16.6.2017

Sérstæð óvild forystumanna VG í garð lögreglunnar

Morgunblaðsgrein 16. júní 2017

Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 13. júní var skýrt hvers vegna menn úr sérsveit ríkislögreglustjóra sem ganga vopnaðir til starfa sinna voru á götum höfuðborgarinnar 10. og 11. júní og gerðar voru sérstakar varúðarráðstafanir þar sem fjöldi flokks kom saman: Viðvörun hafði borist frá lögreglunni í Króatíu, ofbeldisfullar fótboltabullur mundu fylgja króatíska landsliðinu sem lék á Laugardalsvelli að kvöldi sunnudags 11. júní. Auk þess hefur ríkislögreglustjóri einnig breytt hættumati, talið er nauðsynlegt að efla löggæslu á fjölmennum samkomum.

Forystumenn vinstri-grænna (VG) gengu fram fyrir skjöldu í gagnrýni á lögregluna. Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, á sæti í nýstofnuðu þjóðaröryggisráði. Ráðið hafði verið boðað til annars fundar síns mánudaginn 12. júní þegar fjölmiðlar beindu athygli að sérsveitarmönnunum. Sagðist Katrín ætla að leita skýringa hjá ríkislögreglustjóra á fundi ráðsins.

Þetta varð til þess að koma þjóðaröryggisráðinu og starfi þess rækilega á kortið, mikilvægi ráðsins „stimplaðist inn“. Það hittist þennan dag á öryggissvæðinu sem kom til sögunnar á Keflavíkurflugvelli eftir brottför varnarliðsins. Svæðið er undir forsjá utanríkisráðuneytisins en daglega í umsýslu Landhelgisgæslu Íslands (LHG). Þar eru húsakynni sem rúma marga og fullnægja alþjóðlegum öryggiskröfum við meðferð ríkisleyndarmála.

Á þessum hluta flugvallarsvæðisins er aðstaða fyrir erlenda hermenn sem sinna hér loftrýmisgæslu undir merkjum NATO og flugskýli fyrir orrustuþotur og kafbátaleitarvélar. LHG er til dæmis rekstraraðili flugskýlis 831 sem þarf að breyta fyrir nýjustu kafbátaleitarvélar Bandaríkjanna, Boeing P-8 þotur.

GIUK-hliðið frá Grænlandi um Ísland til Skotlands er að nýju orðið hluti af virku öryggiskerfi NATO. Hér verður einmitt ráðstefna eftir rétta viku á vegum Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands undir fyrirsögninni: Norður-Atlantshafið að nýju hluti NATO.

Aukin varsla boðuð

Eftir fundinn í þjóðaröryggisráði mánudaginn 12. júní sagði Katrín Jakobsdóttir í samtali við fréttamann ríkisútvarpsins að hún vildi fyrst og síðast að gagnsæi ríkti um aðgerðir lögreglunnar. Hvað sem þeirri viðurkenndu kröfu líður verður lögregla að hafa svigrúm til að grípa til aðgerða án þess að boða hvers eðlis þær eru.

Daginn eftir þjóðaröryggisráðsfundinn, þriðjudaginn 13. júní, skýrði Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri frá því í samtali við ríkisútvarpið að lögreglan hefði endurmetið stöðu öryggismála vegna þróunar á Norðurlöndum og eftir nýleg hryðjuverk í Manchester og London, framvegis yrði sérsveit ríkislögreglustjóra meira sýnileg „á stórum samkomum [...] þar sem tugir þúsunda koma saman á einhverri útihátíðinni“. Lögreglan gæti „ekki látið nokkurn tíma líða þar til“ hún setti á sig vopn. „Því hver sekúnda, hver mínúta, skiptir máli,“ sagði ríkislögreglustjóri.

Umræður um öryggismál hér á landi mótast oft af kjánalegri kaldhæðni, skilningsleysi eða vanþekkingu. Þetta birtist nú vegna þessara ákvarðana lögreglunnar.

Íslenska ríkið hefur sömu skyldur og önnur ríki. Í þágu öryggisgæslu hafa til dæmis verið lagðar kvaðir á aðildarríki Sameinuðu þjóðanna um að huga að grunnþáttum öryggis og leggja þannig sinn skerf af mörkum til alþjóðaöryggis. Þetta á ekki síst við um flugöryggi. Standi íslensk stjórnvöld ekki við skuldbindingar í þeim efnum er vá fyrir dyrum. Sama er að segja um öryggi vegna knattspyrnuleikja. Sé þess ekki gætt er ríkjum refsað. Þannig má áfram telja.

