15.6.2024

Sjálfstæðisbaráttan er eilíf

Morgunblaðið, laugardagur 15. júní 2024,

Þegar 75 ár voru liðin frá stofnun lýðveldis á Íslandi árið 2019 var með stuðningi ríkisstjórnarinnar hleypt af stokkunum rannsóknaverkefni um ritmenningu íslenskra miðalda (RÍM). Var markmiðið að varðveita, rannsaka og miðla menningarsögu og -minjum fjögurra staða á landinu þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum. Þessir staðir eru Oddi á Rangárvöllum, Reykholt í Borgarfirði, Staðarhóll í Dölum og Þingeyraklaustur í Húnaþingi. Þá var stefnt að því að fleiri staðir, t.d. Viðeyjar- og Helgafellsklaustur yrðu einnig hluti þessa verkefnis og sameiginlegs vettvangs um þessar einstöku menningarminjar þegar fram liðu stundir.

Þeir sem beittu sér fyr­ir verk­efn­inu tengdu það ekki ein­ung­is 75 ára af­mæli lýðveld­is­ins held­ur einnig húsi ís­lenskra fræða. Bygg­ing þess var þá haf­in og var húsið opnað und­ir nafn­inu Edda sum­ar­dag­inn fyrsta árið 2023.

IMG_0074

Í tengsl­um við verk­efnið var vakið máls á því að loka­mark­mið rann­sókn­anna yrði að rit­menn­ing ís­lenskra miðalda og staðir henni tengd­ir kæm­ust á yf­ir­lits­skrá yfir fyr­ir­hugaðar til­nefn­ing­ar Íslands á heims­minja­skrá UNESCO.

RÍM-verk­efnið hef­ur nú staðið í fimm ár. Árlega hef­ur verið varið fé til að styrkja ár­ang­urs­rík­ar rann­sókn­ir und­ir merkj­um þess í um­sýslu Snorra­stofu í Reyk­holti. Rann­sókn­irn­ar hafa verið þverfag­leg­ar m.a. á sviði forn­leifa­fræði, sagn­fræði, hand­rita­fræði, texta­fræði og bók­mennta­fræði.

Full­yrt skal að rann­sókn­ir af þessu tagi á menn­ing­ar­leg­um miðald­arót­um þjóðar­inn­ar skerpi sjálfs­mynd henn­ar og styrki hana. Skipt­ir það miklu á tím­um þegar jafn­framt er talið brýnt að ná út á jaðrana í nafni fjöl­menn­ing­ar. Öflug­ir trjá­stofn­ar með djúp­ar ræt­ur bera sterk­ar grein­ar sem þola veru­legt álag. Þannig er því jafn­framt háttað um stofn þjóðmenn­ing­ar, aflvaka sjálf­stæðis.

Und­an­farið hef­ur áhorf­end­um rík­is­sjón­varps­ins boðist að sjá þrjá þætti af sex sem danski sagn­fræðing­ur­inn Cecilie Niel­sen gerði und­ir heit­inu Ráðgát­an um Óðin (d. Gåd­en om Odin). Þar leit­ar hún svara við spurn­ing­unni um upp­runa „danska rík­is­ins“ og hvort Har­ald­ur blátönn hafi lagt grunn að því með kristni á miðöld­um.

Á tíma Har­ald­ar voru aðrar hug­mynd­ir um ríki eða þjóð á en nú á dög­um. Það var ekki fyrr en að miðöld­um liðnum við end­ur­reisn­ina á 14. öld sem siðir og menn­ing lögðu grunn að þjóðar­vit­und eins og við þekkj­um hana. Löngu síðar sam­einuðust Dan­ir um sjálfs­mynd sína í krafti kirkju, menn­ing­ar og tungu.

Leit­in í dönsku sjón­varpsþátt­un­um ligg­ur um ís­lenska rit­menn­ingu á miðöld­um og verk Snorra Sturlu­son­ar í Reyk­holti. Við það ómet­an­lega fram­lag er staðnæmst við rann­sókn­ir á rót­um vest­rænn­ar menn­ing­ar og áhrif­um henn­ar. Íslend­ing­ar geta því auðveld­lega staðsett sig í heims­menn­ing­unni.

