1.3.2025

Spennandi formannskosningar

Morgunblaðið, laugardagur 1. mars 2025

Sjálf­stæðis­menn halda 45. lands­fund sinn um þessa helgi, mestu lýðræðis­hátíð þjóðar­inn­ar fyr­ir utan kosn­ing­ar til þings eða sveit­ar­stjórna.

Í frétt­um seg­ir að fund­ar­menn séu um 2.200. Áhug­inn á fund­in­um er mik­ill vegna þess að á hon­um verður val­in ný for­ysta. Eft­ir 16 ár á for­manns­stóli kom ekki á óvart að Bjarni Bene­dikts­son til­kynnti 6. janú­ar sl. að hann yrði ekki í end­ur­kjöri á fund­in­um. Aðeins Ólaf­ur Thors hef­ur setið leng­ur sem formaður flokks­ins en við allt aðrar aðstæður.

Þegar Jón Þor­láks­son lét af for­mennsku 1934 var Ólaf­ur kjör­inn af miðstjórn og þing­mönn­um flokks­ins og sat til 1961 þegar Bjarni Bene­dikts­son eldri var kjör­inn formaður í leyni­legri at­kvæðagreiðslu á lands­fundi. Hef­ur sú aðferð síðan verið regla í Sjálf­stæðis­flokkn­um við kjör for­manns.

For­manns­kjörið er opið í þeim skiln­ingi að hverj­um full­trúa er frjálst að bjóða sig fram og all­ir kjörn­ir full­trú­ar á lands­fund­in­um hafa at­kvæðis­rétt. Þetta fyr­ir­komu­lag leiðir til þess að fyr­ir­vara­laust er unnt að bjóða fram gegn sitj­andi for­manni á fund­in­um sjálf­um. Gerðist það árið 2010.

Frá því að Bjarni var kjör­inn formaður 2009 hef­ur hann verið end­ur­kjör­inn á sex lands­fund­um, þar af þris­var sinn­um með yf­ir­lýstu mót­fram­boði: Pét­urs Blön­dal 2010, Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur 2011 og Guðlaugs Þórs Þórðar­son­ar 2022. Tvisvar hlaut hann 96% at­kvæða, 2015 og 2018, en árið 2013 hlaut hann 79% at­kvæða.

Á lands­fundi 2010 vakti Bjarni Bene­dikts­son máls á því hvort breyta ætti regl­un­um um for­manns­kjör svo enn fleiri gætu kosið. Hann talaði fyr­ir því að all­ir skráðir sjálf­stæðis­menn fengju at­kvæðis­rétt í for­manns­kjöri. Kosið yrði í öll­um flokks­fé­lög­um lands­ins tveim­ur vik­um fyr­ir lands­fund milli þeirra sem gæfu kost á sér.

Skipu­lags­regl­um flokks­ins hef­ur þó ekki verið breytt í þessa veru. Breyt­ing­in myndi vafa­lítið draga úr áhuga á að sækja lands­fund­inn og breyta þeim anda sem þar mynd­ast og smit­ast út í flokks­starfið.

Þegar Bjarni var kjör­inn 2009 urðu kyn­slóðaskipti í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Ald­urs­hóp­ur­inn sem náði und­ir­tök­um inn­an flokks­ins árið 1983 með for­manns­kjöri Þor­steins Páls­son­ar af­henti for­manni nýrr­ar kyn­slóðar keflið.

Aðeins einu sinni á tæp­um 100 árum hef­ur sitj­andi formaður verið felld­ur á lands­fundi. Það gerðist 1991 þegar Davíð Odds­son borg­ar­stjóri bauð sig fram gegn Þor­steini Páls­syni sem starfar nú með Viðreisn.

Kosn­ing­in var spenn­andi. Davíð fékk 52,8% at­kvæða en Þor­steinn 46,9%. Sannaðist þar enn hve fyr­ir­komu­lagið við for­manns­kjörið er raun­veru­lega opið og lýðræðis­legt. Sitj­andi formaður verður að fá end­ur­nýjað umboð hverju sinni á lands­fundi.

