Skyndiupphlaup vegna hvala
Morgunblaðið, laugardag 24. júní 2923.
Þingmaðurinn sagði þriðjudaginn 20. júní á Facebook að til að beina athygli þjóðarinnar frá ráðherraskiptunum og fylgistapi sameinuðust sjálfstæðismenn „í að velta sér upp úr rasíska drullupollinum í von um að geta kroppað inn einhver prósent frá systurflokkum sínum í útlendingamálum, Miðflokki og Flokki fólksins“.
Jódís í VG kallar ráðherraskiptin „darraðardans“ eins og einhver æsingur hafi orðið í kringum þau. Svo var ekki. Þau fóru skipulega og friðsamlega fram. Jón Gunnarsson, fráfarandi dómsmálaráðherra, sagði hins vegar hér í blaðinu 20. júní að ríkisstjórnarsamstarfið gæti ekki haldið áfram eins og það endaði í vor. Það reyndist VG „erfitt“ að sitja í ríkisstjórn þegar huga þyrfti að öryggis- og varnarmálum, mikilvægum aðgerðum í orkumálum og gera breytingar á útlendingamálum.
Jón vakti þarna máls á alkunnum ágreiningsefnum milli Sjálfstæðisflokksins og VG sem tekist hafði að setja í samstarfsfarveg við stjórnarmyndunina. Öll mál hafa hins vegar sín þolmörk. Um það er ástæðulaust að þegja.
Hvalbátur á heimleið með feng sinn (mynd: mbl.is),
Hvalamálið er eitt þessara mála. Um veiðar á hvölum er ekki aðeins deilt milli flokka heldur einnig innan þeirra. Reynslan sýnir að þar er ekki síður nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar en til dæmis í útlendingamálum.
Þriðjudaginn 20. júní, daginn áður en hvalveiðar sumarsins skyldu hefjast, lagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra fram minnisblað í ríkisstjórn þar sem vísað var í fagráð um velferð dýra sem taldi að „við veiðar á stórhvelum [væri] ekki hægt að uppfylla þau skilyrði sem nauðsynleg eru til að tryggja velferð dýra við aflífun“. Aðferðin við veiðar á stórhvelum „samræmist ekki ákvæðum laga nr. 55/2013 um velferð dýra“, segir fagráðið. Eftir framlagningu minnisblaðsins tók ráðherrann af skarið um að „stöðva hvalveiðar tímabundið“. Er bannið tímabundið að sögn til að gætt sé meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ráðherrann vill veiðarnar feigar.
Stöðvuð er veiði á einni tegund hvala, langreyði. Í svari við fyrirspurn á alþingi 5. júní 2023 sagði Svandís Svavarsdóttir að ráðherrar gætu „einungis framkvæmt það sem löggjafarvaldið hefur gefið þeim vald með lögum til að gera og samkvæmt ráðgjöf sem lögfræðingar matvælaráðuneytisins hafa gefið mér er ekki að finna skýra lagastoð fyrir stjórnsýsluviðurlögum, svo sem afturköllun leyfis að svo búnu.“
Ráðherranum og ráðgjöfunum hefur nú snúist hugur þótt lagaramminn sé sá sami og hann var fyrir nokkrum vikum. Hvað breyttist? Fagráð sagði að gamalreynd aðferð við hvalveiðar sem batnað hefur í áranna rás jafngilti dýraníði. Ráðherranum og ráðgjöfunum þótti álitið skyndilega veita þeim eins konar neyðarréttarheimild. Kemur stjórnsýsluleg sviðsetning í stað lagaheimildar?
Ráðherrann vitnar í meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Hvað með rannsóknarregluna í 10. grein sömu laga? Af hæstaréttardómum má ráða að virðingarleysi ráðherra á rannsóknarskyldunni sé afdrifaríkt.
Í greininni segir: „Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“ Svandís fékk álit fagráðsins 19. júní og 20. júní ákveður hún að stöðva veiðar sem allir viðkomandi töldu að hæfust 21. júní. Veiðarnar höfðu verið undirbúnar í trausti þeirra orða ráðherrans að þær yrðu ekki stöðvaðar án þess að alþingi samþykkti lagabreytingu.
Fjöldi fólks hefur búið sig undir hvalveiðar og allt sem þeim tengist í sumar. Hefði ráðherrann átt að skoða betur afleiðingar ákvörðunar sinnar. Það mátti meðal annars leggja mat á hvaða kostnaður kynni að leggjast á ríkissjóð, tapaði hann skaðabótamáli vegna stöðvunarinnar. Óðagotið eitt við stjórnsýsluákvörðunina er ámælisvert fyrir utan að ekki hefur verið bent á neina ótvíræða lagaheimild fyrir henni.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) sögðu ljóst að deilan um veiðar á langreyðum snerist ekki lengur um hvað væri forsvaranlegt út frá sjálfbærri nýtingu, heldur hvað fólki fyndist.
Í febrúar 2011 gustaði mjög um Svandísi Svavarsdóttur, þáv. umhverfisráðherra, þegar hún tapaði máli í hæstarétti eftir að hafa neitað að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps. Hún taldi Landsvirkjun hafa haft óeðlileg áhrif á skipulagsvinnuna með greiðslum á hluta kostnaðar við hana. Þá sagðist Svandís ekki þurfa að axla neina ábyrgð á lögbroti af því að allt sem hún gerði væri pólitík, hún væri í stjórnmálum og hefði hagsmuni umhverfis og náttúrunnar að leiðarljósi í ákvörðunum sínum. Hvorki í stjórnarskrá né í lögum er ráðherra veitt slíkt svigrúm.
Sigurður Ingi Jóhannsson sagði á alþingi 15. febrúar 2011 að dómar héraðsdóms og hæstaréttar sýndu að Svandís hefði ekki farið að lögum. Það hefði ekkert með umhverfismál að gera. „Ráðherra braut á stjórnskipulegum rétti sveitarfélaga varðandi skipulagsmál,“ sagði Sigurður Ingi og spurði hvort Svandís ætlaði að segja af sér.
Ráðherrar hafa áður tekið einkennilegar ákvarðanir vegna hvala. Þetta skyndiupphlaup hefur þó sérstöðu vegna lögleysunnar.