Spenna á lágspennusvæði
Morgunblaðið, laugardagur 3. júní 2023.
Vonir minnka stöðugt um að líta megi á norðurslóðir (e. Arctic) sem undantekningu, þegar litið er til þróunar alþjóðasamskipta í heild – að hér í norðri takist að leggja rækt við samstarfstengsl á milli lýðræðisríkja í vestri annars vegar og valdboðsríkja í austri hins vegar, hvað sem líði átökum á borð við stríðið í Úkraínu.
Norðurskautsráðið er óstarfhæft í upprunalegri mynd. Rússar verða sífellt háðari Kínverjum við vinnslu og sölu á gasi og olíu. Náttúruauðlindirnar eru eign Rússa en skortur þeirra á fé og tækni kallar á síauknar kínverskar fjárfestingar.
Hernaðarlega tekur norðrið einnig á sig hættulegri mynd.
Bandaríski herhöfðinginn Christopher G. Cavoli, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO, hitti 5. maí sl. Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í Reykjavík og kynnti sér aðstæður og umsvif á öryggissvæðinu í Keflavík. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins um komu hans sagði að hershöfðinginn hefði „rætt aukinn varnarviðbúnað“ NATO og „framlag Íslands, ekki síst til varna og eftirlits á Norður-Atlantshafi“ á fundi með ráðherranum. Hún taldi fundinn „afar gagnlegan“.
Skömmu áður (26. apríl) hafði Cavoli, sem jafnframt er yfirmaður Evrópuherstjórnar Bandaríkjanna, setið fyrir svörum í hermálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Sagði hann þingmönnunum að kafbátafloti Rússa hefði látið óvenjulega mikið að sér kveða á Atlantshafi undanfarið þrátt fyrir vandræði Rússa í Úkraínu.
„Stríðið hefur ekki haft neikvæð áhrif á stóran hluta rússneska hersins. Ein þessara eininga er neðansjávarheraflinn,“ sagði Cavoli í þingnefndinni og einnig: „Rússar láta meira að sér kveða núna en við höfum séð árum saman, og ferðir þeirra út á Atlantshaf og um Atlantshaf eru mjög tíðar, oftast miklu tíðari en við höfum séð í mörg ár.“
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Christopher G. Cavoli, yfirmaður Evrópuherstjórnar NATO (SACEUR), 5. maí 2023 (mynd: utanríkisráðuneytið).
Til þessara orða Cavolis um kafbátaferðir Rússa var síðan vitnað í breska blaðinu Telegraph 26. maí, þegar rætt var við Sir Mike Wigston, fráfarandi yfirmann breska flughersins. Meginboðskapur hans var að hvað sem liði úrslitum stríðsins í Úkraínu yrði hætta af Rússum viðvarandi. Flugher Rússa, herskip þeirra og kafbátar ógnuðu Bretlandi og NATO, og þangað yrði „að beina athyglinni“. Hættan kynni jafnvel að verða enn meiri yrði Vladimir Pútin Rússlandsforseta velt úr sessi.
Breski flughershöfðinginn sagði: „Þegar átökunum í Úkraínu er lokið og Úkraínumenn hafa endurheimt landamæri sín, eins og þeir verða að gera, stöndum við frammi fyrir sködduðu, hefnigjörnu og ófyrirleitnu Rússlandi sem getur valdið okkur skaða með loftárás, flugskeytaárás og neðansjávarárás.“
Þessi opinskáu og afdráttarlausu ummæli tveggja háttsettra herforingja um þróun mála hér á Norður-Atlantshafi, setja heræfingarnar sem nú fara fram á hafinu á milli Íslands og Noregs og í hánorðri á vegum flugherja Noregs, Svíþjóðar, Finnlands og Danmerkur, í alvarlegt samhengi.
Það er ekki að ófyrirsynju að stærsta herskip heims, bandaríska flugmóðurskipið USS Gerald R. Ford, lagðist við akkeri í Oslóarfirði 24. maí og hélt þaðan til æfinga undan ströndum Noregs 29. maí.
Nú eru fimm ár liðin frá Trident Juncture 2018 æfingu NATO. Þá sigldi bandaríska flugmóðurskipið USS Harry S. Truman fyrst sílkra skipa norður með strönd Noregs í 30 ár. NATO hafði þá þegar mótað stefnu um nauðsyn þess að bregðast af auknum þunga við hernaðarumsvifum Rússa á norðurslóðum. Sú mikla heræfing hófst hér á landi.
Áherslan á viðbúnað í norðri hefur ekki minnkað síðan hjá NATO, eins og fram kom á óformlegum fundi utanríkisráðherra bandalagsþjóðanna í Osló 31. maí og 1. júní. Var það í annað sinn í sögu bandalagsins sem ráðherrafundur er haldinn með þessu sniði, í því skyni að hrista hópinn saman og búa í haginn fyrir aðild Úkraínu að bandalaginu.
Vægi norrænu ríkjanna innan NATO eykst með aðild Finna og Svía að bandalaginu og fólst viðurkenning á því með fundinum í Osló. Í Kaupmannahöfn logar pólitíkin af umræðum um hvort Mette Frederiksen forsætisráðherra taki við af Jens Stoltenberg, sem framkvæmdastjóri NATO.
Fyrir NATO-fundinn lagði starfandi varnarmálaráðherra Dana, Troels Lund Poulsen, fram tillögu dönsku ríkisstjórnarinnar að höfuðatriðum samkomulags dönsku flokkanna og stjórna Færeyja og Grænlands, um fjárframlög til varnarmála til 2033.
Ætlunin er að verja um það bil 143 milljörðum danskra króna til málaflokksins á þessum árum og þar með tryggja að árið 2030 standi Danir við NATO-skuldbindingu sína um að verja 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála.
Þegar litið er til landafræðinnar í tillögu dönsku ríkisstjórnarinnar er hún þrískipt: Ríkjasambandið, nágrennið í austri og hættusvæði í heiminum. Ríkjasambandið, það er danska konungdæmið, Danmörk, Færeyjar og Grænland, nýtur forgangs. Í því felst söguleg stefnubreyting, því að til þessa hafa Danir forgangsraðað í þágu Eystrasaltssvæðisins í varnarstefnu sinni.
Nú verður stefnan til langs tíma mörkuð í mun meiri samvinnu við stjórnvöld í Færeyjum og á Grænlandi en áður hefur verið gert. Áréttað er að Norður-Atlantshaf og norðurslóðir verði áfram lágspennusvæði þar sem hugsanleg átök verði leyst á friðsamlegan hátt.
Því miður verða yfirlýsingar í þessa veru sífellt ótrúverðugri. Veruleikinn segir einfaldlega til sín. Það verður hann að gera í ríkara mæli í opinberri stefnu íslenskra stjórnvalda, svo að hún sé í takti við bandamenn okkar og næstu nágranna.