21.5.2022

Sögulegt heillaskref í NATO

Morgunblaðið, laugardagur 21. maí 2022

Um­sókn­ir Finna og Svía um aðild að Norður-Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) voru form­lega af­hent­ar Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóra banda­lags­ins, í Brus­sel miðviku­dag­inn 19. maí.

Í aðdrag­anda inn­rás­ar­inn­ar í Úkraínu 24. fe­brú­ar 2022 lét Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti eins og mark­mið hernaðar­ins væri að sýna NATO í tvo heim­ana. Að banda­lagið styrkti stöðu sína með aðild Úkraínu væri ögr­un við ör­yggi Rúss­lands. Kreml­verj­ar ættu að eiga síðasta orðið um stækk­un NATO í aust­ur. Þeir þyldu ekki fleiri NATO-ríki við landa­mæri sín.

Kraf­an um rúss­neskt áhrifa­svæði í Evr­ópu var skýr fyr­ir inn­rás­ina, sér­greint til­efni henn­ar var þó að af­vopna Úkraínu­menn og „af-nas­ista­væða“ þjóðina með því að út­rýma toppn­um í Kyív.

Hót­un­um Pútíns um áhrifa­svæði var harðlega mót­mælt af ráðamönn­um Finn­lands og Svíþjóðar, nor­rænu ríkj­anna utan NATO.

Rík­is­stjórn Finn­lands til­kynnti 10. des­em­ber 2021 að hún hefði ákveðið að kaupa 64 banda­rísk­ar F-35-orr­ustuþotur. Um er að ræða 10 millj­arða evra fjár­fest­ingu í vél­un­um og annað eins í búnaði þeirra, aðstöðu fyr­ir þær, þjálf­un og æf­ing­ar flug­manna. Er þetta stærsta ein­staka varn­ar­fjárfest­ing í sögu Finn­lands.

Sænsk stjórn­völd ákváðu föstu­dag­inn 14. janú­ar 2022 að brynd­rek­ar og vopnaðir her­menn skyldu fara um og halda uppi eft­ir­liti á göt­um Vis­by, stærsta bæj­ar­ins á eyj­unni Gotlandi. Gripið var til þess­ara óvenju­legu aðgerða vegna auk­inna „um­svifa Rússa“ að sögn hers­ins. Tug­ir her­manna og skriðdrek­ar fóru um göt­ur Vis­by.

Um sama leyti sagði hers­höfðing­inn Mica­el Bydén, yf­ir­maður sænska hers­ins, að varn­ar­stefna Svía yrði gjör­sam­lega gagns­laus ef samþykkt yrði inn­an NATO að banda­lagið stækkaði ekki frek­ar og þar með yrði látið und­an kröf­um Rússa.

Hernaðarleg­ar áhyggj­ur Finna og Svía voru aug­ljós­ar í árs­byrj­un. Á stjórn­mála­vett­vangi og meðal al­menn­ings hófst hraðferðin inn í NATO strax eft­ir inn­rás­ina 24. fe­brú­ar 2022. Á inn­an við þrem­ur mánuðum varð kúvend­ing í ör­ygg­is­mála­stefnu þjóðanna. Stefn­an um stöðu utan hernaðarbanda­laga hvarf átaka­laust, 188 þing­menn gegn átta samþykktu NATO-aðild í Finn­landi.

Í kalda stríðinu slógu Finn­ar ekki neitt af varn­ar­viðbúnaði sín­um og lögðu áfram rækt við öfl­ug­ar al­manna­varn­ir. Sömu sögu er ekki að segja um Svía. Und­an­far­in miss­eri hafa þeir stór­aukið út­gjöld sín til varn­ar­mála. Þar er um að ræða mestu hækk­un út­gjalda til hers­ins í 70 ár að sögn varn­ar­málaráðherr­ans. Útgjöld Finna til varn­ar­mála eru þegar yfir 2% af vergri lands­fram­leiðslu og Sví­ar stefna hraðbyri að því tak­marki NATO-þjóða.

BbSauli Niinstö Finnlandsforseti, Joe Biden Bandaríkjaforseti og Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, í Hvíta húsinu, Washington DC, fimmrudaginn 19. maí 2022. Biden fagnaði NATO-umsóknum Finna og Svía.

