13.11.2020

Sátt en ekki sundrung í Washington

Morgunblaðið, föstudagur 13. nóvember 2020.

Sam­an­b­urður á ferli Don­alds Trumps, frá­far­andi Banda­ríkja­for­seta, og Joes Bidens, verðandi for­seta, sýn­ir hvers vegna þeir taka ákv­arðanir og vinna að lausn mála á gjör­ólík­an hátt. Trump er ein­ráður kaup­sýslumaður, eig­andi glæsi­bygg­inga sem bera gulls­legið nafn hans. Lög­fræðing­ur­inn Joe Biden var kjör­inn í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings 29 ára fyr­ir rétt­um 48 árum. Biden verður 78 ára nú 20. nóv­em­ber. Hann stjórn­ar í krafti mála­miðlana.

Don­ald Trump birt­ist eins og storm­sveip­ur í banda­rísk­um stjórn­mál­um árið 2016 og síðan sem for­seti í janú­ar 2017 með þann boðskap á vör­un­um að hann ætlaði að ræsa út mýr­ina í Washingt­on, ýta þeim til hliðar sem ráðið hefðu för og fjar­lægst þjóðina á valda­stól­un­um. Þetta dugði til að virkja gras­rót­ina gegn Hillary Cl­int­on, full­trúa kerf­is­ins og ráðandi afla.

Fjór­um árum síðar tap­ar Trump fyr­ir sér eldri manni sem hef­ur í hálfa öld lifað og hrærst í „mýr­inni“ og sótti fylgið sem að lok­um þurfti til að vinna Trump til þeirra í flokki re­públi­kana sem þoldu ekki stór­bokka­hátt flokks­bróður síns í Hvíta hús­inu. Þunga­miðjan í kosn­inga­boðskap Bidens var að benda á karakt­er Trumps sem enn sit­ur við sinn keip.

Trump get­ur vel unað við töl­urn­ar sem birt­ar hafa verið um fylgi hans. Raun­ar er magnað að hann hafi fengið um 71 millj­ón at­kvæða. Hann fékk meira fylgi meðal blökku­manna og fólks af spænsk­um ætt­um en áður. Hon­um tókst margt vel í for­setatíð sinni en hafði ekki réttu skap­gerðina til að ná end­ur­kjöri.

Við upp­haf for­seta­fer­ils Trumps voru uppi kenn­ing­ar um laumu­spil manna hans eða jafn­vel hans sjálfs með Rúss­um. Gefið var til kynna að ekki væri unnt að treysta Trump til að gæta þjóðarör­ygg­is. Með ásök­un­um um að ekki sé rétt staðið að kosn­ing­um í Banda­ríkj­un­um veg­ur Trump að rót­um lýðræðis­ins. Hann býr sig und­ir bar­áttu gegn Biden sem for­seta án lög­mæts umboðs.

Stjórn­ar­hætt­ir Trumps urðu að nokkru skjól fyr­ir þá sem vega að frjáls­lyndu, lýðræðis­legu stjórn­kerfi. Telji hann Banda­ríkja­menn ófæra um að efna til lýðræðis­legra kosn­inga gref­ur Trump und­an bar­áttu þeirra sem berj­ast gegn vald­höf­um á borð við Al­ex­and­er Luka­sj­en­ko í Hvíta-Rússlandi.

Vegna reynslu sinn­ar í öld­unga­deild­inni veit Joe Biden bet­ur en aðrir að án meiri­hluta þar eru Banda­ríkja­for­seta sett­ar veru­leg­ar skorður. Um meiri­hlut­ann er óvíst þar til kjör tveggja öld­unga­deild­arþing­manna verður end­ur­tekið í Georgíu-ríki 5. janú­ar 2021.

Haldi re­públi­kan­ar meiri­hluta í öld­unga­deild­inni fá þeir stöðvun­ar­vald á mörg­um mik­il­væg­um sviðum vegna skatt­heimtu og op­in­berra út­gjalda og við val á mönn­um í ráðherra- og dóm­ara­embætti, auk þess að halda for­mennsku í lyk­il­nefnd­um deild­ar­inn­ar.

800Joe Biden flytur ræðu sem verðandi forseti.

Joe Biden er miðjumaður og boðskap­ur hans sem verðandi for­seti er að hann ætli að bera græðandi smyrsl á póli­tísk sár í Banda­ríkj­un­um. Það tekst ekki láti hann und­an öfga-vinst­ri­sinn­um inn­an eig­in flokks. Þeir efld­ust fengju demó­krat­ar meiri­hluta í öld­unga­deild­inni þar sem Bernie Sand­ers og El­iza­beth War­ren sitja. Biden sigraði þau í próf­kjör­inu til að halda aft­ur af öfg­um. Miðju­stefnu sinni á Biden auðveld­ara með að fylgja fái re­públi­kan­ar meiri­hluta í öld­unga­deild­inni.

 

Örygg­is­mál

 

Orðin Foggy Bottom eru notuð um banda­ríska ut­an­rík­is­ráðuneytið. Nafnið er dregið af þeim hluta Washingt­on-borg­ar þar sem ráðuneytið, Waterga­te-bygg­ing­in og Kenn­e­dy-listamiðstöðin standa svo að nokkuð sé nefnt. Með orðunum er vísað til þoku­læðunn­ar sem lá yfir mýr­inni.

