6.5.2023

Sprengjuhelt pósthús við Garðastræti

Morgunblaðið, laugardagur 6. maí 2023.

Fjölþjóðleg­ur hóp­ur rann­sókn­ar­blaðamanna, VSquare, birti ný­lega niður­stöður út­tekt­ar í 15 Evr­ópu­lönd­um sem sýna að þar er alls að finna 182 loft­net á þökum 39 ólíkra bygg­inga rúss­neskra sendi­ráða.

Í frétt­inni frá hópn­um er vitnað í fyrr­ver­andi yf­ir­mann vest­rænn­ar leyniþjón­ustu sem sagði að þakið á rúss­neska sendi­ráðinu í Var­sjá væri „rúss­neskt SIGNIT-hreiður“. Hann notaði skamm­stöf­un­ina fyr­ir ensku orðin signals in­telli­gence eða tækn­ina sem beitt er til að hlera og skilja ra­f­ræn fjar­skipti.

Með tækj­un­um á þak­inu er talið að Rúss­ar geti hugs­an­lega hlerað fjar­skipti í allri Var­sjá. Rúss­ar geta farið inn á út­varps­bylgj­ur, náð í gögn á farsím­um og hlerað þá.

Búnað á borð við þann sem sjá mátti í Var­sjá er til dæm­is að finna í Hels­inki, Stokk­hólmi, Búdapest og Brus­sel þar sem tekn­ar voru mynd­ir af rúss­nesk­um sendi­ráðsþökum.

Finnska frétta­stof­an STT kannaði stöðuna í Hels­inki nán­ar. Starfs­menn STT tóku mynd­ir af að minnsta kosti 11 gervi­hnatt­ar­disk­um og loft­net­um á húsaþyrp­ingu rúss­neska sendi­ráðsins í Hels­inki.

DownloadrrrtgtAð baki þessarar sendiráðsbyggingar við Garðastæti er sprengjuhelda pósthúsið (mynd: mbl.is).

Fyr­ir 18 árum, 4. maí 2005, birti Frey­steinn heit­inn Jó­hanns­son frétta­stjóri grein hér í blaðinu og vitnaði til sam­starfs­manns síns, Ásgeirs Sverris­son­ar, sem hitti Oleg Gordíevskíj, fyrr­ver­andi of­ursta í KGB, og birti við hann viðtal sem birt­ist í blaðinu 20. nóv­em­ber 1990. Gordíevskíj starfaði fyr­ir KGB í 23 ár frá 1962 og lék þar af tveim­ur skjöld­um í þágu bresku leyniþjón­ust­unn­ar í 11 ár áður en hann yf­ir­gaf KGB-skút­una og leitaði hæl­is í Bretlandi.

Gordíevskíj starfaði í Norður­landa­deild KGB og sagði Ásgeiri að KGB hefði aldrei verið jafn öfl­ugt á Íslandi og GRU, njósna­deild rúss­neska hers­ins. GRU-menn hefðu ein­beitt sér að hler­un­um á fjar­skipt­um og sam­felld viðvera margra GRU-manna hér benti til þess að þeir hefðu haft er­indi sem erfiði.

KGB sætti sig illa við að GRU hefði sterk­ari stöðu á Íslandi en njósn­ar­ar KGB, enda væri þessu öf­ugt farið ann­ars staðar. Vildi KGB styrkja stöðu sína hér og setti upp hler­un­ar­stöð í sendi­ráðinu við Garðastræti snemma á átt­unda ára­tugn­um og sendi menn frá Kaup­manna­höfn til að reka stöðina. Árang­ur­inn lét á sér standa og var skrúfað fyr­ir KGB-fjár­veit­ing­ar frá Moskvu og hler­un­ar­stöðinni lokað. Þá seg­ir Frey­steinn:

„Ásgeir vill meina, að Kleif­ar­vatns­tæk­in séu KGB-tæk­in. Það hafi ekki þótt taka því að flytja þau úr landi aft­ur, þar sem þau hafi verið orðin göm­ul og úr sér geng­in. GRU hafi glott við tönn, þegar hrein­gern­ing var fram­kvæmd í sendi­ráðinu og njósna­tækj­um KGB ein­fald­lega varpað í vota gröf í Kleif­ar­vatni.“

Bræðurn­ir Guðmund­ur og Ólaf­ur Bene­dikts­syn­ir fundu rúss­nesk njósna­tæki í Kleif­ar­vatni haustið 1973. Vöktu þau mikla undr­un án þess að þau yrðu op­in­ber­lega rak­in beint til rúss­neska sendi­ráðsins og keppni milli KGB og GRU fyrr en Frey­steinn birti ágisk­un Ásgeirs 2005 – hef­ur henni ekki verið hnekkt.

