22.7.2023

Skálholtsdómkirkja í 60 ár

Morgunblaðið, laugardagur 22. júlí 2023.

Skál­holts­dóm­kirkja var vígð fyr­ir 60 árum, 21. júlí 1963. Á hátíðlegri at­höfn­inni af­henti Bjarni Bene­dikts­son, þáver­andi dóms- og kirkju­málaráðherra, þjóðkirkj­unni Skál­holtsstað og af­salaði þar með þjóðkirkju Íslands end­ur­gjalds­laust til eign­ar og um­sjár jörðinni Skál­holti eins og getið er í af­sals­bréf­inu. Þar eru með Skál­holts­kirkju og embætt­is­bú­stað staðar­ins meðal ann­ars tí­undaðar 9 kýr, 2 kvíg­ur, 1 kálf­ur, 47 gem­ling­ar, 2 hrút­ar og 13 hryss­ur.

Í þingum­ræðum um heim­ild til af­sals­ins var skýrt frá því að land staðar­ins væri 1800 hekt­ar­ar að stærð og nær allt grasi vaxið, hlunn­indi væru lax- og sil­ungsveiði bæði í Hvítá og Brúará en þó ekki í stór­um stíl. Jarðhiti væri að minnsta kosti á fjór­um stöðum í landi Skál­holts. Taldi formaður mennta­mála­nefnd­ar neðri deild­ar alþing­is, Al­freð Gísla­son, bæj­ar­fóg­eti í Kefla­vík, sem flutti þing­heimi þessa lýs­ingu, að af henni mætti ráða, að það væri ekki nafnið eitt, Skál­holt, sem rík­is­stjórn­in af­henti þjóðkirkj­unni end­ur­gjalds­laust með frum­varp­inu yrði það að lög­um.

Qi-gong-Skalholti-22-24.10.2010-091_1690043126067Skálholtsdómkirkja, mynd tekin kl. 12.05 laugardag 23. október árið 2010.

Snemma á síðustu öld komst Þór­hall­ur Bjarn­ar­son bisk­up svo að orði, að sví­v­irðing for­eyðslunn­ar væri svo mik­il á hinum forna stóli, Skál­holti, að því hefði orðið að af­stýra, að kon­ung­ur kæmi í Skál­holt í aust­ur­för sinni. Íslend­ing­ar blygðuðust sín svo fyr­ir niður­læg­ingu staðar­ins, að þeir lögðu leið sína fram hjá hon­um.

Um svipað leyti lét pró­fast­ur þess getið við vísi­t­as­íu í Skál­holti, að hann teldi litlu kirkj­una frá 1850 óþarfa. Rétt væri að skipta söfnuðinum upp á milli næstu sókna en sök­um forn­helgi staðar­ins virt­ist þó að þar ætti að vera kap­ella sem lands­sjóður helst ætti. Kirkj­an var í einka­eign og orðin forn­leg, kross­laus, alt­ar­is­töflu­laus, óveg­leg að flestu og yf­ir­leitt ekki sam­boðin kirkju, síst á þess­um stað, eins og pró­fast­ur orðaði það.

Söfnuður­inn vildi ekki una því, þegar á reyndi, að hann leyst­ist upp og sókn­in skipt­ist á milli ná­granna­sókna, held­ur óskaði hann hins, að Skál­holts­kirkja yrði end­ur­reist og henni sýnd­ur all­ur mögu­leg­ur sómi í bygg­ingu og prestþjón­ustu. Hrör­leg sókn­ar­kirkj­an stóð þó áfram í um fjóra ára­tugi. Stóð hún á forn­helg­um grunni, þar sem all­ar kirkj­ur Skál­holts hafa staðið.

Á presta­stefnu árið 1943 flutti séra Sig­urður Páls­son í Hraun­gerði, síðar Skál­holts­bisk­up, er­indi um kirkju­lega framtíð Skál­holts. Þar varð til kveikj­an að Skál­holts­fé­lagi, sem var stofnað 1949 und­ir for­ystu Sig­ur­björns Ein­ars­son­ar síðar bisk­ups. Hafði fé­lagið að mark­miði að efla sam­tök meðal þjóðar­inn­ar um end­ur­reisn Skál­holts. Skyldi það beita sér fyr­ir fjár­söfn­un í þessu skyni og fyr­ir því að veg­leg dóm­kirkja yrði reist sem fyrst og hún yrði til á níu alda af­mæli bisk­ups­stóls­ins sum­arið 1956.

