3.12.2019

Skráning á viðkvæmu efni - ævisaga Halldórs

Umsögn í Morgunblaðinu 2. des. 2019 um bók Guðjóns Friðrikssonar

Halldór Ásgrímsson – ævisaga

Eft­ir Guðjón Friðriks­son. Mál og menn­ing, 2019. Innb., 668 bls.
Hall­dór Ásgríms­son fædd­ist 8. sept­em­ber 1947 og var því 67 ára að aldri þegar hann andaðist af völd­um hjarta­áfalls 18. maí 2015.

Eft­ir nám í Sam­vinnu­skól­an­um hlaut Hall­dór lög­gild­ingu sem end­ur­skoðandi árið 1970. Síðan stundaði hann fram­halds­nám við versl­un­ar­há­skól­ana í Björg­vin og Kaup­manna­höfn árin 1971-1973. Eft­ir heim­komu varð hann lektor við viðskipta­fræðideild Há­skóla Íslands um tveggja ára skeið. Hann bauð sig fram til þings fyr­ir Fram­sókn­ar­flokk­inn í Aust­ur­lands­kjör­dæmi árið 1974 og sat síðan nær óslitið á þingi til árs­ins 2006. Í 19 ár var hann ráðherra, sjáv­ar­út­vegs­ráðherra í átta ár (1983 til 1991), ut­an­rík­is­ráðherra í rúm níu ár (1995 til 2004) og for­sæt­is­ráðherra 2004 til 2006. Starfsævi sinni lauk hann sem fram­kvæmda­stjóri Nor­rænu ráðherra­nefnd­ar­inn­ar (2006 til 2013) með aðset­ur í Kaup­manna­höfn.

Hall­dór var vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins frá 1980 til 1994 og síðan flokks­formaður til 2006. Hann var ávallt kjör­inn á þing fyr­ir Aust­ur­lands­kjör­dæmi nema í síðustu kosn­ing­um sín­um, árið 2003. Þá var hann kjör­inn þingmaður Reykja­vík­ur norður.

GV714UR5SGuðjón Friðriks­son sagn­fræðing­ur skrif­ar ævi­sögu Hall­dórs sem kom út nú í haust, alls 668 bls. með til­vís­un­um, heim­ilda­skrá og nafna­skrá. Bók­in er ríku­lega skreytt mynd­um. Hún skipt­ist í 30 kafla. Að meg­in­hluta er bók­in stjórn­mála­saga síðustu ára­tuga 20. ald­ar og fyrsta ára­tug­ar 21. ald­ar með verk­efni Hall­dórs og gengi Fram­sókn­ar­flokks­ins sem leiðar­hnoðu.

Texti Guðjóns er skýr. Hann fer hefðbundna leið og raðar frá­sögn­inni í tímaröð en brýt­ur hana þó upp með lýs­ingu á einka­hög­um Hall­dórs og fjöl­skyldu hans auk þess sem ein­stök stór mál­efni eru rak­in, hvert í sín­um kafla. Má þar nefna kafl­ana: Kvóta­kerfi og sjáv­ar­út­vegs­mál til 1987, Hval­veiðideil­an, Frá rík­is­af­skipt­um í sjáv­ar­út­vegi til frjáls framsals, Milli­ríkja­deil­ur um út­hafsveiðar, Þró­un­ar­hjálp og um­deild friðargæsla, Ólaf­ur Ragn­ar og Hall­dór, ESB eða ekki? Af­drifa­rík einka­væðing, Kára­hnjúka­virkj­un og Fjarðaál, Her­inn og Írak.

Kafla­heit­in sýna að þarna er gerð grein fyr­ir ýms­um ágrein­ings­mál­um sem eru mörg­um í minni. Í hval­veiðideil­unni var hart tek­ist á við Banda­ríkja­stjórn. Hlypi mönn­um kapp í kinn á þess­um árum létu þeir reiði sína gjarn­an bitna á NATO-aðild­inni og varn­ar­sam­starf­inu. Skoðana­könn­un birt­ist í DV seint í sept­em­ber 1986 og þar kom fram að 61,5% þeirra sem spurðir voru en 82,7% þeirra sem tóku af­stöðu vildu end­ur­skoða varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in vegna hval­veiðimáls­ins. Skömmu síðar beind­ist at­hygl­in þó annað því að í októ­ber 1986 komu Ronald Reag­an Banda­ríkja­for­seti og Mik­haíl Gor­bat­sjov Rúss­lands­for­seti hingað á heims­sögu­leg­an fund.

