Sneypuför í landsdóm
Morgunblaðið, föstudagur, 25. ágðust 2023.
Landsdómsmálið – stjórnmálarefjar og lagaklækir ★★★★½ Eftir Hannes Hólmstein Gissurarson. Innbundin 366 bls., myndskreytt, heimilda- og nafnaskrá. Almenna bókafélagið, Reykjavík 2022.
Því má velta fyrir sér hvernig umræður hefðu orðið hér um hrunið ef alþingi hefði látið nægja að setja neyðarlög til að bregðast við fjárhagslega áfallinu en hvorki samþykkt að skipaður skyldi sérstakur saksóknari né sett á laggirnar rannsóknarnefnd alþingis. Ýtt hefði verið undir tortryggni með ásökunum um að öllum steinum hefði ekki verið velt í anda umræðnanna vegna sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars 2022.Þegar litið er nú til rannsókna og málaferla eftir hrun snýr gagnrýni frekar að því að of hart hafi verið gengið fram en hitt. Frá hruni er þó ekki liðinn nógu langur tími fyrir hlutlægt mat á öllu sem því tengdist. Í bókinni Landsdómsmálið – stjórnmálarefjar og lagaklækir bregður Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrv. prófessor, ljósi á einn óvandaðasta eftirleik hrunsins tíu árum eftir að honum lauk.
Bókin skiptist í 14 kafla og innan hvers kafla eru margar millifyrirsagnir. Heimildaskrá bókarinnar er 17 blaðsíður og er víða leitað fanga. Þá er nafnaskrá og útdráttur á ensku. Bókin er myndskreytt og prentuð á góðan pappír. Prófarkalestur er vandaður og vald höfundar á íslenskri tungu mikið auk þess sem hann færir orðum sínum oft stað með skírskotun til sögu og bókmennta.
Höfundur leggur sig fram um að auðvelda lesendum að átta sig á meginatriðum þess sem um er rætt með útdrætti í upphafi og helstu niðurstöðum í lokin. Hannes Hólmsteinn beitir aðferðum stjórnmálafræðinnar við skrif sín samhliða því sem hann rekur fjölmarga lögfræðilega þræði til enda. Hann er verulega gagnrýninn á aðild margra einstaklinga að viðfangsefninu og færir rök fyrir að þeir hefðu átt að lýsa sig vanhæfa til aðildar að því. Hver einstaklingur fyrir sig leggur mat á hæfi sitt. Vegna kynna þess sem þetta ritar af mörgum sem við sögu koma er hér látið við það sitja að stikla á stóru varðandi efnisþætti landsdómsmálsins sjálfs.
Í fyrsta sinn í sögunni ákærði meirihluti alþingis ráðherra og landsdómur var kallaður saman. Þetta gerðist eftir að rannsóknarnefnd alþingis „hafði starfað í sextán mánuði, með fjölda starfsfólks, ríflegar fjárveitingar og nánast ótakmarkaðar rannsóknarheimildir. En hún hafði ekki fundið eitt einasta brot í venjulegum skilningi hjá þeim sjö mönnum, sem hún sakaði um vanrækslu“ (109).
„Vanræksla“ í lögum um rannsóknarnefndina var skilgreind á annan veg en gert var fyrir hrun. Nefndin leit því til athafna eða athafnaleysis fyrir hrun með afturvirkum gleraugum, það er í ljósi þess sem gerðist en enginn vissi þó að myndi gerast.
Þegar rannsóknarnefndin skilaði skýrslu sinni 12. apríl árið 2010 sat við völd fyrsta „hreina“ vinstri ríkisstjórnin, stjórn Samfylkingar og Vinstri-grænna (VG).
Áður en skýrslan lá fyrir hafði alþingi samþykkt að hún yrði ekki tekin til meðferðar í forsætisnefnd þingsins heldur sérstakri níu manna þingnefnd. Starfaði nefndin í þrjá mánuði áður en rannsóknarnefndin lauk störfum.
Lögfræðingurinn Atli Gíslason (VG) var formaður sérstöku þingmannanefndarinnar.
