19.11.2022

Skýrslulekinn, RÚV og orðsporsáhættan

Morgunblaðið, laugardag 19. nóvember 2022,

Í viku­lok­in er gott að átta sig á eft­ir­leik sölu rík­is­ins á 22,5% hlut í Íslands­banka 22. mars 2022. Hiti hljóp enn einu sinni í umræðurn­ar.

Í apríl óskaði Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, eft­ir að Rík­is­end­ur­skoðun kannaði sölu­ferlið. Var út­tekt­ar­skýrslu vænst í júní 2022, fyr­ir sum­ar­hlé alþing­is. Þegar þau tíma­mörk stóðust ekki var sagt að þing yrði kallað sam­an sér­stak­lega birt­ist skýrsl­an. Það var þó ekki fyrr en sunnu­dag­inn 13. nóv­em­ber að skýrsl­an var af­hent nefnd­ar­mönn­um í stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd þings­ins (SEN) und­ir for­mennsku Þór­unn­ar Svein­bjarn­ar­dótt­ur, Sam­fylk­ingu.

Snar­lega var skýrsl­unni lekið til frétta­stofu Rík­is­út­varps­ins. Birt­ust frétt­ir um niður­stöðuna áður en rík­is­end­ur­skoðandi hitti nefnd­ina á form­leg­um fundi síðdeg­is mánu­dag­inn 14. nóv­em­ber. Taldi hann von­svik­inn „nokkuð ör­uggt að henni hafi verið lekið af nefnd­ar­manni stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd­ar“.

Venju­lega tek­ur þing­nefnd skýrslu sem henni berst til umræðu og skoðunar, kall­ar til sín sér­fræðinga og ræðir málið áður en hún skil­ar áliti. Er síðan efnt til þingum­ræðna um nefndarálitið.

Um banka­skýrsl­una fór hins veg­ar fram sér­stök umræða á þingi þriðju­dag­inn 15. nóv­em­ber og var Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir máls­hefj­andi. Stóð umræðan frá 14.33 til 23.00, var fjár­mála- og efna­hags­ráðherra til svara.

Full­trú­ar banka­sýsl­unn­ar veittu þing­mönn­um í SEN upp­lýs­ing­ar á fundi miðviku­dag­inn 16. nóv­em­ber. Að kvöldi þess dags sagði Hild­ur Sverr­is­dótt­ir, Sjálf­stæðis­flokki, á Face­book að SEN yrði hér eft­ir að taka mið af nýj­um upp­lýs­ing­um frá Banka­sýsl­unni í meðferð sinni á mál­inu.

Fyrst­ur til að gera at­huga­semd á þess­um þræði Hild­ar var Berg­steinn Sig­urðsson, fréttamaður rík­is­út­varps­ins (RÚV) og stjórn­andi Kast­ljóss. Hann spurði Hildi: „Þarf þá, að þínu mati, að setja á lagg­irn­ar sér­staka rann­sókn­ar­nefnd til að skera úr um málið?“ Hild­ur sagðist ekki hafa séð neitt sem kallaði á slíka nefnd.

Spurn­ing Berg­steins er enduróm­ur á af­stöðu stjórn­ar­and­stöðunn­ar til banka­skýrsl­unn­ar. Hún gjald­fell­ir skýrsl­una með tali um rann­sókn­ar­nefnd af því að Rík­is­end­ur­skoðun skap­ar henni ekki þá fót­festu sem hún vill.

Spurn­ing Berg­steins bein­ir jafn­framt at­hygli að hlut Kast­ljóss og frétta­manna í at­b­urðarás vik­unn­ar.

Strax að kvöldi mánu­dags 14. nóv­em­ber gaf Sig­ríður Dögg Auðuns­dótt­ir tón­inn. Hann féll al­gjör­lega að stjórn­ar­and­stöðunni. Margt sem frétta­stof­an hef­ur sagt vegna máls­ins lík­ist upp­lýs­inga­föls­un­um. Spurt er eins og fyr­ir liggi í skýrslu Rík­is­end­ur­skoðunar ásak­an­ir um lög­brot. Það er rangt.

