Skerðingar vegna orkuskorts
Morgunblaðið, laugardagur, 2. desember 2023l
Atvinnuveganefnd alþingis lagði fram frumvarp til bráðabirgðabreytinga á raforkulögum þriðjudaginn 28. nóvember. Nefndin gerði þetta að beiðni umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Efnisgrein frumvarpsins er aðeins ein og í upphafi hennar segir að til að tryggja raforkuöryggi notenda raforku, annarra en stórnotenda, beri markaðsráðandi vinnslufyrirtæki [les: Landsvirkjun] að tryggja framboð forgangsraforku á heildsölumarkaði til notenda, annarra en stórnotenda, sem nemi því magni sem vinnslufyrirtækið seldi á heildsölumarkaði á árinu á undan.
Stórnotendur semja við Landsvirkjun um forgangsorku en með frumvarpinu eru gerðar lögbundnar ráðstafanir til að tryggja raforkuöryggi heimila og minni fyrirtækja á tímum orkuskorts. Í greinargerð frumvarpsins er það orð að vísu ekki notað heldur er talað um „umframeftirspurn … eftir raforku hérlendis“. Þá segir að „nýtt orkuframboð“ hafi ekki haldið í við aukna eftirspurn.
Í stuttu máli felur frumvarpið í sér að Orkustofnun fær fordæmalausa heimild til að skammta/forgangsraða orku. Orkumarkaðnum má með öðrum orðum kippa úr sambandi.
Þingmenn allra flokka eiga sæti í atvinnuveganefnd. Samstaða allra þingflokka um mál er því miður ekki endilega gæðastimpill eins og rökstyðja má með fjölda dæma.
Stefnt er að afgreiðslu frumvarpsins fyrir áramót en leitað verður álits hagaðila á því og nefndin útilokar ekki að það taki breytingum í meðferð nefndarinnar fái hún ábendingar um eitthvað sem betur megi fara. Þegar þingnefndir flytja frumvörp er það til marks um að þeim eigi að hraða í gegnum þingið, oft án þess að leitað sé umsagna. Þannig er ekki staðið að þessu máli.
Frá Þórisvatni.
Landsvirkjun boðaði yfirvofandi orkuskerðingar í vetur með tilkynningu mánudaginn 27. nóvember. Sagði fyrirtækið að grípa yrði til takmörkunar á afhendingu víkjandi orku til fiskimjölsverksmiðja og fiskþurrkana, auk gagnavera sem stunda rafmyntagröft. Um tímabundnar aðgerðir væri að ræða vegna „erfiðs vatnsbúskapar, hárrar nýtingar stórnotenda á langtímasamningum og aukinnar eftirspurnar heimila og smærri fyrirtækja“.
Vatnsbúskapur vísar til þess vatns sem er til ráðstöfunar til að framleiða aflið sem gefur af sér orkuna. Þar vegur þyngst vatnsmiðlun Þórisvatns (85 ferkílómetrar) sem nýtist sjö vatnsaflsvirkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæði. Landsvirkjun segir að vegna þurrka á Þjórsársvæði frá byrjun júlímánaðar hafi Þórisvatn ekki fyllst í haust. Öðru máli gegni um Blöndulón og Hálslón við Kárahnjúka, þau fylltust. Landsvirkjun telur að 350 GWh vanti í vatnsforðann í upphafi vetrar. Líklega þurfi að takmarka afhendingu á víkjandi orku fram á vor svo tryggja megi öryggi afhendingar í vetur til þeirra viðskiptavina sem samið hafa um forgangsorku. Með fyrrnefndu frumvarpi er heimilum og minni fyrirtækjum bætt í þennan forgangshóp.
Fleiri en þingmenn bregðast við alvarlegri viðvörun Landsvirkjunar um fyrirsjáanlega orkuskerðingu. Í ríkisútvarpinu (RÚV) var 29. nóvember fréttasamtal við Erling Brynjólfsson, bræðslustjóra í fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði. Hann sagði til skoðunar hvort „í hendingskasti“ ætti að setja niður nýjan olíuketil við bræðsluna.
Sagt var að Eskja á Eskifirði hefði nýlega fjárfest í nýjum olíukatli og talað væri um „sorgleg öfug orkuskipti“. Þá var þess einnig getið í frétt RÚV að sumum þætti rafmyntagröftur „sóun á orku þegar viðbúið er að bræðslur geti þurft að skipta yfir á olíu“.
Erlingur bræðslustjóri segir ávinning af rafbílum í þágu orkuskipta þurrkast út á skömmum tíma vegna mikillar olíunotkunar við bræðslu: „Fyrir mitt leyti þá vil ég sjá einhver viðbrögð frá stjórnvöldum. Ekki afsakanir. Taka stjórnina á þessum málum. Þetta er neyðarástand, það er algjörlega ljóst.“
Vissulega má segja lokun á vinnslu gagnavera „einhver viðbrögð“. Þar er hins vegar með góðum árangri unnið að því að fasa út rafmyntagröft. Gagnaverin þjónusta meðal annars gervigreind og svokallaðar ofurtölvur. Má þar nefna sjúkraskrár, árekstrarprófanir, og bakvinnslu fyrir fjármálafyrirtæki. Það er þjóðaröryggismál að á Íslandi séu starfrækt gagnaver. Staða raforkumála ógnar hins vegar framtíð greinarinnar.
Eina varanlega úrræðið til að snúa vörn í sókn er að virkja meira og styrkja flutningskerfi raforku. Einbeiti stjórnvöld, með stuðningi atvinnulífs og almennings, sér ekki að því að losa þjóðina úr eigin orkukreppu breytist staðan ekki til batnaðar heldur versnar hún áfram. Það er neyðarúrræði að lögum sé breytt til tryggja megi heimilum orku á tímum skerðinga og skorts.
Þegar lesin er greinargerðin með frumvarpi atvinnuveganefndar er ekki einu orði vikið að einu raunhæfu lausninni til framtíðar, það er að alþingi losi þjóðina undan ofurþunga regluverksins sem stendur frekari raforkuframleiðslu fyrir þrifum. Líklega náðist ekki samkomulag í nefndinni um annað en að orkuöryggi þjóðarinnar væri „margþætt langtímaverkefni“ og unnið að því í ráðuneytinu.
Besta, og í raun eina alvöru leiðin, til að tryggja orkuöryggi almennings og fyrirtækja er að framleiða meiri græna raforku á Íslandi. Skerðingar og skammtanir eru viðbrögð við óviðunandi stöðu. Ekki er tekið á rótum vandans sem er skýr: Raforkuframleiðsla hefur ekki fylgt fólksfjölgun né almennum vexti og viðgangi samfélagsins síðustu 10-15 ár. Stíflan vegna regluverksins veldur meiri skaða en stíflur í þágu vatnsafls.