Don­ald Trump vildi sem minnst vita af diplómöt­um og fyrr­ver­andi starfs­menn í Foggy Bottom skrifuðu grein­ar um að hann ætlaði í raun að eyðileggja ut­an­rík­is­ráðuneytið. Hann stydd­ist frek­ar við her­for­ingja en diplómata og duttl­ung­ar hans réðu meiru en fram­kvæmd ígrundaðrar ut­an­rík­is­stefnu.

Her­for­ingj­ar þekkja hörm­ung­ar vegna hernaðarátaka manna best. Stjórn­artíð Trumps hef­ur ein­kennst af vilja­leysi hans til að beita banda­rísku hervaldi. Hann hef­ur hins veg­ar eflt hernaðarmátt Banda­ríkj­anna.

Í tíð Trumps hef­ur banda­ríski flot­inn til dæm­is látið meira að sér kveða á Norður-Atlants­hafi en áður í 30 ár. Sam­starf við Norður­lönd í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um eykst jafnt og þétt ekki síst við Svía og Finna. Ólík­legt er að þessi stefna breyt­ist með Biden í Hvíta hús­inu. Unnið er að gerð áætl­ana sem koma til fram­kvæmda stig af stigi.

Einn liður í þeirri vinnu var heim­sókn banda­ríska flota­for­ingj­ans Roberts Burkes, yf­ir­manns banda­ríska flot­ans í Evr­ópu og Afr­íku, hingað til lands í loka­viku októ­ber. Flota­for­ing­inn kynnti áhuga banda­ríska flot­ans og NATO á hafn­araðstöðu í Fær­eyj­um, á Íslandi og Græn­landi.

Í sept­em­ber 2015, í for­setatíð Baracks Obama, fór Robert O. Work, vara-varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna til Íslands, Nor­egs og Bret­lands. Hann ræddi við ráðamenn og kynnti sér mann­virki og búnað sem kynni að nýt­ast banda­rísk­um herafla yrði hann send­ur til Íslands og Nor­egs. Síðan samþykkti Banda­ríkjaþing fjár­veit­ing­ar til end­ur­bóta og mann­virkja­gerðar á Kefla­vík­ur­flug­velli.

 

 

Fjölþjóðasam­starf

 

Banda­ríkja­stjórn hafði for­ystu um fjölþjóðlegt sam­starf reist á alþjóðalög­um að lok­inni síðari heims­styrj­öld­inni. Viður­kenn­ing Banda­ríkja­manna á sjálf­stæði Íslands skipti sköp­um við stofn­un lýðveld­is­ins 17. júní 1944. Nokkr­um vik­um síðar sat ís­lensk sendi­nefnd fund­inn ásamt full­trú­um 43 annarra ríkja í Brett­on Woods í New Hamps­hire-ríki og lagði grunn að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Alþjóðabank­an­um og í raun því fjölþjóðlega stofn­ana- og sam­starfsneti sem síðan hef­ur þró­ast.

Í tíð Don­alds Trumps hef­ur hann haft horn í síðu margra þess­ara stofn­ana og dregið úr starfi og áhrif­um Banda­ríkja­manna inn­an þeirra. Fræg­ust er úr­sögn hans úr Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni (WHO). Joe Biden hef­ur boðað það sem eitt fyrsta verk sitt að Banda­rík­in gangi aft­ur í WHO og verði þar með í for­ystu í bar­átt­unni gegn Covid-19-far­aldr­in­um.

Þetta er fagnaðarefni og stuðlar að sigri á veirunni en hitt skipt­ir ekki minna máli að með þátt­töku Banda­ríkja­stjórn­ar sé stuðlað að varðstöðu um þá heims­skip­an í krafti alþjóðalaga sem hef­ur reynst vel í þrjá ald­ar­fjórðunga. Tóma­rúmið sem leitt hef­ur af brott­hvarfi eða áhuga­leysi Banda­ríkja­stjórn­ar und­ir for­sæti Don­alds Trumps hafa þeir reynt að fylla sem virða frjáls­lynd lýðræðisviðhorf að vett­ugi.

At­hygli bein­ist að stefnu­breyt­ing­unni sem verður á lofts­lags­stefnu Banda­ríkj­anna með valda­töku Bidens sem vill virða Par­ís­ar­samn­ing­inn um mark­mið gegn gróður­húsaloft­teg­und­um. Þrátt fyr­ir and­stöðu Trumps við samn­ing­inn hef­ur stjórn hans lagt áherslu á rann­sókn­ir á áhrif­um lofts­lags­breyt­inga á norður­slóðum. Trump viður­kenndi þær í verki með ákvörðun um smíði banda­rískra ís­brjóta.

Stærsta sjá­an­lega breyt­ing­in við banda­rísku stjórn­ar­skipt­in birt­ist í fyr­ir­sjá­an­leika um hver er í raun stefna Banda­ríkja­stjórn­ar. Þetta styrk­ir tengsl henn­ar við banda­menn sína og veld­ur þátta­skil­um í starfi fjölþjóðastofn­ana en breyt­ir ekki grund­vall­arþátt­um stefn­unn­ar.