22.4.2023

Sendiráðsmenn og skip í dularklæðum

Morgunblaðið, laugardagur 22. apríl 2023.

Birt var um það frétt á vefsíðu stjórn­ar­ráðsins þriðju­dag­inn 18. apríl að ut­an­rík­is­ráðherra Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir hefði til­kynnt stjórn­völd­um í Banda­ríkj­un­um að kjarn­orku­knún­um kaf­bát­um banda­ríska sjó­hers­ins yrði heim­ilt að hafa stutta viðkomu við Ísland til að taka á móti kosti og skipta út „áhafn­ar­meðlim­um“ – skip­verj­um. Var jafn­framt sagt að ákvörðun ut­an­rík­is­ráðherra félli að þeirri stefnu ís­lenskra stjórn­valda að styðja við aukið eft­ir­lit og viðbragðsgetu NATO-ríkj­anna á Norður-Atlants­hafi.

Áhafna­skipti og þjón­usta við her­skip NATO-þjóða er ekki ný­mæli hér á landi. Í ára­tugi hafa dönsku her­skip­in sem halda úti eft­ir­liti við Græn­land komið til Reykja­vík­ur­hafn­ar í þessu skyni. Sam­vinna danska flot­ans og Land­helg­is­gæslu Íslands er mjög náin og báðum til gagns. Að þróa sam­skipti gæsl­unn­ar og banda­ríska flot­ans á hafi úti verður einnig báðum til gagns og styrk­ir stöðu Íslands inn­an NATO og stöðu NATO á Norður-Atlants­hafi.

Þjón­ust­an við kaf­bát­ana verður veitt í 10 km fjar­lægð frá landi frá miðstöð henn­ar í Helgu­vík á Reykja­nesi.

Ut­an­rík­is­ráðuneytið sagði að „þjón­ustu­heim­sókn­ir“ banda­rísku kaf­bát­anna í ná­grenni Íslands stuðluðu að því „að efla sam­fellt og virkt kaf­báta­eft­ir­lit“ á veg­um NATO og greina bet­ur en ella væri stöðuna við Ísland fyr­ir utan að auka „ör­yggi neðan­sjáv­ar­innviða á borð við sæ­strengi á hafsvæðinu í kring­um Ísland“. „Neðan­sjáv­ar­innviðir“ eru fjar­skip­takapl­ar milli Íslands og annarra landa.

Í vik­unni hófu nor­rænu rík­is­út­varps­stöðvarn­ar, fyr­ir utan RÚV, að sýna heim­ild­ar­mynd­ir und­ir heit­inu Skugga­stríðið. Þar er njósn­a­starf­semi Rússa í skjóli sendi­ráða af­hjúpuð en einnig litið út á hafið og fylgst með rúss­nesk­um „drauga­skip­um“ sem sögð eru notuð við gerð áætl­ana um skemmd­ar­verk á vindorku­ver­um í Norður­sjó og til að kort­leggja „neðan­sjáv­ar­innviði“ í sama skyni.

_129412206_mortenkrugerÞetta rússneska „rannsóknarskip“ er talið hafa stundað njósnir á Norðursjó..

Í fyrra varð rof á kapli milli Nor­egs og Sval­b­arða „af manna­völd­um“ seg­ir norska lög­regl­an.

Hol­lenska leyniþjón­ust­an varaði í fe­brú­ar 2023 við at­höfn­um sem gæfu til kynna að unnið væri að und­ir­bún­ingi skemmd­ar­verks á hafi úti. Þar var vísað til þess að rúss­neskt skip hefði í fyrsta sinn sést á ferð ná­lægt vindorku­veri við strönd Hol­lands í því skyni að kort­leggja svæðið.

Í októ­ber í fyrra var kap­all á milli Skot­lands og Hjalt­lands­eyja rof­inn. Var talið að rofið mætti rekja til fiski­skips. Breska rík­is­út­varpið BBC sagði nú í vik­unni að ekki væri litið á þetta at­vik sem vís­vit­andi skemmd­ar­verk. Það verður hins veg­ar ekki sagt um at­vikið þegar þrjú af fjór­um rör­um rúss­nesku Nord Stream-leiðsln­anna voru sprengd í sept­em­ber 2022 skammt frá Borg­und­ar­hólmi í Eystra­salti. Rann­sókn þess verknaðar er enn ólokið en ótví­rætt er litið á hann sem skemmd­ar­verk.

