Sígildur boðskapur Kundera
Morgunblaðið, þriðjudagur 12. nóvember, 2024
Vesturlönd í gíslingu eða harmleikur Mið-Evrópu ★★★★· Eftir Milan Kundera. Friðrik Rafnsson þýðir. Ugla, 2024. Kilja, 80 bls.
Bækur þurfa ekki að vera langar til að hafa áhrif. Þessi bók eftir Milan Kundera í þýðingu Friðriks Rafnssonar er aðeins 80 bls. Hún hefur að geyma ræðu og ritgerð tékkneska rithöfundarins.
Ræðuna flutti Kundera á ráðstefnu tékkneskra rithöfunda árið 1967, árið fyrir vorið í Prag þegar menntamenn og almenningur snerust gegn Moskvuvaldi kommúnista og leppum þeirra í Tékkóslóvakíu. Ber kaflinn fyrirsögnina: Bókmenntir og smáþjóðir.
Ritgerðin birtist fyrst í nóvember 1983 og ber fyrirsögnina: Vesturlönd í gíslingu eða harmleikur Mið-Evrópu. Þetta var þegar mikil spenna ríkti í Evrópu vegna ákvarðana NATO-ríkjanna um að koma fyrir meðaldrægum bandarískum kjarnaflaugum á meginlandi Evrópu til að svara SS-20 kjarnaflaugagíslingu Sovétmanna.
Boðskapur Kundera á enn brýnt erindi til lesenda vilji þeir dýpka skilning sinn á nútímanum í Evrópu þegar barist er á austurlandamærum Úkraínu, rúmum 30 árum eftir að Sovétríkjunum var kastað á haug sögunnar.
Í ræðunni fer Kundera aftur til 19. aldar og minnist bókmenntamanna í Tékklandi sem hófu í anda rómantísku stefnunnar að leggja rækt við tékknesku og gerðu hana að menningarmáli verka sem síðar urðu þjóðinni styrkur í sjálfstæðisbaráttunni.
Kundera veltir fyrir sér afleiðingum þess að stefna þessara manna hefði ekki sigrað í átökum við þá sem töldu hagkvæmara að Tékkar hyrfu frá eigin tungu – þýska kæmi í stað tékknesku.
Íslendingar geta speglað sig í þessum umræðum. Fornar bókmenntir hafa skapað okkur sérstöðu. Á nítjándu öld gengu þær í endurnýjun lífdaga og þar með íslensk tunga og tilvist þjóðar sem stefndi til sjálfstæðis.
Íslenskir rithöfundar hösluðu sér völl og urðu vinsælir þegar þeir skrifuðu á dönsku eða norsku en þeir slitu aldrei rætur íslenskunnar og aldrei varð hér uppgjör á þann veg sem Kundera lýsir uppgjörinu vegna tékkneskunnar. Hér þurfti aldrei að spyrja hvort menning okkar væri svo merkileg að það réttlætti tilvist íslensku þjóðarinnar (20). Svarið lá í augum uppi og gerir á meðan þjóðin snýr ekki baki við bókmenntum sínum.
Við lestur ræðu Kundera verður að minnast sovésku ógnarinnar sem ríkti í Tékklandi þegar hún var flutt. Ræðan er meðal neista frelsisvonarinnar vorið 1968 sem kæfð var með sovéskum skriðdrekum í ágúst sama ár.
Menningin og gildi hennar fyrir sjálfsvitund þjóða er Kundera ofarlega í huga í ritgerðinni um Vesturlönd í gíslingu eða harmleik Mið-Evrópu. Hann spyr hvort hægt sé að tala um Mið-Evrópu sem raunverulega menningarheild reista á eigin sögu, sé það hægt, hvernig eigi þá að afmarka hana landfræðilega, hvar liggi landamæri hennar. Og hann svarar:
„Það væri til lítils að ætla að skilgreina þau nákvæmlega. Enda er Mið-Evrópa ekki þjóðríki heldur menning eða örlög. Landamæri eru tilbúningur og það þarf að afmarka þau og sníða miðað við nýjar sögulegar kringumstæður hverju sinni“ (61).
Í ritgerðinni lítur Kundera á Ungverja sem samferðarmenn Tékka og Pólverja þegar hann ræðir um þjóðríkin að baki menningarheildinni í Mið-Evrópu. Hann myndi líklega ekki gera það nú á tímum þegar Ungverjar og Slóvakar hafa skapað sér pólitíska sérstöðu innan Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu.
Árið 1983 voru Mið-Evrópuríkin undir járnhæl Sovétmanna og Kundera segir að það sé við austurlandamæri Vesturlanda í Evrópu sem það sjáist betur en annars staðar að Rússland sé andhverfa Vesturlanda. Þar birtist það ekki einungis eins og hvert annað evrópskt veldi heldur sem sérstök siðmenning, sem annars konar siðmenning (52).
Ótti Kundera er að á Vesturlöndum hafi menn ekki aðeins gleymt Mið-Evrópu sem menningarsvæði heldur einnig nauðsyn þess að standa vörð um eigin menningu.
Síðan hann lýsti þessum ótta og ritgerðin birtist eru liðin 40 ár og Evrópa hefur tekið á sig nýja mynd.
Nú eru átökin við það sem Kundera kallar sérstaka siðmenningu Rússa háð í Úkraínu og enn vaknar spurning um hvort Evrópuþjóðir hafi seiglu og vilja til að standa gegn yfirganginum. Til þess þarf enn á ný menningarlegt þrek.
Friðrik Rafnsson er meðal fremstu þýðenda líðandi stundar og hefur unnið stórvirki. Hann minnir á þá menn sem Kundera ber lof á, þýðendurna sem voru í upphafi endurreisnar tékknesku þjóðarinnar „helstu bókmenntajöfrarnir“ á 19. öldinni (21) þegar lyfta varð þjóðinni úr því sem Friðrik lýsir á einum stað með orðinu nesjamennsku (20) sem hljómar einkennilega um viðhorf landluktrar þjóðar en við skiljum sem búum við sjávarsíðuna.
Bókin er vel úr garði gerð og efnið tímabært á örlagatímum í Evrópu og heiminum öllum.