Sá sem hlust­ar og treyst­ir frétta­mönn­un­um get­ur varla dregið aðra álykt­un af kröf­um þeirra um að Bjarni Bene­dikts­son „axli ábyrgð“ og segi af sér vegna lög­brots.

Þegar Bjarni ræddi við Sig­ríði Dögg og sagðist axla póli­tíska ábyrgð á mál­inu blés hún á það. Hún vildi koma allt ann­arri skoðun að hjá hlust­end­um. Hún væri að spyrja um ann­ars kon­ar ábyrgð.

Berg­steinn Sig­urðsson stjórnaði Kast­ljósi að kvöldi þriðju­dags 15. nóv­em­ber og ræddi við Ingi­björgu Ísak­sen, full­trúa Fram­sókn­ar­flokks­ins í SEN. Berg­steinn lét að því liggja að lög hefðu verið brot­in. Ingi­björg sagðist ekki sjá það. Þá spurði Berg­steinn hvort hún gæti full­yrt það. Hann sáði vafa í huga áhorf­enda.

Mesta undr­un yfir fram­göngu frétta­manna RÚV vakti þó Sig­ríður Dögg í lok sam­tals henn­ar við Bjarna. Hún sagðist hafa orðið að ganga að því „skil­yrði“ að ræða ein við hann í stað þess að hann stæði and­spæn­is Kristrúnu Frosta­dótt­ur, for­manni Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Bjarni brosti og sagði Sig­ríði Dögg fara með rangt mál um aðdrag­anda sam­tals þeirra. Síðan birti Hers­ir Aron Ólafs­son, aðstoðarmaður Bjarna, lýs­ingu á sam­skipt­um sín­um við Sig­ríði Dögg sem stangaðist á við það sem hún sagði í út­send­ing­unni þegar hún benti reiðilega á Bjarna.

Bjarni sagðist ætíð reiðubú­inn að ræða málið við stjórn­ar­and­stöðuna, hann mundi gera það dag­inn eft­ir á þingi eins og hann gerði á þriðju­dag­inn í átta og hálf­an tíma. Nýi formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar minnti hins veg­ar á Jón sterka og sagði Bjarna ekki hafa „þorað“ í sig í Kast­ljósi.

Ráðherr­ar og þing­menn stjórn­ar­flokk­anna segja að þeim sé kapps­mál að dregið verði úr því sem Rík­is­end­ur­skoðun kall­ar „orðsporsáhættu“ vegna van­mats Banka­sýsl­unn­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins og þing­nefnda í aðdrag­anda banka­söl­unn­ar.

Online-repuSagt er að alþjóðleg rann­sókn­ar­fyr­ir­tæki meti nú orðsporsáhættu sem al­var­leg­ustu áhættu í rekstri fyr­ir­tækja – al­var­legri ógn en t.d. tölvu­inn­brot og þjófnað á upp­lýs­ing­um, fjand­sam­leg­ar breyt­ing­ar á lagaum­hverfi, nátt­úru­ham­far­ir og hryðju­verk.

Af þessu má ráða að mikið er í húfi vegna orðspors­ins. Er ekki að efa að í áliti SEN verði tekið á þess­um þætti sem öðrum. Lík­legt er að inn­an SEN mynd­ist meiri­hluti stjórn­arsinna og einn eða fleiri minni­hlut­ar stjórn­ar­and­stæðinga sem ef til vill ná sam­an um það eitt að skipuð sé rann­sókn­ar­nefnd! Stjórn­ar­andstaðan vill að allt verði gert til að hindra efn­is­leg­ar umræður og grein­ingu á því sem nú hef­ur verið kynnt.

Hvernig ætl­ar stjórn­skip­un­ar- og eft­ir­lits­nefnd að end­ur­reisa orðspor sitt eft­ir lek­ann úr nefnd­inni?

Hvernig ætl­ar Rík­is­út­varpið að end­ur­reisa orðspor sitt eft­ir fram­göngu frétta­manna vegna banka­skýrsl­unn­ar?

Nú í viku­lok­in er brýn­ast að þess­um spurn­ing­um sé svarað. Vopn­in sner­ust ein­fald­lega í hönd­um frétta­manna RÚV og stjórn­ar­and­stæðinga. Þeim ætti að vera kapps­mál að bjarga eig­in orðspori.