4.10.2018

Samtíminn borinn upp að fortíðinni

Umsögn í Morgunblaðinu 4. október 2018 um bókina Skiptidaga eftir Guðrúnu Nordal.

Daginn sem ég lauk lestri bókar Guðrúnar Nordal, Skiptidaga, nesti handa nýrri kynslóð, birtist í Morgunblaðinu forvitnileg lýsing Þórarins Eldjárns skálds á leit hans að orðinu »tjaldkúlur«. Hann leitaði að því í öllum almennum og daglegum orðabókum og orðfræðiritum. Sjálft ritmálssafn Orðabókar Háskólans sagði pass. Eftir það sneri Þórarinn sér til þess »margfróða Bandaríkjamanns Gúgúls« sem beit á agnið þegar orðið var sent honum í eintölu, »vísanir fundust einkum í Harðar sögu, þar sem frá því segir í átjánda kafla að Gunnhildur konungamóðir sendir menn sína til að drepa Geir Grímsson: »Þeir koma um nótt og berja þeim tjaldkúlur og fella á þá tjöldin.« Úr neðanmálsgrein í Fornritafélagsútgáfu Harðar sögu lá svo leiðin yfir í Ólafs sögu helga í Flateyjarbók, 15. kafla, og Örvar-Odds sögu, 7. kafla. Jafnframt mátti sjá að í 22. kafla Þorsteins sögu Víkingssonar sé talað um að »kemba e-m ekki hagligar tjaldkúlur«.

GetFile.phpMyndin af Guðrúnu Nordal birtist með umsögninni í Morgunblaðinu.

Í þessari stuttu frásögn tengist íslenskt samtímaskáld höfundi Íslendingasagna með aðstoð bandarísku leitarvélarinnar Google eftir að hafa árangurslaust leitað eftir íslenskum leiðum. Í bók sinni leitast Guðrún einmitt við að tengja nútíð og fortíð í menningarheimi okkar en veltir einnig fyrir sér hver verða áhrif upplýsingatækninnar, hvort hún veiki til dæmis stöðu okkar fámenna málsamfélags eða styrki.

Undir lok bókarinnar segir Guðrún: »Ég kalla þessa hugleiðingu mína um fortíð Íslands og framtíð skiptidaga; því að mér finnst við lifa milliskeið tveggja heima, þess gamla og þess nýja. Síðustu tíu árin eru aðeins forsmekkurinn að þeirri umbyltingu sem á eftir að verða.«

Guðrún hefur frá árinu 2009 gegnt stöðu forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hún varð doktor í Sturlungu frá Oxford University og hefur sem dósent og síðar prófessor kennt íslenskar miðaldabókmenntir, Íslendingasögur, konungasögur, bókmenntafræði miðalda og Snorra-Eddu, kveðskap frá öndverðu til siðaskipta. Rannsóknarsvið hennar eru ritmenning íslenskra miðalda með megináherslu á ritun veraldlegra sagna og kveðskapar í ljósi bókmenntafræði miðalda.

Mikil þekking hennar á þessum fræðum birtist í nýrri bók hennar sem lýst er á kápu sem persónulegu ferðalagi »höfundar um sögu Íslands og bókmenntir allt frá landnámi til okkar daga«.

Meginkostur bókarinnar fyrir almennan lesanda er hve Guðrún býr þetta efni í aðgengilegan búning á hnitmiðaðan og vandaðan hátt. Vald hennar á tungunni og sögunni er á þann veg að textinn flæðir áreynslu- og tilgerðarlaust. Fróðleikurinn verður lifandi hluti samtímans og lesandinn sannfærist um hve tungan og ritmenningin skiptir miklu fyrir sjálfsvitund þjóðarinnar. Ekki fylgir nafna- eða atriðisorðaská textanum. Útgefanda hefði þó ekki átt að vera skotaskuld úr að sjá til þess að slík hjálpartæki fylgdu samhliða tilvísanaskránni.

