Skýrslulekinn, RÚV og orðsporsáhættan
Morgunblaðið, laugardag 19. nóvember 2022,
Í vikulokin er gott að átta sig á eftirleik sölu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka 22. mars 2022. Hiti hljóp enn einu sinni í umræðurnar.
Í apríl óskaði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir að Ríkisendurskoðun kannaði söluferlið. Var úttektarskýrslu vænst í júní 2022, fyrir sumarhlé alþingis. Þegar þau tímamörk stóðust ekki var sagt að þing yrði kallað saman sérstaklega birtist skýrslan. Það var þó ekki fyrr en sunnudaginn 13. nóvember að skýrslan var afhent nefndarmönnum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins (SEN) undir formennsku Þórunnar Sveinbjarnardóttur, Samfylkingu.
Snarlega var skýrslunni lekið til fréttastofu Ríkisútvarpsins. Birtust fréttir um niðurstöðuna áður en ríkisendurskoðandi hitti nefndina á formlegum fundi síðdegis mánudaginn 14. nóvember. Taldi hann vonsvikinn „nokkuð öruggt að henni hafi verið lekið af nefndarmanni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar“.
Venjulega tekur þingnefnd skýrslu sem henni berst til umræðu og skoðunar, kallar til sín sérfræðinga og ræðir málið áður en hún skilar áliti. Er síðan efnt til þingumræðna um nefndarálitið.
Um bankaskýrsluna fór hins vegar fram sérstök umræða á þingi þriðjudaginn 15. nóvember og var Þórunn Sveinbjarnardóttir málshefjandi. Stóð umræðan frá 14.33 til 23.00, var fjármála- og efnahagsráðherra til svara.
Fulltrúar bankasýslunnar veittu þingmönnum í SEN upplýsingar á fundi miðvikudaginn 16. nóvember. Að kvöldi þess dags sagði Hildur Sverrisdóttir, Sjálfstæðisflokki, á Facebook að SEN yrði hér eftir að taka mið af nýjum upplýsingum frá Bankasýslunni í meðferð sinni á málinu.
Fyrstur til að gera athugasemd á þessum þræði Hildar var Bergsteinn Sigurðsson, fréttamaður ríkisútvarpsins (RÚV) og stjórnandi Kastljóss. Hann spurði Hildi: „Þarf þá, að þínu mati, að setja á laggirnar sérstaka rannsóknarnefnd til að skera úr um málið?“ Hildur sagðist ekki hafa séð neitt sem kallaði á slíka nefnd.
Spurning Bergsteins er endurómur á afstöðu stjórnarandstöðunnar til bankaskýrslunnar. Hún gjaldfellir skýrsluna með tali um rannsóknarnefnd af því að Ríkisendurskoðun skapar henni ekki þá fótfestu sem hún vill.
Spurning Bergsteins beinir jafnframt athygli að hlut Kastljóss og fréttamanna í atburðarás vikunnar.
Strax að kvöldi mánudags 14. nóvember gaf Sigríður Dögg Auðunsdóttir tóninn. Hann féll algjörlega að stjórnarandstöðunni. Margt sem fréttastofan hefur sagt vegna málsins líkist upplýsingafölsunum. Spurt er eins og fyrir liggi í skýrslu Ríkisendurskoðunar ásakanir um lögbrot. Það er rangt.
Sá sem hlustar og treystir fréttamönnunum getur varla dregið aðra ályktun af kröfum þeirra um að Bjarni Benediktsson „axli ábyrgð“ og segi af sér vegna lögbrots.
Þegar Bjarni ræddi við Sigríði Dögg og sagðist axla pólitíska ábyrgð á málinu blés hún á það. Hún vildi koma allt annarri skoðun að hjá hlustendum. Hún væri að spyrja um annars konar ábyrgð.
Bergsteinn Sigurðsson stjórnaði Kastljósi að kvöldi þriðjudags 15. nóvember og ræddi við Ingibjörgu Ísaksen, fulltrúa Framsóknarflokksins í SEN. Bergsteinn lét að því liggja að lög hefðu verið brotin. Ingibjörg sagðist ekki sjá það. Þá spurði Bergsteinn hvort hún gæti fullyrt það. Hann sáði vafa í huga áhorfenda.
Mesta undrun yfir framgöngu fréttamanna RÚV vakti þó Sigríður Dögg í lok samtals hennar við Bjarna. Hún sagðist hafa orðið að ganga að því „skilyrði“ að ræða ein við hann í stað þess að hann stæði andspænis Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar.
Bjarni brosti og sagði Sigríði Dögg fara með rangt mál um aðdraganda samtals þeirra. Síðan birti Hersir Aron Ólafsson, aðstoðarmaður Bjarna, lýsingu á samskiptum sínum við Sigríði Dögg sem stangaðist á við það sem hún sagði í útsendingunni þegar hún benti reiðilega á Bjarna.
Bjarni sagðist ætíð reiðubúinn að ræða málið við stjórnarandstöðuna, hann mundi gera það daginn eftir á þingi eins og hann gerði á þriðjudaginn í átta og hálfan tíma. Nýi formaður Samfylkingarinnar minnti hins vegar á Jón sterka og sagði Bjarna ekki hafa „þorað“ í sig í Kastljósi.
Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna segja að þeim sé
kappsmál að dregið verði úr því sem Ríkisendurskoðun kallar
„orðsporsáhættu“ vegna vanmats Bankasýslunnar, fjármála- og
efnahagsráðuneytisins og þingnefnda í aðdraganda bankasölunnar.
Sagt er að alþjóðleg rannsóknarfyrirtæki meti nú orðsporsáhættu
sem alvarlegustu áhættu í rekstri fyrirtækja – alvarlegri ógn en
t.d. tölvuinnbrot og þjófnað á upplýsingum, fjandsamlegar
breytingar á lagaumhverfi, náttúruhamfarir og hryðjuverk.
Af þessu má ráða að mikið er í húfi vegna orðsporsins. Er ekki að efa að í áliti SEN verði tekið á þessum þætti sem öðrum. Líklegt er að innan SEN myndist meirihluti stjórnarsinna og einn eða fleiri minnihlutar stjórnarandstæðinga sem ef til vill ná saman um það eitt að skipuð sé rannsóknarnefnd! Stjórnarandstaðan vill að allt verði gert til að hindra efnislegar umræður og greiningu á því sem nú hefur verið kynnt.
Hvernig ætlar stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að endurreisa orðspor sitt eftir lekann úr nefndinni?
Hvernig ætlar Ríkisútvarpið að endurreisa orðspor sitt eftir framgöngu fréttamanna vegna bankaskýrslunnar?
Nú í vikulokin er brýnast að þessum spurningum sé svarað. Vopnin snerust einfaldlega í höndum fréttamanna RÚV og stjórnarandstæðinga. Þeim ætti að vera kappsmál að bjarga eigin orðspori.