Samið við Breta á nýjum grunni
Morgunblaðið, föstudagur, 27. desember 2019
Í umræðuþætti um úrslit þingkosninganna í Bretlandi 12. desember sagði David Miliband, fyrrv. utanríkisráðherra Verkamannaflokksins, að frá upphafi hefði kosningabarátta flokksins undir forystu Jeremys Corbyns verið vonlaus. Það ynni enginn kosningar með því að berjast fyrir better yesterday – betri gærdegi – í kosningum yrðu menn að horfa fram á veg og segja kjósendum hvað þeir vildu gera betur.
Tímaskekkjan í boðskap Corbyns og fylgismanna hans er augljós. Þeir vilja hverfa aftur til ríkisforsjár og sósíalisma sem Tony Blair, sigursælasti leiðtogi Verkamannaflokksins, ýtti til hliðar á tíunda áratugnum. Endurreisnarmenn í Verkamannaflokknum segja þess vegna ekki nóg að losna við Corbyn heldur verði einnig að uppræta corbynismann, þar á meðal gyðingahatur.
Corbyn skilaði auðu um hvernig ætti að ljúka fyrsta áfanga brexit-ferðarinnar. Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, tók hins vegar afdráttarlausa afstöðu.
Þjóðin greiddi atkvæði með úrsögn úr ESB í júní 2016 en meirihluti þingmanna stóð gegn henni þar til föstudaginn 20. desember þegar, að loknum þingkosningum, þingmenn samþykktu með 358 atkvæðum gegn 284 í neðri málstofu þingsins að staðfesta viðskilnaðarsamning Breta og ESB.
Lokaafgreiðsla um málið verður í breska þinginu 9. janúar og ESB-þingið tekur afstöðu til samningsins 13. eða 28. janúar 2020. Eftir það hefst næsti áfanginn, gerð framtíðarsamnings milli Breta og ESB. Boris Johnson vill lögfesta að áfanganum ljúki 31. desember 2020, réttum 11 mánuðum eftir úrsögnina 31. janúar 2020.
Boris sameinar Íhaldsflokkinn
Í kosningabaráttu sinni lofaði Boris Johnson að færa klukkuna til baka samhliða „nýrri dagrenningu“. Hann ætlaði að koma Bretum í svipaða stöðu og þeir voru fyrir 1973 þegar þeir gerðust, án þjóðarsáttar, aðilar að Evrópubandalaginu og hann boðaði nýja vegferð án sameiginlegs markaðar.
Eftir að UKIP-sjálfstæðissinnar gegn ESB tóku að hafa fylgi af Íhaldsflokknum ákvað David Cameron, þáv. leiðtogi flokksins og forsætisráðherra, að efna til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um ESB-aðildina í júní 2016. Hann vildi í senn sameina Íhaldsflokkinn og halda áfram í ESB á nýjum forsendum. Hvorugt varð og hann sagði af sér.
UKIP breyttist í Brexit-flokkinn sem náði miklu fylgi af Íhaldsflokkum í ESB-þingkosningum í maí 2019. Leiðtogadagar Theresu May voru taldir og Nigel Farage, leiðtogi Brexit-flokksins, færðist allur í aukana eftir því sem brexit-erfiðleikar Íhaldsflokksins jukust. Hann hafði meira að segja í heitingum við Boris Johnson síðsumars 2019 en lyppaðist niður og fékk engan mann kjörinn á þing 12. desember.
Í þingkosningunum tókst Boris Johnson það sem Cameron ætlaði sér, að sameina Íhaldsflokkinn með því að kæfa sjálfstæðissinna. Brexit-flokkurinn er úr sögunni og Boris Johnson krafðist skriflegrar yfirlýsingar af öllum frambjóðendum Íhaldsflokksins um að þeir styddu brexit.
Harka vegna fríverslunarsamnings
Í ræðu fyrir atkvæðagreiðsluna á þingi 20. desember hvatti Boris Johnson til þess að menn hættu að líta á sig sem úrsagnar- eða aðildarsinna. Einhuga yrði þjóðin að sækja fram á eigin forsendum í krafti þess frelsis og svigrúms til að setja sér eigin lög og reglur sem hún fengi með brexit.