NATO-at­b­urðarás­in í Finn­landi og Svíþjóð und­an­farn­ar vik­ur er skóla­bók­ar­dæmi um vel heppnaða fram­kvæmd á flókn­um og viðkvæm­um lýðræðis­leg­um ákvörðunum. Sér­hvert feil­spor gat valdið vand­ræðum á heima­velli og spillt sam­stöðu þar. Allt gerðist þetta vegna og í skugga stríðs í Evr­ópu þar sem beit­ing rúss­neskra kjarn­orku­vopna er ekki úti­lokuð.

Finn­ar og Sví­ar glíma við ná­granna sem er til alls vís. Á loka­stig­um fengu þjóðirn­ar ör­ygg­is­trygg­ingu frá Bret­um, Banda­ríkja­mönn­um og Þjóðverj­um. Þess­ar trygg­ing­ar jafn­ast þó ekki á við gagn­kvæmu ör­ygg­is­skuld­bind­ing­una í 5. gr. Atlants­hafs­sátt­mál­ans sem kallaði ein­mitt á NATO-aðild­ina.

Sam­eig­in­leg landa­mæri Rússa og Finna eru 1.340 km löng. Næsta rúss­neska stór­borg­in við Hels­inki er St. Pét­urs­borg, heima­borg Pútíns. Hann hófst til æðstu valda vegna starfa sinna fyr­ir borg­ar­stjór­ann þar eft­ir fall Sov­ét­ríkj­anna. Ræt­ur valda hans eru þar.

Google seg­ir að vega­lengd­in frá Hels­inki til St. Pét­urs­borg­ar sé 390,5 km og taki 4 klst. 53 mín. að aka hana en milli Reykja­vík­ur og Ak­ur­eyr­ar séu 387,2 km og taki 4 klst. 43 mín. að aka þá.

Miðað við stóru orðin gegn stækk­un NATO fyr­ir inn­rás­ina hefði mátt vænta ógn­vekj­andi reiði í garð Finna og Svía vegna ákv­arðana þeirra. Þegar þær lágu fyr­ir gerði Pútín frek­ar lítið úr þeim í ræðu mánu­dag­inn 16. maí. Rúss­ar mundu á hinn bóg­inn grípa til gagnaðgerða setti NATO niður „hernaðarlega innviði“ í lönd­un­um. Ser­geij Lavr­ov, ut­an­rík­is­ráðherra Pútíns, sagði þriðju­dag­inn 17. maí að NATO-aðild Finna og Svía mundi lík­leg­ast ekki „breyta miklu“. Herafli ríkj­anna hefði um langt skeið tekið þátt í NATO-æf­ing­um og rík­in hefðu árum sam­an átt sam­starf við banda­lagið.

Breytti tónn­inn frá Moskvu sýn­ir að Kreml­verj­ar vilja ekki draga at­hygli að hve allt hef­ur farið í handa­skol­um hjá þeim. Her­för­in gegn Úkraínu­mönn­um tók allt aðra stefnu en þeir væntu, þeir reyna að fela gíf­ur­legt mann­fall. Í stað þess að fæla þjóðir frá NATO-aðild efl­ist banda­lagið nú til muna með tveim­ur sterk­um, friðelsk­andi lýðræðis­ríkj­um – til lít­ill­ar gleði hjá þeim sem setja mann­rétt­indi ekki í efsta sæti eins og Er­dog­an Tyrk­lands­for­seta.

Vet­ur­inn 2019 til 2020 samdi ég til­lög­ur um nor­ræn ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál sem nor­rænu ut­an­rík­is­ráðherr­arn­ir fimm samþykktu í sept­em­ber 2020. Snemma árs 2009 skilaði Norðmaður­inn Thor­vald Stolten­berg ör­ygg­is­mála­skýrslu í umboði ut­an­rík­is­ráðherr­anna fimm. Í sænska blaðinu Dagens Nyheter voru þess­ar skýrsl­ur ný­lega nefnd­ar sem vörður á leið til sam­ræm­ing­ar á stefnu nor­rænu ríkj­anna í ör­ygg­is­mál­um og nú inn í NATO.

Við gerð skýrsl­unn­ar átti ég um 80 fundi með stjórn­mála­mönn­um, emb­ætt­is­mönn­um, her­for­ingj­um, leyniþjón­ustu­mönn­um og fræðimönn­um í lönd­un­um fimm. Hve sam­hljóm­ur­inn var mik­ill var aug­ljóst og at­hygl­is­vert þótt ekki óraði mig fyr­ir að þjóðirn­ar yrðu all­ar í NATO árið 2022. Það er sögu­legt heilla­skref í þágu ör­ygg­is.