5.4.2019

Samstaða um sérstöðu Íslands í NATO

Morgunblaðið 5. apríl 2019

Þess er minnst um þess­ar mund­ir að 4. apríl 2019 voru 70 ár liðin frá því að ut­an­rík­is­ráðherr­ar 12 landa komu sam­an í Washingt­on og rituðu und­ir Atlants­hafs­sátt­mál­ann, stofn­skrá Norður-Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO).

Ut­an­rík­is­ráðherra Íslands, Bjarni Bene­dikts­son, var meðal ráðherr­anna 12. Að baki ákvörðun­inni um aðild Íslands stóðu þing­menn úr Alþýðuflokki, Fram­sókn­ar­flokki og Sjálf­stæðis­flokki. Komm­ún­ist­ar og fleiri and­stæðing­ar NATO-aðild­ar­inn­ar réðust á Alþing­is­húsið 30. mars 1949 í von um að hindra að þing­menn gætu af­greitt aðild­ar­til­lög­una. Fyr­ir at­beina lög­reglu með liðstyrk varaliðs al­mennra borg­ara tókst að hrinda árás­inni.

Íslend­ing­ar gengu í NATO án skuld­bind­inga um að stofna eig­in her eða að er­lend­ur her yrði í landi þeirra á friðar­tím­um. Þróun alþjóðastjórn­mála varð á þann veg að í maí 1951 var gerður tví­hliða varn­ar­samn­ing­ur Íslend­inga og Banda­ríkja­manna inn­an ramma NATO-aðild­ar­inn­ar. Samn­ing­ur­inn er enn í fullu gildi. Í krafti hans voru banda­rísk­ir her­menn í varn­ar­stöðinni á Kefla­vík­ur­flug­velli, Kefla­vík­ur­stöðinni, frá maí 1951 til 30. sept­em­ber 2006.

Mikl­ir um­brota­tím­ar

Þetta voru mikl­ir um­brota­tím­ar á alþjóðavett­vangi og hart tek­ist á um hug­mynda­fræðileg mál­efni. Sókn komm­ún­ista til ítaka og áhrifa í lýðræðislönd­un­um var mark­viss og vel skipu­lögð. Þetta átti jafnt við um Ísland og önn­ur lýðfrjáls ríki eins og fræðimenn hafa lýst. Mark­miðið var að sann­færa al­menn­ing um að sósíal­ísk þjóðfé­lags­skip­an stæði kapí­tal­ism­an­um fram­ar.

Vek­ur undr­un hve marg­ir mennta­menn létu blekkj­ast af sósíal­ískri stefnu fá­tækt­ar og kúg­un­ar sem lagði tugi ef ekki hundruð millj­ón­ir manna að velli.

2019-03-30t133002z_695146547_rc19ab9850a0_rtrmadp_3_lithuania-natoÁtök­in um aðild­ina að NATO og varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in voru lengi hörð hér á landi. Í raun var þetta átaka­ás stjórn­mál­anna allt fram til árs­ins 1974 þegar efnt var til und­ir­skrifta­söfn­un­ar und­ir kjör­orðinu Varið land. Þar var and­mælt áform­um þáver­andi vinstri stjórn­ar um að segja upp varn­ar­samn­ingn­um. Alls söfnuðust 55.522 gild­ar und­ir­skrift­ir kosn­inga­bærra manna, eða 49% þeirra sem at­kvæði greiddu í alþing­is­kosn­ing­um sama ár. Söfn­un­in var gerð að frum­kvæði 14 ein­stak­linga, stóð hún í rúm­an mánuð frá 15. janú­ar til 20. fe­brú­ar.

Eft­ir þetta var all­ur vind­ur úr and­stöðunni við varn­ar­liðið en dvöl þess var jafn­an meira átaka­mál á þess­um árum en aðild­in að NATO þótt meiri samstaða hafi verið á alþingi árið 1951 um varn­ar­samn­ing­inn en Atlants­hafs­sátt­mál­ann árið 1949.

NATO efl­ist

Komm­ún­ist­ar, sósí­al­ist­ar, alþýðubanda­lags­menn og nú arf­tak­ar þessa hóps meðal vinstri grænna (VG) hafa jafn­an haft horn í síðu NATO. Andstaðan er meiri í orði en á borði. Ef marka má grein­ar­gerð með nýrri til­lögu nokk­urra þing­manna VG um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um NATO-aðild­ina snýst málið nú um að rétta hlut þeirra sem urðu und­ir í átök­un­um á Aust­ur­velli fyr­ir 70 árum.

Með rök­um af þessu tagi er áréttuð holl­usta við málstað komm­ún­ista og Sov­ét­vina sem mótaði mjög bar­átt­una gegn NATO á þess­um árum. Að andstaða við banda­lagið sé skýrð á þenn­an hátt eft­ir allt það sem gerst hef­ur í sögu þess og alþjóðastjórn­mála í 70 ár er stórund­ar­legt.

Vel­gengni alþjóðastofn­ana verður best mæld með áhuga þjóða á þátt­töku í starfi þeirra. Þegar Ísland varð stofn­ríki NATO voru 12 ríki í hópn­um nú 70 árum síðar eru þau 29 með alls um einn millj­arð íbúa.

