Sendiráðsmenn og skip í dularklæðum
Morgunblaðið, laugardagur 22. apríl 2023.
Birt var um það frétt á vefsíðu stjórnarráðsins þriðjudaginn 18. apríl að utanríkisráðherra Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefði tilkynnt stjórnvöldum í Bandaríkjunum að kjarnorkuknúnum kafbátum bandaríska sjóhersins yrði heimilt að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út „áhafnarmeðlimum“ – skipverjum. Var jafnframt sagt að ákvörðun utanríkisráðherra félli að þeirri stefnu íslenskra stjórnvalda að styðja við aukið eftirlit og viðbragðsgetu NATO-ríkjanna á Norður-Atlantshafi.
Áhafnaskipti og þjónusta við herskip NATO-þjóða er ekki nýmæli hér á landi. Í áratugi hafa dönsku herskipin sem halda úti eftirliti við Grænland komið til Reykjavíkurhafnar í þessu skyni. Samvinna danska flotans og Landhelgisgæslu Íslands er mjög náin og báðum til gagns. Að þróa samskipti gæslunnar og bandaríska flotans á hafi úti verður einnig báðum til gagns og styrkir stöðu Íslands innan NATO og stöðu NATO á Norður-Atlantshafi.
Þjónustan við kafbátana verður veitt í 10 km fjarlægð frá landi frá miðstöð hennar í Helguvík á Reykjanesi.
Utanríkisráðuneytið sagði að „þjónustuheimsóknir“ bandarísku kafbátanna í nágrenni Íslands stuðluðu að því „að efla samfellt og virkt kafbátaeftirlit“ á vegum NATO og greina betur en ella væri stöðuna við Ísland fyrir utan að auka „öryggi neðansjávarinnviða á borð við sæstrengi á hafsvæðinu í kringum Ísland“. „Neðansjávarinnviðir“ eru fjarskiptakaplar milli Íslands og annarra landa.
Í vikunni hófu norrænu ríkisútvarpsstöðvarnar, fyrir utan RÚV, að sýna heimildarmyndir undir heitinu Skuggastríðið. Þar er njósnastarfsemi Rússa í skjóli sendiráða afhjúpuð en einnig litið út á hafið og fylgst með rússneskum „draugaskipum“ sem sögð eru notuð við gerð áætlana um skemmdarverk á vindorkuverum í Norðursjó og til að kortleggja „neðansjávarinnviði“ í sama skyni.
Þetta rússneska „rannsóknarskip“ er talið hafa stundað njósnir á Norðursjó..
Í fyrra varð rof á kapli milli Noregs og Svalbarða „af mannavöldum“ segir norska lögreglan.
Hollenska leyniþjónustan varaði í febrúar 2023 við athöfnum sem gæfu til kynna að unnið væri að undirbúningi skemmdarverks á hafi úti. Þar var vísað til þess að rússneskt skip hefði í fyrsta sinn sést á ferð nálægt vindorkuveri við strönd Hollands í því skyni að kortleggja svæðið.
Í október í fyrra var kapall á milli Skotlands og Hjaltlandseyja rofinn. Var talið að rofið mætti rekja til fiskiskips. Breska ríkisútvarpið BBC sagði nú í vikunni að ekki væri litið á þetta atvik sem vísvitandi skemmdarverk. Það verður hins vegar ekki sagt um atvikið þegar þrjú af fjórum rörum rússnesku Nord Stream-leiðslnanna voru sprengd í september 2022 skammt frá Borgundarhólmi í Eystrasalti. Rannsókn þess verknaðar er enn ólokið en ótvírætt er litið á hann sem skemmdarverk.
Samkvæmt tilkynningu utanríkisráðuneytisins er hlutverk bandarískra kafbáta meðal annars að gæta að neðansjávaröryggi við strendur Íslands. Með ferðum rússneskra skipa ofan sjávar fylgist hins vegar landhelgisgæslan með skipum sínum og flugvél. Hugmyndir um að selja eftirlitsflugvél gæslunnar úr landi verða enn fráleitari þegar skoðað er hvað fram kemur í fréttum og sjónvarpsþáttum norrænu ríkisstöðvanna. Þar hafa fréttamenn skoðað opnar heimildir og komist að niðurstöðum sem bornar eru undir þær stofnanir sem gæta öryggis á þessu sviði. Fullyrt er að á undanförnum fimm árum hafi 27 grunsamleg rússnesk skip siglt um sænska lögsögu eða heimsótt sænskar hafnir.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins sagði að forsætisráðherra og utanríkisráðherra legðu áherslu á að það væri skilyrði fyrir komu herskipa NATO-ríkja til landsins að stjórnvöld í viðkomandi ríkjum bæði þekktu og virtu ákvæði þjóðaröryggisstefnu Íslands um að Ísland og íslensk landhelgi væri friðlýst fyrir kjarnavopnum, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga.
Að árétta þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra því að friðlýsingarákvæðið í þjóðaröryggisstefnunni er frá hennar flokki komið og varð lykillinn að því að hann stóð að samkomulagi um stefnuna sem samþykkt var á alþingi 13. apríl 2016.
Frásagnir norrænu ríkismiðlanna af framgöngu Rússa og misnotkun þeirra á sendiráðum eða rannsóknarskipum og fiskiskipum til njósna koma í sjálfu sér ekki á óvart. Vladimír Pútín sinnti á sínum tíma verkefnum af þessu tagi fyrir KGB og átti í samskiptum við hryðju- eða skemmdarverkahópa á Vesturlöndum á níunda áratugnum.
Pútín stjórnar í sama anda nú. Íslensk stjórnvöld verða að horfast í augu við þennan veruleika eins og stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndunum.
Rússar hafa íslenska utanríkisráðuneytið í sjálfskipaðri gíslingu. Verði Rússar reknir héðan og þeir svara í sömu mynt í Moskvu lokast sendiráð Íslands í höfuðborg Rússlands vegna fámennis þar. Engu er líkara en litið sé á lokunina sem þjóðarvá fyrir Íslendinga. Auðvelt er að færa fyrir því rök að íslenskra hagsmuna sé best gætt með fækkun Rússa í dularklæðum hér. Fela má þriðja ríki að gæta íslenskra hagsmuna í Moskvu.
Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra var spurð hvort Ísland breyttist í skotmark við ákvörðunina um kafbátaþjónustuna. Hún sagði réttilega að svo væri ekki.
Í því felst reginmisskilningur að öflugar varnir auki líkur á árás. Góður undirbúningur býr almennt í haginn en skemmir ekki. Þetta á við um varnir gegn því að rússnesk sendiráð séu njósnahreiður í gistiríkinu og að rússnesk „draugaskip“ séu án eftirlits á hafi úti.