Spáð í nýja heimsmynd
Morgunblaðið, laugardagur, 15. október 2022
Líklega gerum við okkur fæst grein fyrir því nú í miðju stríðsfárviðrinu í Evrópu hver verði áhrifin þegar því slotar. Að því hlýtur að koma en þó ekki á varanlegan hátt á meðan Vladimír Pútín er við völd í Rússlandi. Honum treystir enginn lengur. Hann verður aldrei nein kjölfesta friðar í Evrópu.
Rússar eru ekki gjaldgengir í Evrópuráðinu lengur. Um það voru skiptar skoðanir fyrir um 30 árum hvort ætti að hleypa þeim inn í ráðið. Rökin fyrir aðild voru að þátttaka í þingstörfum ráðsins þjálfaði rússneska þingmenn í lýðræðislegum vinnubrögðum og áhersla á virðingu fyrir mannréttindum gæti ekki skaðað rússneskan almenning.
Eftir þrjá áratugi eru bæði lýðræði og mannréttindi fótumtroðin í nafni Pútín-stjórnarinnar í Rússlandi. Rússar eru þó enn í Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE). Stofnunina má rekja til Helsinki-sáttmálans frá 1975 sem stuðlaði að slökun spennu þess tíma á milli vestursins og Sovétríkjanna. Sovétstjórninni hefði aldrei komið til hugar að sýna ákvæðum sáttmálans eða öðru sem stendur að baki ÖSE þá fyrirlitningu sem Pútín-stjórnin gerir.
Frá fundi leiðtoga 43 Evrópuríkja auk ESB í Prag 6. október 2022.
Aðild að ÖSE er ekki bundin við Evrópuríki því að Bandaríkin og Kanada eru þar innan borðs. Fyrir viku var á hinn bóginn efnt til fundar í Prag að frumkvæði Emmanuels Macrons Frakklandsforseta með þátttöku leiðtoga 43 Evrópuríkja auk ESB, þar á meðal Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Í tilkynningu um fundinn frá ráðuneyti hennar sagði að þetta væri nýtt „pólitískt bandalag Evrópuríkja (e. European Political Community, EPC)“. Um væri að ræða nýjan samstarfsvettvang til að leiða saman ríki Evrópu óháð aðild þeirra að samstarfsstofnunum innan álfunnar. Ætlunin væri að hittast að nýju að ári og þá í ríki utan Evrópusambandsins.
Á fundinum sammæltust leiðtogarnir í fordæmingu á framgöngu Rússa í Úkraínu. Voru þeir harðorðir þótt enn hefðu ekki verið framdir stríðsglæpirnir sem einkenna þessa viku með flugskeytaárásum Rússa á almenna borgara, leikskóla og grunnvirki samfélagsins, rafstöðvar og hitaveitur.
Að baki samstarfinu er auk þess sú framtíðarspá að Bandaríkjamenn láti sig Evrópu minna skipta en nú og beini kröftum sínum þess í stað meira að því að halda aftur af Kínverjum í Asíu og á Kyrrahafi.
Þessi sýn setur svip á greiningarskýrslu sem danskir sérfræðingar birtu í byrjun mánaðarins þar sem lögð eru á ráðin um hvað Danir þurfi að gera til að tryggja öryggi sitt og varnir til ársins 2035.
Þetta skjal er gagnlegt fyrir þá sem leggja mat á þjóðaröryggi Íslendinga og ráðstafanir til að tryggja það. Sjónarhóll okkar er að vísu annar en Dana þegar litið er til Eystrasalts í austri eða suðurhluta Evrópu. Á hinn bóginn er ábyrgð Dana einnig á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum vegna konungdæmisins alls sem nær til Færeyja og Grænlands.
Í skýrslunni er bent á að ákafara stórveldakapphlaup á komandi árum hafi vaxandi áhrif á norðurslóðum (d. Arktis) og Norður-Atlantshafi. Þar blasi við nýtt umrót í öryggismálum og samhliða því meiri hernaðarleg umsvif, einkum af hálfu Rússa. Eftir innrásina í Úkraínu sé ekki unnt að líta á þróun samstarfs annars vegar og spennuvaka hins vegar sömu augum og áður á norðurslóðum. Rússum hafi til dæmis verið ýtt til hliðar í Norðurskautsráðinu þótt þeir gegni þar formennsku til 2023.
Skýrsluhöfundar telja óhjákvæmilegt að NATO auki kynni sín af norðurslóðum og Norður-Atlantshafi, þar á meðal Grænlandi og Færeyjum samhliða því sem stjórnvöld eylandanna tveggja kynnist störfum NATO betur. Þetta kunni að leiða til breytinga á afstöðu til fyrirkomulags öryggismála í tengslum við löndin tvö sitt hvorum megin við Ísland sem skapi Danmörku skyldur á hafinu og norðlægum slóðum í þágu NATO. Þeim verði erfitt að svara, ekki síst vegna veðurfars og mikilla vegalengda á þessum slóðum.
Spáð er að einhvern tíma fyrir 2035 skapist að nýju jafnvægi í stórveldakeppninni þótt staðan versni hugsanlega enn frekar á næstu árum milli vestursins og Rússa. Líkur séu á að meiri spenna búi að baki nýjum stöðugleika í norðri en nú er. Það verði til að veruleg hernaðarleg athygli beinist að svæðinu. Öll röskun á jafnvægi þar, til dæmis vegna misskilnings, geti því haft alvarlegar afleiðingar. Líkur á slíkum vandræðum minnki þó vegna þess að allir gæti varúðar til að útiloka að nokkuð misskiljist.
Telja skýrsluhöfundar ekki óhugsandi að fyrstu skref til að jafna ágreining við Rússa verði stigin á norðurslóðum. Sameiginlegir hagsmunir norðurslóðaríkjanna séu miklir og ekki sé fjallað um öryggismál í Norðurskautsráðinu. Það kunni þó að flækja svæðisbundið samstarf innan ráðsins að við aðild Finna og Svía að NATO verði Rússar eina þjóð ráðsins utan bandalagsins. Þeir telji sig þar með einangraða og afskipta við undirbúning mála, áhugi þeirra á samstarfinu minnki.
Allt er þetta umhugsunarvert. Því miður skortir hér á landi fræðilegan rannsóknar- og umræðuvettvang til að gaumgæfa hver áhrif stórbreytinganna í varnar- og öryggismálum eru á íslenska hagsmuni.
Úr því má bæta. Nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins flytja nú til dæmis tillögu um að utanríkisráðherra hafi forgöngu um gerð samnings við Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands um sjálfstætt rannsóknasetur um öryggis- og varnarmál (RÖV). Í upphafi greinargerðar tillögunnar er hvatt til að íslenska þjóðin styrki öryggi sitt á grundvelli þekkingar sem reist sé á fræðilegum grunni og fenginni reynslu. Önnur vopn hafi hún ekki.