Í sam­töl­um blaðamanna VSquare við fyrr­ver­andi njósn­ara kom fram að skúr­ar á lóðum rúss­neskra sendi­ráða geymdu lík­lega tæki sem nota mætti til að hlera fjar­skipti og farsíma. Skúr­arn­ir væru notaðir til að fela þessi tæki fyr­ir mynda­vél­um um borð í þyrl­um eða drón­um.

Á ár­inu 2006 varð ut­an­rík­is­ráðuneytið að hafa af­skipti af ágrein­ingi sem reis þegar Rúss­ar ruddu á brott hrör­legri skúraþyrp­ingu á sendi­ráðslóðinni við Garðastræti og nokk­ur hóp­ur manna hóf að hand­smíða þar stál­grind­ar­hús. Þótti húsið ramm­gert og lýstu Rúss­ar sjálf­ir hús­inu í sam­tali við blaðamenn Vís­is sem sprengju­heldri viðbygg­ingu til að „opna póst“ til sendi­ráðsins! Ná­grönn­um þótti nóg um og töldu húsið reist í óleyfi eða að minnsta kosti í óþökk þeirra.

Nú dreg­ur að fjöl­menn­asta leiðtoga­fundi sem hér hef­ur verið hald­inn. Í fjórða sinn í 74 ára sögu Evr­ópuráðsins koma leiðtog­ar aðild­ar­ríkj­anna sam­an und­ir merkj­um ráðsins, að þessu sinni í Hörpu 16. til 17. maí. Bú­ist er við um 900 er­lend­um gest­um auk mik­ils fjölda fjöl­miðlamanna og margra annarra. Beinn kostnaður við fram­kvæmd fund­ar­ins verður ná­lægt tveim­ur millj­örðum króna.

Eft­ir 26 ára aðild að Evr­ópuráðinu voru Rúss­ar rekn­ir úr því eft­ir að þeir réðust inn í Úkraínu 24. fe­brú­ar í fyrra. Boðað er að dag­skrá fund­ar­ins snú­ist að veru­legu leyti um hvernig eigi að binda enda á hernað Rússa og stríðsglæpi í Úkraínu.

Nú í aðdrag­anda fund­ar­ins er áreiðan­lega mikið um að vera í sprengju­helda póst­hús­inu á rúss­nesku baklóðinni við Garðastræti. Bréf­in eru ör­ugg­lega ekki frí­merkt held­ur stol­in á ra­f­ræn­an hátt.

Íslensk yf­ir­völd bera ábyrgð á öllu ör­yggi vegna fund­ar­ins, einnig því sem snýr að SIGNIT, það er ra­f­rænu njósn­un­um sem Rúss­arn­ir stunda úr sendi­ráði sínu hér eins og hvarvetna ann­ars staðar. Dóms­málaráðherra og yf­ir­maður grein­ing­ar­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra sögðu við frétta­stofu RÚV í vik­unni að slík­ar njósn­ir væru mjög lík­lega stundaðar hér.

Eina leiðin til að sanna njósn­a­starf­sem­ina er að fara inn í sendi­ráðið og taka í sund­ur tæk­in þar sem merk­in – bréf­in – eru geymd. Slíkt er hins veg­ar bannað með alþjóðasamn­ing­um.

GRU-menn starfa hér enn í skjóli rúss­neska sendi­ráðsins eins og þeir gerðu í kalda stríðinu. GRU hef­ur enn und­ir­tök­in í njósn­um inn­an veggja sendi­ráðsins og sjötta deild GRU er ein öfl­ug­asta SIGNIT-njósna­stofn­un heims. Um þetta allt má lesa í fræðirit­um og fjöl­miðlum. Eina úrræðið til að hreinsa þessa óværu héðan er að vísa GRU-njósn­ur­un­um úr landi. Það er aldrei of seint.