20.4.2024

Sjálfbær landnýting í sjálfheldu

Morgunblaðið, laugardagur 20. apríl 2024

Í stefnu­skjal­inu Rækt­um Ísland! sem kom út síðsum­ars árið 2021 og lagt var til grund­vall­ar land­búnaðar­stefn­unni sem alþingi samþykkti í byrj­un sum­ars 2023 seg­ir að inn­tak viðmiða við mat á sjálf­bærri land­nýt­ingu eigi að setja í lög. Í því efni verði að finna jafn­vægi milli sjón­ar­miða þeirra sem nálg­ist viðfangs­efnið frá sjón­ar­hóli jarðvegs- og gróður­vernd­ar ann­ars veg­ar og beit­ar­nýt­ing­ar hins veg­ar. Tak­ist það verði lög­fest sam­hæfð túlk­un og beit­ing á hug­tak­inu meðal þeirra fjöl­mörgu stjórn­valda sem fara með vald­heim­ild­ir í tengsl­um við nýt­ingu lands, aðilum land­búnaðar­ins til hags­bóta.

Bent er á að í lög­um um land­græðslu megi finna ákveðnar vís­bend­ing­ar um hvað fel­ist í sjálf­bærri land­nýt­ingu en inn­tak henn­ar sé óljóst.

Rétt­mæti þess­ar­ar ábend­ing­ar kem­ur greini­lega í ljós þegar lesn­ar eru ábend­ing­ar sem fram koma í um­sögn­um um drög að reglu­gerð um sjálf­bæra land­nýt­ingu frá mat­vælaráðuneyt­inu sem lágu inni á sam­ráðsgátt stjórn­valda í nokkr­ar vik­ur í janú­ar og fe­brú­ar 2024.

Alls bár­ust 82 um­sagn­ir og lang­flest­ar mjög nei­kvæðar. Gagn­rýn­in snýr meðal ann­ars að því að hug­takið sjálf­bærni sé skil­greint of þröngt í drög­un­um. Sam­tök ungra bænda segja þrjár meg­in­stoðir sjálf­bærni­hug­taks­ins (1) efna­hags­leg­ar, (2) fé­lags­leg­ar og (3) um­hverf­is­leg­ar. Efni reglu­gerðar­inn­ar sé best lýst með því að sleppa orðinu sjálf­bærni úr heiti henn­ar og kenna hana aðeins við land­nýt­ingu.

Fjöldi um­sagn­anna sýn­ir mik­inn áhuga á þessu efni enda snert­ir það framtíð byggðar í land­inu auk margs ann­ars. Því er miður að ekki hef­ur verið farið að til­lög­unni um að lög­festa inn­tak hug­taks­ins sjálf­bær land­nýt­ing og kalla þannig fleiri til þátt­töku í umræðum um málið á mót­un­arstigi þess. Væri það gert yrði af­greiðsla þessa máls já­kvæðari og ekki alið á tor­tryggni í garð ein­stakra ákvæða eins og birt­ist í um­sögn­um í sam­ráðsgátt­inni.

IMG_9730

Breyt­ing hef­ur orðið á vist­un þessa mála­flokks í stjórn­ar­ráðinu síðan land­græðslu­lög­in voru samþykkt árið 2018. Þá var mála­flokk­ur­inn und­ir for­sjá um­hverf­is- og auðlindaráðuneyt­is­ins og Land­græðslan heyrði und­ir ráðuneytið við gerð reglu­gerðar­inn­ar. Nú er mála­flokk­ur­inn í mat­vælaráðuneyt­inu og kom­in er til sög­unn­ar ný stofn­un, Land og skóg­ur, sam­einuð Land­græðsla og Skóg­rækt, sem tek­ur við reglu­gerðinni til úr­vinnslu úr sam­ráðsgátt­inni.

Í reglu­gerðardrög­un­um er ekk­ert fjallað um skóg­rækt. Dreg­ur þetta veru­lega úr gildi skjals­ins þar sem að því er stefnt að 10% lands­ins verði skógi vax­in á næstu árum – víðfeðmari land­nýt­ing er vand­fund­in.

Til kynn­ing­ar á því sem seg­ir í um­sögn­un­um má vitna í það sem fjallskila­nefnd Fljóts­hlíðar í Rangárþingi eystra seg­ir.

