Spjallmenni valda ótta
Morgunblaðið, laugardagur 29. apríl 2023,
Dr. Rögnvaldur Ólafsson, fyrrv. prófessor, gegndi árin 1998 til 1999 formennsku í starfshópi sem skrifaði skýrslu um tungutækni (nú máltækni) sem menntamálaráðuneytið gaf út í apríl 1999. Þar er fjallað um álitaefni sem sneru að því að tryggja íslenskunni sem öruggustan sess í heimi tölvu- og upplýsingatækninnar.Rögnvaldur kom ekki nýr að þessu viðfangsefni. Strax í júlí 1981 skrifaði hann skýrslu um íslenska textavinnslu á vegum Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. Var þar að finna leiðarvísi vegna örtölvukerfa sem stofnunin notaði við textavinnslu (HÍR 01) og kynningu á því sem stofnunin hafði gert til að laga tölvur og tengitæki þeirra að íslensku máli.
Í formála skýrslunnar sagði Rögnvaldur að þeir sem settu upp HÍR 01-kerfið hefðu talið miklu máli skipta að „skipanir og nöfn í tölvukerfinu“ væru á íslensku. Notkun á kerfinu yrði þjálari og auðveldara að kenna á það „heldur en þegar notað er venjulegt tölvu hrognamál“. Til þess að tölvan skildi íslensku þyrfti að gera allmiklar breytingar á forritum, tölvunni, skjárita og prentara. Fyrir utan að breyta leturborði og tryggja að íslenskir stafir eins og Æ, Ð og Þ ættu heima í tölvumálinu.
„Þá byrjaði bardaginn,“ sagði Rögnvaldur í samtali sem birtist 9. apríl í sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Útlendingum þótti einfaldast að við köstuðum þessum stöfum út úr stafrófi okkar.
Dr. Rögnvaldur Ólafsson.
Í skýrslunni um tungutæknina frá 1999 birtist orðið gervigreind fjórum sinnum. Í stuttum lokakafla segir að leitarvélin AltaVista beiti gervigreind til að átta sig á því eftir hvers konar skjölum sé óskað og sæki þau. Árið 1999 litu skýrsluhöfundar fram á veginn og sögðu að vissulega væri gott að geta lagt fyrir leitarvélina spurningar á íslensku í stað leitarorða. Tæknin væri hins vegar „að taka sín fyrstu skref, og enn … [væri] hvergi boðið upp á hana á öðrum málum en ensku“. Líklega væri ekki tímabært að leggja áherslu á að ganga mætti að slíkri þjónustu á íslensku. Rætt væri hins vegar „að fylgjast með þróuninni á þessu sviði og reyna að fylgja straumnum þegar fleiri tungumál [bættust] í hópinn“.
AltaVista kom til sögunnar sem leitarvél árið 1995 og naut hún mikilla vinsælda en laut í lægra haldi fyrir Google. Yahoo!-fyrirtækið keypti AltaVista árið 2003 og notaði eigin leitarvél til að svara þeim sem sneru sér til AltaVista og hélst það til 2013 þegar AltaVista var lokað.
Nú í byrjun árs 2023 verður stórbylting á þessu sviði. Óljóst er hvort Google tekst að sigrast á erfiðleikum sínum við að innleiða öfluga gervigreind í leitarvél sína. Íslenskan heldur hins vegar velli gagnvart gervigreindinni og kemur margefld frá byltingunni núna.
Leitarvélin Bing ógnar mest yfirburðum Google en Bing má spyrja á íslensku og vélin svarar á ylhýra málinu okkar. Textavélin, spjallmennið, ChatGPT svarar einnig á íslensku sé um það beðið. Spjallmenni beggja gervigreindarvélanna fikra sig áfram á braut íslenskunnar með því að sækja efnivið í risamálheildina sem Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum varðveitir.
Fortíðina ber að virða og skoða til skilningsauka en fylgjast verður áfram með þróuninni og reyna að fylgja straumnum eins og sagt var 1999. Nú koma sérfróðir menn fram á völlinn sem líkja gervigreindarvæðingunni við rafvæðinguna á sínum tíma. Lífsgæðabreytingin verði af svipuðum skala.
David Auerbach sem unnið hefur að þróun tölvu- og upplýsingatækni hjá Microsoft og Google skilur að gúrúar tæknirisanna óttist eigin sköpunarverk. Hann hefur skrifað bókina Meganet: Hvernig stafrænir kraftar án stjórnar okkar ná undirtökunum í daglegu lífi okkar og innri veruleika.
Auerbach bjó til orðið meganet – risanet – til að lýsa netkerfum sem starfa í vaxandi mæli án eftirlits stjórnvalda eða þeirra sem stjórna kerfunum daglega á Facebook, Twitter, Google, rafmyntarnetum eða jafnvel í nettölvuleikjum. Þessi stafrænu kerfi taka einfaldlega stjórnina í eigin hendur.
Hann segir ekki við gervigreindina sjálfa að sakast. Vandinn komi til sögunnar þegar hún tengist þessum risanetum. Þá sé stofnað til samskipta hundraða milljóna manna og til verði gífurleg endurgjöf frá þeim sem geri þessi kerfi stjórnlaus.
Yuval Harari sem er m.a. höfundur bókarinnar Sapiens: Mannkynssaga í stuttu máli birti ásamt tveimur öðrum grein í The New York Times undir lok mars þar sem hvatt er til varúðar vegna gervigreindar.
Þar er minnt á að í upphafi var orðið. Tungumál séu aflvaki menningar. Af tungumálum spretti goðsagnir og lög, guðir og peningar, listir og vísindi, vinátta og þjóðir auk tölvukóða. Nýtt vald spjallmenna á tungumálinu geri þeim kleift að brjótast inn í og misnota aflvaka siðmenningarinnar. Með því að ná tökum á tungumálinu eignist spjallmennin stofnlykil siðmenningarinnar.
Greininni ljúka höfundar á þeim orðum að við höfum vakið upp framandi greind. Það eina sem við vitum í raun sé að hún er gífurlega öflug og geti fært okkur hrífandi gjafir en einnig brotist inn í grunn siðmenningar okkar. Þeir hvetja leiðtoga mannkyns til að takast á við þetta viðfangsefni í samræmi við umfang þess. Fyrsta skrefið sé að vinna tíma svo að uppfæra megi 19. aldar stofnanir okkar og laga þær að heimi spjallmennanna og tóm gefist til að læra að ná tökum á þeim áður en þau ráði yfir okkur.
Óttinn er við að menningarleg sérkenni, þjóðlegur arfur og fullveldi verði spjallmennum að bráð. Tungumálið er undirstaða alls þessa.