2.12.2023

Skerðingar vegna orkuskorts

Morgunblaðið, laugardagur, 2. desember 2023l

At­vinnu­vega­nefnd alþing­is lagði fram frum­varp til bráðabirgðabreyt­inga á raf­orku­lög­um þriðju­dag­inn 28. nóv­em­ber. Nefnd­in gerði þetta að beiðni um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra.

Efn­is­grein frum­varps­ins er aðeins ein og í upp­hafi henn­ar seg­ir að til að tryggja raf­orku­ör­yggi not­enda raf­orku, annarra en stór­not­enda, beri markaðsráðandi vinnslu­fyr­ir­tæki [les: Lands­virkj­un] að tryggja fram­boð for­gangsra­f­orku á heild­sölu­markaði til not­enda, annarra en stór­not­enda, sem nemi því magni sem vinnslu­fyr­ir­tækið seldi á heild­sölu­markaði á ár­inu á und­an.

Stór­not­end­ur semja við Lands­virkj­un um for­gangs­orku en með frum­varp­inu eru gerðar lög­bundn­ar ráðstaf­an­ir til að tryggja raf­orku­ör­yggi heim­ila og minni fyr­ir­tækja á tím­um orku­skorts. Í grein­ar­gerð frum­varps­ins er það orð að vísu ekki notað held­ur er talað um „um­fram­eft­ir­spurn … eft­ir raf­orku hér­lend­is“. Þá seg­ir að „nýtt orku­fram­boð“ hafi ekki haldið í við aukna eft­ir­spurn.

Í stuttu máli fel­ur frum­varpið í sér að Orku­stofn­un fær for­dæma­lausa heim­ild til að skammta/​for­gangsraða orku. Orku­markaðnum má með öðrum orðum kippa úr sam­bandi.

Þing­menn allra flokka eiga sæti í at­vinnu­vega­nefnd. Samstaða allra þing­flokka um mál er því miður ekki endi­lega gæðastimp­ill eins og rök­styðja má með fjölda dæma.

Stefnt er að af­greiðslu frum­varps­ins fyr­ir ára­mót en leitað verður álits hagaðila á því og nefnd­in úti­lok­ar ekki að það taki breyt­ing­um í meðferð nefnd­ar­inn­ar fái hún ábend­ing­ar um eitt­hvað sem bet­ur megi fara. Þegar þing­nefnd­ir flytja frum­vörp er það til marks um að þeim eigi að hraða í gegn­um þingið, oft án þess að leitað sé um­sagna. Þannig er ekki staðið að þessu máli.

ThorisvFrá Þórisvatni.

Lands­virkj­un boðaði yf­ir­vof­andi orku­skerðing­ar í vet­ur með til­kynn­ingu mánu­dag­inn 27. nóv­em­ber. Sagði fyr­ir­tækið að grípa yrði til tak­mörk­un­ar á af­hend­ingu víkj­andi orku til fiski­mjöls­verk­smiðja og fiskþurrk­ana, auk gagna­vera sem stunda raf­mynta­gröft. Um tíma­bundn­ar aðgerðir væri að ræða vegna „erfiðs vatns­bú­skap­ar, hárr­ar nýt­ing­ar stór­not­enda á lang­tíma­samn­ing­um og auk­inn­ar eft­ir­spurn­ar heim­ila og smærri fyr­ir­tækja“.

Vatns­bú­skap­ur vís­ar til þess vatns sem er til ráðstöf­un­ar til að fram­leiða aflið sem gef­ur af sér ork­una. Þar veg­ur þyngst vatns­miðlun Þóris­vatns (85 fer­kíló­metr­ar) sem nýt­ist sjö vatns­afls­virkj­un­um á Þjórsár- og Tungna­ár­svæði. Lands­virkj­un seg­ir að vegna þurrka á Þjórsár­svæði frá byrj­un júlí­mánaðar hafi Þóris­vatn ekki fyllst í haust. Öðru máli gegni um Blönd­u­lón og Hálslón við Kára­hnjúka, þau fyllt­ust. Lands­virkj­un tel­ur að 350 GWh vanti í vatns­forðann í upp­hafi vetr­ar. Lík­lega þurfi að tak­marka af­hend­ingu á víkj­andi orku fram á vor svo tryggja megi ör­yggi af­hend­ing­ar í vet­ur til þeirra viðskipta­vina sem samið hafa um for­gangs­orku. Með fyrr­nefndu frum­varpi er heim­il­um og minni fyr­ir­tækj­um bætt í þenn­an for­gangs­hóp.

