Isavia í samkeppnisstarfsemi á eða við flugvöllinn. (5) Standa verði vörð um samkeppni í flugafgreiðslu. (6) Úthluta afgreiðslutíma flugvéla í ljósi hagsmuna almennings og ferðaþjónustunnar af virkri flugsamkeppni. (7) Auka verði hagkvæmni í starfsemi Keflavíkurflugvallar. (8) Eigendastefna Isavia skuli taka tillit til framangreindra tillagna og gerð opinber.
Gagnrýnin sem felst í ofangreindum tillögum samkeppniseftirlitsins er rökstudd með dæmum á 32 bls. álitsins. Aðfinnslurnar eru reistar á kvörtunum sem borist hafa til eftirlitsins. Sýna þær að víða er pottur brotinn en erfitt að knýja fram umbætur.
Álit samkeppnisefirlitsins sýnir í raun að starfshættir þessa stóra opinbera fyrirtækis eru óviðunandi þótt það blasi ekki við þeim sem um völlinn fara. Öryggi og þjónustu við farþega og flugrekendur er sinnt þannig að almennt hleypur ekki snurða á þráðinn nema vegna veðurs eða annarra ytri aðstæðna.
Í nýlegri skýrslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins segir að íslenska ríkið eigi alfarið eða ráðandi eignarhluti í 40 fyrirtækjum, ríkisfélögum, með mismunandi starfsemi og markmið. Fyrirtækin séu mörg stór og áhrifamikil á íslenskum markaði og gegni mikilvægu hlutverki í samfélaginu.
Isavia er eitt þessara ríkisfélaga og nýtur sérstöðu vegna einokunarstöðu sinnar. Ríkisorkufyrirtæki keppa við einkafyrirtæki. Ríkisútvarpið ohf., fjármagnað með nefskatti og auglýsingum, keppir við einkafyrirtæki á afþreyingarmarkaði. Íslandspóstur hf. er í samkeppnisrekstri á sviði flutningaþjónustu og hraðsendingaþjónustu.
Þegar rætt er um þessi fyrirtæki er oft stutt í ásakanir um að gagnrýnendur vilji ekki gæta almannahags. Látið er eins og eina leiðin til gæslu hans sé að sporna gegn frumkvæði og framtaki einstaklinga á viðkomandi sviði. Frekar ætti að nálgast viðfangsefnið með spurningu um hvort kröfur samtímans knýi á um tilvist viðkomandi ríkisfélags, hvort ekki sé vænlegra að skapa samkeppni, draga úr kostnaði, efla þjónustu og auka hag almennings með því að minnka hlut ríkisins í viðkomandi rekstri, auka svigrúm einstaklingsins á kostnað ríkisfélaganna.
Myndi ríkið koma á fót slíku fyrirtæki/stofnun við núverandi aðstæður í þjóðfélaginu? Nægir ekki að treysta á framtak einstaklinga og félaga þeirra? Sé svarið við fyrri spurningunni nei og seinni spurningunni já ætti að selja ríkisfélagið eða gjörbreyta því. Tregðan til að fara í þá átt er skaðleg.