Þegar rannsóknarnefndin hafði skilað af sér veittu löglærðir höfundar hennar, Páll Hreinsson dómari og Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður alþingis, þingmannanefndinni enga leiðbeiningu um framhaldið. Þeir margítrekuðu að skýrslan væri ekki niðurstaða sakamálarannsóknar, ásakanir í henni um vanrækslu væru með tilvísun til laga um nefndina en ekki til þeirra laga sem voru í gildi fyrir bankahrunið. Jónatan Þórmundsson, fyrrv. refsiréttarprófessor, veitti þingmannanefndinni hins vegar „sérfræðiaðstoð í tengslum við mögulega ráðherraábyrgð“ (139). Auk þess voru kallaðir til fleiri lögfræðilegir ráðgjafar.
Atli Gíslason vildi ákæra fjóra fyrrv. ráðherra, tvo úr Sjálfstæðisflokki, Geir H. Haarde og Árna Mathiesen, og tvo úr Samfylkingu, Björgvin G. Sigurðsson og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Rannsóknarnefndin taldi karlmennina þrjá hafa sýnt vanrækslu en Atli sagði að Ingibjörg Sólrún hefði sem formaður Samfylkingarinnar og ráðherra fengið sambærilega vitneskju um mál og Geir H. Haarde forsætisráðherra. Eins og áður sagði var vanrækslan metin með afturvirku lagaákvæði.
Í álitsgerð til þingmannanefndarinnar lagði Jónatan Þórmundsson til að hún skoðaði að ákæra vegna þess að ekki hefði verið farið eftir 17. gr. stjórnarskrárinnar um að halda skyldi ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, vandi bankanna hefði ekki verið settur á dagskrá ríkisstjórnarfunda. Notaði Jónatan meðal annars sem rök að venja við skráningu fundargerða ríkisstjórnar gæti ekki þokað stjórnarskrárákvæðinu til hliðar. Hannes Hólmsteinn færir skýr rök fyrir því að þessi túlkun Jónatans standist ekki (155).
Spurningu um umræðu um vanda bankanna í ríkisstjórn hafði rannsóknarnefndin lagt fyrir Geir H. Haarde sem gerði henni grein fyrir málsmeðferð sinni, tók nefndin „greinilega gild andsvör Geirs H. Haarde við athugasemd hennar um þetta mál því að hún gerði það ekki að niðurstöðu um vanrækslu“ (154).
Bogi Nilsson, ríkissaksóknari 1997 til 2007, skar sig úr hópi ráðgjafa þingmannanefndarinnar, með því að halda fast við það grundvallaratriði vandaðs réttarfars að venjulega væri mál rannsakað og síðan metið hvort rannsóknin leiddi í ljós hvort meiri líkur en minni væru á sakfellingu í málinu. Með því að alþingi ákærði ráðherra fyrir landsdómi yrði fyrst tekin ákvörðun um málshöfðun en málið síðan rannsakað (145). Eftir að Bogi skilaði áliti sínu 4. júní 2010 var ekki frekar til hans leitað af þingmannanefndinni. „Niðurstaða landsdóms var efnislega hin sama og Boga Nilssonar … eina sérfræðingsins, sem nefndin hafði kvatt til og ekki tekið mark á“ (275).
Þingmannanefndin skilaði 379 bls. skýrslu 11. september 2010. Þar var ekki um neina sjálfstæða rannsókn að ræða heldur endursögn á og útdrátt úr skýrslu rannsóknarnefndar alþingis með þremur frávikum frá meirihluta þingmannanefndarinnar. Þá óskaði þingmannanefndin eftir greiningu á skýrslu rannsóknarnefndarinnar „frá kynjafræðilegu sjónarhorni“ (162).
Þegar hér var komið sögu í september 2010 hófst reiptog á alþingi um hverja skyldi ákæra. Öllum virtist sama um hvort meiri líkur en minni væru á sakfellingu í málinu. Þingmannanefndin þríklofnaði, fimm nefndarmenn í VG, Framsóknarflokknum og Hreyfingunni vildu ákæra ráðherrana fjóra sem að ofan eru nefndir, tveir þingmenn Samfylkingar vildu ákæra þrjá (sleppa Björgvini G. Sigurðssyni) og tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins töldu ekki ástæðu til að ákæra neinn.
Hannes Hólmsteinn lýsir baktjaldamakki við afgreiðslu ákærutillagnanna á alþingi síðari hluta september 2010. Allt lék á reiðiskjálfi innan og utan þingflokks Samfylkingarinnar þegar hindrað var að Ingibjörg Sólrún og Björgvin G. Sigurðsson yrðu ákærð. Fór svo að 28. september 2010 ákvað meirihluti alþingis að ákæra einn mann, Geir H. Haarde forsætisráðherra. Frásögnin í bókinni sannar pólitískt eðli ákærunnar, með henni átti að kveða Sjálfstæðisflokkinn endanlega í kútinn.