Kaflinn um Jón Sigurðsson bregður einkar skýru ljósi á ómetanlegt menningarlegt framlag hans til að greina sérstöðu Íslands innan danska ríkisins á grundvelli þekkingar og rannsókna: »Rétt eins og reisa varð hinn sögulega málflutning á eldri skjölum var mikilvægt að nýtt Ísland risi á grunni nýrra og traustra upplýsinga. [...] Mikið væri gaman að fá Jón Sigurðsson í heimsókn einn eftirmiðdaginn og sýna honum gagnagnægð nútímans og sjá hvort hann fyndi ekki nýjar leiðir til miðlunar.«

Jóni Sigurðssyni var kappsmál að skýrslur yrðu gerðar um aðskiljanleg mál svo að almenningur gæti gert upp hug sinn á grundvelli ljósra upplýsinga. Styrkur hans fólst í yfirburða þekkingu á sögu landsins sem hann aflaði sér með því að kynnast efni fornra skjala um hagsæld og þjóðhætti. Þessi þekking hvatti hann síðan til dáða. Hann var jarðbundinn á öldinni þegar rómantíkin ýtti undir ættjarðarástina. Á þann hátt öðlaðist hann einstakan sess í sögu þjóðarinnar.

Frásögn af alúð Jóns við að hafa staðreyndir á hreinu og áhuga hans á að leggja þær fyrir almenning til umræðu í því skyni að vinna málstað þjóðarinnar gagn á fullt erindi nú á tímum þegar óttinn við falsfréttir og misbeitingu miðla til áhrifa á almenning vex.

Þessi þráður úr Íslandssögunni er aðeins einn af mörgum sem Guðrún gerir að umtalsefni. Miðaldirnar og menningarstarf tengt þeim er henni hugstætt og um það efni er fjallað af yfirburðaþekkingu. Þar ætti bókin að höfða til margra sé tekið mið af áhuga á fyrirlestrum fyrir lærða og leika sem Miðaldastofa við Háskóla Íslands skipuleggur ár eftir ár við mikla aðsókn.

Hún segir einnig sögu forfeðra sinna og beinir sérstakri athygli að hlut kvenna, formæðra sinna og annarra. Á þann veg er áréttað að um persónulegt ferðalag sé að ræða.

Guðrún segir:

 »Okkar styrkur í heiminum, eins og allra annarra þjóða, felst í því að vera við sjálf, án nokkurs þjóðarrembings, tala okkar tungumál og læra önnur, hlúa að styrkleika okkar, hugviti og nýsköpun, og missa ekki sjónar af þeim siðferðilegu gildum sem búa í menningu okkar og sögu. [...] Við dýpkum skilning okkar og nákvæma greiningu á samtíma okkar með því að bera hann upp að fortíðinni eða sögu annarra þjóða því að þá verðum við að hugsa skýrt. Við sjáum ótrúlega lík stef endurtaka sig aftur og aftur.«

Þótt í Skiptidögum sé lögð áhersla á sérkenni Íslendinga og nauðsyn þess að huga að þeim er í bókinni jafnframt áréttuð nauðsyn þess að láta ekki stjórnast af viðhorfinu »við« og »þeir«. Gefum Guðrúnu orðið:

 »Ég efast um að Snorri Sturluson hafi litið á Snorra-Eddu á þrettándu öld sem íslensk fræði, miklu fremur sem norræn eða jafnvel alþjóðleg fræði. En líklega leiddi hann ekki hugann að þessu álitaefni. Örvunin kom úr öllum áttum, úr lærdómi sem var sá sami í öllum skólum Evrópu og úr munnlegum frásögnum og kvæðum. Edda hans varð rit um norrænt efni, einstakt í alþjóðlegu samhengi á fyrri hluta þrettándu aldar, en þó skilgetið afkvæmi beggja heima.«

Við erum enn á mörkum tveggja heima og getum leitað víða til að brúa þá eins og Þórarinn Eldjárn sannreyndi með aðstoð Gúguls. Með bók sinni, Skiptidögum, nesti handa nýrri kynslóð, leggur Guðrún Nordal verðugan skerf af mörkum til auðvelda okkur að sjá söguna í heild með augum 21. aldarinnar. Bókin er markverð gjöf í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins.