27.12.2019

Samið við Breta á nýjum grunni

Morgunblaðið, föstudagur, 27. desember 2019

Í umræðuþætti um úr­slit þing­kosn­ing­anna í Bretlandi 12. des­em­ber sagði Dav­id Mili­band, fyrrv. ut­an­rík­is­ráðherra Verka­manna­flokks­ins, að frá upp­hafi hefði kosn­inga­bar­átta flokks­ins und­ir for­ystu Jeremys Cor­byns verið von­laus. Það ynni eng­inn kosn­ing­ar með því að berj­ast fyr­ir better yester­day – betri gær­degi – í kosn­ing­um yrðu menn að horfa fram á veg og segja kjós­end­um hvað þeir vildu gera bet­ur.

Tíma­skekkj­an í boðskap Cor­byns og fylg­is­manna hans er aug­ljós. Þeir vilja hverfa aft­ur til rík­is­for­sjár og sósí­al­isma sem Tony Bla­ir, sig­ur­sæl­asti leiðtogi Verka­manna­flokks­ins, ýtti til hliðar á tí­unda ára­tugn­um. End­ur­reisn­ar­menn í Verka­manna­flokkn­um segja þess vegna ekki nóg að losna við Cor­byn held­ur verði einnig að upp­ræta cor­byn­ismann, þar á meðal gyðinga­hat­ur.

Cor­byn skilaði auðu um hvernig ætti að ljúka fyrsta áfanga brex­it-ferðar­inn­ar. Bor­is John­son, leiðtogi Íhalds­flokks­ins, tók hins veg­ar af­drátt­ar­lausa af­stöðu.

Þjóðin greiddi at­kvæði með úr­sögn úr ESB í júní 2016 en meiri­hluti þing­manna stóð gegn henni þar til föstu­dag­inn 20. des­em­ber þegar, að lokn­um þing­kosn­ing­um, þing­menn samþykktu með 358 at­kvæðum gegn 284 í neðri mál­stofu þings­ins að staðfesta viðskilnaðarsamn­ing Breta og ESB.

Loka­af­greiðsla um málið verður í breska þing­inu 9. janú­ar og ESB-þingið tek­ur af­stöðu til samn­ings­ins 13. eða 28. janú­ar 2020. Eft­ir það hefst næsti áfang­inn, gerð framtíðarsamn­ings milli Breta og ESB. Bor­is John­son vill lög­festa að áfang­an­um ljúki 31. des­em­ber 2020, rétt­um 11 mánuðum eft­ir úr­sögn­ina 31. janú­ar 2020.

 

Bor­is sam­ein­ar Íhalds­flokk­inn

Í kosn­inga­bar­áttu sinni lofaði Bor­is John­son að færa klukk­una til baka sam­hliða „nýrri dagrenn­ingu“. Hann ætlaði að koma Bret­um í svipaða stöðu og þeir voru fyr­ir 1973 þegar þeir gerðust, án þjóðarsátt­ar, aðilar að Evr­ópu­banda­lag­inu og hann boðaði nýja veg­ferð án sam­eig­in­legs markaðar.

Eft­ir að UKIP-sjálf­stæðissinn­ar gegn ESB tóku að hafa fylgi af Íhalds­flokkn­um ákvað Dav­id Ca­meron, þáv. leiðtogi flokks­ins og for­sæt­is­ráðherra, að efna til þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar um ESB-aðild­ina í júní 2016. Hann vildi í senn sam­eina Íhalds­flokk­inn og halda áfram í ESB á nýj­um for­send­um. Hvor­ugt varð og hann sagði af sér.

UKIP breytt­ist í Brex­it-flokk­inn sem náði miklu fylgi af Íhalds­flokk­um í ESB-þing­kosn­ing­um í maí 2019. Leiðtoga­dag­ar Th­eresu May voru tald­ir og Nig­el Fara­ge, leiðtogi Brex­it-flokks­ins, færðist all­ur í auk­ana eft­ir því sem brex­it-erfiðleik­ar Íhalds­flokks­ins juk­ust. Hann hafði meira að segja í heit­ing­um við Bor­is John­son síðsum­ars 2019 en lyppaðist niður og fékk eng­an mann kjör­inn á þing 12. des­em­ber.

Í þing­kosn­ing­un­um tókst Bor­is John­son það sem Ca­meron ætlaði sér, að sam­eina Íhalds­flokk­inn með því að kæfa sjálf­stæðissinna. Brex­it-flokk­ur­inn er úr sög­unni og Bor­is John­son krafðist skrif­legr­ar yf­ir­lýs­ing­ar af öll­um fram­bjóðend­um Íhalds­flokks­ins um að þeir styddu brex­it.

Brexit-20190729083645812

 

Harka vegna fríversl­un­ar­samn­ings

Í ræðu fyr­ir at­kvæðagreiðsluna á þingi 20. des­em­ber hvatti Bor­is John­son til þess að menn hættu að líta á sig sem úr­sagn­ar- eða aðild­arsinna. Ein­huga yrði þjóðin að sækja fram á eig­in for­send­um í krafti þess frels­is og svig­rúms til að setja sér eig­in lög og regl­ur sem hún fengi með brex­it.