Nefnd­in minn­ir á að bænd­ur hafi lagt mikið af mörk­um við upp­græðslu á af­rétt­um með ómældri sjálf­boðavinnu og fjár­mun­um. Reglu­gerðin ásamt viðauk­um setji allt það starf í upp­nám. Þess sé kraf­ist að land yfir 600 metra hæð, með 20% æðplöntuþekju (fræ­plönt­ur og byrkn­ing­ar) og 30% halla sé ekki nýtt til beit­ar. Tel­ur fjallskila­nefnd­in að með þessu einu sé komið í veg fyr­ir að stór hluti eig­enda beit­ar­rétt­ar á af­rétt­um lands­ins geti nýtt rétt sinn. Ekki sé hægt að girða af svæði sem falli und­ir þessa skil­grein­ingu.

Þá sé fjallað um „vist­getu“ eða vist­kerf­isþjón­ustu lands þótt óljóst sé hver hún eigi að vera. Talað sé um „viðmiðun­ar­svæði“, svæði sem end­ur­spegla ástand lands eins og það ætti að vera að teknu til­liti til nátt­úru­legs rasks, án þess að gerð sé grein fyr­ir hver þau séu. Eng­in leið sé fyr­ir land­eig­end­ur að gera sér grein fyr­ir hvaða áhrif reglu­gerðin hafi varðandi nýt­ingu lands­ins. Þar ráði óljós, mats­kennd og hug­læg sjón­ar­mið sem út­tekt­araðilar hafi hverju sinni.

Sam­tök ungra bænda benda á að hóf­leg beit í halla geti styrkt rót­ar­kerfi þeirra plantna sem þar eru og dregið þannig úr hættu á skriðuföll­um og rofi. Þá auki hóf­leg beit einnig líf­fræðilega fjöl­breytni og ýti frek­ar und­ir þekju æðplantna. Víða er­lend­is séu beit­ar­dýr mark­visst notuð til að viðhalda ákveðnu lands­lagi og halda niðri óæski­leg­um gróðri. Þá kunni hóf­leg beit að auka bind­ingu kol­efn­is í jörðu.

Sam­tök­in vara ein­dregið við að sett sé reglu­gerð með óljós­an ramma og ómæl­an­leg mark­mið. Reglu­gerðir eigi aldrei að vera svo óskýr­ar og óljós­ar að ein­stak­lings­bund­in túlk­un ráði hvernig þeim sé fram­fylgt.

Við skjóta at­hug­un á úr­taki um­sagna sést að mark­miðið sem felst í sjálf­bærri land­nýt­ingu nýt­ur stuðnings. Leiðin að því veld­ur hins veg­ar ágrein­ingi. Það er óhjá­kvæmi­legt að stofnað sé til mun meira sam­ráðs um leiðina. Nú birt­ist hún mörg­um sem óvissu­ferð þar sem um­ferðinni er stjórnað að geðþótta eft­ir­lits­manna í krafti viðmiða sem þeir setja sjálf­ir.

Miðað við viðtök­ur bænda er með reglu­gerðinni unnið gegn byggðafestu. Hún er hins veg­ar hátíðlegt mark­mið byggðastefnu stjórn­valda, ekki síst þar sem sauðfjár­rækt er stunduð.

Þegar op­in­ber­um áform­um um sjálf­bæra land­nýt­ingu er hrundið í fram­kvæmd er ekki aðeins nauðsyn­legt að stilla sam­an strengi þeirra sem eiga allt sitt und­ir skyn­sam­legri land­nýt­ingu eins og bænd­ur held­ur verða æðstu stjórn­völd einnig að ganga í takt.

Ný mæli­tækni og svo­nefnd­ur ná­kvæmn­is­bú­skap­ur auðveld­ar allt eft­ir­lit með nýt­ingu lands. Há­tæknifjós sýna að bænd­ur ótt­ast ekki ný­sköp­un. Það ber að hvetja til henn­ar af meiri þunga í sauðfjár­rækt með sta­f­ræn­um girðing­um og GPS-ólum. Í stað þess að setja land­búnaðinn í meiri reglu­fjötra á að nýta sveigj­an­leika og frelsi sem tækn­in veit­ir.