Sögulegt heillaskref í NATO
Morgunblaðið, laugardagur 21. maí 2022
Umsóknir Finna og Svía um aðild að Norður-Atlantshafsbandalaginu (NATO) voru formlega afhentar Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra bandalagsins, í Brussel miðvikudaginn 19. maí.
Í aðdraganda innrásarinnar í Úkraínu 24. febrúar 2022 lét Vladimír Pútín Rússlandsforseti eins og markmið hernaðarins væri að sýna NATO í tvo heimana. Að bandalagið styrkti stöðu sína með aðild Úkraínu væri ögrun við öryggi Rússlands. Kremlverjar ættu að eiga síðasta orðið um stækkun NATO í austur. Þeir þyldu ekki fleiri NATO-ríki við landamæri sín.
Krafan um rússneskt áhrifasvæði í Evrópu var skýr fyrir innrásina, sérgreint tilefni hennar var þó að afvopna Úkraínumenn og „af-nasistavæða“ þjóðina með því að útrýma toppnum í Kyív.
Hótunum Pútíns um áhrifasvæði var harðlega mótmælt af ráðamönnum Finnlands og Svíþjóðar, norrænu ríkjanna utan NATO.
Ríkisstjórn Finnlands tilkynnti 10. desember 2021 að hún hefði ákveðið að kaupa 64 bandarískar F-35-orrustuþotur. Um er að ræða 10 milljarða evra fjárfestingu í vélunum og annað eins í búnaði þeirra, aðstöðu fyrir þær, þjálfun og æfingar flugmanna. Er þetta stærsta einstaka varnarfjárfesting í sögu Finnlands.
Sænsk stjórnvöld ákváðu föstudaginn 14. janúar 2022 að bryndrekar og vopnaðir hermenn skyldu fara um og halda uppi eftirliti á götum Visby, stærsta bæjarins á eyjunni Gotlandi. Gripið var til þessara óvenjulegu aðgerða vegna aukinna „umsvifa Rússa“ að sögn hersins. Tugir hermanna og skriðdrekar fóru um götur Visby.
Um sama leyti sagði hershöfðinginn Micael Bydén, yfirmaður sænska hersins, að varnarstefna Svía yrði gjörsamlega gagnslaus ef samþykkt yrði innan NATO að bandalagið stækkaði ekki frekar og þar með yrði látið undan kröfum Rússa.
Hernaðarlegar áhyggjur Finna og Svía voru augljósar í ársbyrjun. Á stjórnmálavettvangi og meðal almennings hófst hraðferðin inn í NATO strax eftir innrásina 24. febrúar 2022. Á innan við þremur mánuðum varð kúvending í öryggismálastefnu þjóðanna. Stefnan um stöðu utan hernaðarbandalaga hvarf átakalaust, 188 þingmenn gegn átta samþykktu NATO-aðild í Finnlandi.
Í kalda stríðinu slógu Finnar ekki neitt af varnarviðbúnaði sínum og lögðu áfram rækt við öflugar almannavarnir. Sömu sögu er ekki að segja um Svía. Undanfarin misseri hafa þeir stóraukið útgjöld sín til varnarmála. Þar er um að ræða mestu hækkun útgjalda til hersins í 70 ár að sögn varnarmálaráðherrans. Útgjöld Finna til varnarmála eru þegar yfir 2% af vergri landsframleiðslu og Svíar stefna hraðbyri að því takmarki NATO-þjóða.
Sauli Niinstö Finnlandsforseti, Joe Biden Bandaríkjaforseti og Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svía, í Hvíta húsinu, Washington DC, fimmrudaginn 19. maí 2022. Biden fagnaði NATO-umsóknum Finna og Svía.
NATO-atburðarásin í Finnlandi og Svíþjóð undanfarnar vikur er skólabókardæmi um vel heppnaða framkvæmd á flóknum og viðkvæmum lýðræðislegum ákvörðunum. Sérhvert feilspor gat valdið vandræðum á heimavelli og spillt samstöðu þar. Allt gerðist þetta vegna og í skugga stríðs í Evrópu þar sem beiting rússneskra kjarnorkuvopna er ekki útilokuð.
Finnar og Svíar glíma við nágranna sem er til alls vís. Á lokastigum fengu þjóðirnar öryggistryggingu frá Bretum, Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum. Þessar tryggingar jafnast þó ekki á við gagnkvæmu öryggisskuldbindinguna í 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem kallaði einmitt á NATO-aðildina.
Sameiginleg landamæri Rússa og Finna eru 1.340 km löng. Næsta rússneska stórborgin við Helsinki er St. Pétursborg, heimaborg Pútíns. Hann hófst til æðstu valda vegna starfa sinna fyrir borgarstjórann þar eftir fall Sovétríkjanna. Rætur valda hans eru þar.
Google segir að vegalengdin frá Helsinki til St. Pétursborgar sé 390,5 km og taki 4 klst. 53 mín. að aka hana en milli Reykjavíkur og Akureyrar séu 387,2 km og taki 4 klst. 43 mín. að aka þá.
Miðað við stóru orðin gegn stækkun NATO fyrir innrásina hefði mátt vænta ógnvekjandi reiði í garð Finna og Svía vegna ákvarðana þeirra. Þegar þær lágu fyrir gerði Pútín frekar lítið úr þeim í ræðu mánudaginn 16. maí. Rússar mundu á hinn bóginn grípa til gagnaðgerða setti NATO niður „hernaðarlega innviði“ í löndunum. Sergeij Lavrov, utanríkisráðherra Pútíns, sagði þriðjudaginn 17. maí að NATO-aðild Finna og Svía mundi líklegast ekki „breyta miklu“. Herafli ríkjanna hefði um langt skeið tekið þátt í NATO-æfingum og ríkin hefðu árum saman átt samstarf við bandalagið.
Breytti tónninn frá Moskvu sýnir að Kremlverjar vilja ekki draga athygli að hve allt hefur farið í handaskolum hjá þeim. Herförin gegn Úkraínumönnum tók allt aðra stefnu en þeir væntu, þeir reyna að fela gífurlegt mannfall. Í stað þess að fæla þjóðir frá NATO-aðild eflist bandalagið nú til muna með tveimur sterkum, friðelskandi lýðræðisríkjum – til lítillar gleði hjá þeim sem setja mannréttindi ekki í efsta sæti eins og Erdogan Tyrklandsforseta.
Veturinn 2019 til 2020 samdi ég tillögur um norræn utanríkis- og öryggismál sem norrænu utanríkisráðherrarnir fimm samþykktu í september 2020. Snemma árs 2009 skilaði Norðmaðurinn Thorvald Stoltenberg öryggismálaskýrslu í umboði utanríkisráðherranna fimm. Í sænska blaðinu Dagens Nyheter voru þessar skýrslur nýlega nefndar sem vörður á leið til samræmingar á stefnu norrænu ríkjanna í öryggismálum og nú inn í NATO.
Við gerð skýrslunnar átti ég um 80 fundi með stjórnmálamönnum, embættismönnum, herforingjum, leyniþjónustumönnum og fræðimönnum í löndunum fimm. Hve samhljómurinn var mikill var augljóst og athyglisvert þótt ekki óraði mig fyrir að þjóðirnar yrðu allar í NATO árið 2022. Það er sögulegt heillaskref í þágu öryggis.