Í ræðunni sló forsætisráðherrann einnig harðan tón þegar hann ræddi komandi fríverslunarviðræður við ESB. Hann setti ekki aðeins ströng og þröng tímamörk heldur tók hann allt aðra stefnu varðandi efni og aðferð en talsmenn ESB.
Að Bretar og ESB semji á 11 mánuðum er mikil bjartsýni í ljósi þess að það tók ESB tvö og hálft ár að semja um fríverslun við S-Kóreumenn. Ekki hefur verið samið við aðra þjóð á skemmri tíma. Viðræður ESB um fríverslunarsamning við Kanadamenn stóðu frá 2009 til 2017, í átta ár. Liggur í loftinu að Bretar vilji eigin útgáfu af Kanadasamningnum. Ekkert er þó í hendi.
Þegar rætt er um alþjóðamál og samninga um þau er nauðsynlegt að glöggva sig á hvað felst í orðum sem stjórnmálamenn og embættismenn nota.
Með aðild að sameiginlega EES-markaðnum skuldbinda ríki sig til að samræma reglur og staðla til að tryggja jafna samkeppni milli aðildarþjóðanna. Í sumum tilvikum er um tæknilegar kröfur að ræða en í öðrum að fyrirtæki sem starfa í ólíkum löndum búi við sambærilegt starfsumhverfi. Á ESB-máli er talað um level playing field. Þar er til dæmis átt við að ekki verði mismunað með sköttum, félagslegum skilyrðum, kröfum til persónuverndar eða á sviði umhverfismála.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, og Michel Barnier, aðalsamningamaður framkvæmdastjórnar ESB við Breta, leggja báðir höfuðáherslu á að fríverslunarsamningur við Breta verði að tryggja sambærilegt starfsumhverfi. Bretar taki með öðrum orðum mið af lögum og reglum ESB.
Boris Johnson er ekki á sama máli. Hann sagði að Bretar færu sína eigin leið það yrði no alignment , engin samstilling með ESB, sem sagt engin trygging fyrir sambærilegu starfsumhverfi.
Sérfræðingar ESB benda á að ekki kunni góðri lukku að stýra að lögfesta annars vegar skýr, óumbreytanleg tímamörk og hins vegar setja fram kröfur sem ganga þvert á væntingar viðsemjandans. Af breskri hálfu er minnt á að talið var fráleitt að Boris Johnson tækist að breyta viðskilnaðarsamningnum sem Theresa May gerði og ESB-menn sögðu óumbreytanlegan. Það hefði honum tekist – hvers vegna ekki þetta?
Miklir íslenskir hagsmunir
Bretar verða aðilar að EES-samstarfinu út árið 2020. Þeir vilja ekki gera neinn samning sem líkist samningi EES/EFTA-ríkjanna, Íslands, Liechtensteins og Noregs, við ESB. Hann er reistur á aðild að sameiginlega markaðnum. Bretar vilja fríverslunarsamning. Á þessu tvennu er grundvallarmunur.
Miklir íslenskir hagsmunir eru í húfi gagnvart Bretum, annarri stærstu viðskiptaþjóð Íslendinga. Aldrei fyrr hefur þjóð sagt skilið við EES-samstarfið. Brotthvarf Breta af sameiginlega markaðnum kallar á allt annars konar úrræði en almennt ráða í viðskiptaviðræðum þar sem leitast er við að skapa sem mest samræmi í nafni fríverslunar. Nú verður náið samband rofið og sett í nýjan búning þar sem skil eru meiri en áður á milli aðila.
Fyrir smáþjóð er mikilvægt að við úrlausn ágreiningsmála sé tryggt jafnræði. Icesave-deilan við Breta var endanlega leyst innan ramma EES-samstarfsins með afskiptum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og EFTA-dómstólsins. Fyrir dómstólnum gátu Bretar ekki neytt aflsmunar, þeir stóðu í sömu sporum og smáþjóðin.
Það má ekki verða neitt rof í flugsamgöngum milli Íslands og Bretlands. Samstarf í mennta- og vísindamálum má ekki bresta. Borgaralegt öryggi verður ekki tryggt hér nema í nánu samstarfi við Breta.
Vandfundið er brýnna verkefni á sviði íslenskra utanríkismála árið 2020 en að treysta tengslin við Breta á nýjum grunni.