Fóru nú hjól­in að snú­ast, þótt hægt væri í fyrstu. Árið 1952 samþykkti alþingi, að prest­ur yrði á ný í Skál­holts­sókn. Vorið 1954 skipaði Stein­grím­ur Steinþórs­son kirkju­málaráðherra þriggja manna nefnd til að gera til­lög­ur um bygg­ing­ar í Skál­holti. Var Magnús Már Lárus­son, pró­fess­or og síðar rektor Há­skóla Íslands, rit­ari nefnd­ar­inn­ar og hafði eft­ir­lit með fram­kvæmd­um á staðnum. Hörður Bjarna­son, húsa­meist­ari rík­is­ins, teiknaði kirkj­una. Gerði hann þrjár til­lög­ur og var teikn­ing þeirr­ar kirkju, sem nú stend­ur, unn­in úr þriðju til­lög­unni.

Sum­arið 1953 gerði dr. Björn Sig­fús­son há­skóla­bóka­vörður frum­at­hug­un á kirkju­stæðinu til þess að kanna hversu forn­leif­um væri háttað. Var sýni­legt eft­ir rann­sókn­ir dr. Björns, að und­ir­stöður miðalda­kirkj­unn­ar og gólf væru óröskuð. Eðli­legt þótti því að rann­saka kirkju­stæðið nán­ar, ef reisa ætti kirkju á sama stað.

Dr. Kristján Eld­járn þjóðminja­vörður, síðar for­seti Íslands, stjórnaði þess­ari rann­sókn og fór upp­gröft­ur­inn fram sum­arið 1954. Skál­holts­fé­lagið greiddi kostnaðinn við upp­gröft­inn en fékk fjár­veit­ing­ar frá alþingi til verks­ins. Rann­sókn­ir dr. Kristjáns vöktu þjóðar­at­hygli, ekki síst fund­ur­inn á steinþró eða steink­istu Páls bisk­ups Jóns­son­ar í dóm­kirkju­grunn­in­um sum­arið 1954 en hana má nú skoða í und­ir­göng­um kirkj­unn­ar.

Fyr­ir rétt­um 60 árum leit rík­is­stjórn­in á gjöf­ina á Skál­holti til þjóðkirkju Íslands sem þakk­lætis­vott. Við af­hend­ingu staðar­ins sagði dóms- og kirkju­málaráðherra að mestu skipti að sjálf­sögðu sú sálu­hjálp sem kirkj­an veitti og bætti við: „En hún á einnig sinn ómet­an­lega þátt í mót­un ís­lenskr­ar menn­ing­ar og þróun henn­ar á hverju sem hef­ur gengið. Á þann veg hef­ur hún vissu­lega stuðlað að end­ur­reisn ís­lensku þjóðar­inn­ar og lýðveld­is á Íslandi.“

Morg­un­blaðið gerði fyrstu Skál­holts­hátíðinni veg­leg skil og lýsti vígslu­degi dóm­kirkj­unn­ar á þenn­an veg á forsíðu sinni 23. júlí 1963:

„Margir höfðu orð á því í Skálholti á sunnudag, þegar hin fagra Skálholtskirkja var vígð, að forfeður okkar mundu hafa talið það til jarðteikna, þegar létti til og myndaðist eins og bjartur geislabaugur á himni yfir staðnum. Gerðist þetta í þann mund, er prósessía presta og biskupa gekk í kirkju. Þótti gestum það tilkomumikil og eftirminnileg sjón að sjá kirkjuna baðaða sólskini, en biskupa klædda nýjum höklum og fagurlega skreyttum, og um 80 hempuklædda presta í skrúðgöngu.“

­

Und­an­far­in ár hafa vígslu­bisk­up­ar í Skál­holti, vernd­ar­sjóður Skál­holts og bisk­ups­stofa staðið að viðgerðum á ytra og innra byrði dóm­kirkj­unn­ar, end­ur­bót­um á kirkju­klukk­um og búnaði þeirra auk end­ur­nýj­un­ar á lýs­ingu í kirkj­unni. Skál­holts­dóm­kirkja stend­ur því fög­ur og með reisn á 60 ára vígslu­af­mæl­inu.