Í ræðunni sló for­sæt­is­ráðherr­ann einnig harðan tón þegar hann ræddi kom­andi fríversl­un­ar­viðræður við ESB. Hann setti ekki aðeins ströng og þröng tíma­mörk held­ur tók hann allt aðra stefnu varðandi efni og aðferð en tals­menn ESB.

Að Bret­ar og ESB semji á 11 mánuðum er mik­il bjart­sýni í ljósi þess að það tók ESB tvö og hálft ár að semja um fríversl­un við S-Kór­eu­menn. Ekki hef­ur verið samið við aðra þjóð á skemmri tíma. Viðræður ESB um fríversl­un­ar­samn­ing við Kan­ada­menn stóðu frá 2009 til 2017, í átta ár. Ligg­ur í loft­inu að Bret­ar vilji eig­in út­gáfu af Kan­ada­samn­ingn­um. Ekk­ert er þó í hendi.

Þegar rætt er um alþjóðamál og samn­inga um þau er nauðsyn­legt að glöggva sig á hvað felst í orðum sem stjórn­mála­menn og emb­ætt­is­menn nota.

Með aðild að sam­eig­in­lega EES-markaðnum skuld­binda ríki sig til að sam­ræma regl­ur og staðla til að tryggja jafna sam­keppni milli aðild­arþjóðanna. Í sum­um til­vik­um er um tækni­leg­ar kröf­ur að ræða en í öðrum að fyr­ir­tæki sem starfa í ólík­um lönd­um búi við sam­bæri­legt starfs­um­hverfi. Á ESB-máli er talað um level play­ing field. Þar er til dæm­is átt við að ekki verði mis­munað með skött­um, fé­lags­leg­um skil­yrðum, kröf­um til per­sónu­vernd­ar eða á sviði um­hverf­is­mála.

Char­les Michel, for­seti leiðtogaráðs ESB, og Michel Barnier, aðal­samn­ingamaður fram­kvæmda­stjórn­ar ESB við Breta, leggja báðir höfuðáherslu á að fríversl­un­ar­samn­ing­ur við Breta verði að tryggja sam­bæri­legt starfs­um­hverfi. Bret­ar taki með öðrum orðum mið af lög­um og regl­um ESB.

Bor­is John­son er ekki á sama máli. Hann sagði að Bret­ar færu sína eig­in leið það yrði no align­ment , eng­in sam­still­ing með ESB, sem sagt eng­in trygg­ing fyr­ir sam­bæri­legu starfs­um­hverfi.

Sér­fræðing­ar ESB benda á að ekki kunni góðri lukku að stýra að lög­festa ann­ars veg­ar skýr, óum­breyt­an­leg tíma­mörk og hins veg­ar setja fram kröf­ur sem ganga þvert á vænt­ing­ar viðsemj­and­ans. Af breskri hálfu er minnt á að talið var frá­leitt að Bor­is John­son tæk­ist að breyta viðskilnaðarsamn­ingn­um sem Th­eresa May gerði og ESB-menn sögðu óum­breyt­an­leg­an. Það hefði hon­um tek­ist – hvers vegna ekki þetta?

 

Mikl­ir ís­lensk­ir hags­mun­ir

Bret­ar verða aðilar að EES-sam­starf­inu út árið 2020. Þeir vilja ekki gera neinn samn­ing sem lík­ist samn­ingi EES/​EFTA-ríkj­anna, Íslands, Liechten­steins og Nor­egs, við ESB. Hann er reist­ur á aðild að sam­eig­in­lega markaðnum. Bret­ar vilja fríversl­un­ar­samn­ing. Á þessu tvennu er grund­vall­armun­ur.

Mikl­ir ís­lensk­ir hags­mun­ir eru í húfi gagn­vart Bret­um, ann­arri stærstu viðskiptaþjóð Íslend­inga. Aldrei fyrr hef­ur þjóð sagt skilið við EES-sam­starfið. Brott­hvarf Breta af sam­eig­in­lega markaðnum kall­ar á allt ann­ars kon­ar úrræði en al­mennt ráða í viðskiptaviðræðum þar sem leit­ast er við að skapa sem mest sam­ræmi í nafni fríversl­un­ar. Nú verður náið sam­band rofið og sett í nýj­an bún­ing þar sem skil eru meiri en áður á milli aðila.

Fyr­ir smáþjóð er mik­il­vægt að við úr­lausn ágrein­ings­mála sé tryggt jafn­ræði. Ices­a­ve-deil­an við Breta var end­an­lega leyst inn­an ramma EES-sam­starfs­ins með af­skipt­um Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA) og EFTA-dóm­stóls­ins. Fyr­ir dóm­stóln­um gátu Bret­ar ekki neytt afls­mun­ar, þeir stóðu í sömu spor­um og smáþjóðin.

Það má ekki verða neitt rof í flug­sam­göng­um milli Íslands og Bret­lands. Sam­starf í mennta- og vís­inda­mál­um má ekki bresta. Borg­ara­legt ör­yggi verður ekki tryggt hér nema í nánu sam­starfi við Breta.

Vand­fundið er brýnna verk­efni á sviði ís­lenskra ut­an­rík­is­mála árið 2020 en að treysta tengsl­in við Breta á nýj­um grunni.