Sam­kvæmt til­kynn­ingu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins er hlut­verk banda­rískra kaf­báta meðal ann­ars að gæta að neðan­sjávar­ör­yggi við strend­ur Íslands. Með ferðum rúss­neskra skipa ofan sjáv­ar fylg­ist hins veg­ar land­helg­is­gæsl­an með skip­um sín­um og flug­vél. Hug­mynd­ir um að selja eft­ir­lits­flug­vél gæsl­unn­ar úr landi verða enn frá­leit­ari þegar skoðað er hvað fram kem­ur í frétt­um og sjón­varpsþátt­um nor­rænu rík­is­stöðvanna. Þar hafa frétta­menn skoðað opn­ar heim­ild­ir og kom­ist að niður­stöðum sem born­ar eru und­ir þær stofn­an­ir sem gæta ör­ygg­is á þessu sviði. Full­yrt er að á und­an­förn­um fimm árum hafi 27 grun­sam­leg rúss­nesk skip siglt um sænska lög­sögu eða heim­sótt sænsk­ar hafn­ir.

Í til­kynn­ingu ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins sagði að for­sæt­is­ráðherra og ut­an­rík­is­ráðherra legðu áherslu á að það væri skil­yrði fyr­ir komu her­skipa NATO-ríkja til lands­ins að stjórn­völd í viðkom­andi ríkj­um bæði þekktu og virtu ákvæði þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands um að Ísland og ís­lensk land­helgi væri friðlýst fyr­ir kjarna­vopn­um, að teknu til­liti til alþjóðlegra skuld­bind­inga.

Að árétta þetta er sér­stak­lega mik­il­vægt fyr­ir Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra því að friðlýs­ing­ar­á­kvæðið í þjóðarör­ygg­is­stefn­unni er frá henn­ar flokki komið og varð lyk­ill­inn að því að hann stóð að sam­komu­lagi um stefn­una sem samþykkt var á alþingi 13. apríl 2016.

Frá­sagn­ir nor­rænu rík­is­miðlanna af fram­göngu Rússa og mis­notk­un þeirra á sendi­ráðum eða rann­sókn­ar­skip­um og fiski­skip­um til njósna koma í sjálfu sér ekki á óvart. Vla­dimír Pútín sinnti á sín­um tíma verk­efn­um af þessu tagi fyr­ir KGB og átti í sam­skipt­um við hryðju- eða skemmd­ar­verka­hópa á Vest­ur­lönd­um á ní­unda ára­tugn­um.

Pútín stjórn­ar í sama anda nú. Íslensk stjórn­völd verða að horf­ast í augu við þenn­an veru­leika eins og stjórn­völd ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um.

Rúss­ar hafa ís­lenska ut­an­rík­is­ráðuneytið í sjálf­skipaðri gísl­ingu. Verði Rúss­ar rekn­ir héðan og þeir svara í sömu mynt í Moskvu lokast sendi­ráð Íslands í höfuðborg Rúss­lands vegna fá­menn­is þar. Engu er lík­ara en litið sé á lok­un­ina sem þjóðarvá fyr­ir Íslend­inga. Auðvelt er að færa fyr­ir því rök að ís­lenskra hags­muna sé best gætt með fækk­un Rússa í dul­ar­klæðum hér. Fela má þriðja ríki að gæta ís­lenskra hags­muna í Moskvu.

Þór­dís Kol­brún ut­an­rík­is­ráðherra var spurð hvort Ísland breytt­ist í skot­mark við ákvörðun­ina um kaf­bátaþjón­ust­una. Hún sagði rétti­lega að svo væri ekki.

Í því felst reg­in­mis­skiln­ing­ur að öfl­ug­ar varn­ir auki lík­ur á árás. Góður und­ir­bún­ing­ur býr al­mennt í hag­inn en skemm­ir ekki. Þetta á við um varn­ir gegn því að rúss­nesk sendi­ráð séu njósna­hreiður í gisti­rík­inu og að rúss­nesk „drauga­skip“ séu án eft­ir­lits á hafi úti.