Fleiri en þing­menn bregðast við al­var­legri viðvör­un Lands­virkj­un­ar um fyr­ir­sjá­an­lega orku­skerðingu. Í rík­is­út­varp­inu (RÚV) var 29. nóv­em­ber frétta­sam­tal við Erl­ing Brynj­ólfs­son, bræðslu­stjóra í fiski­mjöls­verk­smiðju Skinn­eyj­ar-Þinga­ness á Höfn í Hornafirði. Hann sagði til skoðunar hvort „í hend­ingskasti“ ætti að setja niður nýj­an ol­íu­ketil við bræðsluna.

Sagt var að Eskja á Eskif­irði hefði ný­lega fjár­fest í nýj­um ol­íukatli og talað væri um „sorg­leg öfug orku­skipti“. Þá var þess einnig getið í frétt RÚV að sum­um þætti raf­mynta­gröft­ur „sóun á orku þegar viðbúið er að bræðslur geti þurft að skipta yfir á olíu“.

Erl­ing­ur bræðslu­stjóri seg­ir ávinn­ing af raf­bíl­um í þágu orku­skipta þurrk­ast út á skömm­um tíma vegna mik­ill­ar ol­íu­notk­un­ar við bræðslu: „Fyr­ir mitt leyti þá vil ég sjá ein­hver viðbrögð frá stjórn­völd­um. Ekki af­sak­an­ir. Taka stjórn­ina á þess­um mál­um. Þetta er neyðarástand, það er al­gjör­lega ljóst.“

Vissu­lega má segja lok­un á vinnslu gagna­vera „ein­hver viðbrögð“. Þar er hins veg­ar með góðum ár­angri unnið að því að fasa út raf­mynta­gröft. Gagna­ver­in þjón­usta meðal ann­ars gervi­greind og svo­kallaðar of­ur­tölv­ur. Má þar nefna sjúkra­skrár, árekstr­ar­próf­an­ir, og bakvinnslu fyr­ir fjár­mála­fyr­ir­tæki. Það er þjóðarör­ygg­is­mál að á Íslandi séu starf­rækt gagna­ver. Staða raf­orku­mála ógn­ar hins veg­ar framtíð grein­ar­inn­ar.

Eina var­an­lega úrræðið til að snúa vörn í sókn er að virkja meira og styrkja flutn­ings­kerfi raf­orku. Ein­beiti stjórn­völd, með stuðningi at­vinnu­lífs og al­menn­ings, sér ekki að því að losa þjóðina úr eig­in orkukreppu breyt­ist staðan ekki til batnaðar held­ur versn­ar hún áfram. Það er neyðarúr­ræði að lög­um sé breytt til tryggja megi heim­il­um orku á tím­um skerðinga og skorts.

Þegar les­in er grein­ar­gerðin með frum­varpi at­vinnu­vega­nefnd­ar er ekki einu orði vikið að einu raun­hæfu lausn­inni til framtíðar, það er að alþingi losi þjóðina und­an ofurþunga reglu­verks­ins sem stend­ur frek­ari raf­orku­fram­leiðslu fyr­ir þrif­um. Lík­lega náðist ekki sam­komu­lag í nefnd­inni um annað en að orku­ör­yggi þjóðar­inn­ar væri „margþætt lang­tíma­verk­efni“ og unnið að því í ráðuneyt­inu.

Besta, og í raun eina al­vöru leiðin, til að tryggja orku­ör­yggi al­menn­ings og fyr­ir­tækja er að fram­leiða meiri græna raf­orku á Íslandi. Skerðing­ar og skammt­an­ir eru viðbrögð við óviðun­andi stöðu. Ekki er tekið á rót­um vand­ans sem er skýr: Raf­orku­fram­leiðsla hef­ur ekki fylgt fólks­fjölg­un né al­menn­um vexti og viðgangi sam­fé­lags­ins síðustu 10-15 ár. Stífl­an vegna reglu­verks­ins veld­ur meiri skaða en stífl­ur í þágu vatns­afls.