Spenna á kosningaárinu mikla
Morgunblaðið, laugardagur 26. október 2024.
Árið 2024 er kallað kosningaárið mikla. Áður en þing var rofið hér og kjördagur ákveðinn 30. nóvember var talað um almennar kosningar í minnst 50 löndum á árinu. Rúmlega tveir milljarðar manna kynnu að ganga að kjörborðinu í ár.
Í sumar var forseti Íslands kjörinn. Forsetar voru einnig kjörnir í Taívan 13. janúar, Indónesíu 14. febrúar, Rússlandi 17. mars, Mexíkó 2. júní og Venesúela 28. júlí. Nýr Bandaríkjaforseti verður kjörinn 5. nóvember og tveimur dögum fyrr verður önnur umferð forsetakosninga í Moldóvu.
Moldóvar ákváðu með mjög litlum mun í þjóðaratkvæðagreiðslu (já: 50,46%; nei: 49,54%) sunnudaginn 20. október að breyta stjórnarskrá sinni svo að land þeirra gæti gerst aðili að Evrópusambandinu.
Kosningaeftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sögðu kosningarnar í Moldóvu hafa farið vel fram. Á hinn bóginn hefði þurft að verjast ólöglegri erlendri íhlutun og miðlun falskra upplýsinga til kjósenda.
Í tilkynningu ESB sagði að Rússar og staðgenglar þeirra hefðu reynt að grafa undan lýðræðislegri framkvæmd forsetakosninganna og þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Var stjórnvöldum í Moldóvu hrósað fyrir hve vel þau stóðu að framkvæmd kosninganna.
Við sem hér búum getum ekki sett okkur í spor þeirra sem nýta kosningarétt sinn við aðstæðurnar sem lýst er í fréttum frá Moldóvu. Breska ríkisútvarpið, BBC, sagði til dæmis frá samtali sínu við konu sem hafði fengið greitt fyrir að fara á kjörstað en var sárreið á leiðinni þaðan af því að sá sem lofaði að borga henni lét ekki ná í sig. „Ég hef verið plötuð!“ hrópaði hún.
Í Bandaríkjunum segja stjórnmálaskýrendur skrýtnast við forsetakosningarnar þar hve harðvítug baráttan vegna þeirra hafi lítið breytt afstöðu kjósenda, megi marka kannanir. Allt sé enn í járnum þrátt fyrir allar pólitísku breytingarnar síðan í maí 2024. Þetta var nýlega tíundað á vefsíðunni The Free Press:
Donald Trump er sakfelldur í sakamáli í New York (30. maí). Trump og Joe Biden hittast í sögulegustu forsetakappræðum Bandaríkjanna (27. júní). Donald Trump sleppur lifandi frá morðtilraun (13. júlí). Joe Biden segist ekki bjóða sig fram til endurkjörs (21. júlí). Kamala Harris tekur framboðstilnefningu demókrata án mótframboðs í flokknum (22. ágúst). Annar byssumaður reynir að drepa Trump (15. september). Við listann má bæta að í vikunni sagði Harris að Trump væri fasisti.
Stuðningur við Biden snarminnkaði eftir ófarir hans í kappræðunum og Harris naut uppsveiflu eftir tilnefninguna. Nú tíu dögum fyrir kjördag er varla mælanlegur munur á frambjóðendunum. Bandaríska þjóðin er klofin í jafnstórar fylkingar að baki þeim. Talið er að ungt fólk án háskólamenntunar hópist til Trumps og repúblikana en háskólamenntaðir fylki sér um Harris og demókrata. Spænskumælandi kjósendur færist til hægri. Demókratar missi tökin á svörtum kjósendum. Konur halli sér að demókrötum en karlar að repúblíkönum.
Vitnað er í sérfræðinga sem segja að 50:50-pattstaða milli flokkanna sé í andstöðu við eðlilegt ástand í bandarískum stjórnmálum en þessa óeðlilegu stöðu núna megi aðeins rekja til flokkanna sjálfra.
Innan flokkanna ráði áköfustu stuðningsmenn þeirra ferðinni. Þeir sem myndu aldrei kjósa annan flokk. Frambjóðendur ættu ekki að líta aðeins inn á við heldur beina athygli sinni að vilja þeirra kjósenda sem séu ekki svona niðurnjörvaðir flokksmenn. Atkvæðamiðin séu annars staðar en hjá þeim sem séu hvort sem er óbifanlegir, sigur vinnist ekki nema með fylgi óráðinna.
Þessi ráð hitta beint í mark þar sem tvær jafnstórar fylkingar berjast. Þau duga ekki eins vel í kerfi hlutfallskosninga sem ýtir undir marga flokka eins og hér. Flokkaflóran stækkaði hér eftir hrun. Í þingkosningum vorið 2013 voru 15 flokkar í boði en sex þeirra fengu menn á þing. Flokkarnir voru 12 í kosningunum í lok október 2016 og fengu sjö þeirra menn kjörna, 12 flokkar buðu fram haustið 2017 og átta flokkar fengu þingmenn, flokkarnir voru 11 haustið 2021 og enn fengu átta flokkar menn á þing.
Þessi fjöldi flokka og dreifing þingmanna á milli þeirra hefur getið af sér þriggja flokka stjórnir frá hausti 2016. Tafla sem birtist hér í blaðinu miðvikudaginn 23. október gerir ráð fyrir að tíu flokkar bjóði fram nú fyrir kosningarnar. Þar er rýnt í hugsanlegan fjölda þingmanna og af þeim tölum má ráða að enn verði mynduð þriggja flokka stjórn að kosningum loknum.
Af þeim kostum sem yrðu í stöðunni gengi þetta eftir og miðað við andrúmsloftið í samfélaginu, kröfu um að flokkarnir sýni eigin stefnumálum og kjósendum umhyggju frekar en tillitssemi yfir miðjuna, er líklegast að hér verði þriggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Miðflokks að kosningum loknum. Miðað við ofangreindar tölur í blaðinu 23. október fengju þessir flokkar samtals 33 þingmenn og þar með nægan stuðning til stjórnarmyndunar.
Tveggja flokka stjórn er fyrsti kostur allra sem leiða stjórnmálaflokka til kosninga. Dreifing atkvæða á átta flokka dregur mjög úr líkum á slíkri stjórn eftir kosningarnar 30. nóvember. Þriggja flokka stjórn sem höfðar til kjósenda hægra megin við miðju er líklegri en vinstri stjórn.
Munurinn á milli fylkinga hér við hægri/vinstri-ásinn kann að vera 50:50 eins og milli flokka í Bandaríkjunum eða fylkinga í Moldóvu. Samstarf yfir miðju stjórnmálanna féll á prófinu hér. Það mótar myndun stjórnar að loknum kosningum.