Snúist gegn skuggaböldrum
Morgunblaðið, fimmtudagur, 29. október 2020
Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar, sendi nýlega frá sér bókina Spegill fyrir skuggabaldur. Þar tínir Ólína saman fréttaefni líðandi stundar og undanfarinna ára og raunar lengra aftur til að færa sönnur á það sem stendur undir bókartitlinum: Atvinnubann og misbeiting valds.
Þungamiðja bókarinnar er að Ólína var hvorki ráðin
þjóðgarðsvörður á Þingvöllum haustið 2018 né forseti hug- og
félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri (HA) árið 2013.
Hana grunar að andstaða við sig innan HA hafi verið af „pólitískum toga“ eftir að hún gagnrýndi sjávarútvegsstefnuna sem þingmaður á árunum 2009 til 2013. Útvegsmenn og Samherji á Akureyri óttuðust málflutning hennar, segir hún, og innan HA sönnuðu menn hollustu sína við „Samherjaveldið“ með því að hafna henni.
Hún telur að Þingvallanefnd undir formennsku Ara Trausta Guðmundssonar, þingmanns VG, hafi brotið á sér „að yfirlögðu ráði“. Hún vegur hart að Þingvallanefndarmanninum Páli Magnússyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýndi samning ríkislögmanns við Ólínu um 20 milljóna króna bætur af því hún var ekki ráðin þjóðgarðsvörður.
Ummælin um Pál og gagnrýni Ólínu á hann víða í bókinni árétta svart/hvíta mynd hennar af mönnum og málefnum. Hún veitist að þeim sem hún telur skuggabaldra en hefur þá til skýjanna sem hún telur snillinga án hæfilegs frama.
Fyrir utan Ólínu sjálfa eru í snillingahópnum Þorvaldur Gylfason prófessor, Jón Þórisson arkitekt og Jóhann Hauksson blaðamaður. Ólína ber einnig blak af Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar-stéttarfélags, og Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur prófessor.
Ólína styður hugmynd Sigurbjargar prófessors um miðlæga opinbera ráðningarþjónustu og -ráðgjöf undir eftirliti þingskipaðrar nefndar. Starfsmenn þjónustunnar ráði í öll embætti og áhrifastöður stjórnsýslunnar. Á þennan veg sé unnt að útiloka stjórnmálamenn frá mannaráðningum.
Þegar 15 dómarar voru skipaðir í landsrétt um árið var stuðst við óhlutdrægasta ráðningarferli sem hannað hafði verið hér. Skapa átti jafnvægi á milli þriggja arma ríkisvaldsins: dómsvalds, löggjafarvalds og framkvæmdavalds. Farið var eftir leikreglunum en ferlið var misheppnað og dýrkeypt. Dómsvaldinu er enn mikið í mun að sanna að það sé fremst meðal jafningja.
Miðlæg ráðningarstofa ríkisins bindur ekki enda á þrætur vegna opinberra mannaráðninga. Bók Ólínu sannar hvað seilast má langt til að réttlæta eigin málstað þegar gert er upp á milli manna.
Ólína skrifar sig frá sársaukanum með því að tala illa um skuggabaldra og styðst þar við galdrafræði. Þetta er nýstárleg aðferð.
Hún rifjar upp að á liðnu sumri var lagt að jöfnu skatta- og gjaldeyrismál gegn Halldóri Laxness rithöfundi í kringum 1950 sem lauk með greiðslu sekta og að Þorvaldur Gylfason prófessor yrði ekki ritstjóri norræns tímarits um efnahagsmál. Var fullyrt að íslensk stjórnvöld hefðu viljað hindra sölu bóka Laxness í Bandaríkjunum í lok fimmta áratugarins. Þetta á ekki við nein rök að styðjast.
Mér var falið sem embættismanni í forsætisráðuneytinu að ræða við Halldór Laxness um hvort hann vildi verða fulltrúi Íslands í Bandaríkjunum árið 1976 þegar minnst yrði 200 ára byltingarafmælis þeirra og flytja erindi um íslenskar bókmenntir. Hitti ég Laxness í Gljúfrasteini 8. maí 1975 og tók hann erindinu vel. Þegar ég hafði samband við hann í síma 29. október 1975 til að fá endanlegt svar hans: „Þá var komið annað hljóð í hann. Laxness taldi litlar líkur á því, að hann gæti farið vestur. Hann hefði verið kynntur vestra með útgáfunni á Sjálfstæðu fólki, sem hefði selst vel. Síðan hefði hann gleymst. Hann sæi sér ekki mikinn hag í því að ferðast um, þar sem enginn hefði áhuga á að lesa bækur hans. Öðru máli gegndi um lönd, þar sem hann ætti stóra lesendahópa. Fór Laxness hvergi.“ Tilvitnunin er í minnisblað sem ég skráði og er í skjalasafni forsætisráðuneytisins.
Vonbrigði Þorvaldar Gylfasonar yfir að verða ekki ritstjóri þessa norræna tímarits eins og hann vænti eftir samtal við samstarfsmann í Stokkhólmi virðist mega rekja til þess að væntingar prófessorsins voru reistar á sniðgöngu við norrænar ráðningarreglur.
Miðað við sjónarmið Ólínu í öðrum tilvikum hefði mátt ætla að hún nálgaðist mál Þorvalds úr allt annarri átt en hún gerir. Þá hefði högg á Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að vísu geigað.
Einnig kemur á óvart að Ólína taki ekki upp hanskann fyrir þá sem Sólveig Anna Jónsdóttir rak af skrifstofu Eflingar við valdatöku hennar.
Bók dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur einkennist þannig af þverstæðum. Fullyrðingarnar um hve illa sé staðið að ráðningu til opinberra starfa eru ótrúverðugar þegar litið er til þess hæfa fólks sem sinnir slíkum störfum. Er undarlegt að samtök þess sitji þegjandi undir því sem Ólína hefur fram að færa.
Bók Ólínu er ófrumleg. Hún er skrifuð af sjónarhóli sem leiðir til fyrirsjáanlegrar en rangrar niðurstöðu.