Undarleg sérstaða VG


Í nóvember 2015 gripu belgísk stjórnvöld til þess að „frysta“ borgarlíf í Brussel vegna aðgerða gegn hryðjuverkamönnum. Steinunn Þóra Árnadóttir sat þá eins og nú í utanríkismálanefnd alþingis fyrir VG. Hún vildi fara allt aðra leið gegn vandanum í Belgíu, ritaði 23. nóvember 2015 grein í Fréttablaðið og sagði bestu leiðina til að sigra hryðjuverkamenn „að styrkja menntakerfi, heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi og tryggja öllum þjóðfélagshópum þátttöku í lýðræðislegu samfélagi“.

Hún boðaði sem sagt þá stefnu að í stað þess að senda lögreglu inn í Molenbeek-hverfið í Brussel eða handtaka 21 mann og gera vopn upptæk ætti að opna þar félagsmiðstöð.

Þegar fréttir bárust um sérsveitarmennina á götum Reykjavíkurborgar 10. júní 2017 sagði Steinunn Þóra við mbl.is 11. júní: „Ég held að það geti verið mjög hættulegt sýndaröryggi í því að fjölga vopnuðum lögreglumönnum, en ekki styrkja hina almennu löggæslu í landinu. Ég held að við séum á kolrangri leið. [...] Ég held að það sé fátt hættulegra en undirmönnuð vopnuð lögregla, svona almennt séð. Það er ekki þróun sem ég vil sjá.“

Þarna er boðað að lögreglan sé í raun hættulegi aðilinn hér á landi, fámenn en vopnuð. Þetta undarlega viðhorf er ekki bundið við Steinunni Þóru eina innan VG.

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG og forseti borgarstjórnar, fann að því á Facebook þriðjudaginn 13. júní að ríkislögreglustjóri og yfirvöld lögreglunnar hefðu ákveðið, að hennar sögn án samráðs við borgaryfirvöld, hvernig öryggisgæslu yrði háttað á þjóðhátíðardaginn 17. júní og á tónlistarhátíðinni Secret Solstice. S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs úr Bjartari framtíð, sagði þetta ekki rétt hjá Líf, borgaryfirvöld hefðu fengið kynningu á áformum um aukna gæslu á stærri mannfögnuðum.

Óvild forseta borgarstjórnar í garð lögreglunnar birtist í orðum hennar um skort á samráði við stjórnendur borgarinnar þegar staðfest er að borgaryfirvöld voru upplýst um áform um aukna löggæslu.

Þeir sem kynntust háttalagi þingmanna VG í þinghúsinu í janúar 2009 þegar lögreglumenn stóðu þar vörð og tókust á við þá sem réðust að húsinu undrast ekki sjónarmið forystumanna VG núna. Kjörnir fulltrúar VG voru ekki á móti lögreglunni þá vegna búnaðar hennar heldur vegna þess að hún tryggði öryggi þingsins. Forkastanleg framganga Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns VG, er enn í minnum höfð.

Samstaða um þjóðaröryggi


Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, telur afstöðu VG og reyndar líka Pírata „einhvers konar úr sér gengið og öfugsnúið afsprengi þeirrar hugmyndar kommúnista og anarkista á síðustu öld, að lögreglan sé í eðli sínu óvinur almennings. Hún sé tæki auðvaldsins til að kúga alþýðuna“.

Þetta hafi til dæmis komið fram með „sérlega ógeðfelldum hætti hjá sumum forystumönnum Vinstri grænna í Búsáhaldabyltingunni þegar lögreglan freistaði þess að tryggja vinnufrið Alþingis til lýðræðislegra athafna,“ segir Páll á Facebook.

Að baki þjóðaröryggisráði, lögum um það og þingsályktun um þjóðaröryggi myndaðist breið samstaða á alþingi.

Alltaf hefur legið í loftinu að til þess kynni að koma að þessi breiða samstaða rofnaði. Undarlegt er ef það gerist af því tilefni sem hér hefur verið lýst.

Sérstaða VG réðst af andstöðu við varnarsamstarf við útlendinga þar til þjóðaröryggisstefnan var samþykkt. Ætlar VG að rjúfa samstöðuna um þjóðaröryggi með vísan til þess að lögreglan skapi mesta hættu fyrir þjóðfélagið?