Þegar hér er komið sögu á bls. 190 í bókinni hefst lýsing á landsdómi og réttarhöldunum sjálfum. Landsdómsmálið var þingfest 7. júní 2011 og lýsti Geir H. Haarde sig saklausan af öllum ákæruatriðum. Aðalmeðferð málsins hófst 5. mars 2012 og lauk málflutningi 16. mars 2012. Dómur var kveðinn upp 23. apríl 2012.
Dómurinn vísaði frá tveimur af fimm sakarefnum sem sótt voru í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis og sýknaði Geir af þeim þremur sem þá stóðu eftir. Ákæruatriðin voru heimasmíðuð af þingmannanefndinni og ráðgjöfum hennar en engin tillaga um saksókn kom frá rannsóknarnefnd alþingis.
Áður er hér minnst á tillögu Jónatans Þórmundssonar um að ákæra Geir fyrir að leggja ekki mikilvæg stjórnarmálefni fyrir ríkisstjórnina í samræmi við 17. gr. stjórnarskrárinnar. Meirihluti landsdóms (níu dómarar af 15) ákvað að sakfella Geir samkvæmt þessum ákærulið án refsingar og var kostnaður lagður á ríkissjóð.
Eftir að hafa komið að því að semja reglur um skráningu fundargerða ríkisstjórnarinnar tæpum 40 árum áður en þessi dómur var felldur og hafa lagt fram mál innan ramma reglnanna í tæp 13 ár sem ráðherra kom þessi niðurstaða meirihluta landsdóms þeim sem þetta ritar algjörlega í opna skjöldu.
Tilgangur fundargerða ríkisstjórnarinnar var að festa á blað niðurstöðu um mál, borið upp af viðkomandi ráðherra, að meginreglu með vísan til framlagðra gagna. Um önnur mál var rætt undir liðnum „önnur mál“. Þetta skýrði Geir H. Haarde fyrir rannsóknarnefnd alþingis og tók hún skýringuna góða og gilda.
Í landsdómsmálinu var það notað gegn Geir að „yfirvofandi hætta á fjármálaáfalli“ hefði ekki verið rædd á ráðherrafundum eða „sú mikilvæga stefnubreyting ríkisins að hverfa frá að standa á bak við bankana“ (296).
Björgvin G. Sigurðsson var bankamálaráðherra árin 2007 til 2008. Það var á hans ábyrgð að leggja minnisblað um málefni banka fyrir ríkisstjórn. Mikil þverstæða fólst í því við smíði ákæru alþingis að fella Björgvin G. fyrstan af ákærulista en bæta við ákvæði um skyldu til að bera bankamál upp í ríkisstjórn.
Í stjórnarskrárákvæðinu sem meirihluti landsdóms túlkaði til sakfellingar segir að halda skuli ráðherrafundi „um nýmæli í lögum og um mikilvæg stjórnarmálefni“. Forvitnilegt væri að vita hvort málsmeðferð hefði breyst í ríkisstjórn eftir að landsdómur túlkaði þetta stjórnarskrárákvæði sem snýr að þeim tíma þegar tryggja átti að ráðherra færi ekki með önnur mál á fund konungs en þau sem rædd hefðu verið á ráðherrafundi.
Lestur bókarinnar vekur áleitnar spurningar um hvers vegna dómarar sem sátu í landsdómi og sérfræðingar í sakamálarétti hafa ekki brotið málsmeðferðina til mergjar á grunni lögfræðilegra sjónarmiða. Varla dettur nokkrum í hug að þetta ferli verði endurtekið?
Nú hefur stjórnmálafræðingur brugðið mælistiku sinni á málið og þá sem að því komu. Að nokkru leyti færist höfundur of mikið í fang með breiðu sjónarhorni á viðfangsefni sitt í heild. Bókin er um miklu meira en landsdómsmálið. Hún er tilraun til að varpa ljósi á hrunmálið allt með úttekt á persónum og leikendum sem tengjast uppgjöri á því, uppgjöri sem náði hámarki í landsdómsmálinu. Sneypuför sem sagt er að kostað hafi skattgreiðendur um einn milljarð króna. „Sjaldan hafa jafnmargir Íslendingar þurft að greiða jafnmikið fyrir jafnlítið,“ eru lokaorðin.