Guðjón tekst hér á við skrán­ingu á viðkvæmu efni sem stend­ur okk­ur nærri í tíma. Skipt­ir miklu að les­and­inn telji hann ekki draga taum Hall­dórs á kostnað annarra. Skuggi fell­ur al­mennt ekki á sögu­hetj­una. Í garð þeirra sem standa með Hall­dóri í fremstu röð and­ar stund­um köldu frá höf­undi.

Stjórn­mála­menn eru gjarn­an all­ir dregn­ir í sama dilk. Meðal þeirra er þó skýr verka­skipt­ing eins og á öðrum vett­vangi. Við Hall­dór sát­um um ára­tug sam­an í rík­is­stjórn en per­sónu­leg kynni okk­ar voru lít­il. Aldrei skarst í odda milli okk­ar þótt ekki vær­um við sam­mála um allt. Ráðherr­ar sinna hver um sig sín­um mála­flokki og skipi þeir ekki stöðu inn­an flokks síns sem kall­ar á bein sam­skipti við annarra flokka menn við úr­lausn mála eða til að stilla sam­an strengi á milli flokk­anna halda þeir sér við sín mál og vinna að fram­gangi þeirra inn­an rík­is­stjórn­ar, hjá þing­flokk­um stjórn­ar­inn­ar og síðan á vett­vangi alþing­is. Mála­flokk­um okk­ar Hall­dórs var þannig háttað að bein­ir snertiflet­ir voru litl­ir; auk þess var hann ótrú­lega mikið á ferð og flugi sem ut­an­rík­is­ráðherra.

Í bók­inni seg­ir Guðjón rétti­lega frá því að við Guðmund­ur Bjarna­son, þáv. vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, hitt­umst um páska árið 1995 til að ræða hvort flöt­ur væri á stjórn­ar­sam­starfi Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks. Þegar svo var fór málið úr mín­um hönd­um til Davíðs Odds­son­ar og Friðriks Soph­us­son­ar, for­ystu­manna Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Guðjón kem­ur ekki á óvart með lýs­ingu sinni á Hall­dóri sem ráðherra eða af­stöðu hans enda er frá­sögn­in að veru­legu leyti reist á op­in­ber­um heim­ild­um. Um er að ræða end­ur­sögn á at­b­urðarás þeirra stóru mála sem rak­in eru og stuðst við það sem sagt er í blöðum og ræðum. Guðjón virðist ekki hafa rætt við marga þegar hann safnaði efni í bók­ina, hann styðst til dæm­is við minn­ing­ar­grein­ar sam­starfs­manna Hall­dórs í ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu í stað þess að eiga sam­töl við þá. Þó ræddi hann við Árna Pál Árna­son, fyrrv. ráðherra og formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, en vinátta var milli þeirra Hall­dórs. Þá er einnig vitnað í sam­töl við Finn Ing­ólfs­son, sem reynt var að gera að for­manni Fram­sókn­ar­flokks­ins þegar Hall­dór hætti. Óbirt minn­is­blöð Jóns Kristjáns­son­ar, fyrrv. samþings­manns Hall­dórs á Aust­ur­landi, eru meðal heim­ilda og minn­inga­brot Tóm­as­ar Árna­son­ar, sem einnig var þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins á Aust­ur­landi.

Tóm­as Árna­son og Stein­grím­ur Her­manns­son, for­veri Hall­dórs á for­manns­stóli Fram­sókn­ar, saka Hall­dór um und­ir­róður gegn sér. Í báðum til­vik­um hafn­ar Hall­dór því. Má ráða af frá­sögn­inni að ef til vill hafi ákaf­ir stuðnings­menn Hall­dórs gengið lengra í inn­an­flokksátök­um fyr­ir hans hönd en hon­um sjálf­um líkaði. Það ber vott um að hann hafi í stjórn­mál­um al­mennt átt meira und­ir öðrum en ætla mátti af styrk hans í þeim mála­flokk­um þar sem hann tók for­ystu, eins og við inn­leiðingu kvóta­kerf­is­ins eða gerð Kára­hnjúka­virkj­un­ar. Þar hafði hann all­ar staðreynd­ir bet­ur á valdi sínu en aðrir. Ferðir hans um landið og ótelj­andi fund­ir á ní­unda ára­tugn­um vegna kvóta­kerf­is­ins bera vott um mikið bar­áttuþrek. Fyr­ir þá sem vildu koma á kvóta­kerf­inu var Hall­dór lyk­ilmaður. Löng seta hans sem sjáv­ar­út­vegs­ráðherra og öfl­ug mála­fylgja réð úr­slit­um máls­ins á stjórn­mála­vett­vangi.