Davíð var óskoraður formaður til 2005 þegar hann dró sig í hlé og Geir H. Haar­de var kjör­inn í hans stað. Hann gaf ekki kost á sér til end­ur­kjörs 2009.

Nú verða ekki aðeins kyn­slóðaskipti á for­manns­stóli held­ur verður kona í fyrsta skipti kjör­in til for­mennsku í Sjálf­stæðis­flokkn­um.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir (f. 1990) og Guðrún Haf­steins­dótt­ir (f. 1970) eru yf­ir­lýst­ir fram­bjóðend­ur sem hafa verið á ferð og flugi um landið allt und­an­farið til að end­ur­nýja kynni við flokks­menn, virkja fé­lags­starfið, fræða og fræðast.

Þær eru báðar verðugir fram­bjóðend­ur og þess vegna er valið ekki auðvelt á milli þeirra. Við sem höf­um kosn­inga­rétt verðum þó að gera upp hug okk­ar og op­in­ber­lega hef ég þegar lýst stuðningi við Áslaugu Örnu.

Regl­urn­ar sem hér hef­ur verið lýst gilda einnig um kjör á vara­for­manni Sjálf­stæðis­flokks­ins. Þar hafa nú einnig tveir þing­menn gefið kost á sér, Jens Garðar Helga­son, odd­viti flokks­ins í NA-kjör­dæmi, og Diljá Mist Ein­ars­dótt­ir í Reykja­vík norður. Hlusta ég á fram­boðsræður þeirra á lands­fund­in­um áður en ákvörðun um stuðning við annað hvort er tek­in.

Öll eru þessi nöfn nefnd með fyr­ir­vara um að á fund­in­um sjálf­um kunni að skap­ast hreyf­ing eða stuðning­ur við ein­hvern sem ekki hef­ur enn verið nefnd­ur til þessa leiks. Óviss­an fram á síðustu stundu skap­ar sér­stakt and­rúms­loft á lands­fund­in­um.

1551546Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir flytur kveðjuræðu sína sem varaformaður Sjálfstæðisflokksins á 45. landsfundinum 1. mars 2025. (mynd: mbl.is/Hákon).

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ákvað að hverfa úr for­mann­steymi Sjálf­stæðis­flokks­ins með því að gefa hvorki kost á sér til for­mennsku né end­ur­kjörs sem vara­formaður. Hún verður nú odd­viti flokks­ins í fjöl­menn­asta kjör­dæmi lands­ins, SV-kjör­dæmi, eft­ir að Bjarni Bene­dikts­son hverf­ur af þingi. Þá er hún sjálf­kjör­inn mál­svari flokks­ins í ut­an­rík­is­mál­um.

Í aðdrag­anda lands­fund­ar­ins hafa fram­bjóðend­ur mest verið spurðir um inn­lend úr­lausn­ar­efni. Raun­ar er stórund­ar­legt að áhugi frétta­manna og hlaðvarps­stjóra sé ekki meiri á ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um. Þau verða ör­ugg­lega of­ar­lega á baugi næstu miss­er­in.

Óvissa hef­ur skap­ast á mörg­um sviðum vegna þess hve Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti kast­ar mörgu fram án þess að vitað sé hvað fyr­ir hon­um vak­ir. Hver bjóst við því að full­trúi Banda­ríkj­anna í ör­ygg­is­ráði Sam­einuðu þjóðanna (SÞ) flytti til­lögu mark­visst í þeim til­gangi að árétta að Rúss­ar væru ekki árás­arþjóðin í Úkraínu?

Í það stefn­ir að rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur valdi sundr­ungu meðal þjóðar­inn­ar með at­kvæðagreiðslu um ESB-aðild­ar­um­sókn árið 2027. Eng­inn veit þó enn hver þessi um­sókn er eða hvernig hún verður und­ir­bú­in og kynnt. Sé um það spurt fer stjórn­in und­an í flæm­ingi.

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er öfl­ug­asta stjórn­mála­aflið að baki far­sælli ut­an­rík­is- og varn­ar­stefnu þjóðar­inn­ar. Láti hann af þeirri for­ystu skap­ast auk­in óvissa og vand­ræði. Í ut­an­rík­is­mál­um verður flokk­ur­inn að tala skýrri röddu.