14.6.2023

Sjálfstæði

Rás 1, miðvivikudag 14. júní 2023

 

Ríkisútvarpið – rás 1 – er með 5 mínútna þátt, Uppástand – í hádegi fimm daga vikunnar og eru einstaklingar kallaðir til að ræða ákveðið orð eða hugtak. Ég var beðinn ásamt öðrum að taka þátt í röð um sjálfstæði. Hér er textinn:

Sjálfstæði hefur ekki algilda merkingu. Íslendingar háðu sjálfstæðisbaráttu á 19. öld og töldu sig ná góðum árangri með því að fá að endurreisa alþingi og að Danakonungur gæfi þeim stjórnarskrá. Síðan fengu þeir heimastjórn og íslenskan ráðherra fyrir 119 árum.

Allt gerðist þetta án þess að Ísland væri viðurkennt sem fullvalda ríki. Fullveldið kom til sögunnar árið 1918. Því fylgdu ríkisréttindi sem sumir telja mikilvægustu þáttaskilin í sjálfstæðisbaráttunni þótt þjóðhöfðinginn væri danskur, hæstiréttur í Danmörku og utanríkismálin í höndum Dana.

Endanlega og óumdeilt fékk Ísland sjálfstæði sem lýðveldi 17. júní 1944.

Í tæp 80 ár hefur verið um það deilt hvernig sjálfstæðið sé best tryggt. Þar verða skilin á milli fullveldis og sjálfstæðis oft óskýr.

Faninn

Hugtökin ber til dæmis hátt þegar rætt er um aðild Íslands að evrópska efnahagssvæðinu, EES.

Í upphafi næsta árs verða 30 ár liðin frá því að samningurinn um þetta nána efnahagssamstarf gekk í gildi,

Enginn alþjóðasamningur hefur leitt til sambærilegra breytinga á íslensku samfélagi og EES-samningurinn. Hann hefur skapað Íslendingum nýjan rétt, aukið sjálfstæði hvers og eins til að ákveða hvar hann býr eða starfar.

Íslendingum var boðin aðild að þessu samstarfi ásamt öðrum aðildarþjóðum Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA.

Áður en niðurstaða fékkst í aðildarviðræðunum liðu Sovétríkin undir lok. Þá gripu þrjú hlutlaus EFTA-ríki, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, tækifærið og sóttu um aðild að Evrópubandalaginu. Eftir voru við, Norðmenn, Svisslendingar og íbúar Liechtensteins.

Í Sviss var efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1992 og spurt um aðild að EES. Var henni hafnað með naumum meirihluta.

Nú eiga þrjú EFTA-ríki: Ísland, Noregur og Liechtenstein aðild að sameiginlega EES-markaðnum með 27 ESB-ríkjum.

Þjóðir velja þannig ólíkar leiðir í krafti eigin sjálfstæðis.

Íslendingar hafa óskorað sjálfstæði til að gera alþjóðasamninga. Slíkir samningar leiða til skuldbindinga sem ber að virða, sé það ekki gert dregur það jafnan dilk á eftir sér.

Á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík um miðjan maí sátu fulltrúar 46 sjálfstæðra ríkja. Þeim var virðing fyrir sjálfstæði þjóða innan ramma alþjóðalaga efst í huga. Að allir séu jafnir fyrir alþjóðalögum er besta sjálfstæðistrygging smáþjóða.

Sjálfstæðar þjóðir setja sér stjórnlög og ákveða hvernig þau eru framkvæmd og þeim breytt. Oft hefur undanfarin 30 ár verið spurt hvort aðildin að EES-samstarfinu samrýmdist íslensku stjórnarskránni, skjalinu að baki sjálfstæði okkar, fullveldi og mannréttindum. Svörin hafa ávallt verið jákvæð.

Stjórnmálaflokkarnir eru sammála um að breyta verði stjórnarskránni komi aðild að að Evrópusambandinu til álita. Stjórnarskráin verði að heimila slíkt framsal á fullveldinu.

Stjórnmálaflokkarnir eru einnig þeirrar skoðunar að aðildarviðræður við Evrópusambandið verði ekki hafnar nema þjóðin hafi samþykkt að sótt verði um að hefja slíkar viðræður við fulltrúa sambandsins.

Líkja má þessu við að reistur hafi verið tvöfaldur varnarmúr um sjálfstæðið og fullveldið eins og það er núna.

Í sjálfstæði felst alls ekki krafa um einangrun eða andstaða við að leggja rækt við það sem er sameiginlegt með öðrum. Sjálfstæðið skapar hins vegar svigrúm til að nálgast aðra á eigin forsendum.

Sjálfstæði gerir þjóðum og einstaklingum kleift að leggja sitt af mörkum af styrkleika og sjálfsöryggi í stað öryggisleysis eða undirgefni.

Sjálfstæði veitir frelsi til að lifa lífinu að eigin vilja, láta drauma sína rætast og njóta sín til fulls. Við getum látið ytri áhrif stjórna okkur eða eflt eigið sjálfstraust. Við ráðum hvort við eigum allt undir öðrum eða stöndum á eigin fótum.

Styrkur Íslendinga sem þjóðar felst að lokum í menningunni. Landið, sagan og tungan eru uppspretta sjálfstæðisviljans.