Þegar bók­in er les­in er ástæða til að undr­ast meira en áður að vinstri­flokk­arn­ir kom­ist upp með að láta eins og öll ábyrgð á kvóta­kerf­inu og ákvörðunum vegna þess hvíli á Sjálf­stæðis­flokkn­um.

„Hall­dór Ásgríms­son var lítið fyr­ir lýðskrum. Hann var þeirr­ar skoðunar að eina ráðið til að vernda fisk­stofn­ana við Ísland og gera veiðarn­ar arðsam­ar væri að fækka fiski­skip­um og gera þau stærri. Frjáls sala á kvóta mundi stuðla að því. Og hún mundi þegar tím­ar liðu fækka fiski­skip­um og þar með smá­bát­um og veita þeim sem eft­ir voru betri mögu­leika,“ seg­ir Guðjón á bls. 275 þegar hann seg­ir frá því að vinstri­stjórn Stein­gríms Her­manns­son­ar, stjórn Fram­sókn­ar­flokks, Alþýðuflokks og Alþýðubanda­lags, beitti sér fyr­ir að sett voru lög sem heim­iluðu framsal kvóta árið 1990.

Átök­un­um inn­an Fram­sókn­ar­flokks­ins vegna aðild­ar­inn­ar að evr­ópska efna­hags­svæðinu og af­stöðunn­ar til ESB er lýst. Hall­dór Ásgríms­son valdi aðra leið í EES-mál­inu árið 1992 en Stein­grím­ur Her­manns­son flokks­formaður, sem hratt viðræðunum um EES af stað fyr­ir Íslands hönd árið 1989 en greiddi síðan at­kvæði á móti aðild­inni. Átök­in inn­an þing­flokks fram­sókn­ar­manna voru svo hat­römm að Stein­grím­ur taldi tíma­bært fyr­ir sig að hætta í stjórn­mál­um vegna þeirra. Guðjón seg­ist hafa hitt hinn gamla leiðtoga Fram­sókn­ar­flokks­ins, Ey­stein Jóns­son, þegar þessi átök um EES stóðu í flokkn­um og hann hafi viknað við þá til­hugs­un að flokk­ur­inn kynni að styðja EES-aðild­ina.

Með þessa for­sögu er illskilj­an­legt hvers vegna Hall­dór gerðist síðan að minnsta kosti óbeinn talsmaður aðild­ar Íslands að Evr­ópu­sam­band­inu. Í bók­inni eru rak­in dæmi um hvernig afstaða hans klauf Fram­sókn­ar­flokk­inn. Hún mótaðist lík­lega af and­rúms­loft­inu í heimi ut­an­rík­is­ráðherra og diplómata því að eng­ir skýr­ir þjóðar­hags­mun­ir mæltu þá frek­ar en nú með ESB-aðild.

Hall­dór varð for­sæt­is­ráðherra síðsum­ars 2004 sam­kvæmt sam­komu­lagi hans og Davíðs Odds­son­ar eft­ir kosn­ing­arn­ar 2003 þegar óánægja kraumaði und­ir niðri í báðum stjórn­ar­flokk­un­um vegna úr­slit­anna. Eft­ir illa út­reið í sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um í maí 2006 og vegna óvæg­inn­ar nei­kvæðni sem magnaðist í garð stjórn­mála­manna al­mennt og Hall­dórs sér­stak­lega þótti hon­um nóg komið og hvarf af vett­vangi stjórn­mál­anna í byrj­un júní 2006.

Með ævi­sögu Hall­dórs Ásgríms­son­ar miðlar Guðjón Friðriks­son mikl­um fróðleik. Hefði hann unnið meira úr efn­inu hefði bók­in gefið skýr­ari mynd af Hall­dóri Ásgríms­syni.