Í stofn­in­um sem stend­ur að Íslend­ing­um sem þjóð eru tung­an og rit­málið meg­in­streng­ir. Varðstaða um þá hef­ur gildi fyr­ir aðra en þó mest fyr­ir okk­ur Íslend­inga sjálfa.

Bald­ur Hafstað, fyrrv. pró­fess­or í ís­lensku, sagði í Tungu­taki hér á síðunni laug­ar­dag­inn 1. júní:

„Rifj­um aðeins upp: Örsmá­um þrýsti­hóp tókst fyr­ir nokkr­um árum að smeygja sér inn í sjálft Rík­is­út­varpið, okk­ar helg­asta vé, og fá nokkra starfs­menn þar til að taka upp mál sem eng­inn Íslend­ing­ur hafði talað áður. Þeir stærðu sig síðan í öðrum miðlum af þess­ari nýj­ung sinni.“

Hösk­uld­ur Þrá­ins­son, fyrrv. pró­fess­or í ís­lensku nú­tíma­máli, varaði 10. júní á vefsíðunni Vísi við þess­ari nýju mál­notk­un eða til­rauna­starf­semi sem felst í „að nota hvor­ug­kyn fleir­tölu eins og öll, sum en ekki karl­kyn fleir­tölu all­ir, sum­ir þegar merk­ing­in er al­menn“. Í viðvör­un Hösk­uld­ar seg­ir að fáir hafi leitt hug­ann að því hvaða áhrif til­rauna­starf­sem­in geti haft: „Þarna er nefni­lega verið að reyna að búa til mál­notk­un sem er ekki móður­mál neins, búa til til­brigði í mál­inu sem eiga sér enga hliðstæðu.“

Í fyrr­nefndri grein taldi Bald­ur Hafstað að tek­ist hefði að snúa vörn í sókn gegn þessu mál­brölti, sem nefnt hef­ur verið ný­lenska. Lands­mönn­um væri nóg boðið. Von­andi hef­ur hann rétt fyr­ir sér. Forkast­an­legt er að blása á póli­tísk­um for­send­um á viðvör­un­ar­orð fær­ustu manna, eins og gert er, og telja við hæfi að leika sér með grunn tungu­máls­ins í sjálfu rík­is­út­varp­inu. Í lög­um seg­ir að rík­is­út­varpið skuli leggja rækt við ís­lenska tungu, sögu þjóðar­inn­ar og menn­ing­ar­arf­leifð.

Segja má að með rík­is­út­varp­inu haldi ríkið úti stofn­un í anda RÍM-verk­efn­is­ins. Fyr­ir skatt­fé sé henni ætlað að skerpa vitn­eskju og vit­und um stöðu þjóðar­inn­ar í bráð og lengd.

Í ný­legri for­seta­kosn­inga­bar­áttu birt­ist vanþekk­ing, jafn­vel fram­bjóðenda, á því hvaða stöðu ís­lenska lýðveldið valdi sér í sam­fé­lagi þjóðanna. Viti þeir sem telja sig verðuga til að sitja í for­seta­embætt­inu ekki hvað felst í aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu, varn­ar­samn­ingn­um við Banda­rík­in og þátt­töku í nor­rænu varn­ar­sam­starfi, hvað þá með aðra?

Það er bein­lín­is rangt að halda því fram að Ísland sé hlut­laust af því að það er herlaust eða að her­leysið leiði til þess að við eig­um ekki að leggja okk­ar af mörk­um til stuðnings Úkraínu­mönn­um í sjálf­stæðis­bar­áttu þeirra nema það falli al­farið að okk­ar hags­mun­um en ekki þeirra sem þurfa á hjálp­inni að halda.

Sjálf­stæðis­bar­átt­an er ei­líf – á það er jafn­an minnt 17. júní. Ávallt er þörf á að huga að rót­un­um sem gefa bar­átt­unni kraft, þar skipta sag­an og tung­an mestu. Þá ber að standa vörð um landið, und­an­bragðalaust í liði með þeim sem verja frelsi, frið og sjálf­stæði þjóða.

Gleðilega þjóðhátíð!