Rík­in sem lutu sov­éskri ein­ræðis­stjórn komm­ún­ista höfðu ekki fyrr hlotið sjálf­stæði í byrj­un tí­unda ára­tug­ar­ins en þau vildu aðild að NATO. Sama máli gilti um rík­in á Balk­anskaga eft­ir upp­lausn Júgó­slav­íu.

Þjóðir leita ekki aðeins ör­ygg­is í þessu ein­staka varn­ar­banda­lagi held­ur einnig gæðastimp­ils sem í aðild­inni felst, að rík­in séu tal­in gjald­geng til sam­starfs við gam­al­gró­in lýðræðis­ríki í banda­lag­inu og geti sent full­trúa með neit­un­ar­vald að fund­ar­borði þess.

Þjóðarör­ygg­is­stefn­an

Hér á landi hef­ur samstaða stjórn­mála­flokka um gildi NATO-aðild­ar­inn­ar verið staðfest með þjóðarör­ygg­is­stefn­unni sem var samþykkt sam­hljóða á alþingi 13. apríl 2016. Þar seg­ir:

Að aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu verði áfram lyk­il­stoð í vörn­um Íslands og meg­in­vett­vang­ur vest­rænn­ar sam­vinnu sem Ísland tek­ur þátt í á borg­ara­leg­um for­send­um til að efla eigið ör­yggi og annarra banda­lags­ríkja.

Að varn­ar­samn­ing­ur Íslands og Banda­ríkj­anna frá 1951 tryggi áfram varn­ir Íslands og áfram verði unnið að þróun sam­starfs­ins á grund­velli samn­ings­ins þar sem tekið verði mið af hernaðarleg­um ógn­um, sem og öðrum áhættuþátt­um þar sem gagn­kvæm­ir varn­ar- og ör­ygg­is­hags­mun­ir eru rík­ir.

Skýr­ara get­ur það ekki verið og að fram­kvæmd þess­ar­ar stefnu ber þjóðarör­ygg­is­ráði að vinna – nú und­ir for­mennsku for­sæt­is­ráðherra úr VG.

Sérstaða Íslands

Umræður um aðild­ina að NATO eru allt ann­ars eðlis hér en í nokkru öðru aðild­ar­landi. Megin­á­stæðan er að ís­lensk stjórn­völd taka ekki ákv­arðanir um út­gjöld til eig­in herafla. Hér eru ekki held­ur fyr­ir hendi nein­ar hefðir sem tengj­ast slík­um herafla. Eng­um upp­lýs­ing­um um hernaðarleg mál­efni er skipu­lega miðlað til rík­is­stjórn­ar eða alþing­is. Áhugi og umræður taka óhjá­kvæmi­lega mið af þessu til dæm­is á stjórn­mála- og fjöl­miðlavett­vangi.

Í anda þess­ar­ar umræðuhefðar fer vel á því að Al­menna bóka­fé­lagið hafi nú sent frá sér bók­ina: Til varn­ar vest­rænni menn­ingu – ræður sex rit­höf­unda 1950-1958. Höf­und­arn­ir eru Tóm­as Guðmunds­son, Davíð Stef­áns­son, Guðmund­ur G. Hagalín, Gunn­ar Gunn­ars­son, Krist­mann Guðmunds­son og séra Sig­urður Ein­ars­son í Holti.

Með því að lesa er­indi þess­ara and­ans manna og skýr­ing­ar sem dr. Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son pró­fess­or hef­ur tekið sam­an má kom­ast í snert­ingu við and­rúms­loftið sem ríkti þjóðlíf­inu, mennta- og menn­ing­ar­heim­in­um á þess­um mót­un­ar­ár­um NATO-aðild­ar­inn­ar.

Þess­ar umræður höfðu mik­il áhrif á mig. Á tíma fyrstu vinstri­stjórn­ar­inn­ar 21. októ­ber 1956 fór ég til dæm­is 11 ára með föður mín­um þegar hann flutti ræðu á héraðsmóti sjálf­stæðismanna á Kirkju­bæj­arklaustri ásamt sr. Sig­urði í Holti.

Er mér í barn­sminni ofsa­veðrið og sand­byl­ur­inn á Mýr­dalss­andi og síðan orðkynng­in þegar sr. Sig­urður for­mælti þrum­andi röddu fram­göngu komm­ún­ista og Sov­ét­manna en upp­reisn Ung­verja gegn þeim hófst tveim­ur dög­um síðar. Í ræðu sr. Sig­urðar sem flutt var við annað til­efni og birt­ist í of­an­greindri bók seg­ir hann:

„En það er eng­in ný stefna [í Moskvu eft­ir leyn­iræðuna um Stalín], ekk­ert nýtt stjórn­ar­far, ekk­ert nýtt viðhorf. Það á að halda áfram að skapa hér fimmtu her­deild, það á að halda áfram í hverju landi, líka hér á Íslandi, að grafa und­an þjóðfé­lags­stoðunum. Það á að halda áfram að láta föður­lands­svik­ar­ana inn­an hinna borg­ara­legu vest­rænu menn­ing­arþjóðfé­laga halda áfram að vinna sig­ur­inn fyr­ir þá þarna aust­ur í Moskvu með því að skapa öngþveiti í at­vinnu­mál­um land­anna, með því að grafa und­an þjóðlegri menn­ingu og fortíðar­erfðum.“

Þá og þarna var hart og hik­laust bar­ist fyr­ir skýr­um gild­um.