Skálholtsdómkirkja í 60 ár
Morgunblaðið, laugardagur 22. júlí 2023.
Skálholtsdómkirkja var vígð fyrir 60 árum, 21. júlí 1963. Á hátíðlegri athöfninni afhenti Bjarni Benediktsson, þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, þjóðkirkjunni Skálholtsstað og afsalaði þar með þjóðkirkju Íslands endurgjaldslaust til eignar og umsjár jörðinni Skálholti eins og getið er í afsalsbréfinu. Þar eru með Skálholtskirkju og embættisbústað staðarins meðal annars tíundaðar 9 kýr, 2 kvígur, 1 kálfur, 47 gemlingar, 2 hrútar og 13 hryssur.
Í þingumræðum um heimild til afsalsins var skýrt frá því að land staðarins væri 1800 hektarar að stærð og nær allt grasi vaxið, hlunnindi væru lax- og silungsveiði bæði í Hvítá og Brúará en þó ekki í stórum stíl. Jarðhiti væri að minnsta kosti á fjórum stöðum í landi Skálholts. Taldi formaður menntamálanefndar neðri deildar alþingis, Alfreð Gíslason, bæjarfógeti í Keflavík, sem flutti þingheimi þessa lýsingu, að af henni mætti ráða, að það væri ekki nafnið eitt, Skálholt, sem ríkisstjórnin afhenti þjóðkirkjunni endurgjaldslaust með frumvarpinu yrði það að lögum.
Skálholtsdómkirkja, mynd tekin kl. 12.05 laugardag 23. október árið 2010.
Snemma á síðustu öld komst Þórhallur Bjarnarson biskup svo að orði, að svívirðing foreyðslunnar væri svo mikil á hinum forna stóli, Skálholti, að því hefði orðið að afstýra, að konungur kæmi í Skálholt í austurför sinni. Íslendingar blygðuðust sín svo fyrir niðurlægingu staðarins, að þeir lögðu leið sína fram hjá honum.
Um svipað leyti lét prófastur þess getið við vísitasíu í Skálholti, að hann teldi litlu kirkjuna frá 1850 óþarfa. Rétt væri að skipta söfnuðinum upp á milli næstu sókna en sökum fornhelgi staðarins virtist þó að þar ætti að vera kapella sem landssjóður helst ætti. Kirkjan var í einkaeign og orðin fornleg, krosslaus, altaristöflulaus, óvegleg að flestu og yfirleitt ekki samboðin kirkju, síst á þessum stað, eins og prófastur orðaði það.
Söfnuðurinn vildi ekki una því, þegar á reyndi, að hann leystist upp og sóknin skiptist á milli nágrannasókna, heldur óskaði hann hins, að Skálholtskirkja yrði endurreist og henni sýndur allur mögulegur sómi í byggingu og prestþjónustu. Hrörleg sóknarkirkjan stóð þó áfram í um fjóra áratugi. Stóð hún á fornhelgum grunni, þar sem allar kirkjur Skálholts hafa staðið.
Á prestastefnu árið 1943 flutti séra Sigurður Pálsson í Hraungerði, síðar Skálholtsbiskup, erindi um kirkjulega framtíð Skálholts. Þar varð til kveikjan að Skálholtsfélagi, sem var stofnað 1949 undir forystu Sigurbjörns Einarssonar síðar biskups. Hafði félagið að markmiði að efla samtök meðal þjóðarinnar um endurreisn Skálholts. Skyldi það beita sér fyrir fjársöfnun í þessu skyni og fyrir því að vegleg dómkirkja yrði reist sem fyrst og hún yrði til á níu alda afmæli biskupsstólsins sumarið 1956.
Fóru nú hjólin að snúast, þótt hægt væri í fyrstu. Árið 1952 samþykkti alþingi, að prestur yrði á ný í Skálholtssókn. Vorið 1954 skipaði Steingrímur Steinþórsson kirkjumálaráðherra þriggja manna nefnd til að gera tillögur um byggingar í Skálholti. Var Magnús Már Lárusson, prófessor og síðar rektor Háskóla Íslands, ritari nefndarinnar og hafði eftirlit með framkvæmdum á staðnum. Hörður Bjarnason, húsameistari ríkisins, teiknaði kirkjuna. Gerði hann þrjár tillögur og var teikning þeirrar kirkju, sem nú stendur, unnin úr þriðju tillögunni.
Sumarið 1953 gerði dr. Björn Sigfússon háskólabókavörður frumathugun á kirkjustæðinu til þess að kanna hversu fornleifum væri háttað. Var sýnilegt eftir rannsóknir dr. Björns, að undirstöður miðaldakirkjunnar og gólf væru óröskuð. Eðlilegt þótti því að rannsaka kirkjustæðið nánar, ef reisa ætti kirkju á sama stað.
Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, síðar forseti Íslands, stjórnaði þessari rannsókn og fór uppgröfturinn fram sumarið 1954. Skálholtsfélagið greiddi kostnaðinn við uppgröftinn en fékk fjárveitingar frá alþingi til verksins. Rannsóknir dr. Kristjáns vöktu þjóðarathygli, ekki síst fundurinn á steinþró eða steinkistu Páls biskups Jónssonar í dómkirkjugrunninum sumarið 1954 en hana má nú skoða í undirgöngum kirkjunnar.
Fyrir réttum 60 árum leit ríkisstjórnin á gjöfina á Skálholti til þjóðkirkju Íslands sem þakklætisvott. Við afhendingu staðarins sagði dóms- og kirkjumálaráðherra að mestu skipti að sjálfsögðu sú sáluhjálp sem kirkjan veitti og bætti við: „En hún á einnig sinn ómetanlega þátt í mótun íslenskrar menningar og þróun hennar á hverju sem hefur gengið. Á þann veg hefur hún vissulega stuðlað að endurreisn íslensku þjóðarinnar og lýðveldis á Íslandi.“
Morgunblaðið gerði fyrstu Skálholtshátíðinni vegleg skil og lýsti vígsludegi dómkirkjunnar á þennan veg á forsíðu sinni 23. júlí 1963:
„Margir höfðu orð á því í Skálholti á sunnudag, þegar hin fagra Skálholtskirkja var vígð, að forfeður okkar mundu hafa talið það til jarðteikna, þegar létti til og myndaðist eins og bjartur geislabaugur á himni yfir staðnum. Gerðist þetta í þann mund, er prósessía presta og biskupa gekk í kirkju. Þótti gestum það tilkomumikil og eftirminnileg sjón að sjá kirkjuna baðaða sólskini, en biskupa klædda nýjum höklum og fagurlega skreyttum, og um 80 hempuklædda presta í skrúðgöngu.“
Undanfarin ár hafa vígslubiskupar í Skálholti, verndarsjóður Skálholts og biskupsstofa staðið að viðgerðum á ytra og innra byrði dómkirkjunnar, endurbótum á kirkjuklukkum og búnaði þeirra auk endurnýjunar á lýsingu í kirkjunni. Skálholtsdómkirkja stendur því fögur og með reisn á 60 ára vígsluafmælinu.